06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

183. mál, ítala

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um ítölu. Búskaparhættir hafa breytzt allmikið hér á landi s. l. áratugi. Ég hef lesið það í gömlum fræðum, að þeir, sem höfðu eignarhald eða umráðarétt yfir afréttum, voru að klaga það fyrir stjórnum, sýslunefndum og yfirleitt forráðamönnum héraðanna, að bændur rækju ekki á afrétt og þeir fengju ekki fjalltoll greiddan. Þá voru skepnur svo fáar, að bændur þurftu ekki að reka þær á afrétt, þeir höfðu nægilegt land, a. m. k. viss tímabil. Og þá kvörtuðu þeir yfir því, sem áttu að taka fjalltollana, að þeir fengju þá ekki greidda. Þetta hefur breytzt allmikið. Tæknin hefur haldið innreið sína til bænda hér á landi og skepnur eru orðnar mjög margar og má búast við, að þær verði fleiri en þær eru nú. Þá koma til greina landþrengsli. Ég kynntist dálítið, hvernig menn höguðu sér erlendis, þar sem voru miklar fjárhjarðir. Ég var 6 mánuði í Nýja-Sjálandi t. d., og ég ferðaðist ofurlítið um meginland Ástralíu. Þar voru löndin girt sundur í hólf. Ég spurði þá, hvers vegna þeir gerðu þetta. Þeir sögðust gera það, til þess að beitin notaðist betur, það færi minna í traðk og skepnur rásuðu minna. Það hefur ekki verið gert mikið af þessu hér á landi, en ég hygg, að það muni færast í vöxt. Þeir, sem ætla að hafa margt fé, hvort það er heldur sauðfé eða hross, verða að girða löndin í sundur, ef þau eiga að nýtast til fulls. Í Nýja-Sjálandi var það þannig, að þeir voru búnir að þurrka og rækta hér um bil allt landið og beittu skepnunum á ræktað land, en það var ekki eins í Ástralíu, enda eru löndin þar miklu stærri. Þar eru heimalönd sumra bænda, þeirra sem hafa ullarfé, svo stór, að þau eru álíka stór og heilar sýslur hér, enda hafa sumir þeirra 50 þús. fjár. Þeir hafa Merinó-fé og leggja aðallega upp úr ullarræktinni. Ég hygg, að það muni færast í það horf hér á landi, að löndin verði girt í sundur, þar sem mikið er um sauðfé og hross og eins þar sem kýr eru að nokkru leyti. Sums staðar hafa lönd hér verið ógirt. Þar sem fjalllendi er, er ekki aðstaða til þess að girða, girðingar standa þar illa, en ég hygg, að þar sem flatlendi er mikið, þar muni löndin verða fyrst og fremst girt af á landamerkjum og auk þess hólfuð í sundur, svo að beitarþolið verði meira.

Lög um ítölu hafa verið alllengi í gildi hér. Ég held, að Skúli heitinn Guðmundsson hafi fyrst komið lögum í gegn um ítölu og síðar, eða 1969, eru þau tekin upp í lög um fjallskil og afréttarmálefni. Þau hafa verið tekin þar upp sem kafli.

Við höfum haft mikinn hug á því, Húnvetningar, að koma ítölu á hjá okkur, en oddvitarnir sögðu mér, að það væri ekki hægt að koma ítölu á eins og lögin væru. Ég fór að kynna mér þetta í vetur og lesa lögin, og ég álít, að það sé mjög óhagkvæmt að hafa lögin eins og þau eru nú.Ég samdi því frv. og studdist sem allra minnst við þau lög, sem fyrir voru, svo að þau rugluðu mig ekkert, og reyndi að gera frv. þannig, að sem auðveldast sé að koma ítölu á.

Að sjálfsögðu er þetta misjafnt. Sumir hafa ekki þörf fyrir ítölu. Ég hygg t. d., að á Norðausturlandi séu afréttirnar það rúmgóðar, að það sé ekki þörf fyrir ítölu, og eins er það þar sem fjalllendi er, eins og t. d. í fjörðunum austanlands og á Vestfjörðum, að þar er eiginlega ekki hægt að koma við ítölu. Það er ekki til neins að setja ítölu nema girt sé á milli heimalanda og afrétta, annars hefur það ekki þýðingu. En um miðbik landsins er þörfin mest. Sérstaklega er það t. d. um afréttir Skagfirðinga, Húnvetninga, Dalamanna, Borgfirðinga og Mýramanna og svo Árnesinga sennilega, þar er vafalaust í mörgum tilfellum þörf fyrir ítölu.

