06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

183. mál, ítala

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, ábendingar, sem ég vildi gefa í sambandi við þetta mál, vegna þess að mér finnst, að bæði í frv. og eins í framsöguræðu flm. hafi eiginlega verið skotið fram hjá aðalatriðinu í löggjöf, sem á að vera til verndar gróðri og koma í veg fyrir ofbeit.

Hv. flm. segir, að það sé slæmt, þegar hrossin verði horuð á haustin, vegna þess að þau hafi ekki haft nógu mikið gras að bíta yfir sumarið. Mér finnst eðlilegt, að honum finnist það slæmt, ef hann hefur séð það. En ég verð að segja, að slíkt höfum við ekki séð sunnanlands. Í öðru lagi segir hv. flm. í grg., að í nefndum eigi sæti aðeins stóðkóngar, sem hafi lítinn áhuga á því að bæta úr ástandinu. Ég þekki þetta ekki heldur, en tæplega mundi hv. flm. koma með þetta á þskj., ef hann hefði ekki eitthvað fyrir sér í því.

Hv. flm. talar um lög um ítölu og gerir lítið úr þeim. Ég held, að þessi lög séu út af fyrir sig nokkuð góð, en ugglaust eru þau þó þannig, að það mætti bæta þau. En það eru önnur lög, sem hv. flm. gerði lítið að umtalsefni og vitnaði lítið í, sem eru örugglega góð og geta hjálpað til þess, að lög um ítölu nái tilgangi. Það eru lög um landgræðslu og gróðurvernd. Í III. kafla þeirra laga segir:

„Land skal nytja svo, að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá, sem landspjöllum veldur með mannvirkjagerð eða á annan hátt, er skyldur að bæta þau.“

Þá segir enn fremur, að Landgræðsla ríkisins skuli hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð. Þá segir enn fremur í 19. gr. þessara laga:

„Gróðurverndarnefnd skal starfa í hverri sýslu, þar sem landgræðslustjóri telur þess þörf. Sýslunefnd kýs 3 menn í nefndina til 4 ára í senn, að fengnum tillögum búnaðarsambands héraðsins.“

Mér heyrðist á hv. flm. áðan, að það væri dálítið erfitt að kjósa í þessar n., vegna þess að það væri erfitt að gera upp á milli manna. En það er trúnaðarsambandið, sem á að tilnefna þessa menn eða gera tillögu um þá, og þeir verða svo skipaðir eftir það. Maður skyldi þess vegna ætla, að það væru góðir og gegnir menn.

Gróðurverndarnefndirnar eiga að starfa í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Það hefur verið talað um, að landgræðslustjóri ætti að hafa frumkvæðið, þegar um það væri að ræða, að gróðri væri ofboðið og um ofbeit gæti verið að ræða. En það er enginn vafi á því, að gróðurverndarnefndir, sem eiga að starfa í hverri sýslu, geta einnig og ekkert síður haft frumkvæðið, því að þær vitanlega þekkja, hvar skórinn kreppir að, og eiga að geta haft frumkvæði í þessu máli og hafa það. Það segir enn fremur, að það skuli rannsaka þessi mál, þar sem land geti verið í hættu, og það skuli gert samkvæmt 40. gr. þessara laga. En hvernig hljóðar sú grein? Þegar rannsaka þarf beitarþol og hættu á gróðureyðingu samkv. 7., 22. og 23. gr., skal fela Búnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, sem núna heitir Rannsóknastofnun landbúnaðarins, að annast rannsóknirnar. Búnaðardeildinni, þ. e. Rannsóknastofnuninni, ber að leita eftir plöntutegundum, sem vænlegar eru til landgræðslu, og hafa eftirlit með þessu. M. ö. o.: ef land virðist vera í hættu að dómi gróðurverndarnefndanna eða landgræðslustjóra, þá á að rannsaka landið, og það á að gerast af Atvinnudeild háskólans, sem hét svo áður, en nú er Rannsóknastofnun landbúnaðarins, — það eru sérfræðingar starfandi við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, m. a. Ingvi Þorsteinsson, — eins og lögin eru nú, landgræðslulögin. Þess vegna er nú það, að ég vildi aðeins benda á þessi atriði, af því að mér virtist hv. flm. ekki hafa gert sér grein fyrir því fyllilega, hvað í lögunum um landgræðslu og gróðurvernd felst.

