06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

183. mál, ítala

Flm. (Björn Pálsson) :

Herra forseti. Ég vissi ósköp vel um þessar, gróðurverndarnefndir heima í héruðunum, en annars veit ég ekki fyrir víst, hverjir eru í henni í mínu héraði. Ég hef ekki orðið var við, að hún hafi gert nein stórátök í gróðurverndarmálum, enda ekki brýn þörf í byggðinni.

Viðvíkjandi því, að það sé skert vald sveitarstjórna með þessu frv., ef að lögum verður, þá er það ekki rétt skilið, því að það er tekið fram alveg skýrt í frv., að sérfræðingur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins á að snúa sér til sveitarstjórnanna, svo að í raun og veru er vald sveitarstjórnanna aukið frá því, sem er í hin um fyrri lögum. Þar er það sýslunefnd, sem á að hafa aðalfrumkvæðið. Það má vel vera, að sýslunefndir hafi allmikinn áhuga á þessum ítölumálum. En hitt er staðreynd, að það hefur hvergi komizt á ítala enn þá.

Viðvíkjandi því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. um viðurlögin, þá er það rétt, að í eldri lögum er ekkert um viðurlög talað, ef rekið er fleira á afrétt heldur en leyft er samkv. ítölulögunum. Þess vegna gerir bara það atriði, að það eru engin viðurlög, ítölulögin gömlu algerlega gagnslaus. Ég minntist ekki sérstaklega á það áðan.

En ég setti þau viðurlög, að það yrðu tvöföld fjallskil á því, sem yrði rekið umfram, við fyrsta brot, þreföld við annað, fjórföld við þriðja og fimmföld við fjórða brot. En í fyrri lögum er það bara þessi ákveðna sekt, ef lögin eru brotin, og það kostar málaferli, og það fer enginn að fara í mál út af 5–10 þús. kr. sekt, vegna þess að það kostar miklu meira að reka málið. En það er ákaflega auðvelt í framkvæmd að hafa þessi viðurlög.

Annað er það í eldri lögum, sem er alveg ófært, að það á að miða fjallskilin við þá skepnutölu, sem leyft er að reka á afrétt, hvort sem menn eiga svo margar skepnur eða ekki. Það nær engri átt að leggja fjallskil á fleiri skepnur heldur en menn eiga. Það er orðað þannig í frv., að það séu ekki lögð fjallskil á fleira, en má leggja fjallskil á færra, ef maðurinn á ekki svo margt. Þetta er bara eitt atriði í eldri lögum, sem gerir það, að þau eru í raun og veru alveg ónothæf.

Viðvíkjandi því, að gróðurverndarnefndirnar eigi að hafa eftirlit með öllum afréttum eða yfirleitt allri gróðurvernd, þá geri ég heldur lítið úr því. Til þess þarf sérfróða menn, og sá sérfróði maður, sem bezt hefur kynnt sér þetta, er Ingvi Þorsteinsson, og ég legg til, að hann hafi frumkvæðið. Hvaða vit væri líka í því, að margir séu að þessu? Auðvitað á einn fagmaður að fást við þetta. Ég bar þetta frv. undir Ingva, og hann sagði, að það væri allt annað að framkvæma ítölulögin, ef frv. yrði að lögum, en eftir þeim ítölulögum, sem nú eru.

Viðvíkjandi því, að landgræðslustjóri eigi að hafa frumkvæðið, eins og hv. 1. þm. Sunnl. var að tala um, þá held ég, að þessi blessaði landgræðslustjóri okkar hafi alveg nóg að gera og jafnvel of mikið. Sannleikurinn er sá, að það er ekkert vit í því vegna sandgræðslunnar að ætla þessum manni að reka stórbú, sem er fullt verk, og svo á hann að sjá um sandgræðsluframkvæmdir á öllu landinu. Þetta er eins og hver önnur vitleysa. Gunnarsholti á að skipta í mörg býli, og þarna geta 3–4 fjölskyldur haft atvinnu og lifað góðu lífi. En sandgræðslustjórinn á að vera upptekinn við sitt starf, og það er miklu meira en nóg. Hann þyrfti jafnvel að hafa aðstoðarmann, því að verkefni eru ótæmandi.

