10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hér á undan mér hafa nú talað tveir höfuðtalsmenn hv. stjórnarandstöðu, hinnar nýju stjórnarandstöðu, sem notar hvert einasta tækifæri til þess að lýsa yfir því, að hún sé hörð, ábyrg og málefnaleg. Ég man ekki betur en hv. 1. þm. Reykv. lýsti yfir því undir lok sinnar ræðu, að þannig væri nú hin nýja stjórnarandstaða á Íslandi, hún væri hörð, ábyrg og málefnaleg. Ég hefði nú getað skilið þessi orð, ef hv. þm. hefði mælt þau í byrjun ræðu sinnar, en það var býsna mikill kjarkur að nefna þau í lok þeirrar ræðu, sem hann flutti hér í dag.

Þessi hv. stjórnarandstaða, sem lýsir sér á þá leið, sem ég hef nú vikið að, á nú ekki óskipt mál í öllum greinum. Það var að vísu þannig í upphafi, þegar skipt hafði verið um hlutverk og ný ríkisstj. hafði verið mynduð og við fengum nýja stjórnarandstöðu, að þá leit svo út, a.m.k. um tíma, að þarna yrði algjör samfylgd, líkt og verið hafði í ríkisstj., að Sjálfstfl. og Alþfl. hrokkuðu þetta algerlega hlið við hlið í stjórnarandstöðunni. Það var ekki annað að sjá svona fyrsta kastið. Síðan tók þetta dálítið að breytast og hefur verið að breytast meira og meira, eftir því sem á hefur liðið, á þá lund, að hv. Alþfl.-menn hafa gert greinilegar tilraunir til þess að móta nokkuð sjálfstæða stefnu í ýmsum þeim málum, sem hér hafa verið til meðferðar að undanförnu, en að því er virðist, ætla þeir ekki að halda því áfram að vera bergmál Sjálfstfl. í einu og öllu.

Það var þess vegna með nokkurri eftirvæntingu, sem ég beið þeirrar ræðu, sem nú hefur verið flutt hér, ræðu formanns Alþfl., þegar hann tekur nú hér til starfa að nýju, og ég beið hennar með eftirvæntingu vegna þess ekki sízt, að ég hafði gert ráð fyrir, að af henni mætti draga nokkrar ályktanir um það í fyrsta lagi, hvert væri mat hans á þeim tilraunum, sem þeir flokksfélagar hans hafa greinilega gert upp á síðkastið til þess að móta nokkuð sjálfstæða stefnu í stjórnarandstöðu sinni, mat hans á því, hvort hann ætlaði að styðja slíka víðleitni eða hvort hann ætlaði að kippa í spottann og beita áhrifum sínum til þess, að Alþfl. skokkaði áfram við hliðina á Sjálfstfl. Ég tel nú, að ræðan hafi ekki gefið neitt fullnaðarsvar við þessu. Hún sveiflaðist nokkuð til. Hann telur sig e.t.v. bundinn af því, að þeir félagar hans hér, a.m.k. í Ed., hafa tekið í verulegum atriðum jákvæða afstöðu til þess máls, sem hér er til umr., enda þótt þeir gagnrýni viss atriði og hafi borið fram brtt. við ýmis og sum veigamikil atriði málsins. Því býst ég við, að afstaða hans kunni að hafa mótazt nokkuð af þessu. En einkum þegar á leið ræðuna, þá virtist mér nú, að það væri greinileg hneigð hjá hv. þm. til þess að slá dálítið t og láta ekki Alþfl. dragast of mikið aftur úr í stjórnarandstöðunni. En þó sýndist mér alltaf öðru hverju, að það væri nú einhver hneigð til þess að skoða hug sinn dálitið, áður en hleypt væri alveg á skeið í þessu efni, og það tel ég vissulega góðs vita, og ég lít því þannig á , að í þessu efni sé, eins og stundum er orðað hér í seinni tíð, Alþfl. opinn í báða enda.

