24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

81. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á 1. nr. 68 frá 1971, um tekju- og eignarskatt, svo hljóðandi :

„Aftan við 3. mgr. E-liðar, 1. mgr. 7. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir, svo hljóðandi:

Nú selur skattþegn íbúð, sem hann hefur haft eða ætlað til eigin afnota og hann hefur átt skemur en tímamörk þau, er um ræðir í 5. málsl. þessarar gr., en kaupir fullgerða íbúð innan árs, eða lýkur byggingu íbúðar innan þriggja ára, hvort tveggja til eigin afnota, og skal þá ágóði af sölunni eigi teljast til skattskyldra tekna, ef rúmmál hinnar keyptu eða byggðu íbúðar er jafnstórt eða stærra en hinnar seldu. Ef hin keypta eða byggða íbúð er minni að rúmmáli en hin selda, skal ágóði af sölunni teljast hlutfallslega til skattskyldra tekna.“

Mál þetta er í rauninni afskaplega einfalt og þarf ekki mikilla, útskýringa við. Það snýst eingöngu um það atriði, hvort hagnaður af sölu íbúðar, sem seld er innan þriggja ára frá því að hún er keypt, telst skattskyldur eða ekki, þegar um er að ræða kaup íbúðareigandans á nýrri íbúð, sem er stærri að rúmmáli eða jafnstór. Til skamms tíma voru í lögum ákvæði þess efnis, að ef íbúð var seld innan 5 ára frá því að hún var keypt og önnur keypt í staðinn, sem var í fasteignamati jafnmikils virði eða meira virði, svo og ef viðkomandi byggði hús eða hæfi byggingu húss innan tiltekins tíma, þá var hagnaður af sölu upphaflegu íbúðarinnar ekki skattskyldur, enda væri þá haldið sér innan þessara marka. Með lögum frá 1971 nr. 68, um tekju- og eignarskatt, voru gerðar breytingar á þessu ákvæði, sem voru að ýmsu leyti til bóta, aðallega þess efnis, að ef íbúðir yrðu seldar, eftir að viðkomandi hefði átt íbúðina lengur en 3 ár, þá þurfti hann ekki að greiða skatt af söluhagnaði, jafnvel þótt hann keypti ekki aðra íbúð í staðinn, og skipti þá ekki máli, hvort sú íbúð var að fasteignamatsverði meira virði eða ekki. Hins vegar var sett inn í þessi lög frá 1971 mjög fortakslaust ákvæði þess efnis, að ef um sölu á íbúð væri að ræða innan þriggja ára, þá skyldi greiddur skattur af söluhagnaði, hvort sem viðkomandi keypti aðra íbúð eða ekki.

Ég held, að það fari ekki á milli mála, að hér getur verið um mjög brýnt hagsmunamál að ræða fyrir það fólk, sem stendur í slíkum íbúðarkaupum, og enda þótt það komi niður á öllu fólki, sem stendur í slíkum íbúðarkaupum, þá er það allajafna og algengast, að þarna sé um að ræða ungt fólk, sem er að hefja búskap. Ungt fólk, sem stofnar til heimilis og hjúskapar, kaupir sér gjarnan litla íbúð, bæði af efnalegum ástæðum og eins vegna þess, að fjölskyldan er allajafna ekki orðin mjög stór á því stigi. En fljótt kemur að því, bæði af efnalegum ástæðum og eins vegna stækkunar á fjölskyldu, að viðkomandi getur og þarf að kaupa stærri íbúð. Þá rekur þetta fólk sig strax á þetta ákvæði. Það getur ekki stækkað við sig íbúð innan þessara takmarka nema greiða skatt af hugsanlegum hagnaði. Nú tala ég um hagnað, og í þessum ákvæðum er talað um söluhagnað, og má því fljótt á litið virðast svo, að það sé sanngjarnt, að viðkomandi greiði skatt af hugsanlegum hagnaði eða raunverulegum hagnaði af slíkri sölu, það sé þarna um að ræða tekjur, sem ekki sé óeðlilegt, að þessir þegnar eins og aðrir greiði skatta af. En málið er ekki svo einfalt. Öllum er ljóst, að í þjóðfélagi okkar er verðbólga, verðlag fer stöðugt hækkandi, mismunandi mikið eins og gengur, en þó er það staðreynd, sérstaklega á fasteignamarkaði, að þar fara fasteignir ört hækkandi, jafnvel dag frá degi. Það er því mjög vafasamt að tala um söluhagnað í þessu tilfelli. Við skulum taka dæmi um það, að í dag kaupi ung hjón íbúð fyrir 1500 þús. kr., selji síðan íbúðina innan tveggja ára fyrir 2 millj. eða 1800 þús. kr. og þurfi síðan að kaupa í stað hugsanlegrar þriggja herbergja íbúðar fjögurra eða fimm herbergja íbúð fyrir 2 millj. eða nánast sama verð og um er að ræða, þegar salan fer fram á fyrri íbúðinni. Þá er að sjálfsögðu ekki um neinn hagnað að ræða. Þarna er verðbólgan búin að vinda upp á sig og hækka verðlag á íbúðum, fasteignum, þannig að slíkur mismunur á kaup- og söluverði er að sjálfsögðu enginn hagnaður fyrir viðkomandi. Það er eingöngu hækkun, sem átt hefur sér stað, og enginn gróði af því, þegar um er að ræða kaup á nýrri íbúð, sem er að sjálfsögðu á sama verði og hefur hækkað að sama skapi á þessum tíma.