Ég hef rætt þetta mál við Ingva Þorsteinsson, sem hefur rannsakað gróðurlendi hálendisins meira en nokkur annar, og hann álítur, að á vesturhluta afréttanna sé yfirleitt um ofbeit að ræða. Nú er það svo, að ýmsir eiga mjög mikið af stóði. Sumir eiga mjög margt, en aðrir tiltölulega fátt. Menn reka þetta stóð sitt á afrétt, og hrossin ganga í beztu högunum. Þau sækja yfirleitt þangað sem heilgrösin eru, meðfram kvíslum og lækjarbökkum, og þar rótnaga þau. Ég hef sjálfur tekið eftir því, að fé, sem hefur verið heima að sumrinu, sækist eftir heilgrösunum, og valllendið er t. d. mjög mikið bitið, þar sem fé er, og sækist þeim mun meira eftir því sem það er minna sprottið. Þar er meira af fíngresi. Og það er þannig á afréttunum, að þar grær seinna heldur en niðri í byggð, en gróðurinn er hins vegar kjarnmeiri og ljúffengari. Oddvitarnir í minni sýslu a. m. k. hafa mikinn áhuga á að koma á ítölu, og ég hef átt tal um þetta við ýmsa í Vestur-Húnavatnssýslu, og þeir álíta, að það sé of mikið rekið af hrossum á afrétt og mikil spurning nema fé sé of margt líka. Ég hygg, að í Skagafirði sé það þannig um ýmsar sveitir, að þær hafa of lítinn afrétt. Ég þekki ekki eins vel til með afréttirnar á Suðurlandi, en það lítið ég hef farið um þær, þá virðist mér um Rangárvellina, að þar sé mikið um ógróin svæði og sömuleiðis um stór svæði fyrir ofan byggð í Árnessýslu. Ég hygg nú, að Rangvellingar hafi ekki eins mikla þörf fyrir ítölulög eins og við fyrir norðan, vegna þess að afréttin er þannig, að ég held, að það sé alls ekki hægt að reka hross á afrétt þeirra, og þeir hafa of lítinn afrétt fyrir. Þótt þeir séu hrossamargir í Rangárvallasýslu, þá munu þeir mest hafa þau heima.

Ég hygg, að það verði ekki skiptar skoðanir um, að það sé mikil þörf fyrir lög um ítölu og að lögin séu þannig, að það sé hægt að framkvæma þau. Ég hef reynt að semja þetta lagafrv. þannig, að það sé auðvelt í framkvæmd. Ég ætla ekki að þreyta ykkur á að lesa frv. upp. Þeir, sem áhuga hafa á því máli, munu lesa það, og ég geri ráð fyrir, að það fari til landbn. og verði athugað þar. Það eru bændur í þeirri n., sem ættu að hafa vit á þessu.

Það, sem ég tel, að sérstaklega geri erfitt um að koma á ítölu eins og lögin eru nú, er, að sýslunefndum er heimilt að gera samþykktir um ítölu. Sýslunefndirnar eru þannig skipaðar, að það eru oft hrossaflestu mennirnir, sem þar eiga sæti. Sama má segja í mörgum tilfellum um hreppsnefndirnar. Það er nú þannig með þessa stærri bændur, að þeir eru heldur rúmfrekari en þeir, sem búa minna, og eru þá gjarnan frekar kosnir í þessar nefndir. Í sumum tilfellum eru þeir kjarkmeiri, og staðreynd er, að þeir eru oft valdir í þessar nefndir. Svo er það þannig með ítölulögin, að sumir eru á móti þeim, aðrir með þeim, og þó eru það einkum þeir, sem eru á móti þeim, sem eiga flestar skepnurnar og vilja ekki hafa nein takmörk fyrir því, hvað þeir mega reka á sameiginlegan afrétt. Afréttirnar eru sameign þeirra manna, sem búa í ákveðnum sveitarfélögum, og vitanlega er það ekki réttlátt, að sumir geti rekið allt að 100 hross á afrétt, en aðrir eiga ekki nema 4–5. Og svo bíta þessi hross, grasið frá sauðfénu og það verður rýrara. Ég held, að það sé ógerlegt í framtíðinni, því búast má við, að skepnum fjölgi allmikið enn þá, annað en hafa einhver ákvæði um það, hvað hver má reka á þessa sameiginlegu afrétti.

