28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (3099)

184. mál, vegalög

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég átti ekki von á því, að og ætti eftir að hlusta á umr. hér á Alþ. um veggjaldið, þar sem það væri gert að staðreynd, að núv. stjórnarflokkar væru ekki sammála um það mál. En það er nú einu sinni svo, og það höfum við heyrt hér í dag.

Ég kvaddi mér nú hljóðs aðallega út af orðum hæstv. samgrh., þar sem hann orðaði það sem sérréttindi Suðurnesjamanna, að vegurinn auður á Reykjanes á sínum tíma var steinsteyptur, þannig úr garði gerður sem raun ber vitni. Ég held, að hér gæti nokkurs misskilnings, einfaldlega vegna þess, að hér er um að ræða veg til þess landshluta, sem skapar Íslendingum verulegan hluta af sjávarafla þeim, sem við öflum á hverri vertíð, og þá vil ég benda einmitt á það, að miklum hluta af þeim afla, sem er komið á land í verstöðvunum suður á Suðurnesjum, er ekið inn til Reykjavíkur, til Hafnarfjarðar og annarra byggðarlaga hér á þéttbýlissvæðinu, og þessi byggðarlög hafa því ekki síður mikinn hag af því, að suður á Suðurnes liggi góður vegur, til þess að sá afli, sem þar berst á land, skilist til verstöðvanna sem það allra bezta hráefni, sem mögulegt er að fá.

Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri til þess að minna á, að enda þótt vegurinn suður til Keflavíkur sé steinsteyptur og sé búinn að vera það nú um nokkurra ára bil, þá eigum við þm. Reykjaneskjördæmis eftir að koma í framkvæmd miklu átaki, þ. e. a. s. að fá vegi út frá Reykjanesbraut út í verstöðvarnar, sem gerðir verði með svipuðum hætti og Reykjarnesbrautin. Samkv. kröfum okkar fiskkaupenda eru í dag settir tugir hundraða millj. til þess að gera frystihúsin þannig úr garði, að við getum verið samkeppnisfærir á þeim mörkuðum með okkar vörur. Þeir, sem fylgjast með þessum málum þar syðra, gera sér grein fyrir því, hversu illa er hægt að fara með hráefnið, þegar því er ekið frá verstöðvunum í Grindavík, Sandgerði, Höfnum og Garði, og hversu þýðingarmikið það er fyrir okkur, ekki aðeins Suðurnesjamenn, heldur landsmenn alla, að þarna verði aflað fjár og þessir vegir gerðir með þeim hætti, sem þarf að gera þá til þess að okkar útflutningsvara verði með þeim hætti, sem krafa er gerð til, og skili okkur því verðmæti, sem mögulegt er. Ég hefði búizt við því, að sá þm., sem er 1. flm. þessa frv., byrjaði hér á hinu háa Alþ. eitthvað í átt við það, að það verði aflað fjármagns til þessara vega þar suður frá, í stað þess að hefja hér deilur við eigin flokksmenn um það, hvort veggjaldið verði lagt niður eða ekki. En það er auðvitað þeirra, með hvaða hætti þeir vilja láta ágreining sinn koma í ljós, en ég hélt, að það hefði verið skoðun okkar þm. Reykjaneskjördæmis, að sú ákvörðun hefði verið tekin, að stefnt skyldi að því, að veggjaldið yrði fellt niður, hún hefði verið tekin með því, að það var ekki hækkað eins og annað, sem hækkað hefur á undanförnum árum, og þegar þeirri vegáætlun lyki, sem nú gildir, þá yrði tekin ákvörðun af Alþ. um, að veggjaldið skyldi lagt niður. Fyrrv. samgrh. hafði lýst þessu sem skoðun sinni, og ég sannast sagna hefði ekki talið ástæðu til breytinga á vegalögum fyrr en ég hefði séð í væntanlegri tillögu að vegáætlun, að núv. hæstv. ríkisstj. hygðist ekki halda áfram á þeirri braut, sem fyrrv. samgrh. hafði mótað.

Ég held, að sú krafa, sem uppi hefur verið um að leggja veggjaldið niður, sé eðlilegast rökstudd á þessum grundvelli, sem fram hefur komið, að um leið og aðrir vegir verða jafngóðir, þá verði hér ekki lagt á veggjald suður á Reykjanes, og ég held, að um þetta hafi ekki verið nein deila hér á Alþ., því að ef menn athuga gang þessa máls, þá voru vegalögin samþ. með atkv. allra þm., þ. á m. það ákvæði, sem heimilar ráðh. að leggja á veggjald, og vegáætlun sú, sem gildir í dag, var enn fremur samþ. með atkv. allra þn. Ég ætla að leyfa mér að treysta því, að hæstv. ráðh. muni framfylgja þessari stefnu, sem áður hafði verið mótuð, og þegar við sjáum vegáætlunina, þá komi í ljós, að veggjaldið verði ekki lengur lagt á Suðurnesjamenn, og þá gæti sá hv. þm., sem er 1. flm. þessa frv., glaðzt yfir því, að þeirri stefnu, sem mótuð hafði verið af fráfarandi ríkisstj., verði haldið.