10.11.1971
Neðri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

64. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem ég sagði áðan. Ég vil þó lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þetta frv. hefur fengið. Ég get ekki betur séð en að allir þeir, sem hafa tjáð sig um málið í hv. d., séu mér sammála í meginatriðum um þetta mál.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði, að hann væri í vafa um, hvort farið væri hér inn á rétta braut. Hins vegar lýsti hann yfir því, að hann væri því algjörlega sammála, að það, sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að bæta þessum sveitarfélögum, sem þarna er um að ræða, upp þennan tekjumissi, að það væri borið af þjóðarheildinni.

Í sambandi við afslátt á útsvörum hinna ýmsu sveitarfélaga, þá nefndi þessi hv. þm. einnig Bolungarvík og gat þess, að á árinu 1970 hefði verið veittur 5% afsláttur frá gjaldstiga útsvars. Þetta er alveg rétt, og ég tel, að það væri farið inn á mjög varhugaverðar brautir í þessum efnum, ef þannig ætti að hnýta þessi mál í lögum, að sjávarþorp stæðu ekki jafnfætis öðrum sveitarfélögum til þess að veita þegnunum sem réttlátastan skatt, hvort sem það er í útsvörum eða öðru. Það atriði er því ekki óeðlilegt, að sjávarþorp gæti veitt afslátt, hvort sem hann er 5% eða meiri frá gjaldstigum útsvars. Það réttlætir ekki það, að þetta frv. nái ekki fram að ganga. Það er eðlilegur hugsunarháttur, eðlilegur gangur mála hjá sveitarstjórnum, í hvaða sveitarfélagi sem það er, að þau reyni eftir mætti að hafa ekki skattabyrðar hærri en efni standa til og er almennt í landinu.

Ég vil svo endurtaka ánægju mína yfir því, hvaða undirtektir frv. hefur hlotið, og vona, að það fái skjóta og farsæla lausn.