Það er söguleg staðreynd, sem ég held, að þurfi ekki að fara um mörgum orðum, að á seinni áratugum höfum við átt eitt stjórnarandstöðutímabil, sem hefur skorið sig algerlega úr. Á síðustu áratugum, hygg ég, að það tímabili. þegar Sjálfstfl. var einn í andstöðu við vinstri stjórnina 1956–1958, sé sérstakt að þessu leyti. Þá gat þessi flokkur sýnt, hvað hann meinti þá a.m.k., með þeim orðum, sem hann viðhefur nú og talar um málefnalega og harða stjórnarandstöðu. Ég held, að það sé hreint og beint orðin söguleg staðreynd, sem þarf ekki að rökstyðja mörgum orðum, en er þó mjög auðvelt að gera, ef ástæða þykir til, að þessi stjórnarandstaða, stjórnarandstaða þessa ábyrga og málefnaauðuga flokks, hún hafi verið sú ábyrgðarlausasta og óbilgjarnasta, að ég segi ekki ósvífnasta, sem þekkzt hefur í íslenzkri stjórnmálasögu síðustu áratuga. Ég ætla að minna á þessa sögulegu staðreynd, þótt ég sjái ekki nú ástæðu til að fjölyrða um þetta, nema sérstakt tilefni gefist til.

Ég hef orðið þess var nú á seinni árum, m.a. nú í sambandi við þau stjórnaskipti, sem urðu s.l. sumar, að margir ágætir sjálfstæðismenn voru, og þeir játa það ýmsir, óánægðir með þessa stjórnarandstöðu á vinstristjórnarárunum eða árangurinn af henni. Þeir voru e.t.v. ekki óánægðir með það, að sú stjórn átti ekki langa lífdaga. Það er önnur saga. Ég hygg, að það hafi ekki verið fyrst og fremst hin harða og óbilgjarna stjórnarandstaða, sem átti mestan þátt í því, að hún varð ekki langlíf, heldur ýmsar aðrar ástæður og þá ekki sízt innri ástæður hjá þeirri ríkisstj. Þess hefur orðið vart, að á seinni tímum líta margir ágætir sjálfstæðismenn þannig á, að á þessum tímum hafi Sjálfstfl. ekki háð stjórnarandstöðu af því tagi, sem skynsamleg og heppileg gat talizt. Þess vegna heyrði maður það oft eftir kosningar í sumar og tók það jafnvel trúanlegt, þegar maður las það í blöðum og heyrði það mælt af munni ýmissa ágætra talsmanna þessa flokks, að nú ætlaði Sjálfstfl., að manni skildist, að læra af hinni gömlu reynslu. Nú ætti stjórnarandstaðan að verða hörð að vísu, en þó fyrst og fremst málefnaleg. Og hvernig hefur þetta nú tekizt? Ég ætla ekki að hafa um það hér mjög mörg orð. Ég ætla að láta nægja að vitna til örfárra atriða, en þó alveg sérstaklega til málflutningsins í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, því að enda þótt umr. hér í þessari hv. d. séu nú aðeins nýlega byrjaðar og eigi sjálfsagt eftir að standa alllengi enn, þá hefur heyrzt eitt og annað, sem um það mál hefur verið sagt í hv. Ed., auk þess, sem komið hefur um það efni í blöðum þeirra sjálfstæðismanna.

Ég held, að það sé u.þ.b. mánuður síðan ég las það í viðtali, sem eitthvert blað átti við hæstv. félmrh., að hann væri ekki sérstaklega uppnæmur gagnvart hinni hörðu stjórnarandstöðu. Blaðið spurði hann, hvernig honum litist á stjórnarandstöðuna, og hann svaraði eitthvað á þá leið, að þótt hún hafi boðað það, að hún yrði bæði hörð og málefnaleg, þá hafi hún hvorugt verið. Ég held, að hann hafi orðað þetta þannig, að hún hafi fram að þessu verið bæði öfgafull og grútmáttlaus. Ég held, að þetta sé nokkuð góð lýsing, þegar átt er við stjórnarandstöðu þeirra hv. sjálfstæðismanna fram að þessu, svona í megindráttum, með undantekningum kannske. Í fyrstu kynni maður að halda, að það gæti ekki verið fullt samræmi milli þess, að stjórnarandstaða sé bæði öfgafull og grútmáttlaus, en þegar betur er að gáð, þá er þar í rauninni ekkert misræmi á milli, því að hörð gagnrýni á vitanlega ekkert skylt við þær margvíslegu öfgar, sem hv. sjálfstæðismenn hafa tamið sér í sambandi við flestar umr. um þau mái. sem ríkisstj. hefur haft á prjónunum fram að þessu, og þá dóma þeirra um nærri allt, sem ríkisstj. gerir, sem þeir telja illt og óhafandi.

