10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það fór ekki hjá því, að ég undraðist svolitið málflutning hv. siðasta ræðumanns, Gils Guðmundssonar, 4. þm. Reykn. Hann fór að upphefja hér almennar stjórnmálaumr. og ræða um stjórnarandstöðu og önnur eldhúsdagsmál, að því er mér fannst. Ég ætla ekki að gera miklar aths. við þennan málflutning hv. þm., en ég man ekki eftir því, þó að ég verði að játa, að það er ekki svo langt síðan ég fór að fylgjast náið með stjórnmálum, að fyrrv. stjórnarandstaða flytti hér á Alþ. neinar sérstakar ástarjátningar til fyrrv. ríkisstj., en það má vel vera, að svo hafi verið, þótt ég hafi ekki fylgzt með því.

Það var skemmtilegt að heyra hv. þm. stiga í vænginn við Alþfl. Formaður hans hafði hér lýst því skilmerkilega, að því er mér skildist, að hann teldi, að þessi mjög svo merka löggjöf, sem hv. stjórnarsinnar segja, að felist í frv., væri bara algerlega óþörf, og það væri hægt að framkvæma hér áætlanagerð, þó að frv. yrði aldrei að lögum. Þess vegna fannst mér nú þessi vissa ástarjátning til Alþfl. vera svolítið órökstudd í þessu máli.

Ég þarf aðeins að gera eina aths. við ræðu hæstv. forsrh. Þar er af mörgu að taka, en ég vil aðeins taka hér eitt atriði út úr. Hann sagði, að byggt væri á málefnasamningi ríkisstj. í sambandi við þetta frv. Ég lít svo á, að þarna hafi hæstv. forsrh. hallað að nokkru leyti réttu máli. Í þessum margfræga stjórnarsamningi stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í tengslum við Framkvæmdastofnun ríkisins skal starfa sjóður undir sérstakri stjórn, sem veiti fjárstuðning til þess að treysta sem bezt eðlilega þróun í byggð landsins.“

Hér er í mjög mikilvægu efni vikið algerlega frá helgum stjórnarsamningnum, eins og hann virðist vera í hugum hv. stjórnar sinna. Ég lít svo á, að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði, og hefði talið, að það hefði verið mikil bót á þessu frv., ef þessi sjóður hefði fengið að vera undir sérstakri stjórn, þar sem hann á við mjög sérstök verkefni að glíma. Ég þykist tala þar af nokkurri reynslu og er þar á öndverðum meiði við formann Alþfl., en hann komst einhvern veginn þannig að orði, að sér fyndist þetta vera ein bezta gr. frv., að sameina Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð. Þar er ég algerlega á öndverðri skoðun og þykist tala þar af nokkurri reynslu.

Frv. það til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hér liggur fyrir hv. Nd. ásamt breytingum Ed., er mjög viðamikið mál, sem mun, ef að lögum verður í óbreyttu formi, hafa víðtæk áhrif á íslenzkan þjóðarbúskap þann tíma, sem ákvæði þessi verða í gildi. Það fer ekki á milli mála, að mesta athygli veki við frv., að með því er ætlað að koma á fót sérstakri stofnun með allsérstæðri pólitískri stjórn, sem vinni að mótun og framkvæmd stefnunnar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, eins og segir í aths. frv. Stofnunin á að vera sjálfstæð, þótt hún sé laustengd við forsrn., ef svo mætti að orði kveða. Það er opinhert leyndarmál, að þrír pólitískir umboðsmenn stjórnarflokkanna eiga að fara með daglega stjórn stofnunarinnar. Hæstv. forsrh., sem ber stjórnskipulega ábyrgð á stofnuninni gagnvart Alþ. og ríkisstj., fær við hlið sér þrjá pólitíska umboðsmenn. Slíkir umboðsmenn hafa, eins og kunnugt er, í íslenzkum bókmenntum verið nefndir Umbar, en ýmsir aðrir hér hafa kallað þá kommissara hér í sölum Alþ. Ég skal nú ekki segja um það, hvort væri meira réttnefni á þessum ágætu mönnum.