Það er gert ráð fyrir því í þeim lögum, sem nú eru, að sýslunefndum sé heimilt að gera samþykktirnar, eins og ég sagði áðan, og sömuleiðis geta hreppsnefndir farið fram á, að samþykkt sé gerð, og þetta á að bera upp á almennum sveitarfundum. Ég get ekki skilið lögin, sem einu í gildi, öðruvísi en að sé það fellt á sveitarfundum, þá geti hreppanefndir eftir sem áður gert kröfu um, að sýslunefndin setji samþykkt. En reynslan sýnir bara, að það hefur ekkert upprekstrarfélag komið á samþykkt, og það er einfaldlega af því, að sýslunefndir og hreppsnefndir hafa ekki nægilegan áhuga til þess að það sé gert og lögin eru áhagkvæm.

Þá er gert ráð fyrir því í þessum lögum, sem í gildi eru, að það sé ítölunefnd, og hún á að vera skipuð þannig, að sýslumaður tilnefni einn mann, Búnaðarfélag Íslands annan og landgræðslustjóri sé þriðji maður. Þetta tel ég vera óhagkvæmt. Ég álít, að ítölunefndir eigi að vera starfandi heima í héruðunum. Ég legg til, að ítölunefnd sé kosin heima í héraði af hreppsnefndum viðkomandi hreppa. Ég vil hafa það óbeina kosningu, því að það er þannig með hreppsnefndir og sýslunefndir, að þær hlífast við að styggja kjósendur sína, og oft getur litlu munað, þegar kosningar eru og ýmsir vilja komast í hreppsnefnd og aðrir vilja komast í sýslunefnd. Þeir hlífast við að styggja neinn af þeim mönnum, sem þeir þurfa að leita eftir að fá atkvæði hjá, þegar að kosningum kemur. Það má vera, að þið brosið að þessu, en staðreyndin er, að þetta er svona.

Ég legg til í frv., að það sé ekki landgræðslustjóri, sem eigi frumkvæði að þessum hlutum. Ég ætla, að hann hafi nóg að gera að búa stórbúi austur í Gunnarsholti og eiga þar að auki að sjá um sandgræðsluna í landinu. Ég legg til, að það sé sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem hafi með þetta að gera. Þá hafði ég í huga Ingva Þorsteinsson, því að hann hefur rannsakað þessa hluti og er kunnugri gróðurfari hálendisins heldur en aðrir menn. Ég lét hann lesa yfir frv., þegar ég var búinn að semja það, og hann gerði ekki nema eina aths. við það, og það var, að hann vildi, að ég tilgreindi, að það væri sérfræðingur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, en ekki fulltrúi, eins og og hafði upphaflega í frv., og ég féllst á þessa breytingu. Ég orðaði það þannig í frv., að það væri sérfræðingur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, af því að ég vissi, að Ingvi Þorsteinsson vinnur þar, og ég bygg, að hann sé bezt fallinn til þess að hafa frumkvæði um þessa hluti. Ég ætlast til, að þar sem hann álíti, að um ofbeit sé aðræða, þar hafi hann frumkvæðið og setji sig í samband við sveitarstjórnir um það að koma á ítölu. Svo ætlast ég til, að fundur sé haldinn heima í sveitarfélögunum og ef þetta er samþykkt, þá sé fengið álit hjá Ingva Þorsteinssyni um, hvað megi reka mörg hross eða margt fé á viðkomandi afrétt. Svo sé kosin sérstök n, til að undirbúa málið og hún leggi samþykktina fyrir fund, sem haldinn er í upprekstrarfélögunum, ef um fleiri en eitt sveitarfélag er að tala, en í viðkomandi sveitarfélagi, ef aðeins er einn hreppur, sem hefur upprekstur á viðkomandi svæði, og þar sé það annaðhvort fellt eða samþykkt. Þessi n. geri einnig till. um, hvað hver einstakur maður má reka á afrétt. Ég hef rúm skilyrði, þannig að það sé reynt að liðka til eins og hægt er og helzt að uppfylla óskir sem flestra. Ég skal lesa upp þá grein. ,Hún er þannig:

„Þegar ítölunefnd metur, hve margar skepnur hver búandi má reka á afrétt, skal hún leggja til grundvallar eftirtalin atriði:

a) Hve margar skepnur hæfilegt er að hafa í heimalandi þeirrar jarðar, jarða eða jarðahluta, sem bóndinn býr á, og sé réttur til upprekstrar miðaður við beitarskilyrði heimalands.

