06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

183. mál, ítala

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það mun vera nokkuð almenn skoðun, að gildandi lög um ítölu séu lítt eða ekki framkvæmanleg. Það, sem þar veldur mestu, er að mínu mati það, hversu erfitt er að fylgjast með því, að reglur þær, sem settar eru á grundvelli þessara laga, séu haldnar. Hér er raunar um kjarna málsins að ræða. Í frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 349, er gerð tilraun til þess að færa í lög reglur, sem aðeins snerta þennan vanda málsins. Þetta er að mínu mati virðingarverð tilraun, og það, sem þarna er að vikið, er það, sem kannske er hvað mest til bóta í þessu frv. frá því, sem er í gildandi lögum.

Hitt er þó rétt að gera sér ljóst, að enda þótt svokölluð ítölunefnd, sem starfa ætti eftir þessu frv., hefði heimild til þess að telja í dilkum manna afréttarpening og gera þannig nokkra tilraun til þess að fylgjast með, hvað mikið kemur af fjalli miðað við þann búfjárfjölda, sem viðkomandi bóndi hefur heimild til þess að reka á afrétt, þá mundi það, held ég, verða heldur erfitt verk að komast þannig að hinu sanna í þessu efni.

Hér er samt gerð tilraun til þess að víkja að þessu í lagasetningu, og ber að meta það. Einnig er í þessu frv. vikið að viðurlögum gegn brotum á ítölu, og er það einnig að mínu mati verulega til bóta. Það form, sem á þeim viðurlögum er, sýnist mér skynsamlegt við fyrstu yfirsýn.

Hv. flm. frv. gerði þessi atriði þess að litlu eða engu umtalsefni. Hins vegar fjallaði ræða hans nær einvörðungu um þau efni frv., sem lúta að því, hvernig ákvörðun um ítölu skuli tekin, og framkvæmd hennar að öðru leyti. Þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, er að mínu mati miklu vafasamara að séu til bóta frá eldri lögum heldur en hin, sem ég hef áður nefnt. Ég tel, að það sé út af fyrir sig vafasamt að skerða svo frumkvæði og framkvæmdaaðild sveitarstjórna og sýslunefnda, að ekki sé talað um gróðurverndarnefndar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þar er að vísu gert ráð fyrir að taka upp í staðina svokallaða ítölunefnd, sem starfa skal í hverju Upprekstrarfélagi, og er það mál, sem ég skal vissulega ekki ræða um á þessu stigi, enda mun þetta frv. fara til þeirrar n., sem ég á sæti í, en þessi atriði öll er ég mjög efins um að séu til bóta.

Hv. flm. ræddi um það, að sýslunefndir væru tíðast þannig skipaðar, að þær hefðu ekki áhuga á ítölu. Þetta er náttúrlega fullyrðing, sem erfitt er að meta sannleiksgildið í, og skal ég láta það kyrrt liggja. Hins vegar fór hann algerlega fram hjá því, að samkv. gildandi lögum er gert ráð fyrir því, að endanleg ákvörðun sé tekin af gróðurverndarnefnd viðkomandi héraðs. Eftir að einhver aðili hefur óskað eftir ítölu, annaðhvort einstaklingur, sveitarstjórn, gróðurverndarnefnd, sérfræðingur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í beitarþolsrannsóknum eða aðrir aðilar, þá er viðkomandi hreppsnefnd eða hreppsnefndum skylt að boða til almenns fundar um málið og taka ákvörðun um það með atkvgr. Nú skulum við gera ráð fyrir, að málið sé fellt á sveitarfundi. Þá hefur gróðurverndarnefnd, eða ef hún er ekki til, sýslunefnd, rétt til þess að taka endanlega ákvörðun og getur hver sá, er í upphafi óskar eftir ítölu, skotið málinu til gróðurverndarnefndar eða sýslunefndar.

Ég hygg nú, hvað sem líður skipun sýslunefnda og að þar sitji einkum stóðkóngar, þá vil ég nú ætla, að í gróðurverndarnefndum sitji yfirleitt þeir menn, sem geri sér fulla grein fyrir því, hver vandi er á höndum og hvaða þýðingu þessi mál hafa, og þeim megi öðrum fremur treysta til þess að meta það, hvort rétt sé, að ítala sé gerð eða ekki. Enn fremur er í gildandi lögum, að gróðurverndar nefnd skal taka ákvörðun um málið að fenginni umsögn landgræðslustjóra.

Ég sem sagt vil þegar hér við 1. umr. þessa máls láta í ljós efasemdir um, að sú skipan, sem frv. þetta gerir ráð fyrir á undirbúningi og ákvörðunarvaldi um ítölu, sé til bóta. Hins vegar er að mínu mati fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að skoða þetta mál rækilega í n. og ekki hika við að taka upp í gildandi lög allt það, er ætla má að verði til bóta í þessu efni.

Frv. þetta eða það efni, sem það fjallar um, ítala í afrétti og önnur beitarlönd, er í rauninni angi af stóru máli, þ. e. hvernig koma megi við með skipulögðum hætti og samræmdum takmörkunum búfjárfjölda á ákveðið landssvæði, en þetta mál hefur á öðrum grundvelli verið rætt hér á hv. Alþ. nú fyrr í vetur. Það er ljóst, að öll þau lagaákvæði, er að þessu lúta, er mjög mikilsvert að séu þannig úr garði gerð, að þeim sé hægt að framfylgja. Ég lít svo á, að það, sem mest er jákvætt við þetta frv., sé það, að nokkuð er vikið að þessum vanda, en ég vil láta það í ljós hér enn, að og tel erfitt að sjá út yfir það, hvernig í raun megi koma við eftirliti með því, að ítala sé haldin, hvernig svo sem lagaákvæði um þau atriði séu úr garði gerð. Við vitum, að afréttarpeningur fer sjálfur heim í byggð. Girðingar eru ekki svo traustar sem vera þyrfti. Hlið opnast fyrir slys eða misgáning og má, þegar þannig vill til, raunar engu eftirliti við koma. Og þó að tiltölulega auðvelt sé að líta eftir þeim mönnum, sem fjær búa afrétti, þá þekkjum við það, að það er því erfiðara sem menn búa nær henni og sízt að koma því við þar sem heimahagar manna liggja að afréttargirðingum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál hér á þessu stigi frekar. Ég vildi láta þessi atriði koma fram, en mál þetta er eðlilegt að fái rækilega skoðun og að tekið sé til greina allt það, sem sýnist vera til bóta við afgreiðslu þess í hv. landbn. og síðar hér á hv. Alþingi.