02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3071)

156. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var upphaflega samið, var sjónvarp á Íslandi ekki nema tæplega tveggja ára og hafði því nýlega haldið innreið sína í landið. Í 20. gr. frv. segir svo, að inn í þingsköp skuli koma ný grein á þá lund, að í kaflanum, sem er um útvarps- og sjónvarpsumr., V. kaflanum, er orðið útvarp notað um hljóðvarp og enn fremur um sjónvarp, eftir því sem við á. Hugmynd n. var sú, að sá ræðutími, sem tiltekinn er í hljóðvarpsumr., sé í raun og veru hámark og það sé á valdi þingforseta og þingflokkanna að gera samkomulag um styttri ræðutíma, sem verður sjálfsagður, þegar mögulega verður að sjónvarpa úr þinginu. En meginatriði þessa máls er, að þegar frv. var samið og enn í dag er í raun og veru ekki hægt að sjónvarpa beint frá Alþ. Til þess að sjónvarpa frá stöðum utan sjónvarpsstöðvarinnar sjálfrar við Suðurlandsbraut þarf töluvert mikil og dýr tæki, sem byggjast á því, að til þarf að vera lítil sjónvarpssendistöð, sem hægt er að setja upp á staðnum. Það yrði að vera hægt að láta þá litlu stöð sjónvarpa til aðalsendistöðvarinnar. Það yrði m. ö. o. að vera annaðhvort hér í alþingishúsinu eða í bílum í nágrenninu lítil sjónvarpsstöð, sem sendi myndina áleiðis. Vegna þess, hvernig landslag er í Reykjavík, yrði sennilega að vera endurvarpsstöð í turni Hallgrímskirkju, það er líklegasti staðurinn, sem síðan varpaði myndinni aftur niður til sjónvarpsstöðvarinnar við Suðurlandsbraut. Allt, sem þessu fylgir, er mjög dýrt, og Ríkisútvarpið hefur enn ekki treyst sér til að kaupa þessi tæki. Á hinn bóginn hefur slíkt sjónvarp, að ég hygg, tvisvar sinnum verið reynt með bráðabirgðatækjum. Það var gert, þegar handritin komu. Þá var sjónvarpað beint neðan frá höfninni með bráðabirgðatækjum, og það tókst. En það eru ekki tæki, sem hægt er að nota til frambúðar.

Þegar þessi vandi leysist, en það kostar sjálfsagt á milli 10 og l5 millj. fyrir Ríkisútvarpið, þá rís upp annar vandi, sem er tengdur við þennan litla og þrönga sal. Það er varla hæga að hugsa sér erfiðari aðstöðu til þess að sjónvarpa heldur en er í þessum þingsal. Hvað eftir annað hafa komið hingað kvikmyndatökumenn, bæði frá okkar eigin sjónvarpi og einnig aðrir, og við höfum séð það, að myndirnar, sem þeir sýna héðan, eru alltaf nákvæmlega eins. Það tekur varla nokkur maður eftir því, þó að þeir blekki okkur stundum á saklausan hátt með því að sýna myndir af umr., sem fóru fram hálfum mánuði eða mánuði áður, þegar engin tíðindi gerast hér. Enda sjáum við það oft, sem erum húsum kunnug, að stundum eru sýndar gamlar myndir með frásögn af umr., sem fóru fram sama dag. Þar sjáum við í salnum varamenn, sem hafa ekki verið hér í marga mánuði, eða það sitja hér aðalmenn, sem við vitum, að eru fjarverandi. Þetta stafar af því, hve möguleikarnir í þessum sal eru litlir. Aðstaða er engin, og ég hygg, að forsetar þyrftu að ræða bæði um kvikmyndatöku og ljósmyndatöku í salnum, með hvaða hætti hún á að vera. Myndatökumenn vaða í raun og veru inn í salinn, eftir því sem þeim sýnist.