Það hlýtur einnig að vekja mikla athygli, að í umr. hefur komið fram, að stofnuninni er ætlað, að því er virðist, að annast framkvæmd stefnunnar í efnahagsog atvinnumálum þjóðarinnar, og hér eftir ætti því miklu fargi að vera létt af Alþ. og ríkisstj. sjálfri. Án efa eru þetta ein þýðingarmestu verkefni, sem í lýðræðislandi eru einmitt falin þessum aðilum. Með þeim breytingum á lögum, sem stefnt er að með þessu frv., er hv. Alþ. að framselja mikinn hluta þessa valds til sérstakrar stofnunar, sem er í annarlegum og óbeinum tengslum við hið eiginlega löggjafar- og framkvæmdavald, sem þjóðin hefur falið Alþ. og ríkisstjórn. Í frv. er gert ráð fyrir því, að Framkvæmdastofnun ríkisins móti og framkvæmi, eins og ég sagði áðan, stefnuna í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar með svo nefndri heildarstjórn fjárfestingarmála. En hún er, að því er séð verður, talin felast í hagrannsóknum, áætlanagerð og útvegun fjármagns með valdboði til þeirra framkvæmda, sem forgang skuli hafa hverju sinni.

Þetta er það, sem helzt má lesa út úr frv., en hvergi er þó gerð tilraun til þess að gera Alþ. grein fyrir því kerfi hagrannsókna, áætlanagerða og stjórnar fjárfestingarmála, sem upp á að taka. Um þa8 er allt á huldu og orðalag mjög óljóst í þessu frv. En þau verkefni og valdsvið, sem frv. fjallar um, eru sem hér segir: Hagrannsóknir, áætlanagerð um framkvæmdir, bæði er varðar einkaaðila í atvinnurekstri og opinbera aðila, svo og fjármagnsútvegun til þeirra. Allt þetta á að setja undir pólitíska stjórn með þeim hætti, sem áður er lýst, og úr á að verða heildarstjórn fjárfestingarmála í landinu, mótun og framkvæmd stefnunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um þau verkefni, sem Framkvæmdastofnun ríkisins eru ætluð með frv., og gera grein fyrir því, hvernig mér virðist, að hún muni leysa þau af hendi, að því er hægt er að sjá af frv.

Þá er þar fyrst til máls að taka, að hagrannsóknir felast fyrst og fremst í upplýsingaöflun og vísindalegri úrvinnslu staðreynda efnahagslífsins, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Þær beinast og að því að gera sér rökstudda grein fyrir framtíðarhorfum efnahagsmálanna, eftir því sem unnt er og fyrri reynsla bendir til. Flestar ríkisstjórnir í veröldinni beita þessum aðferðum til þess að fá vitneskju um heildarþróun efnahagsmálanna hverju sinni og einstakra þátta þeirra. Þær óska líka eftir ráðgjöf þeirra aðila, sem annast slíkar hagrannsóknir, um, hvað þeim finnist hverju sinni þurfa að gera til að viðhalda heilbrigðu efnahagslífi. Það þurfa því að vera bein tengsl milli hagrannsóknastofnunar og ríkisstjórnar, ef vel á að vera, og slík stofnun þarf að hafa frumkvæði að því að gera viðkomandi ríkisstj. viðvart um framvindu efnahagsmálanna.

Í augum uppi liggur, að höfundum frv. hefur ekki verið ljós þessi nauðsyn á sjálfstæði hagrannsóknastofnunar og frumkvæði hennar. Í fyrsta lagi er komizt svo að orði, þar sem ræðir um hagrannsóknadeild í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Deildin annast þær hagfræðilegar athuganir fyrir ríkisstj., sem hún kann að óska eftir.“ Í stað þessa hefði átt að kveða svo að orði, að umrædd deild annaðist að eigin frumkvæði athuganir á þeim þáttum efnahagslífsins, sem nauðsynlegt er talið hverju sinni, og eigi jafnframt að vera ráðgefandi fyrir ríkisstj. í efnahagsmálum.

Í annan stað er svo hinn mikilvægi þáttur í stjórn efnahagsmála, sem er starfsemi hagrannsóknadeildar, settur undir stjórn pólitískra umboðsmanna stjórnarflokkanna. Hér er um nánast hlægilega ráðstöfun að ræða, þar sem umrædd stofnun hlýtur að vera strangvísindaleg og á að vera í sem allra beinustum tengslum við ríkisstj. og þá fyrst og fremst við forsrh. og fjmrh. Þessi ráðstöfun er þó ekki bara hlægileg, heldur hlýtur hún að vekja margvíslega tortryggni í garð þessarar stofnunar, vegna þess hvernig í pottinn er búið með stjórn hennar, og þar með valda stórkostlegum skaða fyrir stofnunina sjálfa og þjóðarheildina.

