28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

184. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hér hefur verið talað um óréttlæti og mikið óréttlæti að vera að innheimta skatt af Reykjanesbrautinni og Suðurnesjamenn hafi búið við þetta ranglæti í 6 ár. Menn eru búnir að gleyma því, hvað sagt var áður en hafizt var handa um gerð þessa vegar. Jafnvel þeir, sem nú tala um óréttlæti, höfðu gert það að till. sinni, að fjár yrði aflað til þess að standa undir kostnaði við vegagerðina með því að leggja á skatt eins og þennan. Og óréttlætið er nú ekki meira en það, að það var reiknað út, áður en byrjað var að innheimta þetta gjald, að þeir, sem fara þennan veg, spari helming kostnaðar með því að eyða minna benzíni og slíta ökutækinu minna með því að fara þennan góða veg heldur, en malarveg, oft lélegan og oftast lélegan, eins og hann var, þessi vegur. Þetta var fyrsti góði þjóðvegurinn, sem lagður var á Íslandi, hann tengdi saman stór þéttbýlissvæði og var fjölfarnasti vegurinn. Þeir, sem hafa farið þennan veg undanfarin 6 ár, hafa grætt á því að borga fyrir það að fara veginn heldur en hafa hann ekki. Og þetta sáu hinir vísu menn, sem gerðu það að till. sinni í upphafi að innheimta tollinn til að standa undir kostnaði við vegagerðina. Og þeir sáu alveg rétt í byrjun. Það gildir alveg sama nú og þá.

Nú er það svo, að við erum að fá fleiri vegi, sem kalla má góða að gerð, þótt enginn verði eins vandaður og dýr, og Reykjanesvegurinn. Og það er alveg rökrétt, sem sagt er í forsendum þessa frv. og grg., að það er ekki unnt að innheimta umferðargjald af öðrum vegum. Til þess að unnt sé að gera það og borgi sig að gera það, þurfa vegirnir að vera fjölfarnir og þeir þurfa að tengja saman viss byggðarlög. Það er ekki hægt að innheimta gjald af Norðlendingum, þegar þeir fara Vesturlandsveginn, þótt vegurinn sé steinsteyptur eða malbikaður upp í Kollafjörð eða þótt lengra væri. Það er ekki heldur eðlilegt að innheimta gjald af Rangæingum eða Skaftfellingum, þótt vegurinn austur að Selfossi verði góður, ekki steinsteyptur og ekki malbikaður, heldur bara olíuborinn.

Það er vitnað hér í það, sem ég hef sagt, bæði á Alþ. og í blöðum, að þessi tollur yrði afnuminn 1. jan. 1973. Það hefði ég gert, ef ég hefði ráðið. Ég hef sömu skoðun nú og þegar ég gaf þessar yfirlýsingar, vegna þess að það er sanngjarnt að gera það, þegar fleiri góðir vegir eru til og fleiri en þeir, sem aka Reykjanesbrautina, eiga kost á því að fara góða vegi. Og það þarf enginn að efast um það, að þessar yfirlýsingar, sem eftir mér eru hafðar, voru sagðar í fullri meiningu, vegna þess að undanfarin ár hefur veggjaldið verið afnumið að nokkru leyti. Menn borga nú jafnmargar krónur og þeir gerðu fyrsta árið fyrir að nota þennan veg. En við vitum, að síðan hefur krónan lækkað. Menn borga nú 50 kr., eins og þeir gerðu fyrst. Ef það hefði fylgt verðlaginu, ættu þeir að borga 80 eða 90 kr. Og af hverju hefur veggjaldið ekki verið hækkað og látið fylgja verðlaginu? Það er vegna þess, að það var búið að ákveða að fella gjaldið niður. Það var búið að ákveða það. Það hefur verið fellt niður að nokkru leyti með því að láta borga nú jafnmargar kr. og gert var í fyrstu. Þetta veit ég, að allir hv. þm. sjá og skilja.