Ég vil taka það fram, að skýrslan, sem hv. 1. flm. benti á, um útvarp frá þjóðþingum, er 5 ára gömul. Ég skal játa höfundarrétt að henni og ábyrgð á henni, en hún er 5 ára gömul, og það, sem gerzt hefur síðan erlendis, er ekki í henni. Mér er þó ekki kunnugt um, að það hafi orðið neinar stórbreytingar, að öðru leyti en því, að brezka þingið, sem mjög er tekið til fyrirmyndar í sambandi við starfshætti og þingsköp, gerði kostnaðarsama tilraun með lokað sjónvarp úr lávarðadeildinni. Ég held, að þeir hafi ekki gert það í fulltrúadeildinni. Þetta var ekki sent út, heldur var sjónvarpað úr salnum og síðan hægt að horfa á það og fylgjast með því á vissum stöðum annars staðar í byggingunni. Og niðurstaðan varð neikvæð. Þeir leyfðu ekki sjónvarp úr þingsölum, og það er raunar ekki heldur leyfilegt að taka ljósmyndir á þingfundum í London enn í dag.

Á hinn bóginn hafa verið tekin í notkun ný þinghús eins og t. d. bráðabirgðaþinghúsið í Stokkhólmi, þar sem aðstaða til sjónvarps er mjög góð, og sennilega mætti benda á þingsal Sameinuðu þjóðanna í New York sem mjög gott dæmi um góða lausn á þessum málum, því að þar er ætlazt til þess, að ljósmyndarar, kvikmyndatökumenn og sjónvarpsmenn séu allir í þar til gerðum stúkum á 2. hæð, þar sem mjög góð yfirsýn er yfir salinn. Þeir geta tekið þar nærmyndir með tækjum sínum, en þeir eru aldrei í salnum og trufla aldrei störf þingsins, hvað þá að þeir fái að fara inn í salinn meðan á fundum stendur. Þeir fá auðvitað að fara þangað, þegar fundir standa ekki yfir.

Ég vona, að Ríkisútvarpið fái fljótlega tæki til þess að geta sjónvarpað beint utanhúss, án þess að taka kvikmyndir, sem síðan verður að framkalla og kópíera. Ef til þess kemur, meðan við erum enn í þessu húsi, þá mun þurfa að athuga mjög, hvar og hvernig er hægt að veita sjónvarpi aðstöðu til þess að verkið sé vinnanlegt hér innanhúss. Það er alls ekki létt verk, og sjónvarp hefur yfirleitt truflað störf þingsins, meðan á slíku hefur staðið. Það eru opnaðar hurðir, sem alltaf eru lokaðar, og ljós eru sérstakt vandamál í þessu sambandi, því að það þarf að setja upp sérstaka lampa til að auka lýsingu. Í sölum, sem byggðir eru nú á dögum, er aðallýsing þannig, að nægi til allrar myndatöku og þurfi aldrei að nota svokölluð flassljós eða föst ljós við kvikmyndatöku og sjónvarp.

Ég get tekið undir það, sem aðrir ræðumenn hafa sagt, að frv., sem er orðið yfir 5 ára gamalt, er þess virði að athuga það nánar, og það eru ýmis ákvæði í því, sem sjálfsagt er að breyta í meðförum. Það er t. d. grein um skrifstofustjóra Alþingis, þar með ýmis ákvæði, sem eru orðin algerlega úrelt. Þar er t. d. vísað í launalög, sem ekki eru lengur til. Ég hygg, að hugsunarháttur manna hafi tekið nokkrum breytingum. Umdeildasta greinin í þessu frv. er grein um útvarps- og sjónvarpsumr., en þar hafa komið fram mjög mismunandi skoðanir, og vildu sumir, þegar frv. kom fyrst fram, að það væru engar beinar útvarpsumr., en að fréttamiðlunum væri heimilt að útvarpa héðan, sjónvarpa eða taka upp og prenta alveg eins og miðlarnir sjálfir vilja og þegar þeir vilja. Þess munu ekki vera mörg dæmi, ef þau eru nokkur til, að það sé sérstök grein í landslögum um það, hvernig á að útvarpa frá löggjafarsamkomunni. Hins vegar höfum við haft slíka grein og þetta er orðin hefð hjá okkur, og þau ákvæði, sem eru í frv. t. d. um lengd umr., eru málamiðlun. Í n., sem samdi þetta frv., voru menn, sem vildu ganga lengra í að skera niður ræður, hafa þær styttri, og aðrir, sem vildu varla ganga svona langt. Þetta er málamiðlum, 5 ára gömul, og þess vegna er eðlilegt, að n., sem fjallar um frv., ræði þetta frá grunni og athugi það, að hvaða leyti hún vill gera breytingar.