Einn veigamesti gallinn á þessu frv. er því sá, þegar frá eru talin ákvæðin um hina pólitísku umboðsmenn og völd þeirra, að hagrannsóknadeildinni skyldi þröngvað inn í Framkvæmdastofnunina. Fyrir því hef ég fært rök hér áður. En einnig ber á það að líta, að það er gersamlega óþarft að hafa þennan hátt á. Hagrannsóknadeildin hefði eftir sem áður, þótt hún væri sjálfstæð, getað látið Framkvæmdastofnuninni allar þær upplýsingar í té, sem óskað hefði verið eftir, og raunar hefði starf hennar í því efni verið miklum mun auðveldara, eins og þeir hljóta að sjá og skilja, sem snefil hafa af reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Annað verkefni, sem á að fela hinni miklu Framkvæmdastofnun ríkisins, er hvers konar áætlanagerð. Engin tilraun er þó gerð til þess í frv. að skilgreina, við hvað sé átt með áætlanagerð né heldur, hvernig umræddri stofnun heimilast að beita áætlanagerð sem stjórntæki. Ummæli hæstv. forsrh. hér áðan um, að allítarleg ákvæði séu í frv. um áætlanagerð, eru því vægast sagt lítt skiljanleg. Sú furðulega þokuhugsun, sem gægist alls staðar í gegnum gr. frv., er fjalla um áætlanagerð, birtist einna átakanlegast í 1. mgr. 10. gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ákveður, í hvaða röð skuli unnið að áætlanaverkefnum og hver vera skulu markmið og forsendur hverrar áætlunar.“ Í þessu felst eftir orðanna hljóðan, að stofnunin á ekki að hafa efnahagslegar og félagslegar staðreyndir sem forsendur áætlanagerðarinnar, sem hún á að gera og framkvæma, heldur á hún að gefa sér bæði markmiðin og forsendurnar að vild. Ég held, að hv. alþm. Björn Pálsson, mundi kalla þetta orðalag djúpviturlegt, en menn geta svona rétt gert sér í hugarlund, hvað er bitastætt í áætlunum, sem byggjast á tilbúnum forsendum þeirra, sem verkin vinna, og einkum ef þar er um pólitíska aðila að ræða.

Að sjálfsögðu felst áætlanagerð ekki sízt í því að kanna til hlítar allar aðstæður, sem fyrir hendi eru á því sviði, sem áætlunin nær til. Ef gerð er áætlun um byggingu skóla í ákveðnu kjördæmi, þá þarf fyrst að kanna, hvernig ástatt er í þessu efni. Menn gefa sér ekki einfaldlega þær forsendur, að þar séu 10 skólar með samtals 100 kennslustofum. Eftir að könnun hefur farið fram á öllum aðstæðum, er reynt að gera sér grein fyrir framkvæmdaþörf á tilteknu árabili. Tillögur um úrbætur hljóta að verða í samræmi við þetta. M.ö.o. felst áætlanagerð öðru fremur í því að kanna raunverulegar aðstæður á því sviði, sem áætlanagerðinni er ætlað að fjalla um, og leitast við að sjá fyrir, hvernig þær aðstæður muni breytast á áætlunartímabilinu, og hvernig við því skuli brugðizt. Þannig er t.d. um svo nefndar byggðaáætlanir. Við gerð þeirra er tímafrekast og erfiðast að gera sér sem nákvæmasta grein fyrir ástæðum og eðli byggðavandans í hverjum landshluta. Að nauðsyn þess að vinna að könnun á ástæðum fyrir byggðavandanum er þó hvergi vikið í frv. E.t.v. eiga umboðsmennirnir að geta sér til um, hver hann er, í samræmi við það orðalag, að þeir eigi að gefa sér forsendur áætlananna.

Nú er sannast sagna, að flestir muni einhuga um áætlanagerð, sem varðar opinberar framkvæmdir. Hv. alþm. þekkja það af eigin reynslu, bæði af fjárlagagerð og gerð annarra áætlana, sem Alþ. hefur á sinni könnu, að vandinn er sá að geta leyst sem bezt úr þörfum fyrir framkvæmdir miðað við ríkjandi aðstæður og takmarkað fjármagn. Hv. alþm. vita líka, að þetta verkefni verður ekki leyst þrátt fyrir góðan vilja fjvn., nema til komi raunsæjar og skynsamlegar áætlanir einstakra ríkisstofnana sjálfra og síðan samræming á fyrirætlunum þeirra í heild, eftir því sem fjárhagsleg geta er til og Alþ. ákveður hverju sinni. Um þetta held ég að menn séu algerlega sammála, hvar í flokki sem þeir eru, og því víl ég fjalla nokkru nánar um þessa tegund áætlanagerðar.