Ég hét því að fara ekki langt út í þessa sálma, en get þó ekki látið hjá líða að minna á örfá atriði, áður en ég kem að þeim málflutningi, sem í frammi er hafður, sérstaklega í sambandi við það mál, sem hér er til umr. Það er í rauninni einkennandi í sambandi við öll þau stærri mál, sem hér hafa verið á dagskrá frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, að þeir hv. sjálfstæðismenn hafa haft uppi alls konar þjark og þref um svo að segja alla skapaða hluti, sem ríkisstj. hefur unnið að. Ég ætla aðeins að minna á það, sem þeir, — ég held, að það sé a.m.k. þrír hv. formenn Sjálfstfl., fyrsti, annar og þriðji, hafa staðið að hér í sambandi við þingmál nú að undanförnu. Það er ekki ástæða til að rifja fleira upp.

Ég ætla að minna á það, að þegar ákvörðun var tekin af núv. hæstv. ríkisstj. um, að Ísland skuli styðja aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, þá var það fyrsti formaður flokksins, hv. 1. þm. Reykv., sem hafði þar alla forustu í þeim málatilbúnaði, sem er svo kunnur, að honum þarf ekki að lýsa. Það þarf aðeins að minna á hann.

Síðan þegar kom til þess að ræða hér um það ákvæði stjórnarsáttmálans, að fram skuli fara endurskoðun hins svo nefnda varnarsamnings, þá var það annar formaður flokksins, hv. 2. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, sem hafði þar forustu, og hann er fyrsti flm. þeirrar till. um það mál, sem fræg er orðin að endemum.

Þriðja málið, sem ég aðeins nefni hér í framhjáhlaupi, er svo landhelgismálið. Ég hef áður fagnað því, að þar hefur orðið veruleg og mjög mikilvæg og ánægjuleg breyting á stefnu þeirra sjáifstæðismanna frá því í fyrra, þegar þeir þorðu í hvorugan fótinn að stiga og vildu, að því er virtist, ekkert gera í málinu, til þess, sem þeir leggja þó til nú, og fagna ég henni enn. En það var hins vegar ýmislegt í málatilbúnaði og málflutningi þeim, sem hv. þriðji formaður flokksins, hv. 5. þm. Reykv., viðhafði hér í ræðum sínum um það mál, sem gera má ýmsar athugasemdir við, en þó fagna ég þeirri meginbreytingu, sem þar hefur orðið á stefnunni, en ýmislegt ergelsi var þar eins og gengur og er ekki ástæða til að erfa það. Þessum þremur formönnum hv. Sjálfstfl. fylgdi svo mikið lið og frítt, sem jafnan geysist fram á völlinn, þegar mikils þarf við, og ég á nú von á því, að þeir komi hér hver á fætur öðrum í kvöld og kannske fram eftir nóttunni, eftir því sem ástæða þykir til, og skal ég ekki sakast um það og tei, að það hljóti að verða ánægjulegt á þann málflutning að hlýða. Þar koma fram ýmsir vaskir hásetar, og munu þeir vafalaust fylgja sínum þremur foringjum fast eftir.

