02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

136. mál, líf- og örorkutrygging sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Í grg. þessa frv., sem hér er nú til umr. og ég hef leyft mér að flytja ásamt sex öðrum þm. Sjálfstfl., má að okkar mati finna ærnar ástæður fyrir flutningi þess og að mati okkar flm. einnig fyrir samþykkt frv. Það er kannske undirstrikun á þessu mati okkar eða kaldhæðni örlaganna, að þegar unnið var að gerð frv., þá var enn lík þeirra, sem fórust í hörmulegu slysi á s. l. vertíð frá verstöð á Suðausturlandi, að reka á land. Um það leyti, sem frv. var lagt fram, drukknuðu tveir bræður við Austurland, þegar bátur þeirra fórst í róðri. Síðasta dag ársins fórst ungur maður af einum togara okkar. Og þegar málið var tekið á dagskrá í fyrsta skipti hér á hv. Alþ., þá voru fréttir að berast um hörmulegt dauðaslys á Suðurnesjum, þegar ungur sjómaður vann þá að björgunarstörfum.

Ég held, að enginn dragi það í efa, að fiskveiðar við strendur Íslands séu einn hættulegasti atvinnuvegur, sem stundaður er hér á landi, og að á Fiskiskipum okkar sé erfiðið og vosbúðin mest og vinnutíminn lengstur. En jafnhliða því að halda þessu fram er rétt að taka það fram og minnast á, að allur aðbúnaður á fiskiskipum okkar hefur batnað stórlega á síðustu árum. Skipin eru yfirleitt stærri og betur búin, betur búin, nýtízku tækjum til aukins öryggis fyrir sjófarendur. Þá hafa líka verið ýmsar ráðstafanir gerðar á landi til þess að auka öryggi sjófarenda. Má t. d. benda á aukna þjónustu í ljós- og radíóvitakerfi okkar landsmanna, radarendurskinsmerki, sem sett hafa verið upp nýlega, staðsetningarkerfi fiskiskipa og annarra skipa, og á ég þar að sjálfsögðu við lórankerfið og þá stöð, sem staðsett er á Snæfellsnesi, sem að vísu hefur orðið fyrir nokkrum árásum ákveðinna aðila, en verið tvímælalaust til mikils öryggis bæði fyrir sjófarendur og þá, sem í lofti ferðast, og svo betri aðbúnaður hafnanna sjálfra, að ógleymdri tilkynningarskyldunni.

En þótt margt hafi verið gert vel til lands og sjávar á sviði öryggismála sjófarenda, þá er enginn efi á, að á öllum þessum sviðum má bæta um og á að bæta um, ekki sízt er við horfum á staðreyndir hinna óhugnanlega tíðu sjóslysa hér við land. Eins og fram kemur í grg. þessa frv., hafa á síðustu 11 árum 254 íslenzkir sjómenn drukknað eða látið lífið af öðrum orsökum í starfi sínu, og er þá miðað við tímabilið frá sjómannadegi 1960 til sama dags 1971. Í þessum tölum eru ekki meðtaldir þeir, sem látizt hafa af afleiðingum slysa, eftir að í land var komið. Okkur flm. hefur ekki tekizt að fá upplýsingar um fjölda þeirra sjómanna, sem hlotið hafa varanleg örkuml vegna slysa í starfi sínu á þessu sama tímabili. Hins vegar má öllum vera ljóst, sem til þekkja, að þau eru því miður bæði of mörg og í flestum tilfellum orsök mikilla líkamsmeiðinga. Ég hef hins vegar nú í dag fengið upplýsingar um slysatíðni síðustu ára á fiskiskipum okkar, og þegar talað er um slysatíðni, þá á ég við þau slys, sem tilkynnt eru til Tryggingastofnunar ríkisins, en þegar þannig stendur á, þá þurfa hinir slösuðu að hafa átt í veikindum sínum í a. m. k. 10 daga, og þá er átt við bótaskyld slys, sem hafa orðið á flota okkar, og þau eru á þann veg, að árið 1968 var um 322 slík slys að ræða, 1969 284 og 1970 276. Það er eftirtektarvert og auðvitað má ræða langt mál um það, af hverju slíkt sé, en sú staðreynd liggur fyrir, að þessi slys eru algengust á togurum okkar, en þannig virðist vera, að þaðan komi tilkynningar um nær tíunda hvern áhafnarmeðlim, sem þannig slasast.