Fjárlög eru öðrum þræði framkvæmdaáætlun til eins árs. Við gerð þeirrar áætlunar er fylgt þeim vinnubrögðum, að tillögur koma frá hverri ríkisstofnun fyrir sig um fjárveitingar. Við endurmat á þeim og til samræmingar og aðhalds fer fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn. yfir þessar tillögur, gagnrýnir þær og samhæfir. Þær tillögur, sem eru í eðli sínu margar framkvæmdaáætlanir, koma síðan fyrir fjvn., sem gerir tillögur til Alþ., og Alþ. tekur síðan ákvörðun um, hvernig hin endanlega áætlun verður í ríkisbúskapnum fyrir viðkomandi fjárlagaár. Ég held, að flestir geti orðið sammála um, að tæknileg gerð fjárlaga hefur sífellt farið batnandi með ári hverju, þótt auðvitað sé enn þá hægt um að bæta. Þessi þróun á rætur að rekja til þess, að áætlanir einstakra stofnana og rn. hafa stórbatnað, ekki sízt með tilkomu fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar. En ég vil biðja menn að hafa það ríkt í huga, að þessi áætlanagerð byrjar, ef svo mætti segja, neðan frá. Hún kemur ekki sem valdboð að ofan. Áherzlu ber líka að leggja á, að sjálf áætlanagerðin er skýrt afmörkuð frá því að taka ákvörðun og sjá fyrir fjármagnsútvegun. Einstakar ríkisstofnanir annast frumáætlanagerðina með aðstoð fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, en Alþ. tekur ákvarðanir og sér um fjármagnsútvegun.

Þótt sá almenni skilningur sé fyrir hendi um þau vinnubrögð í opinberri áætlanagerð, sem ég hef gert hér að umtalsefni, verður ekki séð af frv., að gert sé ráð fyrir slíkum vinnubrögðum í áætlanagerð fyrir opinbera aðila. Engu er líkara en að mikill hluti ákvörðunarvalds Alþ. eigi að færast til stofnunarinnar. Þetta er að vísu mjög óljóst eins og mörg ákvæði í frv., en það vekur furðu, að hvergi er minnzt á samstarf við fjárveitingarvald Alþ. né fjárlaga- og hagsýslustofnunina né heldur vikið að lögum um opinberar framkvæmdir. Á hinn bóginn er vikið að því, að Framkvæmdastofnunin geti gert áætlanir fyrir einstök rn. Einnig er stofnuninni heimilað að veita vaxtalaus lán, eða jafnvel óafturkræf framlög til opinberra framkvæmda, sem jaðrar við, að henni sé veitt beint fjárveitingarvald.

Það er jafnvel enn þá óljósara, hvað átt er við t frv. um áætlanir um uppbyggingu og þróun atvinnugreina, bæði í einstökum byggðarlögum og á landinu öllu. Er átt við áætlanir, sem hvetja og örva einstaklinga og félög til athafna, eða er átt við áætlanir, sem felast í því, að hið opinbera taki verulega aukinn þátt í beinum atvinnurekstri, en takmarki með ýmsum hætti svigrúm einstaklinga til atvinnuumsvifa? Sannleikurinn er sá, að áætlanavinnubrögð geta leitt til hvors tveggja, eftir því hvernig á er haldið. Það er hægt með þeim að hvetja og örva einstaklinga til þess að gera sem heild rétta hluti á réttum tíma, þannig að hagur hvers og eins og þjóðarbúsins í heild batni. En það er líka hægt að lama það frumafl og framtak einstaklinga og félagasamtaka þeirra, sem er undirrótin að örum framförum, með áætlunarvinnubrögðum, ef þau eru byggð á valdboði fárra pólitíkusa að ofan. Því fer það einfaldlega eftir því, hvernig á er haldið, hvort áætlanagerð, hagrannsóknir og heildarstjórn fjárfestingarmála, sem eru falleg hugtök í sjálfu sér í flestra hugum, leiða til hvatningarkerfis, sem virkjar frumorku og framkvæmdavilja í þjóðfélaginu, eða nauðungarkerfis, sem þröngvar kosti þjóðfélagsþegnanna, lemur þá suma til hlýðni við opinbert vald, en aðra ekki.

