10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., hefur gengið í gegnum Ed., eins og lög mæla fyrir um. Hefur það tekið nokkrum breytingum, en þó engum veigamiklum.

Það má segja, að í þessu frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins felist einkum eftirtalin meginatriði: Efling atvinnuveganna skal í framtiðinni byggð á skipulegum áætlunarvinnubrögðum. Er því í frv. að finna allitarleg fyrirmæli um margvíslega áætlanagerð og hagrannsóknir áætlunum til undirbúnings. Áætlanagerð og fjármagnsöflun eru tengd saman hjá einni stofnun, þannig að samræmi og samstarf sé um áætlun, ákvörðun um framkvæmd og fjáröflun og fjármagnsráðstöfun til hennar.

Stofna skal til samstarfs margra aðíla um áætlanagerð, sem til þessa hafa haft of litla samvinnu sín á milli. Er þar um að ræða opinberar stofnanir, aðila vinnumarkaðarins, rannsóknar- og vísindastofnanir, lánastofnanir og fleiri aðila. Með slíku samstarfi ætti að vera unnt að fá betri og öruggari yfirsýn yfir þjóðarbúskapinn og forðast margvísleg mistök og óþarfa kostnað.

Starfsemi þriggja stofnana, Efnahagsstofnunarinnar, Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs, sem eftir frv. á að nefnast Byggðasjóður, er tengd saman í einni stofnun og lögð undir eina stjórn.

Mörkuð er eindregin byggðaþróunarstefna, sem byggð skal á sérstakri áætlanagerð, sem gerð skal í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Byggðasjóður er stórefldur með sérstöku framlagi úr ríkissjóði næstu 10 árin. Auk þess er framkvæmd byggðaáætlunarinnar tryggð með traustum tengslum við fjármagnsöflun til þeirra framkvæmda, sem áætlaðar eru og ákveðnar á hverjum tíma.

Framkvæmdastofnun ríkisins getur haft frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja. Hún getur annazt rannsóknir, áætlanir og annan undirbúning að stofnun þeim, tryggt þeim eðlilegt lánsfé til stofnunar og starfrækslu og samið síðan við aðila atvinnuveganna um að hrinda málinu í framkvæmd.

Tekin er upp tiltekin heildarstjórn í fjárfestingarmálum. Sú fjárfestingarstjórn er fyrst og fremst óbein og er fólgin í áætlanagerðinni, skipulagningu fjármagnsöflunar til þeirra framkvæmda, sem forgöngu eiga að hafa, og samræmingu útlána opinberra stofnlánasjóða og þeim viðtæku áhrifum, sem Framkvæmdastofnunin getur haft á allt lánakerfið. Þá getur Framkvæmdastofnunin, ef þörf krefur, sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar.

Þetta eru þau höfuðatriði, sem stefnt er að með þessu frv., þau aðalsjónarmið, sem í því felast. Frv. er byggt á málefnasamningi stjórnarflokkanna, en þar segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. einsetur sér að efla undirstöðuatvinnuvegina á grundvelli áætlanagerðar undir forustu ríkisvaldsins. Koma skal á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafi á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum. Stofnunin skal gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma, þar sem greindar eru þær fjárfestingarframkvæmdir, sem forgang skulu hafa. Stofnunin fari með stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins og annarra þeirra fjárfestingarsjóða, sem eðlilegt verður talið, að falli undir hana. Stofnunin skal hafa náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein.“ Enn fremur segir: „Þær stofnanir og nefndir, sem fyrir eru og gegna skyldum verkefnum og þessi nýja stofnun, verði sameinaðar henni, eftir því sem ástæða þykir til.“

Þetta frv. er í samræmi við þessi fyrirheit málefnasamningsins og miðar að því að koma þeim í framkvæmd.

Ég hygg, að naumast sé lengur deilt um gildi margvíslegra áætlanagerða í nútíma þjóðfélagi. Þær eru víðast hvar viðurkenndar sem mikilvægt hagstjórnartæki. Á það í rauninni jafnt við, hverjar svo sem stjórnmálaskoðanir manna eru og hver sem þjóðfélagslegu markmiðin eru, sem keppt er að. Mönnum verður æ ljósara, að mistök vegna þekkingarleysis og skipulagsleysis eða vegna rangra ákvarðana og markmiða geta ekki aðeins skipt sköpum fyrir fyrirtæki, heldur einnig valdið alvarlegum áföllum í efnahagslífi og framfarasókn þjóðarinnar. Þess vegna er það, að háþróuð nútíma þjóðfélög og stórfyrirtæki beita í æ ríkara mæli stöðugri, víðtækri og nákvæmri áætlanagerð til þess að forðast ýmiss konar byrjunarmistök og ná sem fullkomnastri nýtingu allra framleiðsluþátta, jafnt til hagsbóta fyrir einstaklinga og þjóðfélagsheildina.

Það segir sína sögu, að engir munu verja hlutfallslega meira fjármagni í margvíslega áætlanagerð, rannsóknir og tilraunir en stærstu, auðugustu og voldugustu auðhringar veraldar, enda þótt þeir séu að öðru leyti reknir eftir ströngustu lögmálum einkaframtaks og gróðahyggju.

Svo nauðsynleg sem áætlunarvinnubrögð eru stórþjóðum, eru þau þó enn nauðsynlegri smáþjóð eins og okkur Íslendingum. Smáþjóð með takmörkuð efni á nær öllum sviðum hefur ekki efni á mistökum, sem hægt er að komast hjá með skynsamlegum búskaparháttum. Hún er viðkvæmari fyrir mistökum við uppbyggingu atvinnulífs en stórþjóð með gnægð framleiðsluþátta og margra kosta völ. Hún hefur ekki efni á þeirri sóun, sem felst í tvíverknaði og margverknaði í rannsóknarstörfum, upplýsingasöfnun og áætlanagerð. Þess vegna er þörf á að koma fastara skipulagi á þessi málefni hér hjá okkur en verið hefur. Við eigum að mínu áliti að stefna að skipulegum áætlunarbúskap í framtíðinni. En slíkan skipulegan áætlunarbúskap þarf að byggja á vel gerðum og traustum grunni. Þetta frv., ef að lögum verður, miðar að því að skapa slíkan grunn.