Eins og ég sagði, þá mætti tala langt mál um, af hverju slík slys eiga sér stað. Ég mun koma að því síðar. Þó vil ég aðeins geta um eitt atriði, sem hefur komið fram hjá forustumönnum sjómannasamtaka, er þeir benda á, að það sé of mikið og ótrúlega mikið af réttindalausum yfirmönnum á fiskiskipum okkar, en eins og allir vita, eru varnir gegn slysum og til öryggis áhafnar einmitt kenndar í skólum sjómanna, stýrimannaskólum og vélskóla. Þá má líka geta um það, að það er engin reglugerð til hjá okkur um veiðibúnað skipanna, um styrkleika hans eða breytingar, ef breytingar eru gerðar á honum, né um nauðsynlegan öryggisbúnað á honum. Nóg um það. En tilgangur þessa frv. er að lögbjóða jafnháa líf- og örorkutryggingu og samtök sjómanna hafa nú samið um við útgerðarmenn, en þar er um að ræða 750 þú. kr. tryggingu við dauða og 1 millj. kr. tryggingu við 100% örorku, þannig að ef um dauðaslys er að ræða og þetta frv. verður samþ., þá verða þessar tryggingar sameiginlega, hinar samningsbundnu og lögboðnu, 1.5 millj. kr. við dauða, en 2 millj. kr. við 100% örorku.

Þetta kemur nánar fram í 2. gr. frv., en áður en ég fer nokkrum orðum frekar um hana, vil ég aðeins minnast á 1. gr., en þar segja flm., að allir þeir, sem starfi á íslenzkum fiskiskipum, sem lögskráð er á, skuli tryggðir eins og segir í lögum þessum. Eins og fram kemur í grg. með frv., er tilætlan flm. að leggja fram sérstakt frv. þess efnis, að lögskráningarlögunum verði breytt þannig, að ekki verði lengur miðað við 12 rúmlesta töluna, sem skylt er að lögskrá á, heldur verði farið enn neðar og miðað við þá stærð báta og skipa, sem skylt er að skoða samkv. lögum um eftirlit með skipum. Ég held, að ekki aðeins vegna þessa máls, heldur vegna margra annarra, og það meira að segja vegna gildandi lagafyrirmæla, þá sé orðið tímabært að fara þessa leið og kannske ekki sízt vegna þess áberandi þáttar í okkar útgerð allt í kringum Ísland nú á seinni árum, smábátaútgerðarinnar, en hún hefur farið mjög í vöxt, og sá sannleikur verður að segjast, að einmitt þeir, sem þar eiga hlut að máli, jafnvel aðilar, sem eru eigin húsbændur, sem ekki eiga aðild að viðkomandi verkalýðsfélögum, sem hafa einmitt gert samninga um tryggingar, þessir menn eru oft og tíðum algerlega ótryggðir. Ég held, að með því að færa niður lögskráningarmarkið komist þeir um leið undir þau mörk, sem viðkomandi stéttarfélög hafi samið um, og ef þetta frv., sem nú er til umr., verður samþ., þá verði þessir menn komnir á sama flöt og hinir, sem hafa verið á skipum, sem lögskráð er á.