Því miður verður ekki ráðið af frv., hvernig ætlunin er að beita áætlanagerð sem stjórntæki. Hugtakið er með öllu óskilgreint og orðalagið svo óljóst, að ýmist segir, að heildarstjórn fjárfestingarmála felist í áætlanagerðinni eða áætlanagerð í heildarstjórn fjárfestingarmála. Sá grunur hlýtur þó að gera vart við sig, svo að vægilega sé til orða tekið, vegna pólitískra skoðana þeirra, sem hér eru að verki, að þau vinnubrögð verði ekki til örvunar athafnalífi einstaklinga og félagasamtaka, heldur þvert á móti.

Þriðja meginverkefnið, sem Framkvæmdastofnuninni er falið, er stjórn Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs. Hið síðara atriði er í rauninni brot á hinum helga stjórnarsáttmála, eins og ég vék hér að í upphafi máls míns. Í stjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um þetta. Ákvæðið mun hafa verið komið inn í sáttmálann að ósk framsóknarmanna, en aðsópsmesti stjórnarflokkurinn vildi annað, og þá varð auðvitað að beygja sig eins og jafnan áður, jafnvel þótt brot væri á sáttmálagerðinni. Auk stjórnar stofnunarinnar á Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði er henni falið víðtækt og gerræðislegt vald yfir öðrum sjóðum og lánastofnunum í landinu, m.a.s. sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga. Þar er orðalagið ekkert hálfkák, þegar tryggja á völd hinna pólitísku umboðsmanna, svo sem sést á 3. mgr. 12. gr. frv.

Niðurstaðan af því, hvernig Framkvæmdastofnun ríkisins geti sinnt framangreindum þrem meginverkefnum sínum samkv. frv., er því sú, að hagrannsóknir í landinu verði settar í eins konar spennitreyju með því að færa þær inn í stofnunina. Ákvæðin um áætlanagerð eru svo þokukennd og ónákvæm, að enginn getur sagt, hvernig þeim verkum reiðir af, en völd hinna pólitísku umboðsmanna eru á hinn bóginn ótvíræð, og í raun réttri er það eina mikilvæga atriðið, sem frv. felur í sér sem nýmæli frá núgildandi lögum.

Ég hef nú tíundað nokkra stórgalla þessa frv., sem hér er til umr. Til þess þó að verða ekki sakaður um að fjalla hér einungis um hinar dökku hliðar frv., þá vil ég leyfa mér að lokum að ræða hér nokkuð um þau nýmæli, sem sagt er, að séu í frv., að því er segir í aths. þess. Þar segir fyrst, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveðið er að tengja saman í eina stofnun áætlunargerð og öflun fjármagns þannig, að samræmi,og sámstarf sé um áætlun og ákvörðun um framkvæmd og fjáröflun og fjármagnsráðstöfun til hennar.“

Hér er út af fyrir sig um að ræða virðingarverða hugsun, en gallinn er sá, að samræming og samstarf um áætlanir og fjáröflun til þeirra er ekki nýmæli hér á landi. Sem dæmi vil ég nefna gerð byggðaáætlana í Efnahagsstofnuninni og samstarf hennar við fjárfestingarsjóði og ríkisvald um fjáröflun til þeirra, svo og starfsemi Seðlabankans. Einnig vil ég sérstaklega benda á starfsemi svo nefndra atvinnumálanefnda, sem nutu aðstoðar Efnahagsstofnunarinnar um víðtækt samstarf, til þess að umsækjendur um lán, sem hefðu í för með sér atvinnuskapandi framkvæmdir, gætu fengið heildarúrlausn sins vanda, þótt fjármagnið kæmi úr tveimur eða þremur stofnlánasjóðum. Ég get hiklaust lýst yfir þeirri skoðun minni hér, að tímabært sé nú eftir þá reynslu og þá góðu og gagnlegu þróun, sem orðið hefur í þessum efnum, að setja nánari reglur um samstarf stofnlánasjóðs og lánastofnana um fyrirgreiðslu við einstök fyrirtæki. Þetta átti að minni hyggju hins vegar að gera með samstarfi, en ekki valdboði. T.d. hefði verið nægilegt, að Framkvæmdastofnunin réði yfir fjármagni Framkvæmdasjóðs, sem að meginhluta er lánað öðrum stofnlánasjóðum, til þess að auðvelda samninga við viðkomandi sjóði og auka áhrifavald stofnunarinnar á ráðstöfun fjármagns almennt.