Í grg., sem fylgdi frv. um breyt. á tekju- og eignarskatti, frv., sem síðan var samþ. sem lög nr. 68 frá 1971, var m. a. tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv., sem lá fyrir síðasta Alþ., hefur verið gagnrýnt að því er varðar þessi ákvæði um skattlagningu söluhagnaðar. Hefur í því verið haldið fram, að með þessu sé tekin upp skattlagning á verðbólguhagnaði, sem sé hvort tveggja ósanngjörn og íþyngjandi frá gildandi löggjöf um þetta efni. Það er ljóst, að við sæmilega stöðugt verðlag er skattlagning söluhagnaðar að fullu algerlega réttmæt:

Þarna er gerð grein fyrir því af flm. hálfu, að forsenda þessa ákvæðis sé sú, að um sé að ræða sæmilega stöðugt verðlag í þjóðfélaginu. Sú forsenda er að sjálfsögðu ekki fyrir hendi. Ég skal ekki segja um það, hvort hún hafi verið fyrir hendi, þegar þessi lög voru sett, eða hvort það hefur vakið fyrir flm. að halda verðlagi sæmilega stöðugu. Það er viðleitni allra stjórnvalda og ósk og von allra þjóðfélagsþegna, en hins vegar er langt í frá, að þetta hafi tekizt, og ástandið er nú eins og raun ber vitni.

Með tilliti til þessara augljósu ranginda og misheppnaðrar reynslu af þessu ákvæði svo og með tilliti til þessarar forsendu og þessara raka, sem lágu að baki þessu ákvæði, þá sýnist mér það vera brýnt nauðsynjamál að taka nú skjótlega til höndum og breyta þessu ákvæði á þann veg, sem er í samræmi við raunveruleikann. Ég hef í þessu frv., auk þess sem ég reyndi að miða þessa brtt. við núgildandi lög, breyta tímamörkum og ýmsum einstökum orðalagsatriðum í þessum lögum, og vil ég geta þess að nokkru leyti.

Í fyrsta lagi er talað hér eingöngu um íbúðir, sem viðkomandi skattþegn hefur haft eða ætlað til eigin afnota. Þarna er að mínu áliti fyrirbyggt, að borgarar eða þeir, sem standa í fasteignakaupum, geti misnotað þetta ákvæði á þann hátt að standa í einhvers konar braski, keypt og selt jöfnum höndum og haft e. t. v. margar íbúðir í takinu í einu. Þarna er gert ráð fyrir því og mjög skýrt tekið fram, að um íbúðir sé að ræða og þær skuli vera til eigin afnota. Viðkomandi þurfi sjálfur að búa í íbúðinni, hann þurfi að nota hana frá degi til dags, og það verður að hvíla sönnunarbyrði á honum, að svo sé eða svo sé ekki, ef ágreiningur kemur upp hvað þetta atriði snertir. Þá segir, að ef hann selur íbúð, sem hann hafi átt skemur en tímamörk þau, er um ræðir í 5. málsl. þessarar greinar o. s. frv. þegar talað er um 5. málsl. þessarar greinar, þá er átt við orðalag í núgildandi lögum, sem hljóðar svo, að íbúðarhúsnæði skuli vera „íbúðarhæft í 3 ár eða lengur“. Nú er þetta stundum teygjanlegt og matsatriði hverju sinni og nauðsynlegt að tengja þetta ákvæði, sem ég geri till. um að verði sett inn í lögin, þeim ákvæðum, sem nú þegar eru í lögunum, þannig að ekkert ósamræmi komi þarna á milli, ekkert tómarúm skapist, og þess vegna er tekið tillit til þessa orðalags, sem nú þegar er fyrir, og höfð eðlileg tengsl þar á milli.