Varðandi 2. gr., sem ég hef þegar nokkuð drepið á, skal á það bent, að þar eru undantekningarákvæði í 1. mgr. greinarinnar. Þar er sama undantekningarákvæðið og er í hinum almennu skilmálum tryggingarfélaga eða aðildarfélaga sambands slysatryggjenda, eins og segir í gr., og eru þessar undantekningar helztar þær, að undantekin eru: Í fyrsta lagi slys af völdum hernaðaraðgerða, kjarnabreytinga og þess háttar. Eins og allir vita, hefur þetta atriði í mörg ár verið í viðkomandi löggjöf eða samningum sjómanna, og bendi ég m. a. á svokallaðar stríðstryggingar. Í öðru lagi slys, sem verða í handalögmálum undir áhrifum eitur- og deyfilyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband sé á milli ástands þessa og slyssins. Og svo í þriðja lagi slys, er verða vegna stórkostlegs gáleysis hins tryggða og vegna ásetnings. Þetta eru hinar almennu undantekningar, sem tryggingafélögin hafa. En eins og kemur fram í frv., 7. gr. frv., þá er reiknað með, að þessar tryggingar verði boðnar út fyrir sjómenn í heild sem hóptrygging, og sú framkvæmdanefnd, sem lögin gera ráð fyrir, skal sjá um það útboð. Hún skal einnig sjá um að velja úr, hvaða tilboði skuli tekið, og hún skal líka koma fram sem aðili fyrir hina tryggðu, ef talið er, að á þá sé hallað.

Það, sem kannske mun valda mestri gagnrýni á þetta frv., er tekjuöflunarleiðin. Við flm. leggjum til, að iðgjaldakostnaður skiptist að jöfnu og verði helmingur tekinn af útflutningsgjaldi, en hinn úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þegar haft er í huga, að vátryggingariðgjöld fiskiskipanna sjálfra eru greidd með hluta af útflutningsgjalds, og við horfum líka fram á það, og kannske er það enn meira áberandi, nú síðustu daga, þegar bent er á, að þessi gjöld eru allt of 1ág, og það liggur jafnvel fyrir, að þau þurfi að hækka stórkostlega, þá sýnist okkur flm. ekki úr vegi, að nokkur upphæð af þeirri gífurlegu upphæð, sem fer til þessara trygginga, skuli fara til þess að tryggja áhafnir hinna sömu skipa. Á árinu 1970 var þetta útflutningsgjald samtals 401 millj. 779 þús. kr. og svo nokkrar kr. og aurar, sem ekki ber að nefna í sambandi við svo háar upphæðir. En til trygginga fiskiskipanna fór 80% af þessari upphæð eða 321 millj. 423 þús. kr. rúmar. Sá kostnaður, sem hefur verið ætlaður af framkvæmd þessa frv., sem sé helmingur kostnaðar af útflutningsgjaldi, mun aldrei geta numið meiru en 25–30 millj., og jafnvel þó að það færi upp í 35 millj., þá mundi það ekki vera nema tæp 10% af því, sem fer til tryggingar skipanna sjálfra. Eins og ég sagði, er það ljóst, að það mun vanta tugi millj. til þess að anna þessum greiðslum á tryggingu skipanna nú í ár, og ef sama skipulag verður áfram, þá teljum við flm. ekki óeðlilegt, að þetta gjald muni þá hækka í prósentum sem því nemur til þess að slík trygging geti komizt á.

Við leggjum jafnframt til, eins og ég sagði, að helmingur iðgjaldsins komi úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Að vísu skal og fyrst og fremst viðurkenna það, að margir óvelkomnir baggar hafa verið lagðir á þann sjóð á undanförmum árum. Þangað hefur líka safnazt mikið fé. Í hann greiða útgerðarmenn eins og aðrir atvinnurekendur, ásamt flestum sveitarfélögum. Ef við höfum það í huga, að flest öll byggðarlög hér á landi og sveitarfélög eiga allt sitt undir því, að það sé stunduð útgerð þaðan og fiskveiðar, þá finnst okkur flm., að við séum ekki með neina ófyrirsynju, þegar við 1eggjum þetta til, hafandi það í huga, að afli fiskimannanna er grundvöllur þess, að atvinnulíf geti blómgazt á viðkomandi stöðum. Nú getur sitt sýnzt hverjum um þessa tekjuöflun og skoðanir verið skiptar um það, hvort fara eigi þessa leið eða aðra. Og ég tel sjálfsagt að skoða þetta nánar í n., eins og aðrar greinar frv. Fyrir hv. Alþ. liggur nú annað frv., sem ég hef orðið var við, að er ruglað saman við það, sem hér er til umr. nú. Ég á þar við frv. til l. um breyt. á siglingalögunum á þskj. 25, sem ég er meðflm. að með hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, 4. þm. Vesturl. Það frv. gerir ráð fyrir, að lögfest verði svonefnd hlutlæg ábyrgð útgerðanna. Þá öðlast hinn slasaði bótarétt án tillits til þess, með hverjum hætti tjónið hefur að höndum borið, nema hann sé meðvaldur þess eða meðábyrgur. Til nánari skýringar vil ég, með leyfi forseta, vitna með nokkrum orðum í grg. þessa frv., en þar segir m. a.:

„Í siglingalögum, nr. 66/1962, eru ákvæði um fébótaábyrgð útgerðar á kröfum út af lífs- eða líkamstjóni skipverja eða annarra, sem í þágu skips vinna. Samkv. 8. gr. laganna ber útgerðarmaður ábyrgð á tjóni, sem skipstjóri, skipshöfn, hafnsögumaður eða aðrir, sem vinna í þágu skips, hafa valdið í starfi sínu með yfirsjónum eða vanrækslu, m. ö. o. sök þarf að vera fyrir hendi (ásetningur eða gáleysi). Samkv. ákvæðum þessum er því ekki um bótarétt að ræða, ef slys orsakast af óhappatilviljun, náttúruhamförum“ — og þ. á m. ef um brotsjó er að ræða — „eða öðrum viðlíka ástæðum, t. d. ef slys stafar af hálku á þilfari. En þarna getur oft verið mjótt á mununum, erfið sönnunaratriði og óviss úrslit. Réttarrannsókn verður oft viðamikil og málaferli langdregin og kostnaðarsöm. Stærri málum af slíku tagi lýkur varla fyrr en með dómi Hæstaréttar. Allan þann tíma verður hinn slasaði að bíða í óvissu með málalok. Dómsniðurstaða getur orðið með ýmsum hætti, eins og dæmin sanna.“

Lýk ég þá tilvitnun í grg. þessa frv.

Í grg. þessa frv., sem hér er til umr., er farið nokkrum orðum um, af hverju samningsbundnar tryggingar sjómanna séu jafnlágar og raun ber vitni um. Það er einnig bent á, að auk góðra launa og góðs aðbúnaðar séu það tryggingarnar, sem geti haft úrslitaáhrif á, hvort sótzt sé eftir störfum á fiskiskipaflotanum eða ekki. Það er enn fremur bent á sífellt vaxandi þunga sjómannasamtakanna í kröfum sínum um bættar og auknar tryggingar og líkindi þess, að betur gangi að ná samningum saman, ef Alþ. viðurkenni enn frekar sérstöðu sjómannastéttarinnar með samþykkt þessa frv. Nú tókust samningar um bátakjörin um s. l. áramót, og mér er tjáð af samningsaðilum, að meðal þess, sem gerði þá farsælu lausn mögulega, hafi verið fyrirheit hæstv. sjútvrh. um úrbætur í tryggingamál sjómanna. Hvort það frv., sem hér er til umr., eða það, sem ég drap á, um breytingu á siglingalögunum, eða bæði verða lögð til grundvallar í lofaðri athugun slíkra umbóta, veit ég ekki, en tel rétt að benda á, að í sjálfu sér er um óskyld mál að ræða, þótt um bæði megi segja, að þau séu bil úrbóta á tryggingamálum sjómanna.

Herra forseti. Enginn skal frekar viðurkenna heldur en ég, að það mun erfitt reynast að koma í veg fyrir sjóslys við Íslandsstrendur, þótt fyllsta aðgæzla sé viðhöfð. Kemur þar m. a. til, lega lands okkar, umhleypingasöm veðrátta, auk hinnar hörðu sóknar fiskimanna okkar. En við, sem þetta frv. flytjum, teljum sjálfsagt og skylt, að svo sé um búið, að sá, sem fyrir slysi verður, fái tjón sitt bætt, eða erfingjar hans, ef um dauðaslys er að ræða, og þær bætur séu í nokkru samræmi við þá áhættu, sem starfi fiskimanna okkar fylgir. Við teljum einnig, að auknar tryggingar sjómanna verði til frekari átaka í öryggismálum allra sjófarenda til lands og sjávar, svo að greiðslu slíkra trygginga þurfi sem sjaldnast að krefjast.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.