Nú segi ég þetta ekki vegna þess, að ég vilji fordæma þetta frv. út af fyrir sig, og það má vel vera, að það sé nauðsynlegt að breyta löggjöfinni og það megi taka eitthvað upp úr þessu frv., sem megi verða til gagns og bóta frá þeirri löggjöf, sem nú er. En það er nauðsynlegt, að landbn., sem fær þetta frv. til meðferðar, skoði það í réttu ljósi og beri það saman við gildandi lög, bæði lög um landgræðslu og gróðurvernd og einnig við gildandi lög um ítölu. Það er náttúrlega fjarstæða, að það sé ekki hægt að koma á ítölu með þeirri löggjöf, sem nú er í gildi. Það er einmitt gert ráð fyrir því samkv. 20. og 23. gr. laga um landgræðslu. Og það er náttúrlega ekki ástæða til, finnst mér, að hafa fleiri orð um þetta.

,Ég taldi aðeins ástæðu til að minna á lög um landgræðslu og gróðurvernd, sem eru í gildi og þar sem gert er ráð fyrir að starfandi séu gróðurverndarnefndir í öllum sýslum, sem eigi að hafa eftirlit með því, að gróðrinum sé ekki ofboðið. Og sem betur fer mun það vera óvíða, finnast þó einhver afréttur, sem þannig er háttað um. Og það er enginn vafi á því, að ef hross koma horuð af afrétti, þá er það vegna ofbeitar, og þar þarf að bæta úr. Ég hefði haldið, að stóðkóngarnir, sem náttúrlega eiga hrossin, vildu manna helzt gera það. Stóðkóngarnir ættu manna helzt að gera sér grein fyrir því, að það borgar sig ekki að ofbeita landið. Og það er hætt við því, að ef hrossin koma horuð af afréttunum, þá verði dilkarnir einnig eitthvað léttari en þeir annars gætu orðið.

Mér finnst þetta stangast á við heilbrigða skynsemi, að það sé ekki hægt að fá menn til þess að starfa eftir þeim lögum, sem núna eru í gildi, vegna þess að það er hagur þeirra sjálfra að tryggja það, að afréttirnir eða hagarnir verði ekki ofbeittir. Það hefur verið talað um það undanfarið, að það væri víða um ofbeit að ræða. En sannleikurinn er sá, að það er víðast hvar, í flestum sýslum, flestum héruðum landsins, sem afurðirnar hafa aukizt eftir hvern grip síðustu árin, og það bendir til þess, að bæði sauðfé, hross og annar peningur hafi haft nóg að bíta yfir sumarið. En það er rétt að loka ekki augunum og gera ráð fyrir því, að þetta geti átt sér stað, og þess vegna get ég tekið undir það, sem síðasti hv. ræðumaður sagði hér áðan, að frv. eins og þetta getur verið virðingarverð tilraun. Það er þá tilraun til þess að vekja athygli á máli, sem þarf að einhverju leyti að bæta úr. Og það má vel vera, að afréttir Húnvetninga séu þannig, að þeir séu að einhverju leyti ofsetnir. En svo marga Húnvetninga þekki ég að góðu og dugnaði og hagsýni, að ég hefði haldið, að þeir vildu bæta úr þessu og væru ekki tregir til þess að fylgja fast eftir þeirri löggjöf, sem nú er fyrir hendi og gæti hjálpað til þess að tryggja það, að gróðurfar afréttanna og heimahaganna væri með eðlilegum hætti.