25.11.1971
Neðri deild: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

83. mál, jarðræktarlög

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á jarðræktarlögum felur það í sér að framlengja og endurnýja bráðabirgðaákvæði, sem gilti í lögunum á árunum 1965–69. Þetta bráðabirgðaákvæði fjallaði um það, sem og frv. gerir einnig, að greiða úr ríkissjóði fjárframlag til uppsetningar á súgþurrkunartækjum með mótor og blásara, er nemi að meðtöldu jarðræktarstyrk allt að 1/3 hluta kostnaðar, eftir reglum, sem Búnaðarfélag Íslands setur. Þetta bráðabirgðaákvæði féll úr gildi, eins og ég sagði, í árslok 1969, en síðan hefur það í raun verið framlengt með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum, og bændur hafa getað fengið þetta framlag greitt samkvæmt því. Nú er ekki vitað, að uppi séu neinar ráðagerðir um framlengingu á þessu ákvæði, og því er þetta frv. flutt, enda má segja, að eðlilegra sé, að ákvæði, er þetta varða, sé að finna í löggjöf, og þá eins og henni er nú háttað í jarðræktarlögum, heldur en að það sé bundið einstökum lið við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni.

Á síðasta þingi flutti Magnús H. Gíslason og fleiri hv. þm. Framsfl. frv. til breyt. á jarðræktarlögum, þar sem m. a. var fjallað um þetta atriði. Það frv. var ekki afgreitt, og má auðvitað segja, að eins hefði verið tímabært að afgr. þetta bráðabirgðaákvæði þá eins og nú. En inn í það frv. var blandað fleiri atriðum, sem fremur þóttu orka tvímælis. Þess má einnig geta, að sum atriði, sem vakið var máls á í því frv., voru afgr. frá hv. Alþ. í fyrra með lögunum um Stofnlánadeild landbúnaðarins o. fl.

Í jarðræktarlögum eru vissulega mörg atriði,sem ástæða væri til að hugleiða, hvort ekki væri þörf breytinga á. Það er þó að þessu sinni látið kyrrt liggja, vegna þess að á síðasta Búnaðarþingi var kosin mþn. til þess að endurskoða þessi lög. Það var vissulega tímábært, og ég tel rétt, að ekki sé hróflað við lögunum meira en þetta frv. gerir ráð fyrir, meðan beðið er eftir árangri af störfum þeirrar nefndar. Sú n. mun nú hafa hafið störf sín, en ekki verður vitanlega séð fyrir á þessu stigi, hvenær hún lýkur störfum sínum og árangur þeirra starfa birtist í frumvarpsformi hér á hv. Alþ. Ég tel því rétt, enda þótt ástæða sé til þess að breyta þessum lögum í ýmsum öðrum greinum, að bíða með það og einskorða sig við það efni, sem frv. þetta fjallar um, og einungis vegna þess, að ef það væri ekki gert nú, mundi þetta framlag falla niður á næsta ári.

Hér þarf ekki að fara mörgum orðum um gildi súgþurrkunar fyrir íslenzkan landbúnað, svo kunnugt sem það er og svo ótvírætt sem það hefur sannazt á undanförnum árum. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó að sagt sé, að bændur geti vart hugsað sér þurrheysverkun án þess að njóta þeirrar aðstoðar, sem súgþurrkun veitir, og þess mikla öryggis, sem í því er fólgið að geta gripið til hennar, þegar hitnar í heyjum. Þau tæki, sem til súgþurrkunar þarf, eru verulega útbreidd meðal bænda, en það er mála sannast, að þau eru hvergi nærri svo fullkomin sem þau þyrftu að vera, og er þess vegna brýn nauðsyn á, að það framlag, sem frv. fjallar um, standi áfram. Tæki þessi eru kostnaðarsöm og er ástæða til þess að létta undir með bændum varðandi uppsetningu þeirra, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til, nema tilefni gefist, að ræða þetta frv. frekar. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.