22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3076)

167. mál, landgrunn Íslands og hafið yfir því

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það er nú nokkuð liðið síðan þessu frv. var útbýtt hér í hv. d., og ég er ekki að finna að því, að það hafi ekki verið tekið fyrr á dagskrá. Þetta mun hafa verið fyrri hlutann í febrúarmánuði, en það var í þann mund, sem við vorum að vinna að því, sérstaklega í utanrmn., að ná samstöðu um landhelgismálið, sem og varð með þeirri þál., sem var samþ. í þinginu 15. febr., og var unnið að því, að þeim áfanga væri náð, áður en menn þá héldu á fund Norðurlandaráðsins í Helsingfors. Þá varð það að samkomulagi við forseta Nd. og milli okkar í utanrmn. að blanda ekki þessu máli á því stigi málsins inn í umr. um landhelgismálið, sem kynni að geta orsakað nokkurn misskilning og e. t. v. gefið til kynna ágreining, sem væri innan þingsalanna um þetta mál, sjálft málið, en þó var ekki, eins og kunnugt er.

Nú vil ég leyfa mér að gera grein fyrir því, að það eru einkum tvær ástæður, sem liggja til grundvallar því, að þetta frv. til l. um landgrunn Íslands o. fl. er flutt. Það er þá í fyrsta lagi það, að því miður varð nokkur ágreiningur um landhelgismálið á síðasta þingi og eins og kunnugt er, komu þá fram tvær þáltill., sem ekki varð samstaða um. Við, sem þá vorum í stjórnarliði og höfðum flutt þá till., sem samþ. var 7. apríl, töldum, að í þeirri þáltill. væri mjög skýrt mörkuð stefna okkar í sambandi við útfærslu landhelginnar, en samkv. henni kaus Alþ., eins og kunnugt er, 5 manna n. til þess að semja frv. til l. um landgrunn Íslands og landhelgismálið, sem ætlunin var að leggja fyrir þingið, þegar það kæmi saman í haust. Við sættum nokkurri gagnrýni fyrir, að þáltill. væri nokkuð óráðin og óljóst, hvað í henni fælist.

Nú varð niðurstaða málsins sú, eins og kunnugt er, að stjórnarskipti urðu eftir alþingiskosningarnar í júnímánuði, og þá tók hæstv. núv. sjútvrh. við forustu í þessari n. Ég orðaði það nokkrum sinnum við hann, að við legðum áherzlu á í stjórnarandstöðunni, að frv. það, sem gert var ráð fyrir í þáltill. okkar, yrði samið af þessari n., en það kom fyrir ekki. Síðan tókum við okkur til í stjórnarandstöðunni, þegar ekkert hafði gerzt í þessu máli á fyrri hluta þingsins, og þá var samið þetta frv., sem er í öllum meginatriðum byggt á þáltill. frá 7. apríl, og er nánar gerð grein fyrir því í grg. frv. En í sjálfri þáltill. voru gefin um það fyrirmæli af hálfu þingsins, hvað felast skyldi í hinu væntanlega frv., og það er á grundvelli þess, sem frv. er samið, og með þeirri kaflaskiptingu, sem gefur til kynna innihald þess.

Það eru þá fyrst og fremst yfirlýsingar um íslenzka landgrunnið og hafið yfir því, sem eru í 1. kaflanum, og rétt íslenzka ríkisins yfir landgrunninu, sem er í II. kaflanum. Um þetta er í sjálfu sér enginn ágreiningur á meðal þm. Hins vegar eru nokkuð óljósari fyrri fyrirmæli í lögum um þetta mál, en þó höfum við allt frá 1948 byggt á því, að við Íslendingar ættum rétt til landgrunnsins og vísindalegrar verndunar fiskimiða landgrunnsins, eins og þar er orðað, innan endimarka þess, án þess að það væri þá nánar skilgreint.

Í III. kaflanum eru svo ákvæðin um fiskveiðilandhelgina, og þar er um tvískiptingu að ræða, annars vegar 400 m jafndýpislínu, þar sem hún gengur út fyrir 50 sjómílna breidd frá grunnlínu, og svo í 8. gr. línu, sem dregin er 50 sjómílur frá grunnlínu.