En auðvitað þarf ekki að taka það fram hér, að skipulegur áætlunarbúskapur er ekki sama og þjóðnýting. Því verður ekki neitað, að félagshyggju hefur talsvert gætt í okkar þjóðarbúskap. Ég nefni þar t.d. margháttaða starfsemi samvinnufélaganna. Þegar á heildina er litið, verður það þó líklega að teljast einkenni á íslenzku efnahagskerfi og á íslenzkum þjóðarbúskap, að hann hafi í meginatriðum þróazt samkv. lögmálum einkaframtaks og einstaklingshyggju. Og því miður hefur handahófið allt of oft verið áberandi einkenni. Það kannast t.d. allir við, hvernig viðbrögðin hafa verið, þegar vel hefur árað í atvinnugrein um sinn. Þá hafa menn þyrpzt þangað án skynsamlegrar athugunar, fjárfest þar án fyrirhyggju og án tillits til almennra þjóðfélagsaðstæðna. Á slíkum ævintýrum hefur oft orðið snöggur og því miður sorglegur endir. Það er saga, sem er alkunn, og óþarft að tefja tímann með dæmum hér.

Því skal ekki neitað, að nokkrar tilraunir, ekki hvað sízt á síðari árum, hafa verið gerðar til skipulags á vissum sviðum og til áætlunarvinnubragða. Og nokkuð hefur verið unnið að áætlunum í tilteknum greinum og á afmörkuðum sviðum. En þessar tilraunir hafa verið nokkuð fálmkenndar og ósamræmdar. Þar hefur ekki hvað sízt á skort að mínum dómi, að framkvæmd áætlana hefur ekki verið nægilega tryggð, vegna þess að áætlanagerðin hefur ekki verið tengd fjármagnsöflun, svo sem þurft hefði að vera. við þessa áætlunargerð hefur þó fengizt nokkur reynsla. Og við höfum þegar á að skipa nokkrum efnilegum mönnum, sem hafa aflað sér þekkingar og öðlazt hafa starfsreynslu á þessu sviði. Og ég vil segja það hér, að það verður lögð sérstök áherzla á að nýta og fá að njóta starfskrafta þessara manna í hinni nýju stofnun.

Með þeirri lagasetningu, sem hér er fitjað upp á, er ætlunin að taka mál þessi öll nýjum og fastari tökum en áður, skoða þau meira heildstætt, samræma áætlanagerðir, tengja þær sem mest inn í eina stofnun, undir sameiginlegri stjórn, en hafa þó jafnan náið samráð við þá aðila, sem í hlut eiga hverju sinni. Enn fremur er Lögð rík áherzla á hinn rétta og nauðsynlega grundvöll áætlana, rannsóknirnar. Þær og þekkinguna má sízt af öllu vanta.

Það skal skýrt tekið fram, að með frv. þessu er ekki vegið að einstaklingsframtaki. Það er síður en svo ætlunin að leggja fjötur á einkaframtak. Þvert á móti geta rannsóknir og áætlanagerð orðið heilbrigðu einkaframtaki og félagsframtaki ómetanlegur stuðningur.

Framkvæmdastofnunin á einmitt að verða aflvaki nýrra fyrirtækja. Hún á að rétta atvinnuvegunum örvandi hönd alveg án tillits til þess, í hvaða formi atvinnureksturinn er. Hún á fyrst og fremst að meta arðsemi og þjóðhagslegt gildi atvinnugreina og atvinnufyrirtækja.

Eins og frv. þetta ber með sér og ég hef þegar sagt, er Framkvæmdastofnuninni ætlað það hlutverk að semja áætlanir, bæði áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma, enn fremur landshlutaáætlanir og áætlanir um einstakar atvinnugreinar. Stofnunin á enn fremur að hafa frumkvæði í atvinnumálum. Er rétt, eins og ég vék að áðan, að undirstrika sérstaklega þann þátt í verkefnum hennar. Hann má að mínum dómi ekki falla í skuggann. Henni er sem sagt ætlað að hafa ákveðna forustu í atvinnumálum. Sú forusta getur verið með ýmsu móti, bæði bein og óbein, ef svo má segja. En Lögð er rík áherzla á, að stofnunin hafi jafnan náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein. Enn fremur ber Framkvæmdastofnuninni í samvinnu við landshlutasamtök að stuðla að þróun byggða og atvinnulífs í hverjum landshluta. Verður síðar vikið nánar að hlutverki hennar í sambandi við byggðaþróunina. En af öllu þessu er auðsætt, að það eru margs konar áætlunarverkefni, sem koma í hlut Framkvæmdastofnunarinnar.

Samkv. því, sem nú hefur verið rakið, verða áætlanir hvers konar og hagrannsóknir höfuðverkefni Framkvæmdastofnunarinnar og, má segja, hennar frumverkefni. Er sérstök ástæða til að undirstrika gildi og mikilvægi hagrannsóknanna, ekki aðeins sem undirstöðuatriði áætlana, heldur og fyrir mótun þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgja á fram á hverjum tíma. Í þeim efnum verður Framkvæmdastofnunin ríkisstj. til ráðuneytis með svipuðum hætti og Efnahagsstofnunin hefur verið. Má sérstaklega benda á, að hagrannsóknadeild annast gerð þjóðhagsreikninga og almennra þjóðhagsáætlana. Verður starfsemi hagrannsóknadeildarinnar skynsamlegum ríkisbúskap og þjóðarbúskap óhjákvæmileg undirstaða.

Annað höfuðverkefni Framkvæmdastofnunarinnar verður forsjá tiltekinna fjárfestingarsjóða og lánveitingar úr þeim, samræming lánastefnu og heildarstjórn í fjárfestingarmálum. Það er nokkuð augljóst mál, að samfærsla fjárfestingarsjóða, sem þjóna svipuðu markmiði, á einn stað og undir eina stjórn horfir til hagræðingar. Því ætti að öðru jöfnu að fylgja verksparnaður og minni kostnaður fyrir hið opinbera. Kostir þess fyrir þá, sem eiga erindi við sjóðina, liggja nokkuð í augum uppl. Því fylgir ekki litið óhagræði og kostnaður að þurfa að sækja fyrirgreiðslu til fleiri aðila, að þurfa að þvælast frá einni stofnun til annarrar. Þá píslargöngu hafa margir þurft að ganga og þekkja hana af eigin raun, og þá sögu er óþarft að rekja hér. Mér þykir því líklegt, að margir taki að stefnu til undir það, að æskilegt sé að sameina eða samtengja hina ýmsu lánasjóði, sem settir hafa verið á fót. Kerfið, sem við búum við í þeim efnum, er óneitanlega allflókið, sjóðirnir tiltölulega margír, en sumir smáir og sundurleitir, og stjórn þeirra og starfsemi með mismunandi hætti. En hitt er svo annað mál, að þegar til framkvæmdanna kemur, geta verið á því ýmsir tæknilegir örðugleikar að sameina sjóði, sem e.t.v. eru búnir að starfa um langt skeið.