Þá er talað um, að hafi skattþegn eða viðkomandi fasteignareigandi keypt í staðinn fullgerða íbúð innan árs eða lýkur byggingu íbúðar innan þriggja ára, og skal þá ágóði af sölunni eigi teljast skattskyldur o. s. frv. Að kaupa fullgerða íbúð innan árs er í samræmi við ákvæði, sem var í fyrri lögum, en það verður að gefa viðkomandi visst aðlögunartímabil. Fasteignakaup fara gjarnan þannig fram, að menn selja og kaupa síðan, stundum eftir nokkrar vikur, mánuði eða jafnval allt upp í eitt ár, og þykir ekki óeðlilegt að gefa þarna þetta svigrúm, eitt ár, og er það í samræmi við bæði fyrri lög og núgildandi lög. Hins vegar er gerð breyting á, þar sem sagt er, að hann verði að ljúka byggingu íbúðar innan þriggja ára, en áður var í lögum, að hann þyrfti að hafa hafið byggingu íbúðar innan þriggja ára.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það ákvæði, þar sem sagt var, að viðkomandi þyrfti eingöngu að hefja byggingu íbúðar innan þess tíma, að það gat dregizt mjög úr hömlu, að hann lyki byggingunni. Það var þá líka spurning um það, hvenær hann hefði hafið bygginguna. Var nægilegt, að hann lagði inn teikningar? Var nægilegt, að hann græfi grunn eða byggði sökkla? Þurfti húsið að vera fokhelt? Hvaða mark var á því, og hvenær þurfti að skera úr um það, hvenær bygging væri hafin? Nú er tekið fram í þessari till. minni, að hann þurfi að hafa lokið byggingu íbúðar innan þriggja ára, og er þá átt við, að húsið hafi fengið fokheldisvottorð, sé tilbúið undir tréverk og viðkomandi hafi fengið lóðarsamning og húsið hafi verið metið veðhæft.

Þá er gerð sú breyting í minni till. frá því, sem áður hefur verið, að miða skal við rúmmál hinnar keyptu eða byggðu íbúðar, en ekki við fasteignamatsverð. Það kom í ljós margoft við framkvæmd þessa ákvæðis, að þegar talað var um fasteignamatsverð, þá var hugsunin í lögunum sú, að viðkomandi væri að stækka við sig, væri að fá sér stærri íbúð vegna fjölskyldustærðar eða annarra nauðsynlegra og skiljanlegra ástæðna, en hins vegar var þessi viðmiðun, þ. e. a. s. fasteignamatsverðið, ekki alltaf nægilegt og glöggt, og vil ég nefna dæmi því til sönnunar.

Maður átti þriggja herbergja íbúð í Reykjavík á eftirsóttum stað. Ákveðið fasteignamatsverð var á þeirri íbúð. Hann þurfti síðan að kaupa sér stærri íbúð, keypti t. d. fjögurra herbergja íbúð í Kópavogi, og þá kom í ljós, að íbúð, sem jafnvel var fjögurra herbergja, en ekki þriggja herbergja, á slíkum stað var stundum og mjög oft í lægra fasteignamatsverði, þannig að þetta ákvæði náði ekki tilgangi sínum.

Hugsunin á bak við þessa till. mína er sú, að viðkomandi sé að stækka við sig, hann þurfi á stærra húsnæði að halda, og þess vegna þykir eðlilegra að miða við rúmmál hinnar keyptu eða byggðu íbúðar, og rúmmálið skal vera jafnstóra eða stærra hinu selda.

Ég vil leggja áherzlu á það, að hér er ekki um stórt mál að ræða út frá því sjónarmiði, að það hafi áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Hér er ekki um svo stórkostlegar fasteignasölur að ræða. Þetta eru frekar undantekningar en regla, en mjög brýnt hagsmunamál fyrir þá, sem í slíkum fasteignakaupum standa. Ef hugsunin á bak við þessa breytingu var sú að hafa þannig áhrif og reyna að stuðla að stöðugra verðlagi á fasteignamarkaði, þá hefur það líka komið í ljós, að það hefur ekki minnstu áhrif, breytir ekki nokkru til eða frá. Jafnvel þó að maður gæti ætlað við fyrstu sýn, að fólk reyndi að halda verðlagi niðri á íbúðum sínum, þegar það selur innan þriggja ára, til þess að þurfa ekki að borga skatta af slíkum mismun, þá hefur það komið í ljós, að fólk tekur ekki tillit til þess, enda væri það mjög óeðlilegt, að fólk væri að setja íbúðir sínar í sölu og bjóða á verði, sem væri langt undir markaðsverði hverju sinni.

Ég vænti þess og vona eindregið, að hv. þm. hafi skilning á þessu frv., sjái og komi auga á, að hér er nánast um leiðréttingu að ræða, leiðréttingu á lagaákvæði, sem hefur eftir stutta reynslu og við nánari athugun reynzt ósanngjarna og íþyngjandi við allar eðlilegar aðstæður. Ég hef sagt hér í grg., að það sé hlutverk löggjafarvaldsins að semja lög og reglur í samræmi við raunveruleikann hverju sinni og á þann veg, að réttlætiskennd borgaranna sé ekki misboðið. Ég geri mér vonir um það, að þetta mál fái skjóta og jákvæða afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi, og vil leggja til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.