Þá skal ég nú víkja án frekari formála um hina, sem kom nú hér af dálitið gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Reykv., að vísu ekki lengur konunglegu, en hina virðulegu stjórnarandstöðu, að því máli, sem hér er til umr. Það er eins með það og kannske ekki síður með það en þau mál önnur, sem ég hef nefnt hér, að þar hafa þeir hv. sjálfstæðismenn ekki flest, heldur allt á hornum sér. Maður heyrði óminn af því handan úr Ed., maður heyrði það hér hjá hv. 1. þm. Reykv., og ég á nú von á því, þegar Morgunblaðið okkar fer að koma út aftur, að þá verði nú eitthvað sungið og kveðið þar um það, að þetta frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins sé alveg voðalegur hlutur. Það er sem sagt verið að gera hér tilraun til þess að vekja hræðsluöldu meðal almennings. Það er verið að reyna að vekja hér upp í sambandi við þetta mál hvers konar gamla drauga. Það er hvað eftir annað af þeim hv. talsmönnum Sjálfstfl. í ræðu og riti í sambandi við þetta mál talað um höft og bönn, leyfa­ veitingar og biðraðir og allt, sem nöfnum tjáir að nefna og mönnum hefur þótt heldur hvimleitt og leitt úr fortiðinni.

Það er alveg rétt, að það er margur, sem minnist þeirra tíma, þegar hér var langvarandi kreppa og gjaldeyrisskortur, ekki aðeins árum, heldur áratugum saman, og þá voru hér í gildi margvísleg höft og bönn, af ástæðum, sem a.m.k. eru skiljanlegar, þegar þess er gætt, að þá var gjaldeyrisskorturinn slíkur, að það var útilokað að verða við nema litlum hluta þess, sem menn vildu gera með þann gjaldeyri, sem aflaðist. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu í löngu máli og heldur ekki afskipti þeirra hv. sjálfstæðismanna af þessum málum í gamla daga, og væri þó e.t.v. ástæða til í sambandi við þetta mál. Aðeins skal ég á það minna, að þegar þeir eru að reyna að vekja upp þessa gömlu drauga, vekja upp þessi mál, sem vitanlega eiga ekkert skylt við það, sem hér er á ferðinni, þá eru það svo sem engir alsaklausir englar í sambandi við höft og boð og bönn, sem eru að tala. Það er sá flokkur, sem einna lengst og einna ákveðnast barðist fyrir eða stóð fyrir ýmsum þeim höftum og bönnum, sem þótti óhjákvæmilegt að hafa á þeim tímum, sem þarna er um að ræða, og mér finnst satt að segja, að það ætti að vera óþarfi, en þó sýnist mér, að það geti verið þörf á því, að t.a.m. ég standi hér upp og neiti að trúa þessu og fullyrði, að það sé enginn fótur fyrir því, að þeir ágætu menn, sem stóðu fyrir alls konar innflutningshöftum og fjárhagsráði og öðru, þeir ágætu sjálfstæðismenn, sem það gerðu á sínum tíma, hafi mismunað mönnum, að þeir hafi farið svívirðilega með sitt vald og þar fram eftir götunum, eins og stundum er verið að dylgja um, e.t.v. ekki enn í þessari hv. d. í sambandi við þetta mál, og vonandi á það ekki eftir að verða, en það hefur verið dylgjað um það í blöðum, og maður hefur heyrt svona ávæninginn af því, að svona hafi þetta nú almennt verið. Þetta hafi verið allt spillt og rotið. Ég vil mótmæla þessu, og ég tel, að þeir ágætu menn, sem þarna áttu hlut að máli, eigi ekki, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir, slíkan dóm skilið. Nei, ég held, að það þýði ekkert að reyna að æsa til hræðslu fólks með því að benda áslíka hluti eins og innflutningsskrifstofur, eins og fjárhagsráð eða aðrarslíkar stofnanir, sem hér þótti óhjákvæmilegt að hafa fyrir alllöngu síðan við allt aðrar aðstæður en nú eru eða verið hafa á síðari tímum. En það er verið að ala á þessu hvað eftir annað. Það er verið að reyna að hræða fólk meðslíkum hlutum, og þess vegna þótti mér ástæða til að minnast á þetta hér.

Hæstv. forsrh. hefur í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli hér í dag gert atriðum þess hverju á fætur öðru það rækileg skil, að það þarf í sjálfu sér ekki neinu við að bæta, og m.a. tel ég, að hann hafi í mjög hógværu máli svarað því alveg fullkomlega og sýnt fram á það, að með þessu frv. er siður en svo verið að stefna að neinu nýju skömmtunarráði eða neinni nýrri úthlutunarstofnun leyfa og fríðinda, eins og ýmsir leyfa sér þó að fullyrða. Þetta er því tilhæfulaust, og því miður bendir það ekki til annars, þegar þessu er haldið sýknt og heilagt fram, þrátt fyrir það þótt hægt sé að benda á frv., að þeir menn, sem þessu halda fram, ætli sér að hræða og blekkja fólk, og það er aldrei fallegur hlutur.