Eins og áður er sagt, er um þetta mælt svo í málefnasamningi stjórnarflokkanna, að stofnunin skuli fara með stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins og annarra þeirra fjárfestingarsjóða, sem eðlilegt verður talið, að undir hana falli. Niðurstaðan hefur orðið sú, að í þessu frv. og að þessu sinni er aðeins lagt til, að Framkvæmdasjóður og Atvinnujöfnunarsjóður, sem eftir frv. á framvegis eins og áður hefur verið sagt, að nefnast Byggðasjóður, verði lagðir undir Framkvæmdastofnunina. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að svo kunni að verða ákveðið síðar, að fleiri lánasjóðir verði fengnir Framkvæmdastofnuninni til forsjár.

Mér þykir rétt að gera hér örstutta grein fyrir þeim sjóðum, Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði, sem hér er lagt til að falli undir Framkvæmdastofnunina. Og vík ég þá fyrst að Framkvæmdasjóðnum.

Framkvæmdasjóður Íslands var stofnaður með Lögum nr. 66 frá 13. maí 1966 um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð. En I. kafli þeirra laga fjallar um Framkvæmdasjóðinn, og er efni þess kafla í sem stytztu máli það, að sjóðurinn tekur við eignum og skuldum Framkvæmdabanka Íslands, sem er lagður niður, og við hlutverki hans í megindráttum. Sjóðurinn lýtur sérstakri stjórn, en Seðlabankinn annast umsjá hans og rekstur og undirbýr fyrir stjórnina áætlanir um lánveitingar. Framkvæmdasjóður veitir fé til opinberra fjárfestingarsjóða og til meiri háttar opinberra framkvæmda, en ekki til einstakra framkvæmda á vegum einstaklinga og félaga.

Sjóðurinn hóf sem slíkur starfsemi sína í ársbyrjun 1967, og liggja fyrir reikningar fjögurra ára. Á þessum fjórum árum voru útlán sjóðsins samtals þessi: 1967 170 millj., 1968 272 millj., 1969 602.1 millj., 1970 324.7 millj. Þessi lán hafa í samræmi við lagaákvæði um sjóðinn að langmestu leyti farið til fjárfestingarsjóða eins og Atvinnujöfnunarsjóðs, Fiskveiðasjóðs, Stofnlánadeildar landbúnaðarins, veðdeildar Búnaðarbankans, Iðnlánasjóðs, Verzlunarlánasjóðs, Byggingarsjóðs verkamanna, Ferðamálasjóðs, Byggingarsjóðs ríkisins og Lánasjóðs sveitarfélaga. Til opinberra framkvæmda hefur farið nokkuð og auk þess í annað ósundurgreint nokkrar milljónir, og þó reyndar veruleg fjárhæð á árinu 1969. Í árslok 1970 námu heildarútlán úr þessum sjóði 3499.9 millj. kr., en þá er að sjálfsögðu reiknað með þeim lánum, sem Framkvæmdasjóðurinn yfirtók frá Framkvæmdabanka Íslands. Á sömu tímamótum, eða í árslok 1970, nam höfuðstóll og varasjóðir þessa sjóðs, Framkvæmdasjóðsins, 473 millj. kr., og er þá höfuðstóll Mótvirðissjóðs, sem nam 410 millj. kr., ekki meðtalinn.

Atvinnujöfnunarsjóður tók til starfa á árinu 1966 og starfar samkv. lögum nr. 69 frá 12. maí 1966. Með þeim lögum voru úr gildi felld lög um Atvinnubótasjóð frá 1962, en eignir hans runnu til Atvinnujöfnunarsjóðs. Að öðru leyti var stofnfé Atvinnujöfnunarsjóðs framlag úr ríkissjóði, 150 millj. kr., sem greiðast skyldi með jöfnum fjárhæðum árlega á 10 árum, og mótvirðisfé samkv. c- og d-lið 2. gr. laganna, sem nam alls um 78 millj. kr. Auk þess lagði ríkissjóður sjóðnum til SO millj. kr. samkv. fjárlögum 1969. Í Lögunum er Atvinnujöfnunarsjóði lagður til fastur tekjustofn af skattgjaldi áibræðslunnar í Straumsvík. Á árinu 1970, sem var fyrsta árið, sem sjóðurinn naut þessara tekna, námu þær 41.4 millj. kr. Sjóðurinn lýtur stjórn 7 þingkjörinna manna, en er í vörzlu Landsbanka Íslands, sem annast bókhald og daglega afgreiðslu. Hlutverk sjóðsins er að veita lán og styrki til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem brýn þörf er á fjölbreyttara atvinnu- og athafnalífi og skilyrði eru til arðbærra framkvæmda, er séu til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og koma í veg fyrir, að björgulegar byggðir eða byggðahlutar fari í eyði.

Í árslok 1970 var höfuðstóll þessa sjóðs 290 millj. kr., en heildarútlán að meðtöldum skuldabréfum Norðurlandsáætlunar og atvinnumálanefndar ríkisins námu 727 millj. kr. Úr þessum sjóði er yfirleitt um lán að ræða, en þó er heimild til þess að veíta styrki. Ég hef hér yfirlit um lánveitingar og styrki úr sjóðnum á árabilinu 1966–1970. Á árinu 1966 voru veitt 80 lán úr sjóðnum. Á árinu 1967 voru veitt 115 lán, 1968 voru veitt 132 lán, 1969 180 lán og 1970 170 lán. Fyrsta árið, sem þarna var talið, 1966, nam upphæð lána 29.1 millj., 1967 49.4 millj., 1968 62.3 millj., 1969 67.3 millj. og 1970 98.1 millj., eða samtals 306.2 millj.