Annað nýmæli, sem sagt er, að sé í þessu frv., er svo, með leyfi hæstv. forseta, — ég les bara fyrstu setningarnar:

„Ákveðið er að tengja saman og efla samstarf margra aðila um áætlanagerð, sem til þess hafa haft of litið samstarf sin á milli. Er hér um að ræða opinberar stofnanir, aðila frá atvinnuvegunum, rannsóknar- og vísindastofnanir, lánastofnanir og fleiri aðila.“

Í þessu orðalagi er beinlínis viðurkennt, að áðurnefndir aðilar hafi haft samstarf sín á milli, þótt hér sé svo komizt að orði, að það hafi verið of lítið. Hér er því alls ekki um nýmæli að ræða.

Þriðja nýmælið er svo:

„Ákveðið er, að stofnunin framfylgi byggðaþróunarstefnu með sérstakri áætlanagerð. Jafnframt er þessi áætlanagerð með sérstökum hætti tengd mjög traustum böndum við fjármagnsöflun til þeirra framkvæmda, sem áætlaðar eru og ákveðnar eru á hverjum tíma. Fjármagn Byggðasjóðs er stóraukið.“

Það er staðreynd, sem ekki verður fram hjá gengið, þótt núv. stjórnarflokkar séu allir af vilja gerðir, að Atvinnujöfnunarsjóður, svo að notað sé orðalag hér í aths. frv., hefur framfylgt byggðaþróunarstefnu með sérstakri áætlanagerð. Að þetta sé nýmæli, sem upp eigi að taka með frv., er því ekki bara hálfsannleikur, heldur er beinlínis hér hallað réttu máli. Um þá fullyrðingu, að fjármagn Byggðasjóðs sé stóraukið, er það að segja, að núv. hæstv. fjmrh. lagði fyrir siðasta Alþ. ásamt nokkrum framsóknarmönnum frv. til l. um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins. Sú stofnun átti að fá allar tekjur Atvinnujöfnunarsjóðs eins og svo nefndur Byggðasjóður, en ekki bara 100 millj. kr. á ári í 10 ár frá ríkissjóði, heldur 2% af tekjum ríkissjóðs, skýrt tekið fram, í fyrsta skipti árið 1972. Samkv. því ætti ríkissjóður að leggja, að því er mér skilst, Byggðasjóði til nálægt 300 millj. kr. á næsta fjárhagsári og auðvitað hækkandi framlög, eftir því sem fjárlög kynnu að hækka. Mér er því spurn. Er hæstv. fjmrh. ánægður með þetta orðalag, að fjármagn Byggðasjóðs sé stóraukið? Mundi hann fylgja brtt. frá mér núna, sem orðaðist eins og í hans eigin frv. frá síðasta þingi? Varla yrði það talið óábyrgt af núv. stjórnarandstöðu að flytja slíka brtt. nú.

Fjórða nýmælið orðast svo, með leyfi forseta: „Framkvæmd þessarar byggðastefnu er svo að auki tryggð með sérstökum tengslum við landshlutasamtök sveitarfélaganna, bæði að því er varðar áætlanagerð og kostnað landshlutasamtakanna af því starfi.“

Um þessa aths. frv. er mér nær að halda, að einhverjir þeir, sem lagt hafa hönd að undirbúningi þessa frv., viti mætavel, að framkvæmd byggðastefnu hefur verið tryggð með tengslum Atvinnujöfnunarsjóðs og Efnahagsstofnunar við landshlutasamtök sveitarfélaga. Þetta er því ekki frekar nýmæli en þau, sem á undan eru talin.