Hitt er svo annað mál, hvort menn gera eitthvað að gamni sínu í sambandi við þetta, sæki upp leiktjöld og reyni að verða vinsælir og láti í það skína, að þeir séu einhverjir sérstakir dugnaðartalsmenn þeirra, sem fara þennan veg oftast. Það verður vitanlega fyrirgefið. Og ég segi það, að þegar ákveðið hefur verið að fella niður umferðargjald á bezta veginum og fjölfarnasta veginum, þá vitanlega kemur ekki til greina að leggja umferðargjald á aðra vegi, jafnvel þátt þeir verði góðir. Mér kemur það algerlega á óvart, ef hæstv. samgrh. ætlar sér ekki að nota þá heimild, sem hann hefur til að fella þetta gjald niður. Ég hef haft hugmynd um það, að hann ætli sér að nota þessa heimild. Og það dugar ekki að draga það fram á næsta sumar að ákveða, hvort það verður gert. Það verður að ákveða það núna í vetur, þegar vegáætlunin verður rædd og frá henni verður gengið. Það verður að ákveða það á þinginu í vetur, hvort reikna á með tekjum af umferðargjaldi í vegáætluninni eða ekki.

Það er eftirtektarvert, að 1. flm. þessa frv. er nýr af nálinni hér í hv. Alþ. Ég hef ekkert út á það að setja, þótt hann hafi beitt sér fyrir því að flytja þetta frv. Það muna allir eftir því, þegar þeir komu fyrst inn í þingið, og það hefur öllum, sem hafa byrjað, fundizt sjálfsagt og nauðsynlegt að flytja eitthvert mál og flytja sína jómfrúrræðu. Þetta er ekkert tiltökumál. Hitt er kannske dálítið annað, að hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, og hv. 4. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, sem eru með öllu þingvanir og þekkja þetta mál, skyldu vera með því að flytja frv. til breytinga á vegalögum í þessu efni, nema þá að þeir hafi þrautreynt við hæstv. ríkisstj. að taka jákvæða afstöðu til veggjaldsins og það liggi fyrir neitun frá henni. Þess vegna er spurning hv. síðasta ræðumanns alveg eðlileg og réttmæt. En þrátt fyrir það, þótt rökrétt væri að álykta svo, þá held ég, að það liggi ekki fyrir. Ég held, að hæstv. samgrh. hafi alls ekki neitað því að taka jákvæða afstöðu í þessu máli. Ég get náttúrlega ekki sannað það, en ég held það, það er mitt hugboð, að hann ætli sér að ákveða að fella niður veggjaldið núna í vetur, ekki í sumar, heldur í vetur, þegar við förum að ræða vegáætlunina, væntanlega í næsta mánuði. Veggjaldið er í vegáætlun fyrir þetta ár og hefur verið reiknað með tekjum af því allt þetta ár, og þess vegna kemur ekki til mála, að það verði fellt niður fyrr en frá næstu áramótum. Þetta verðum við að hafa í huga.

Ég væri vitanlega með því að samþykkja þetta frv., ef það lægi fyrir, að ríkisstj. ætlaði að neita að fella niður veggjaldið. Þá skyldi ekki standa á mér að fylgja þessu frv. En mér hefði fundizt eðlilegra, eins og málsatvik eru, að það hefði verið flutt þáltill. og áskorun á ríkisstj., hæstv. ráðh., að fella gjaldið niður. Það hefði í rauninni verið eðlilegra, vegna þess að það gerir ekkert til, þótt þessi heimild sé áfram í vegalögum. Eftir að veggjaldið væri fellt niður, þar sem umferðin er mest, þá kemur vitanlega ekki til mála, að það verði tekið upp á öðrum vegum, þar sem umferðin er minni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. En ég reikna fastlega með því, að veggjaldið verði afnumið af Reykjanesbraut frá næstu áramótum, og það er í samræmi við þá stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. tók með því að hækka ekki veggjaldið, þótt krónan lækkaði í verði, og það er einnig réttlátara nú en áður, eftir að fleiri vegir eru orðnir góðir til umferðar, eins og nú er að verða. En á þeim vegum er ekki unnt að koma við né heldur réttlátt að koma við innheimtu á veggjaldi.