Á þessum 5 árum hafa verið veittir samtals 89 styrkir, að upphæð 22.2 millj. kr. Auk þess veitti sjóðurinn styrki til atvinnumálanefndar Norðurlands, alls 22 millj. kr., á árunum 1966–1969 og til togaraflotans samkv. sérstökum fjárveitingum Alþ. 1969 og 1970 20 millj. kr. hvort ár. Lán sjóðsins eru frá 8 til 12 ára með 6% ársvöxtum.

Á árinu 1969 fól ríkisstj. Atvinnujöfnunarsjóði að annast lánveitingu og aðstoð við framkvæmdir í samræmi við tillögugerð í atvinnumálakafla Norðurlandsáætlunar innan ramma þeirrar fjáröflunar, sem ríkisstj. ákvað. Í samræmi við það tók Atvinnujöfnunarsjóður lán hjá Framkvæmdasjóði í þýzkum mörkum, að upphæð 176 millj. kr. Á árunum 1969 og 1970 voru af þessu fé veitt 34 lán, að upphæð 146 millj. kr. Lánin eru með 8% vöxtum, og er meiri hluti þeirra til að flýta opinberum framkvæmdum og endurgreiðist á 2–3 árum, og verður féð þá endurlánað atvinnufyrirtækjum. Önnur lán eru til 8–10 ára.

Á árinu 1969 voru samþykkt á Alþ. lög um aðgerðir í atvinnumálum. Með þeim var atvinnumálanefnd ríkisins falið að veita lán og styrki til atvinnuframkvæmda og atvinnuaukningar. Rann starfstími nefndarinnar út í árslok 1970, og tók þá Atvinnujöfnunarsjóður við skuldum, sem til hafði verið stofnað vegna starfsemi nefndarinnar, svo og eignum. Ber sjóðurinn ábyrgð á innheimtu skuldanna og endurgreiðslu þess fjár, sem aflað var. Á þessum tveimur árum úthlutaði nefndin 267 lánum, að fjárhæð 400 millj. kr. En af því hafði ekki verið afgreitt í árslok 1970 nema tæpar 300 millj., 200 millj. erlent lánsfé og 100 millj. innlent. Sum lánin eru til mjög skamms tíma, og verður það fé endurlánað.

Þegar ég hafði framsögu fyrir þessu máli í hv. Ed., gaf ég líka örstutt yfirlit yfir helztu fjárfestingarsjóði, sem til eru, en ekki er lagt til að falli undir Framkvæmdastofnunina. En það yfirlit var að sjálfsögðu mjög í ágripsformi, þar sem vikið var að og gerð grein fyrir eigin fé sjóðanna og þeim útlánum, sem til hafði verið stofnað af þeirra hálfu. Ég sé nú ekki ástæðu til að endurtaka það hér og sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þá sjóði, en þessir sjóðir eru t.d. Fiskveiðasjóður, Fiskimálasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, veðdeild Búnaðarbankans, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Iðnlánasjóður, Verzlunarlánasjóður, Atvinnuleysistryggingasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga og svo auðvitað Byggingarsjóður ríkisins, sem eingöngu lánar til íbúðabygginga. Ég sé ekki ástæðu til í þessu sambandi að gera grein fyrir skipulagi og starfsemi þessara sjóða, þar sem ekki er lagt til, að þeir séu sameinaðir Framkvæmdastofnuninni. Um suma þeirra kemur slíkt til álita síðar, að fenginni reynslu af stofnuninni, en um aðra kemur slíkt sjálfsagt ekki til álita. Um flesta eða alla þessa sjóði gildir það, að um þá eru sérstök lög, og sumir þeirra eiga sér sérstæðan uppruna og tilteknar fjárhagslegar forsendur. En þó að ekki þyki rétt að svo stöddu að færa neinn þessara sjóða til Framkvæmdastofnunarinnar, þá gildir það um þá alla, að við þá verður stofnunin að hafa náið samstarf, ef vel á að vera. Fyrir því er sérstaklega gert ráð, bæði í 14. og 15. gr. frv. En góður árangur af starfi þessarar fyrirhuguðu stofnunar er ekki hvað sízt undir því kominn, að vel takist til um þetta samstarf, því að það er augljóst mál, að ásamt vandaðri áætlanagerð er samhæft og samvirkt lánakerfi eitt áhrifamesta tækið til að veita atvinnuþróuninni í eðlilegan farveg. Það er og án efa æskilegast, að hægt sé að hafa viðhlítandi vald á fjárfestingunni með þeim hætti, þannig að ekki þurfi að grípa til annarra ráðstafana. En náist ekki fullnægjandi árangur með þeim hætti, er þó stjórn Framkvæmdastofnunarinnar heimilt að setja almennar reglur um, hvers konat framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar.

Ég tel ástæðu til að undirstrika, að hér er aðeins um að ræða heimild, ef þörf krefur, til að setja almennar reglur. Það er ástæða til þess, því að ef að vanda lætur, verða einhverjir, sem hrópa: höft, leyfakerfi, skömmtun o.s.frv. En hér er ekki um neitt slíkt að tefla. Hér er ekki verið að taka upp nein höft eða leyfakerfi. Það þarf ekki samkv. þessum væntanlegu lögum að sækja um neitt leyfi til einstakra framkvæmda, hvorki stórra né smárra. Þær almennu reglur, sem hér geta hugsanlega komið til greina, ef ekki skyldi nást það æskilega samstarf við lánastofnanir, sem að er stefnt, eiga ekkert skylt við leyfakerfi og skömmtun, eins og menn kynntust því t.d. á dögum fjárhagsráðs.

Ég ætla að láta þessar almennu hugleiðingar um málið nægja, en skal nú gera nokkru nánari grein fyrir frv. í einstökum atriðum.

Í I. kafla frv. er fjallað um hlutverk stofnunarinnar og skipulag. Um það segir í 1. gr. með almennum orðum, að Framkvæmdastofnun ríkisins sé sjálfstæð stofnun, sem sé ríkisstj. til aðstoðar við stefnumótun í efnahagsog atvinnumálum. Hún annast hagrannsóknir, áætlanagerð og hefur með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála og lánveitingar samkv. því, sem nánar er fyrir mælt í Lögunum. Verkefnin eru svo auðvitað nánar útfærð í II–VI. kafla frv.