Þá er annað. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að það megi girða viss svæði á afréttunum, ef mönnum sýnist að hafa hross á þeim svæðum. Það hafa Biskupstungnamenn gert. Þeir hafa girt af uppi í Hvítárnesi. Ég skil vel, að hv. 1. þm. Sunnl. hafi ekki séð horuð hross koma af afrétt, vegna þess að þeir reka alls ekki sín hross á afrétt í Rangárvallasýslu. Þeir hafa þau í heimahögum, og það er ekki hægt að hugsa sér betri haga. Ég efast ekkert um, að þau séu allvel feit hrossin þeirra Rangvellinga. En þeir hafa tiltölulega lítið af fé miðað við okkur norðanlands, en aftur mikil kúabú. Þetta vafalaust hentar vel hjá þeim, en það mundi ekki henta hjá okkur. En það er staðreynd, a. m. k. á þeim afrétti, þar sem ég á upprekstur, að hryssurnar koma horaðar og folöldin lítil. Meira að segja ærnar leggja af á afrétt, ef þær eru ekki á því betri stöðum. Ingvi Þorsteinsson hefur sagt við mig, að hrossunum væri ofaukið a. m. k. á okkar afrétt.

Mér skildist, að þessi ræðumenn, sem töluðu hér á eftir mér, væru mér að mestu leyti sammála efnislega, og ég held, að það sé ekki um nein stór ágreiningsatriði að ræða. Ég held, að það sé langeðlilegast, að það sé einn sérfræðingur, sem líti eftir, hvort um ofbeit er að ræða á afréttunum, og hann leiti þá til sveitarstjórna um aðgerðir, ef hann telur þess þörf. Og fyrir þessu er gert ráð í frv. Ég vil ekki vera að gera lítið úr þessum þætti í gömlu lögunum sérstaklega, en það virðist sem þetta sé samið af mönnum, sem ekki eru vanir því að fást mikið við afréttarmál. Það er venja, að ráðh. skipi einhverjar n., og svo þegar búið er að semja frv., þá má heita, að það sé ógerlegt að koma neinum verulegum breytingum að. Þetta eru stjfrv., og það má ekki breyta þeim nema lítið. Ég álít, að þarna sé um hina mestu misnotkun á starfskröftum þm. að ræða. Ég held, að frv., ekki sérstaklega um þetta málefni, heldur mörg fleiri, væru miklu betur samin, ef þm. væru látnir semja þau, og þau mundu þá fá greiðan gang í gegnum þingið. Í mörgum tilfellum eru menn í þessum n., sem ekki hafa nema mjög takmarkað vit á því, sem þeir eru að ákveða með lögum, og þess vegna koma vitlaus lög frá þinginu, m. a. þessi fjallskilalög. Meinlegust er ítölulöggjöfin í þeim lagabálki. Hitt er meinlaust, ekki snjallt, en ekki stórskaðlegt, enda alls ekki eftir þeim farið nema þar, sem það hentar og enginn kærir sig um eða skiptir sér af því. Það eru ýmis atriði í lögum um fjallskilamál, sem alls ekki er farið eftir, þar sem ég þekki til a. m. k. Staðreyndin er þessi, að oddvitarnir í mínu héraði segja við mig: Við getum ekki komið á ítölu með óbreyttum lögum. Ingólfur Jónsson má gjarnan tala við þá. Einn þeirra er staddur hér í bænum nú, og hann má gjarnan tala við hann, hann heitir Gísli og er frá Hofi í Vatnsdal. Hann sagði við mig fyrir tveimur dögum, að þetta væri það bezta, sem ég hefði komið með, þetta frv. Lögin eru þannig, að það er mjög erfitt fyrir sveitarstjórnirnar að framkvæma þau, að koma á ítölu. Og það er ekki af neinum illvilja hjá fyrrv. landbrh. eða þeim mönnum, sem sömdu þessi lagafrv., heldur var það bara ókunnugleiki að hafa ítölulögin eins og þau eru. Þau eru gagnslaus, eins og þau eru nú, og þarf að bæta þau. Hvort þessu frv. verður eitthvað breytt, það er aukaatriði, en aðalatriðið er, að lögin séu gerð þannig, að þau séu auðveld í framkvæmd.