Ég skal játa það og tek þar undir með þeim, sem á það hafa bent, ekki sízt úr hv. Alþfl., þ. á m. hv. 7. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, að í þessu frv. eins og í flestum mannanna verkum er sitthvað sem tvímælis orkar, og sjálfsagt sitthvað, sem hægt er að færa til betri vegar og möguleikar eru á að færa til betri vegar. Enda þótt þetta viðamikla frv. sé að vísu hér í síðari d., þá er ekki við öðru að búast en það fái sína eðlilegu meðferð í þessari hv. d. og kunni að taka hér einhverjum breytingum. Og ég skal játa það einnig, sem hefur komið fram hjá þeim hv. Alþfl.- mönnum, að mjög mikið er undir framkvæmdinni komið, eins og jafnan þegar um stór mál er að ræða, og það er vitanlega sjálfsagt að líta á það, hverju hægt sé að breyta í þessu frv. til að tryggja betur þá meginstefnu, sem það byggist á, og til þess að afmarka, þar sem þess þykir við þurfa, og sýnt hefur verið fram á með rökum, að þyki við þurfa, starfssvið þeirra meginstofnana, sem þarna er um að ræða. Þetta er vitanlega verkefni Alþ. að fjalla um, og enda þótt tími kunni að þykja naumur, ef ætlunin er að ljúka þessu máli ásamt fleiri stórum málum fyrir jólaleyfi, þá verður Alþ. að sjálfsögðu að fá hæfilegan tíma til þess að vinna aðslíku stórmáli sem þessu, og ég mun a.m.k. ekki taka þátt í að flýta því á neinn óeðlilegan hátt.

Ég vil svo án þess að fara langt út í einstök atriði þessa frv., það hefur þegar verið gert, aðeins lýsa því, að ég tel, að meginstefnan, sem þar er mörkuð, sé rétt. Það má e.t.v. segja eins og hv. 7. þm. Reykv., að það séu ekki ákaflega mörg alger nýmæli í sjálfu sér í þessu frv., en það er þó tilraun til þess að byggja á nokkru fastari hátt og færa í ákveðnara form ýmislegt, sem fengizt hefur verið við vissulega nú um allmörg undanfarin ár, auka það og gera það nokkru markvissara, ef auðið yrði, en það e.t.v. hefur verið.

Ég vil lýsa yfir því fyrir mína hönd, og ég hygg, að ég megi gera það fyrir hönd míns flokks, að með þessu frv. er ekki að okkar dómi að því stefnt að leggja aukna fjötra á atvinnulífið í landinu eða möguleika aðila til atvinnuuppbyggingar né að koma á neinum þeim ríkisafskiptum, sem geti talizt truflandi eða óeðlileg í sambandi við atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er þvert á móti megintilgangur frv. að okkar viti og okkar dómi að tryggja með meiri hagkvæmni, ef auðið reynist, slíka atvinnuuppbyggingu. Kjarni frv. er með öðrum orðum sá að reyna að tryggja það, eftir því sem hægt er með löggjöf, að efling íslenzkra atvinnuvega geti orðið með sem skipulögðustum hætti og að þar verði viðhöfð sem hagkvæmust vinnubrögð, og það er reynt að ná til allra aðila atvinnulífsins til samvinnu um þetta meginverkefni. Til þess að tryggja þetta meginverkefni eftir föngum er í frv. lögð áherzla í fyrsta lagi á mjög aukna áætlanagerð frá því, sem verið hefur. Hún er að vísu góðra gjalda verð og hefur verið að þróast, en það er ætlunin að auka hana verulega og efla, bæði við skammtímaáætlanir og áætlanir til langs tíma. Jafnframt er verið að reyna að koma á, að því er við teljum, eðlilegum og alls ekki hættulegum tengslum milli þeirra aðila, sem semja slíkar áætlanir, ríkisvaldsins og svo þeirra, sem hafa með fjármögnun slíkra framkvæmda að gera, þ.e. koma á eðlilegum tengslum milli þessara aðila á þann hátt, að það geti orðið íslenzku atvinnulífi til eflingar, en ekki til niðurdreps, eins og stundum er látið að liggja. Það er ætlunin, að þessi tiltölulega mjög frjálsu tengsl verði þarna hjá einni stofnun. Þetta er mergurinn málsins, hvað sem sagt er, þegar menn hafa allt á hornum sér, eins og þeir hv. sjálfstæðismenn gera nú í sambandi við hvert það mál svo að segja, sem ríkisstj. flytur.