Framkvæmdastofnunin lýtur yfirstjórn þingkjörinnar sjö manna nefndar. Ríkisstj. skipar formann og varaformann út hópi hinnar kjörnu stjórnarmanna. Um verkefni stjórnarinnar eru fyrirmæli í 3. gr. frv. Auk þess eru ákvæði um vald hennar og verkefni á við og dreif í frv. Um það er engum blöðum að fletta og algjörlega ljóst af frv., að það er hin þingkjörna stjórn þessarar stofnunar, sem tekur þær ákvarðanir, sem mestu varða, samkv. þessu frv. Hún tekur ákvarðanir um áætlanir. Hún tekur ákvarðanir um lánveitingar, hvort heldur er úr Framkvæmdasjóði eða Byggðasjóði. Og hún setur þær almennu reglur, ef til þarf að grípa, um forgangsframkvæmdir samkv. 12. gr.

En þó að þessi þingkjörna stjórn fari þannig með ákvörðunarvaldið í þessari stofnun, þá þarf auðvitað að sjá fyrir stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar, því að ekki er gert ráð fyrir því, að stjórnarstarf þessara sjö manna verði neitt fullkomið starf. Og um það eru sett þau ákvæði, að það er þriggja manna framkvæmdaráð, skipað af ríkisstj., sem á að annast daglega stjórn og rekstur stofnunarinnar, að sjálfsögðu í eðlilegu samráði við forstöðumenn deilda. Í 4. gr. eru sérstaklega nefnd nokkur verkefni framkvæmdaráðs, en samkv. eðli málsins verða þau ekki tæmandi talin. Vald framkvæmdaráðsins er auðvitað takmarkað með þeim fyrirmælum, sem fela stjórninni tiltekin verkefni.

Það hafa við umr. um þetta mál verið gerðar nokkrar aths. um skipun þessa framkvæmdaráðs, og ég skal þess vegna víkja að því nokkrum orðum, ef það mætti verða til þess að spara tíma, því að ég geri ráð fyrir því, að hér á eftir komi fram aths. um þetta atriði, og er þá jafngott, að ég taki fram sjónarmið mín varðandi það fyrir fram. Ég viðurkenni fúslega, að það getur verið álitamál í þessu falli eins og jafnan endranær, hvernig stjórnkerfi einnar stofnunar skuli upp byggt og hvernig fyrirkomulag skuli hafa á daglegri stjórn í þessari stofnun. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt, þó að ýmsum komi í hug, að það væri hægt að hafa þarna einn forstjóra, eins og tíðkast í mörgum opinberum stofnunum. Og það má sjálfsagt færa fram sitthvað því til stuðnings, að svo hefði verið eðlilegt. En ég verð að segja það, að þau störf, sem þarna er um að tefla, eru það umfangsmikil, að ég tel alveg ókleift, að einn maður kæmist yfir þau. Hann mundi því þurfa að hafa fulltrúa sér við hönd, ef það skipulag væri haft að hafa einn forstjóra. Í annan stað er það, að þó að því sé nú svo háttað, eins og ég hef lýst, að ákvörðunarvaldið innan þessarar stofnunar sé í höndum stjórnar hennar, þá er það alveg víst og engin ástæða til að draga fjöður yfir það, að þessir menn verða mjög áhrifamiklir, sem sitja í framkvæmdaráðinu, það verður mjög áhrifamikið starf, sem fylgir því að hafa forstöðu fyrir þessari stofnun. Og það er skoðun mín og hún er ekki aðeins mótuð í sambandi við þessa stofnun, að það sé óheppilegt og það sé óskynsamlegt að láta jafnmikið vald í hendur einum manni. Ég er t.d. algerlega andvígur því almennt, að það sé einn bankastjóri, sem starfi við banka eða aðrar þvílíkar stofnanir. Ég álít, að valdið sé þar svo mikið og svo viðkvæmt og vandmeðfarið, að það sé heppilegra að hafa þar fjölskipað stjórnvald, og það eru rökin fyrir því, að ég hef talið heppilegra að hafa hér þrjá menn, sem fara með þetta starf.

Menn hafa verið með getsakir um það, að þarna mundu verða valdir þeir, sem þeir kalla nú pólitíska kommissara. Ég vil gjarna fara örfáum orðum um það. Ég lít svo á af kynnum mínum við stjórnmálamenn, að stjórnmálamenn almennt séu alveg jafn heiðarlegir og menn almennt annars eru. Og ég tel yfirleitt ekkert verra að eiga mál mín undir dómi stjórnmálamanna en annarra manna, og ég tel það mjög óskynsamlegt af þeim, sem í þessari samkomu sitja og hafa valið sér stjórnmálastarf að lífsstarfi, að vera að ala á þeim hugsunarhætti, sem því miður hefur gert of mikið vart við sig meðal þjóðarinnar, að stjórnmálamönnum væri naumast treystandi til þess að taka á málum af fullkomnum heiðarleik, heldur létu þeir ráða oft og einatt annarleg sjónarmið. Ég felli mig ekki við þennan hugsunarhátt. Ég álít, að stjórnmálamenn eða þeir, sem gefa sig að stjórnmálum, eigi að vera hlutgengir hvarvetna til móts við aðra, enda er það sannast sagna, að til þess að fá fylgi til stjórnmálastarfa verða menn að hafa unnið sér traust, og þeir verða að hafa eitthvað til brunns að bera ekkert síður en ágætir og heiðarlegir embættismenn.

