10.11.1971
Neðri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

64. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa ánægju minni yfir því, að þessu máli hefur verið hreyft hér á Alþ., þeirri meginhugsun, sem í frv. felst, þ. e. a. s. að sveitarfélögum, sem hafa baga af því, að sjómannafrádráttur er verulegur, sé bættur upp sá tekjumissir. Þessi meginhugsun held ég að hljóti að teljast sanngjarnt að komi fram hér í þingsölum og úr þessu verði bætt með einhverjum hætti. Eins og fram kom í máli hv. 11. landsk. þm., sem hér talaði á undan mér, þá er mál þetta flókið, með hverjum hætti þetta skuli gera, og ég tel, að það þurfi að athuga betur en gert er í þessu frv. En ég vil aðeins minna á, að sjávarþorp, sem svo eru sett, að verulegur tekjustofnsmissir er að sjómannafrádrættinum, eru að mörgu leyti sérstaklega sett í þjóðfélaginu. Þar er oft við að etja t. d. byggingu mjög dýrra og erfiðra hafnarmannvirkja, sem eru undirstaða þess, að sjósókn geti verið stunduð úr þessum byggðarlögum, sem eru útflutningsmiðstöðvar þjóðfélagsins, og þar er einnig ekki um mikla þjónustu að ræða, sem hægt er að leggja á aðstöðugjöld, þannig að þessi sveitarfélög eiga oft og tíðum mjög erfitt um vik að standa undir þeim kostnaði, sem óhjákvæmilega fylgir því að byggja slíka staði. Ég held því, að sú meginhugsun, sem kemur hér fram í þessu frv., eigi fullan rétt á sér.

Eins og 11. landsk. tók fram, er tekjustofnanefnd sveitarfélaga nú að störfum, og þar er unnið að endurbótum á tekjustofnum sveitarfélaga. Í sambandi við það mál vildi ég gjarnan benda á það, að það hefðu verið að mínum dómi eðlilegri vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins að skipa í þá n. fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það mun hafa verið viðtekin venja stjórnvalda á undanförnum árum að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga í slíkum efnum. Það mál er nú ekki beinlínis hér á dagskrá. En þetta hefði gjarnan mátt gera, því að þau samtök hefðu að sjálfsögðu getað reynt að finna einhverja lausn, sem öll sveitarfélögin í landinu hefðu getað sætt sig við í þessum efnum, sem hér um ræðir. En sem sagt, ég vil leggja áherzlu á, að hv. meðdm. okkar styðji þá meginhugsun, sem kemur fram í þessu frv., þegar að því kemur, að þetta mál verður afgreitt.