Í rauninni hélt ég, að það væru ekki svo mjög miklar deilur um það, að auka þyrfti og efla þá áætlanagerð, þau áætlanavinnubrögð og þau rannsóknavinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð í vaxandi mæli á undanförnum árum. Það játa í rauninni allir, að þetta er bráðnauðsynlegt í hverju nútíma þjóðfélagi og ekki aðeins í hverju þjóðfélagi, heldur í hverju nútímalegu fyrirtæki. Slík vinnubrögð eru vitanlega það, sem tímarnir hafa kallað á, og það er vegna margvíslegrar reynslu af skipulagsleysinu og af því að vita ekki, hvar atvinnuvegirnir standa og hvar einstök fyrirtæki standa, sem menn hafa meira og meira farið inn á þetta svið og það er vitanlega ekki verið að hverfa til fortíðarinnar, þótt efld sé og aukin slík starfsemi, áætlunarvinnubrögð í ríkum mæli, það er síður en svo. Það er það sem nútíminn krefst.

Hitt getur svo vitanlega verið deiluefni og er ekkert óeðlilegt við það, þótt þeir hv. fulltrúar Sjálfstfl., sem telja sig og eru nú margir hverjir fulltrúar þeirra, sem hafa með margvislegan atvinnurekstur í landinu að gera, að þeir hafi kannske aðrar skoðanir en við ýmsir á því, hver eigi að vera áhrif hins opinbera á heildarþróunina, t.d. í sambandi við fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu. Um þetta geta á algerlega eðlilegan hátt verið skiptar skoðanir, og það er engin ástæða til að kvarta yfir rökræðum um slíkt. Þær eru vitanlega eðlilegar og í alla staði æskilegar. Ég hygg þó, að þrátt fyrir það, að þeir hv. sjálfstæðismenn bendi oft á það, að of mikil ríkisafskipti séu óæskileg, þá telji þeir alveg útilokað, að þau séu lítil eða engin nú á tímum, en allir telja, að þau séu að vissu marki óhjákvæmileg í nútíma þjóðfélagi. Spurningin er því aðeins, hversu mikil þau eigi að vera og með hverjum hætti.

Það hefur í sambandi við þetta frv., eins og ég áður sagði, verið þyrlað upp nokkru moldviðri, og það er verið að reyna að koma því inn hjá fólki, að með þessu frv. sé stefnt að ýmsu, sem þar er alls ekki að finna og ekki nokkur leið að finna, þótt leitað sé með logandi ljósi. Það er verið að ræða hér um pólitíska skömmtunarstjóra, pólitíska kommissara o.fl., sem ég skrifaði hér, — upp undir blaðsíðu, ýmsar ágætar setningar eftir hv. 1. þm. Reykv. Hann ræddi hér mjög um Stofnunina með stórum staf. Þetta væri persónugervingur sósíalismans á Íslandi, og þarna væri nátttröllið farið að glotta og þar fram eftir götunum. Þetta voru ýmsar skemmtilegar og líflegar setningar, en ég verð nú að segja í sambandi við þessa svona heldur léttu tilraun hans til þess að bregða upp einhverri hryllingsmynd í sambandi við þetta, að ég held, að þetta verki ekki. Ég held, að það sé ekki ástæða til þess, að menn séu að láta svona. Í sumum tilfellum, ekki hjá þessum hv. þm. nú, heldur í sumum þeim skrifum, sem þegar hafa orðið um þetta mál, eru lýsingarnar á áhrifum þessarar Framkvæmdastofnunar orðnar svo ógnþrungnar, að ég býst við því, að ýmsir þeir, sem taka slíkt trúanlegt, ýmsir ákaflega hrekklausir og ágætir sjálfstæðismenn, sem trúa eðlilega því, sem foringjar þeirra segja, og því, sem blaðið þeirra heldur fram, séu að verða dálítið líkt settir og Páll skáld Ólafsson í Heydalakirkju forðum. Það var, þegar klerkurinn var að predika hvað harðast og hótaði einna ákafast með verri staðnum, þá kvað Páll þessa ágætu vísu, og þið hv. alþm. þekkið sjálfsagt vísuna flestir eða mættuð gjarnan kunna hana:

Að heyra útmálun helvítis

hroll að Páli setur.

Ég er á nálum öldungis

um mitt sálartetur.

Ég vona, að þessi hryllingsmynd, sem þeir hv. sjálfstæðismenn hafa þegar brugðið upp og eiga sjálfsagt eftir að betrumbæta nokkuð, verði ekki svona mögnuð, að menn verði nú öldungis á nálum um sitt sálartetur. Hitt virðist þeirra ætlun, að það verði margur Pállinn á nálum um afkomu sína og allan hag, vegna þess að vondir menn, sem leggja margvísleg vélabrögð með þessu frv., ætli að kollsteypa þessu öllu. En ég fullyrði, að það er ekkert slíkt á ferðinni. Þetta eru bara Grýlusögur í nútímastíl. Það er liður, að því er virðist, í þeirra aðferð sjálfstæðismanna að halda uppi harðri og málefnalegri stjórnarandstöðu. En ég verð þá að segja, að enn hefur það sannazt, sem ég vitnaði til og hafði eftir hæstv. félmrh., að hingað til hefur sú stjórnarandstaða hvorugt verið.

Ég skal svo á þessu stigi máls ekki hafa öllu fleiri orð um þetta frv. eða málflutning þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað. Ég á sæti í þeirri n., sem fær frv. til meðferðar, og get þá komið á framfæri þeim aths., sem ég kann að hafa við það að gera, og tekið þar afstöðu líka til þeirra aths., sem fram hafa komið.

Ég vil að lokum aðeins segja þetta: Það, sem er meginatriði þessa máls, er, að sem fullkomnust áætlanagerð og sem brotalausust framkvæmd þess, sem skynsamlegt er talið í atvinnuuppbyggingarmálum, sé tryggð, eftir því sem hægt er af opinberri hálfu. Það er í rauninni krafa tímans í nútíma þjóðfélagi. Það er hvarvetna lögð áherzla á áætlanagerð, sem byggð er á rannsóknum, á sem allra flestum sviðum. Það er e.t.v. hvergi meiri þörf á slíkum vinnubrögðum en hjá smáþjóð, sem alls staðar sér blasa við stórfelld verkefni á sviði atvinnuuppbyggingar, sem þarf að vinna að. Og hvarvetna skortir fjármagn til þess að vinna að hinum nauðsynlegustu málum. Við höfum þess vegna ekki efni á því að sóa of miklu í skipulagsleysi, þar sem bæði fjármagn og vinnuafl kann að fara til spillis. Við þurfum í vaxandi mæli að stefna að skipulegum áætlunarbúskap, en þó í frjálslegum ramma, þar sem megináherzla er lögð á leiðbeinandi og styðjandi aðgerðir, ef svo má að orði komast, fremur en þvingunarráðstafanir. Og ég held, að þegar grannt er skoðað, þá geti það frv. til laga um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hér er til umr., þrátt fyrir ýmsa þá ágalla, sem á því kunna að vera og hægt kann að vera að sníða af, a.m.k. suma hverja, lagt grundvöll að þeirri þróun, sem hér þarf að verða í þessum efnum. Og það er þess vegna síður en svo, að frv. þetta sé nein hrollvekja, eins og þeir hv. sjálfstæðismenn eru að reyna að telja mönnum trú um, heldur er hér um að ræða tilraun og það mjög ákveðna tilraun til þess að beita nútímalegum vinnubrögðum áætlanagerðar við atvinnuuppbyggingu á Íslandi.