Ég held, að það sé algerlega óverðskuldað að vera með nokkrar getsakir í garð núv. ríkisstj. um það, að hún muni beita sér fyrir einhverjum pólitískum ofsóknum eða misbeitingu. Þessi stjórn hefur að vísu ekki setið nema skamma hríð, en ég held, að hún verði ekki sökuð um það, að hún hafi í einstökum stjórnarathöfnum beitt pólitískri misnotkun, og ég hef reyndar ekki orðið var við það, þó að sitthvað hafi nú verið um hana sagt, að hún hafi sérstaklega verið sökuð um það. Hitt er annað mál, að auðvitað hefur stjórnin ákveðna stefnu í almennum málum, og hún verður að fylgja henni fram og fylgir henni fram. Og það er einmitt svo með þessa stofnun, að hún á að vera stjórninni til aðstoðar við mótun efnahags- og atvinnumálastefnu stjórnarinnar. Hún á að sjá um framkvæmd þeirrar stefnu. Og það verður hlutverk þessara framkvæmdaráðsmanna að sjá um það að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu, sem í þessum efnum er mótuð af ríkisstj. og af hinni þingkjörnu stjórn, þar sem meiri hl. vitaskuld hlýtur að ráða eins og endranær þeirri almennu stefnu, sem tekin verður. Ég hygg þess vegna, að það sé ekkert óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að ríkisstj. skipi í framkvæmdaráðið þá menn, sem hún sérstaklega treystir og hún getur litið á sem trúnaðarmenn sína. Og ég held, að störf þeirra manna verði mjög margvisleg og þess háttar, að það saki ekki, þó að þeir hafi dálitla pólitíska innsýn. Ég geri mér t.d. í hugarlund, að það verði nokkuð algengt, að sendinefndir komi frá einstökum landshlutum og héruðum, sem eigi erindi við þessa stofnun, og þá verða það vitaskuld þessir framkvæmdaráðsmenn, sem annast þau skipti.

Ég geri líka ráð fyrir því, að það verði hlutskipti framkvæmdaráðsmannanna að hafa fyrst og fremst þau samskipti, sem nauðsynleg eru, og undirbúning að þeim samskiptum, sem nauðsynleg eru, við banka og lánastofnanir. Ég efast ekki um, að heiðarlegir og góðir embættismenn gætu þar staðið í stykkinu. En af reynslu minni verð ég að álfta, að það saki ekki, þegar komið er til viðtals við slíkar stofnanir, að þær viti, að þeir menn, sem við þær tala, hafi nokkurt umboð og styrk á bak við sig.

Þetta hef ég viljað taka fram að gefnu tilefni, en annars vil ég líka segja það, að það er algerlega óbundið í þessu frv., hvaða skilyrðum menn þurfa að fullnægja til þess að vera skipaðir í framkvæmdaráð, og því ekkert, sem bindur það, hverjir þar verða skipaðir, enda veit ég ekki á þessari stundu um það, hverjir það starf kunna að hljóta. Ég hef kannske gerzt tiltölulega fjölorður um þetta, en það er af því, að mér finnst hafa gætt talsverðs misskilnings í sambandi við þessi ákvæði, sem framkvæmdaráðið varða. En það er, eins og ég hef sagt, engin fjöður dregin yfir það, að þessir framkvæmdaráðsmenn eru hugsaðir sem sérstakir trúnaðarmenn ríkisstj. Og þess vegna lýsti ég því strax yfir í framsöguræðu í Ed., að ég teldi sjálfsagt, að ráðning þessara manna væri tímabundin og þeir létu af starfi um leið og ríkisstj., og með brtt., sem samþ. var í Ed., er þetta fest í lögin, þannig að það má segja þessum mönnum upp með eins mánaðar fyrirvara. Þetta tel ég eðlilegt. Og þetta er að vissu leyti í samræmi við fordæmi, sem hefur verið skapað, fordæmi, sem núv. stjórnarsinnar stóðu ekki sérstaklega að, en voru heldur ekkert mótfallnir. Það eru ákvæðin í lögum um Stjórnarráð Íslands, þar sem ráðherrum er heimilað að taka sér sérstaka aðstoðarmenn, ráðherraritara, eða hvað sem þeir eru kallaðir, sem eiga að láta af starfi um leið og ráðherrarnir. En það voru núv. stjórnarandstæðingar, sem stóðu fyrir því að setja þessi ákvæði inn. Menn segja kannske, að þarna sé ekki alveg líku saman að jafna, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þetta sé að öllu leyti sambærilegt. En viss líking er þó í þessu að mínum dómi. Ég vildi taka þetta fram, ef vera mætti, að ég gæti þá sparað mér svar á eftir varðandi þetta málefni.

Starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar er skipt niður í þrjár deildir. Svarar sú deildaskipting til þeirra verkefna, sem stofnuninni eru falin, nema hvað heitið lánadeild gefur e.t.v. ekki fullkomlega til kynna verkefni þeirrar deildar. II.–IV. kafli frv. fjallar svo um þessar deildir.

II. kafli frv. fjallar um hagrannsóknir. Er hann kaflanna minnstur fyrirferðar, aðeins ein gr., 6. gr., en af því má auðvitað ekki draga þá ályktun, að þar sé um eitthvað þýðingarminni þátt að ræða, heldur stafar það af hinu, að eðli málsins samkv. er ekki hægt að hafa svo mörg orð um það efni í lögum. Í 6. gr. segir, að hagrannsóknadeild annist nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings áætlanagerða stofnunarinnar, svo og gagnasöfnun og skýrslugerð um framkvæmd áætlana, sem gerðar hafa verið og samþ. af ríkisstj. Hagrannsóknadeild annast auk þess gerð þjóðhagsreikninga og almennra þjóðhagsáætlana. Skulu áætlanir gerðar til langs tíma um þróun þjóðarbúsins. Deildin annast enn fremur þær hagfræðilegu athuganir fyrir ríkisstj., er hún kann að óska eftir. Hún getur annazt hagfræðilegar athuganir fyrir Seðlabankann og aðra opinbera aðila, eftir því sem um semst. Ákvæði þessi þurfa ekki skýringar við umfram það, sem áður er sagt, en þó vil ég segja það, að ég hef skilið þessi ákvæði á þá lund, að það væri í þeim alveg nægileg heimild fyrir ríkisstj. til að leita þeirrar aðstoðar og þess ráðuneytis hjá hagrannsóknadeild, sem hún telur þörf á, alveg með sambærilegum hætti og ríkisstj. hefur leitað til Efnahagsstofnunarinnar og hagrannsóknadeildar þeirrar, sem þar hefur verið sett upp.

