08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (3013)

52. mál, Jafnlaunadómur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er aðeins örlítið atriði með allmikla þýðingu þó. Í ræðu minni áðan benti ég á, að það kæmi til greina að ná sama árangri og frv. þetta fjallar um eða er ætlað að ná með því að gera smábreytingu á kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur, og minntist í því sambandi á, að stundum leituðu konur, sem teldu sig órétti beittar í launamálum, til síns stéttarfélags, en teldu það af einhverjum ástæðum lítinn árangur bera. Ástæðan til þess, að ég minntist á þetta í sambandi við hugsanlega breytingu á lögum um félagsdóm er, að ef stéttarfélag neitar að taka til greina mál launþega, á launþeginn eða einstaklingurinn sjálfur málsaðild fyrir félagsdómi, og ég hygg, að ekki alls fyrir löngu hafi einmitt slíkt mál verið dæmt í félagsdómi. Þar átti einstaklingurinn aðild vegna þess, að stéttarfélag hans tók ekki að sér að verða málsaðili.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi benda á, þar eð ég taldi, að þetta atriði hefði farið milli mála.