Fimmta svo nefnda nýmælið orðast svo: „Framkvæmdastofnun ríkisins getur átt frumkvæðið að stofnun nýrra fyrirtækja, annazt rannsóknir, áætlanir og annan undirbúning að stofnun þeirra, tryggt þeim eðlilegt lánsfé til stofnunar og starfrækslu og samið síðan við aðila atvinnuveganna um að hrinda málinu í framkvæmd.“

Eins og aths. í frv. er orðuð, felst ekki í henni nýmæli. Það væri ekkert því til fyrirstöðu fyrir Atvinnujöfnunarsjóð að hafa þannig frumkvæði um stofnun fyrirtækis að láta athuga arðsemi hugmyndar að nýju fyrirtæki og fá hana fullskapaða í hendur einhverjum, sem vildi koma því á fót og reka slíkt er þó ákaflega vandmeðfarið fyrir opinberan aðila, vegna þess að ábyrgð hans á framtið fyrirtækisins er þá orðin óþægilega mikil, a.m.k. ef illa fer. Aftur á móti hafa ýmsar opinberar stofnanir kannað í samstarfi grundvöll fyrirtækja, sem einstaklingar eða félög hafa átt hugmynd að. Í þessu felst því ekki nýmæli, eins og þessi aths. er orðuð, en hér mun átt við, að Byggðasjóður getur átt hlut í fyrirtækjum, og það ákvæði tel ég, að eigi rétt á sér, en er jafnframt mjög vandmeðfarið í framkvæmd.

Sjötta svo nefnda nýmælið, sem talið er, að sé í þessu frv., orðast svo:

„Stjórnarandstöðuflokkunum er tryggð eðlileg aðild að stjórn stofnunarinnar, og eiga þeir þess því kost að fylgjast náið með störfum hennar og hafa aðstöðu til áhrifa á framþróun og gang mála.“

Út af þessu nýmæli vildi ég nú sagt hafa, að það er athyglisvert, að ekki er minnzt einu orði á það hvaða aðstaða stjórnarflokkunum er tryggð með frv., en það er, eins og áður segir, meginefni frv. og höfuðtilgangur. Stjórnarandstaðan hefur alltaf átt aðgang að Efnahagsstofnuninni og hagráði, þannig að hún hefur jafnan haft tiltækar upplýsingar til þess að móta stefnu sína í efnahagsmálum, þótt því miður hafi orðið harla klén stefnumörkun út úr því á undanförnum árum.

Sjöunda nýmælið orðast svo:

„Stefnt er að því, að Framkvæmdastofnunin hafi með tímanum á að skipa sem hæfustu liði sérmenntaðra manna með nána þekkingu á efnahagskerfi og atvinnulífi þjóðarinnar, er orðið geti hvaða ríkisstj., sem með völd fer, að liði við mótun stefnu í efnahags- og atvinnumálum.“

Ég verð nú að segja það, að mér finnst þetta nýmæli næstum því skemmtilegt, þegar það kemur frá þeim aðilum, sem hér um ræðir. Núv. stjórnarflokkar réðust sem kunnugt er oftsinnis með offorsi að fyrrv. ríkisstj. fyrir það skrifstofubákn, sem Efnahagsstofnunin var í þeirra augum. Nú er bara stefnt beint að því, eftir því sem hér er tíundað, að safna miklu og fríðu liði sérmenntaðra manna í Framkvæmdastofnun ríkisins. Einhverjum kann líka að koma í hug, að núv. ríkisstj. gumaði mjög af því, þegar hún samdi sinn fræga stjórnarsáttmála, að þar hefðu ekki komið nærri neinir sérfræðingar. Þar hefði brjóstvitið eitt verið látið duga, en það er ágætt, þegar menn sjá að sér, og vonandi er svo um trú hæstv. ríkisstj. á sérfræðingum, að hún trúir þeim betur, eftir þessum aths. að dæma.

Þá eru upptalin þau nýmæli, sem hæstv. ríkisstj. telur, að hún stefni að með margnefndu frv. Í ljós kom, að þau hefðu eiginlega átt að vera átta. Það gleymdist sem sé aðalnýmælið um umboðsmenn stjórnarflokkanna og hin ógnþrungnu völd þeirra. Hin sjö reyndust við athugun alls ekki vera nýmæli utan það eitt að safna fríðu liði sérfræðinga í hina miklu stofnun.

Útkoman er því sú, þegar málið er hrotið til mergjar lið fyrir lið, að eftir stendur pólitískt miðstjórnarbákn, sem hæglega er hægt að nota jafn hastarlega og fjárfestingarleyfi og höft, ef svo er að málum staðið, en þau vinnubrögð eru, eins og kunnugt er, ákaflega hjartfólgin þeim, sem nú sitja við æðstu völd í landinu.