III. kafli frv. fjallar um áætlanadeild. Segir þar m.a., að deildin geri áætlanir um uppbyggingu og þróun mikilvægustu atvinnugreina og um heildarþróun atvinnulífsins. Felst í þessu m.a., að deildin á að gera iðaþróunaráætlun, áætlun um þróun landbúnaðar o.s.frv. Enn fremur á deildin að gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land með það fyrir augum að skapa landsmönnum öllum fulla atvinnu og eðlileg lífsskilyrði og stuðla að heilbrigðri byggðaþróun. Þarna eru ný og skýr ákvæði um byggðaáætlanir. Fjármögnun framkvæmda samkv. slíkum áætlunum er með öðrum fyrirmælum frv. og eflingu Byggðasjóðsins tryggð, svo sem kostur er. Það er mikil breyting frá því, sem verið hefur, þótt reynt hafi verið að útvega fjármagn til einstakra byggðaáætlana, jafnóðum og þær hafa legið fyrir, en allt hefur það þó verið óvissu háð fyrít fram.

Framkvæmdastofnunin gerir áætlanir fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir um framkvæmdir ríkisins og aðrar opinberar framkvæmdir, eftir því sem um semst. Ég vil í þessu sambandi taka það sérstaklega fram, að ekki er með þessu frv. ætlunin að gera neina breytingu á því fyrirkomulagi, sem hér hefur komizt á, um áætlanir á vegum einstakra opinberra stofnana. Slík áætlanagerð heldur áfram með sama hætti og verið hefur, eins og vegáætlun, rafvæðingaráætlun, hafnaáætlun o.s.frv., en að sjálfsögðu geta þessar opinberu stofnanir leitað aðstoðar hjá Framkvæmdastofnuninni ef þeim lízt svo, eins og þær reyndar hafa gert til Efnahagsstofnunarinnar, en áætlanagerð fyrir þessa aðila á vegum Framkvæmdastofnunarinnar á því aðeins að koma til greina, að svo semjist um á milli Framkvæmdastofnunarinnar og þess opinbera aðila eða opinberu stofnunar, sem hlut á að máli.

Í 10. gr. eru ákvæði um það samráð og samvinnu, sem deildinni ber að hafa við aðra aðila um gerð áætlana, sem ég hef áður rakið, t.d. við gerð byggðaáætlunar samráð við sveitarfélag og landshlutasamtök, verkalýðsfélög og atvinnurekendur í því byggðarlagi.

Í 11. gr. er þýðingarmikið ákvæði, þar sem segir, að áætlanir skuli sendar ríkisstj. til samþykktar, og hún geri síðan Alþ. grein fyrir þeim. En til viðbótar því var gerð sú breyting í Ed., að við var bætt: „Ríkisstj. skal gefa Alþ. árlega skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins“, sem er vitaskuld alveg sjálfsagt ákvæði. Framkvæmdastofnunin á að fylgjast með framkvæmd þeirra áætlana, sem ríkisstj. hefur samþykkt. Það er lítið gagn að áætlunum, sem verða aðeins pappírsgagn. Er með þessum ákvæðum reynt að koma í veg fyrir, að slíkt geti átt sér stað.

IV. kafli laganna fjallar um lánadeild. Þar er að finna mörg mikilvæg ákvæði og alger nýmæli, sem nokkuð hefur verið vikið að áður. Ég bendi á 12. gr., þar sem segir, að lánadeild vinni að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða og skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda með sérstöku tilliti til þeirra framkvæmda, sem forgang þurfa að hafa samkv. áætlunum stofnunarinnar. Deildin fylgist með fjárhag allra opinberra fjárfestingarsjóða og gerir tillögur um fjáröflun til þeirra, eftir því sem þörf krefur. Um þær almennu reglur, sem setja má um forgangsframkvæmdir, hefur áður verið rætt. Einnig hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir þeim ákvæðum 13. gr., sem fjalla um arðsemisútreikninga og rannsókn á þjóðhagslegu gildi nýrra atvinnugreina, svo og því frumkvæði, sem lánadeildin getur átt, að stofnun nýrra fyrirtækja. Skal ég þess vegna ekki fjölyrða um það hér frekar.

Í 14. gr. segir, að lánadeildin taki við umsóknum um lán úr Framkvæmdasjóði og Byggðasjóður annist athugun þeirra. Áður en lánveiting er samþykkt, skal lánadeildin reyna að tryggja með samningum við aðra fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, að nægilegt stofnfé fáist og eðlileg rekstrarfyrirgreiðsla fáist hjá viðskiptabanka, en ég held, að það sé mikil þörf á þessu ákvæði. Það held ég, að reynslan sýni.

Í 15. gr. segir, að framkvæmdaráð skuli hafa náið samstarf við stofnlánásjóði og viðskiptabanka í því skyni að samræma sjónarmið þessara aðila og aðgerðir til eflingar íslenzku efnahags- og atvinnulífi.

Ákvæði 16. gr. um bókhald sjóðanna og vörslu þurfa ekki nánari skýringar við, en á það skal þó bent, að aðalreglan er sú, að handbært fé Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs skuli geymt í Seðlabankanum, og er það að nokkru leyti frávik frá því, sem nú gildir, eins og kom fram, þegar ég gerði grein fyrir sjóðunum áðan. Það er þó heimiluð undantekning frá því í þessari gr., sem ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja.

Í 17. gr. er mælt, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar skuli leita eftir samningum við stjórnir Iðnþróunarsjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs, lífeyrissjóða og tryggingarfélaga um samvinnu þessara sjóða og félaga við stofnunina varðandi lánveitingar. Ég hygg, að flestir geti verið sammála um, að þörf sé á samstarfi á þessu sviði. Eins og ljóst er af því, sem hér hefur verið sagt, og ákvæði IV. kafla frv. bera með sér, er Framkvæmdastofnuninni ætlað að beita sér fyrir samræmdri lánastefnu og skynsamlegri fjárfestingarpólitík, ekki með valdboði, — það undirstrika ég, — heldur með frjálsum samningum og samvinnu við þá aðila, sem um þau efni hafa mest að segja.

V. kafli frv. fjallar um Framkvæmdasjóð Íslands. Eru þau ákvæði samhljóða núgildandi fyrirmælum um Framkvæmdasjóð Íslands, og er raunar gert ráð fyrir því og byggt á því alveg skýrt, eftir breytingu, sem gerð var í Ed., að þetta er sama stofnunin og áður, Framkvæmdasjóður Íslands. Sé ég ekki ástæðu til að ræða þau ákvæði sérstaklega, en visa til þeirra upplýsinga, sem ég gaf áður um Framkvæmdasjóð Íslands.

