02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

156. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er aðeins til þess að benda hv. þm. á, að frv. hefur verið útbýtt á nýjan leik prentuðu upp, og það er vegna þess að það féll niður að prenta fskj., sem átti að vera með, en fskj. fjallar um útvarp frá þjóðþingum. N., sem starfaði að þessu máli, safnaði upplýsingum um útvarp og sjónvarp frá þjóðþingum margra landa og setti það í skýrslu, sem prentuð var með. Hún hafði fallið niður núna, en úr því hefur verið bætt, og ég vildi benda hv. þm. á að kynna sér þau efni.

Í þessu frv. er sjónvarp frá Alþ. raunar lagt á vald forsetanna í samráði við formenn þingflokkanna. Við höfum ákaflega litla reynslu í þessu efni, eins og að líkum lætur, þar sem sjónvarp hefur ekki lengi verið hér í landi, en auðvitað væri ákaflega æskilegt að geta komið því þannig fyrir, að sjónvarpið héldi innreið sína á Alþ. Það væri að mínu viti mjög æskilegt og þýðingarmikið, og afar vandasamt, hvernig hægt er að ganga frá því, svo að vel fari, og þess vegna mun n,. ekki hafa treyst sér til að setja neinar reglur um þetta í frv., til að mynda líkar þeim, sem hliðstæðar eru um útvarp í þingsköpum, en látið þetta algerlega á vald þingforsetanna og flokkaformannanna.

Ef menn hefðu hugmyndir um það, hvernig skynsamlegt og æskilegt væri að koma fyrir sjónvarpi frá Alþ., þá væri það áreiðanlega mjög vel þegið af forsetum þingsins, sem eru að íhuga þessi efni, að fá að heyra frá hv. þm. um það, og ég efast ekki um, að hv. allshn. mundi líka taka fegins hendi öllum bendingum, sem hv. þm. vildu koma á framfæri til hennar. En þetta er efni, sem er í skoðun, og væri mjög æskilegt að heyra hugmyndir manna um þau atriði einmitt nú.