Nú ætla ég ekki að fara að rifja upp neinn ágreining um þann mismun, sem komið hefur fram, bæði í flutningi þessa máls og í flutningi þáltill. frá okkur, því að í þáltill. frá 7. apríl 1971 var talað um ýmist 400 m jafndýpislínu, ef hún gengi út fyrir 50 sjómílurnar, eða aðra ákvörðun, sem tekin yrði um landgrunnið. En það er ljóst, að það liggur fyrir okkur mikið verk að kanna landgrunnið nánar og skilgreina, hvað í því felst, en það má segja, að í raun og veru hefðum við getað verið búnir að gera mikið í því að mæla það betur upp á undanförnum mánuðum, og ég minnist þess, að þegar Gunnar Bergsteinsson frá Sjómælingum Íslands, forstöðumaður Sjómælinganna, kom fram í sjónvarpi ekki alls fyrir löngu, þá held ég, að hann hafi gizkað á, að til allverulega miklu nánari og nákvæmari mælinga á landgrunninu heldur en nú liggja fyrir þyrfti afnot af góðu skipi og mælingartækjum svona um það bil um þriggja mánaða skeið. En Alþ. hafði heimilað á sínum tíma, eins og kunnugt er, ríkisstj. að festa kaup á tækjum, sem þyrfti til mælinga og ýmissa annarra rannsókna á landgrunninu, því að fyrir utan mælingar á því var auðvitað gert ráð fyrir því og hefur þegar verið gert nokkuð að því að reyna að gera sér grein fyrir, hvort í sjálfu landgrunninu, og þá á ég við hafsbotninn, séu nokkur verðmæti, sem okkur Íslendingum séu nokkurs virði. En það var þegar á árinu 1969, sem við helguðum okkur þau verðmæti, sem kynnu í landgrunninu að felast, og sú löggjöf var þá talin í fullu samræmi við alþjóðalög. Við höfum einmitt stutt tilkall okkar til hafsvæðisins yfir landgrunninu með þeim rökum, að þar sem strandríki væri talið og hefði verið um nokkuð langt skeið talið eiga ótvíræðan rétt til verðmæta í landgrunninu sjálfu, þá væri það ekki rökrétt að telja því ekki einnig sérstæðan og einstæðan rétt til sjálfs hafsvæðisins yfir landgrunninu og þeirra verðmæta, sem í því felast.

En eins og ég sagði áðan, þá ætla ég nú ekki að rifja upp neinar deilur um þetta atriði, og að sjálfsögðu mundum við, ef frv. þetta eða annað frv. yrði samþ. um landhelgina, áður en þingi lýkur, vera allir sammála um það að miða okkur við það samkomulag, sem felst í þáltill. frá 15. febr. s. l., en eftir að felld hafði verið till. okkar sjálfstæðismanna og stjórnarandstæðinga um viðmiðun við 400 m jafndýpislínu urðum við sammála öðrum þm. um 50 sjómílna landhelgina frá grunnlínum, eins og kunnugt er.

Aðrir kaflar í þessu frv. eru einnig um atriði, sem eiga ekki að þurfa að valda neinum ágreiningi, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins og mengunarlögsögu. Þar er að verulegu leyti byggt á eldri löggjöf, og alveg eins og ákvæði landgrunnslaganna frá 1969 eru tekin inn í þetta frv., þá eru einmitt ákvæði úr landgrunnslögum frá 1948 með sama hætti tekin inn í þennan kafla þessa frv.

Þetta skal ég láta nægja um fyrra atriðið, sem er ástæða þess, að við flytjum þetta frv., að árétta það, sem við ályktuðum í þinginu 7. apríl 1971 og engan veginn er neinum efa undirorpið og sjálf ákvæði þessa frv. einmitt grundvallast á.

Hitt atriðið er svo það, að þegar við stöndum í þessum stórræðum, sem við nú stöndum í í sambandi við útfærslu landhelginnar, þá töldum við einnig, að það væri eðlilegt, að þingið fengi til meðferðar sjálfa landhelgisákvörðunina, eins og gert er í þessu frv. Það er rétt, að formlega er hægt að ákvarða hana með reglugerð á grundvelli eldri laga, en það hefur verið talið veigamikið atriði hér í þingi og, utan þings meðal þjóðarinnar og jafnvel fyrir utan landsteinana sú mikla samstaða, sem náðist í þál. frá 15. febr., og eins hygg ég, að það væri mikilvægt, að 60 þm. gætu sameinazt um ákvörðunina með löggjöf um landhelgi Íslands, áður en þingi lyki. Ég veit, að um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir, og skal ég ekki heldur hefja nú á þessum vettvangi deilur um það. En þetta hefur verið mín skoðun, að það væri styrkur að því, að þegar landhelgin væri ákvörðuð, þá væri það gert með löggjöf, sem væntanlega allir hv. þm. væru þá einhuga um að standa að, en síður með reglugerð, eins og við höfum þó áður gert og eins og ég sagði getur formlega staðizt.

Ég vil svo, herra forseti, ekki hefja að ástæðulausu, nema sérstakt tilefni gefist, frekari deilur um málið nú, en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til umr. og hv. sjútvn.