Í VI. kafla frv. eru svo ákvæði um Byggðasjóð. Eru þau ákvæði að miklu leyti sniðin eftir fyrirmælum núgildandi laga um Atvinnujöfnunarsjóð. Þó eru þar nokkur nýmæli, sem ásamt öðrum ákvæðum frv., sem þegar hafa verið rakin, renna stoðum undir mun ákveðnari og skilvirkarí byggðastefnu en áður. Þar skiptir þó mestu máli hið stóraukna framlag til Byggðasjóðs. Samkv. 2. tölul. 28. gr. skal Byggðasjóður fá framlag úr ríkissjóði, að upphæð 1000 millj., sem greiðist með jöfnum fjárhæðum á næstu 10 árum. Þar sem hér er um óafturkræft framlag að ræða, sem ber vexti sjóðnum til handa, er auðsætt, að verulegur höfuðstóll getur safnazt. Og þetta framlag kemur til viðbótar öðrum tekjum sjóðsins, samkv. 28. gr. Starfsgrundvöllur sjóðsins verður því vitaskuld hér eftir allur annar en áður. Með þeim auknu fjárráðum sjóðsins ætti að vera hægt að gera stórátak í byggðamálunum. Þess er þörf, en í lánveitingum sjóðsins og úthlutunum úr honum má ekkert handahóf ríkja. Það þarf að byggja á traustum athugunum og áætlunum, og að því er stefnt í þessu frv.

Því var bætt inn í Ed., sem vitaskuld hefði átt sér stað í framkvæmdinni, þótt það hafi ekki verið berum orðum tekið fram, og er í samræmi við þær venjur, sem hafa skapazt, án neinna lagafyrirmæla, að stjórn Byggðasjóðs skal jafnan hafa samráð við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum, eftir því sem við verður komið. Það er áreiðanlega þörf, þrátt fyrir þá viðleitni, sem átt hefur sér stað, á stóru átaki í byggðamálunum, því að það þarf ekki aðeins að stöðva þá öfugþróun, sem þar hefur átt sér stað, heldur þarf að snúa straumnum við. Það er alveg í samræmi við stefnu ríkisstj. að leggja höfuðáherzlu á þessi mál. Ég skal að svo stöddu ekki hafa fleiri orð þar um.

Um hin ýmsu ákvæði í VII. kafla frv. þarf ég ekki að tala. Þau þurfa ekki skýringar við, að ég held.

Ég hef þá gefið stutt yfirlit yfir efni frv. í megindráttum og skal nú fara að ljúka mínu máli.

Það er að sjálfsögðu svo, eins og getið er um í aths. þeim, sem frv. fylgja, að reynslan kann að leiða í ljós, að þörf sé á einhverjum endurbótum og breytingum á þessari fyrirhuguðu löggjöf. slíkt er ekki nema það, sem oft á sér stað. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim atriðum, sem bent er á í aths., að síðar muni trúlega koma til skoðunar, þótt ekki hafi að svo stöddu þótt hægt að setja um þau lagaákvæði. Þau eru sérstakt samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir, sem að vísu eru þó viss ákvæði um í frv., samstarf við viðskiptadeild og að Framkvæmdastofnunin geti tekið að sér í framtíðinni ýmis þau störf, sem nú er venja að fela nefndum að vinna. Ég vil alveg sérstaklega leggja áherzlu á síðast talda atriðið, þá hugmynd, að Framkvæmdastofnunin geti e.t.v. síðar leyst af hólmi ýmsar nefndir, sem venja hefur verið að grípa til við ýmsar kannanir og undirbúning mála. Ég held fyrir mitt leyti, að það væri æskileg þróun. Það má segja, að í málefnasamningi stjórnarflokkanna sé nokkuð vikið að því, þar sem segir svo:

„Þær stofnanir og nefndir, sem fyrir eru og gegna skyldum verkefnum og þessi nýja stofnun, verði sameinaðar henni, eftir því sem ástæður þykja til.“

Í því efni hefur að svo stöddu ekki verið gengið lengra en raun ber vitni, en að mínum dómi verður síðar að huga að því í fullri alvöru, hvort ekki sé rétt að ganga lengra í þá átt.

Ég vil svo að lokum enn á ný leggja á það áherslu, að með þessari væntanlegu lagasetningu er ekki verið að taka upp neitt hafta- eða leyfakerfi. Staðhæfing um slíkt á sér enga stoð í frv. Það getur hver og einn gengið úr skugga um með því að fara nákvæmlega í gegnum frv. og lesa það orði til orðs. Þessari lagasetningu er ekki ætlað að leggja neinn fjötur á einkaframtak. Þvert á móti er að því stefnt að leysa það úr læðingi, örva það og styðja með margvíslegri fyrirgreiðslu. Á það auðvitað ekki síður við um félagsframtak og fyrirtæki, sem opinberir aðílar eiga hlutdeild í.

Með þessari lagasetningu er stefnt að því að byggja atvinnuþróunina á skipulögðum vinnubrögðum í stað handahófs. Með þessari lagasetningu er stefnt að samhæfðu og samvirku útlánakerfi lánastofnana, byggðu á frjálsu samkomulagi fyrir tilstuðlan Framkvæmdastofnunarinnar. Störf sín að eflingu atvinnuvega og þróun íslenzkra byggða á Framkvæmdastofnunin samkv. þessari löggjöf að vinna í nánu samstarfi við aðila atvinnulífsins og landshlutasamtökin. Með þessum lögum er stórauknu fjármagni beint til Byggðasjóðs. Á því er brýn,þörf, eins og nú stendur á. Með þessari löggjöf er stefnt að því að veita þeim framkvæmdum forgang, sem nauðsynlegastar eru fyrir þjóðarheildina og hverja atvinnugrein og bezt búa í haginn fyrir framtíðina. Með þessari lagasetningu er stefnt að því að láta hugkvæmni og þekkingu njóta sín á Íslandi, og með þessari lagasetningu er stefnt að því að leiða atvinnuvegina og eflingu atvinnulífsins til öndvegis á Íslandi. Það á að ganga fyrir öllu öðru. Og ef þau mál eru í lagi hér á landi, þá kemur annað margt á eftir, næstum því, að segja má, af sjálfu sér. Samkv. þessum lögum kemur ein stofnun í stað þriggja, sem fyrir voru.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.