b) Nauðsyn viðkomandi bónda til að fá leyfi til upprekstrar. Kemur þá til greina stærð fjölskyldu, aðstaða til að hafa annan búpening en þann, sem ítala gildir um, og önnur atriði, sem ítölunefnd metur gild.“

Þennan lið hef ég sett þarna inn, til þess að tekið sé tillit til nauðsynjar viðkomandi búanda. Þeir, sem hafa t. d. góða aðstöðu til þess að hafa stórt kúabú, þurfa ekki að reka eins margt á afrétt. Það er hægt að taka tillit til þess. Bóndi, sem hefur stóra fjölskyldu og mörg börn, þarf vitanlega að hafa stærra íbú heldur en einhleypur maður, og sé tekið tillit til aðstöðu.

„c) Eigi búandi land utan heimalandagirðingar, þannig að afréttarpeningur hafi þar sumarhaga, eins og afréttarland væri, ber ítölunefnd að meta, hve hagi er þar fyrir margar skepnur. Þeirri tölu skal bæta við þá ítölu, sem viðkomandi aðila er að öðru leyti úthlutað.“

Þessa mgr. setti ég inn, vegna þess að sumir eiga land utan heimalandagirðingar eða réttara sagt: það er girt af sameiginlega með afréttinni, og þá er annaðhvort að taka þetta land eignarnámi eða leyfa manninum að reka eitthvað fleiri skepnur, vegna þess að hann á þetta land utan afréttargirðingarinnar. Ég álít þetta vera sanngirniskröfu.

„d) Ítölunefnd skal kynna sér, áður en hún gengur frá till. sínum, hve margar skepnur hver aðili óskar eftir að fá að reka á afrétt, þannig að hægt sé að hafa hliðsjón af því, eftir því sem við verður komið. Enn fremur má taka tillit til aðstöðu búanda til að hafa búpening í heimahögum að sumrinu.“

Ég legg til, að ítölunefndin fái umsögn frá þeim bændum, sem eiga heima á viðkomandi svæði, um hve mikið þeir óska að reka í afrétt, og það sé, eftir því sem hægt er, tekið tillit til þess, og vera má, að í ýmsum tilfellum sé alveg hægt að fullnægja þessum óskum. Ég hef átt viðtal um þetta allt við Ingva Þorsteinsson, og hann álítur, að í ýmsum tilfellum sé nægilegt að takmarka upprekstur hrossa, a. m. k. í bili. Og annað það, ef bændur fara að fá rýrara fé af afrétt heldur en það, sem er í heimalöndum, þá leiðir það af sjálfu sér, að þeir fara að girða heimalönd sín af og girða þau sundur í hólf og hafa féð þá frekar heima. Ég hygg, að það reki að því, að það verði farið að beita sauðfé miklu meira á ræktað land heldur en gert hefur verið hingað til. Við höfum reynslu af því, að með því að láta lömbin að haustinu mánaðartíma á ræktað land taka þau mjög miklum framförum, og það mun líða að því, að menn fara að gera meira að þessu en gert er. En það breytir ekki því, að við þurfum að hafa afréttirnar og nota þær á hagkvæman hátt. Það verður öllum fyrir beztu.

Viðvíkjandi stóðeign, þá er rétt að láta þess getið, að ég dreg mjög í efa, að stóðeign eins og hún er rekin nú, þar sem hross eru rekin á afrétt að sumrinu eða jafnvel snemma á vorin, — ég efast um, að hún sé hagkvæm fyrir bændur, jafnvel þá bændur, sem eiga hrossin. Það er algengt, að hryssurnar eru nýkastaðar eða eru að kasta, þegar kemur fram undir réttir. Menn fá þannig lítil folöld, og í sumum tilfellum eru merarnar geldar, en ef þeir hefðu þær í afgirtum hólfum, þá gætu þeir hagað þessu þannig, að merarnar köstuðu á venjulegum tíma, og með því að líta betur eftir hrossunum og hýsa þau að vetrinum, þegar veðrátta er misjöfn, þá geta menn verið miklu vissari með arð af þeim hryssum, sem þeir eiga. Ég álít, að það sé ekki framtíðarbúskapur, þessi stóðbúskapur. Annað er það, að þegar byggðin þéttist og skepnum fjölgar, þá kemur það af sjálfu sér, að það er ekki land fyrir þessi hross, og þessir menn, sem eiga flest hross, verða til neyddir að fækka þeim, ef þeir geta ekki rekið þau á heiði, því að hross þurfa mikið land til þess að hafa nægilegt að bíta.

Hitt er svo annað mál, að ég viðurkenni nauðsyn þess að hafa einhver hross. Þeim, sem hafa mikil mýrlendi eða valllendi, er ágætt að hafa hross til þess að hreinsa sinuna burt, og það getur í vissum tilfellum ræktað vel þurrkaðar mýrar að beita hrossum á þær á meðan graslagið er að breytast, þannig að ég vil engan veginn halda því fram, að hross eigi ekki rétt á sér. En það þarf allt að vera í hófi. Það nær engri átt, að einstakir menn geti rekið stóra hrossahópa á afrétt, svo að heiðarnar verði ofbeittar og aðrar skepnur miklu rýrari vegna þess. Ég veit, að það er þannig í því byggðarlagi, sem ég á heima í, að hrossin eru tiltölulega horuð að haustinu, vegna þess að það er of margt í afréttinni. Þau hafa ekki nægilega haga.

Allt þetta, sem ég hef sagt, miðar að því, að það þarf að skipuleggja beitina betur en gert hefur verið, þannig að a. m. k. afréttirnar og jafnvel heimalöndin séu ekki ofsetin. Ég hef ekki farið inn á það í þessu Frv. að hafa ítölu í heimalönd, vegna þess að ég lít svo á, að erfitt sé að banna manni að hafa þær skepnur, sem hann álítur, að sér sé hagkvæmt að hafa í afgirtu landi, sem hann á sjálfur. Breytist það og menn fari að gera mikið að því að ofbeita afgirt heimalönd, er hægt að semja sérstök lög um það. En ég hef ekki farið inn á það í þessu frv. En staðreyndin er þessi, að þessi ítölulög eru búin að vera lengi í gildi, og það hefur enginn komið á ítölu hjá sér, ekkert byggðarlag. Og það er ekki eingöngu af því, að það sé ekki þörf fyrir það, heldur af hinu líka, að lögin hafa ekki verið þannig, að það hafi verið auðvelt. Og svo má geta þess, að það eru sumar sveitir, sem ekkert kæra sig um ítölu og geta ekki haft ítölu. Þar er t. d. ekki girt á milli afrétta og heimalanda. Aðrir hreppar þurfa nauðsynlega á henni að halda. En það fæst bara ekki samstaða í viðkomandi sýslunefndum til þess að gera samþykktina.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ítölunefnd sé alltaf starfandi heima í byggðunum. Hreppsnefndirnar kjósi 3–5 menn og ítölunefndin sé alltaf starfandi, vegna þess að árlega getur þurft að breyta þeirri tölu, sem aðili má reka á afrétt, bæði vegna búferlaflutninga og annarra breytinga, sem verða á búnaðarháttum í þeirri sveit. En hinsvegar geri ég ráð fyrir yfirítölunefnd, og hún á að vera þannig skipuð, að þar sé sérfræðingur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, frá Búnaðarfélaginu og einn skipaður af viðkomandi sýslumanni. Það er svipuð skipun og er gert ráð fyrir í lögum, sem nú eru í gildi, en þar á bara að vera ein ítölunefnd. En ég geri ráð fyrir, að ítölunefnd sé kosin af hreppsnefndum á fjögurra ára fresti heima í héraði eða eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Landbn. fjallar eðlilega um þetta mál. Ég hef ekkert við það að athuga, ef nm. sýnist svo, þó að einhverjar breytingar séu gerðar, en ég vil mælast til þess, að þetta frv. verði ekki svæft, það fái að ganga í gegnum þingið. Ég get vel fallizt á, að einhverju verði breytt, en ég álít þetta vera nauðsynjamál. Þetta er ekki pólitískt mál, og það ætti þess vegna ekki að vera neitt því til fyrirstöðu, að það gæti gengið í gegnum þingið. En það er nauðsyn að gera ítölulög þannig úr garði, að byggðarlögin geti komið á hjá sér ítölu, þar sem það er nauðsynlegt. Hitt er mér ljóst, að það eru viss svæði, þar sem ekki er þörf fyrir ítölu, en það gerir þeim ekkert til, þó að aðrir komi á hjá sér ítölu og ítölulögin séu þannig, að það sé auðvelt að framkvæma ítöluna.

Ég legg svo til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og landbn.