01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum hv. þm. Sjálfstfl. að leggja fram hér í d. frv. til l. um. breyt. á lögum nr. 101 frá 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl. Frv. gerir ráð fyrir breytingu á 25. gr. laganna, en þar komi ný mgr. á eftir þeirri mgr., sem nú stendur í þessu ákvæði.

Í greininni, eins og hún hljóðar í dag, segir: „Þar sem samsölustjórn er starfandi samkv. ákvæðum 23. gr., skal öll sala og dreifing á neyzlumjólk, rjóma og nýju skyri fara fram undir yfirstjórn hennar.“

Frv. gerir ráð fyrir, að aftan við þessa klásúlu komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Skylt er samsölustjórn að heimila matvöruverzlunum, sem um það sækja, sölu og dreifingu framangreindrar mjólkurvöru, enda sé þeim almennum skilyrðum fullnægt, sem samsölustjórn ákveður um aðbúnað, greiðslufyrirkomulag og meðferð mjólkurvöru í viðkomandi verzlun. Þau skilyrði skulu ákveðin með reglugerð. Samþykki hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvalda skal liggja fyrir:“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá þróun, sem orðið hefur á sviði verzlunar og viðskipta allt frá því, að verzlunin varð frjáls og fluttist inn í landið. Meðan danskir verzlunarhringar einokuðu alla verslun til og frá Íslandi, jafnt sem sölu og dreifingu verzlunarvöru í landinu sjálfu, var landslýður efnahagslega háður og þjóðin öll undirokuð þessum alræmdu selstöðukaupmönnum. Ekki fer á milli mála, að þegar verzlun komst í hendur Íslendinga sjálfra, þá var stigið eitt stærsta sporið í átt til aukins frelsis hér á landi, og jafnvel þótt nú sem áður andi köldu í garð verzlunar og verzlunarstéttar úr vissum áttum í þjóðfélaginu, þá fer það ekki á milli mála og þeirri staðreynd verður ekki breytt, að frjáls innlend verzlun er einn af hornsteinum sjálfstæðis íslenzku þjóðarinnar.

Því miður hefur saga verzlunarinnar ekki verið átakalaus og óþarft er að minna á, hvernig verzlunin hefur orðið skotspónn pólitískrar togstreitu. Afskipti hins opinbera af verzlun og viðskiptum voru í langan tíma talin vinsælasta leiðin til aðgerða í efnahagsmálum. Ef eitthvað fór miður, ef skórinn kreppti að, þá var ávallt gripið til þess ráðs að skerða frjálsræði og svigrúm á þessum vettvangi. Þarf ekki að rifja upp sögu skömmtunarkerfa, kvótafyrirkomulags, verðlagshamla o. s. frv.

Smám saman hefur hagfræðingum, embættismönnum og jafnvel stjórnmálamönnum orðið æ ljósara haldleysi slíkra ráðstafana, og í hinu vestræna frjálsa hagkerfi heyra slíkar aðgerðir nú til undantekninga. Að vísu hefur okkur Íslendingum enn tekizt að halda í úrelt fyrirkomulag verðlagsmála, sem jafnvel hefur verið á kostnað bráðnauðsynlegrar löggjafar, sem hamlar gegn einokunarhringum. En frásögn af þeirri hörmungar- og leiðindasögu verður að bíða betri tíma. Það, sem skiptir máli, er sú staðreynd, að eftir því sem neyzluþjóðfélaginu hefur vaxið ásmegin og allri iðnþróun fleygt fram, hefur verzlun hvarvetna verið gefin frjálsari og hvers konar hömlur verið felldar niður. Reynslan hefur sýnt, að slíkt, fyrirkomulag reynist farsælla verzlunarstéttinni sjálfri, neytendum og þjóðfélaginu í heild.

Í því máli, sem hér er til umr., lítur dæmið hins vegar á þann veg út, að almenn dagleg nauðsynjavara, mjólkurvaran, er seld og henni dreift undir yfirstjórn ákveðinna hagsmunasamtaka, sem ekki hafa tekið tillit til þeirrar þróunar, sem hér er rætt um. Sala og dreifing mjólkurvöru er í höndum samsölustjórna, samtaka framleiðenda, og fyrirkomulag þeirrar sölu hefur sætt mikilli gagnrýni af hálfu kaupmanna og þó einkum neytenda. Ágreiningurinn stendur einfaldlega um það, hvort eða af hverju ekki megi selja mjólkurvörur í verzlunum, sem eru reiðubúnar til að bjóða fullkomnasta útbúnað og þjónustu við sölu vörunnar. Spurningin er sú, hvort það eigi að líðast áfram í skjóli landslaga, að samsölustjórn geti deilt og drottnað, jafnvel mismunað aðilum og komið í veg fyrir þá auknu þjónustu og það viðskiptalega jafnrétti, sem farið er fram á með þessu frv.

Saga þessa máls er orðin nokkuð löng og skal ekki rifjuð upp að öðru leyti en því, sem skeð hefur nú á síðustu missirum.

Á árinu 1968 risu öldur almenningsálits og réttlætiskrafna mjög hátt á þessum vettvangi, og settar voru fram mjög ákveðnar óskir um, að sala mjólkur yrði heimiluð víðar heldur en nú er gert. Almennir borgarafundir voru haldnir, áskoranir bárust og teknir voru upp samningafundir á milli viðkomandi aðila, en allt án teljandi árangurs. Þó var að skilja, að þáv. yfirvöld vildu leysa mál þessi með samkomulagi á þann veg, að smám saman yrði fleiri verzlunum leyfð sala mjólkur og eðlilegt jafnræði kæmist á. Þannig munu á árinu 1970 6 eða 7 verzlanir í Reykjavík hafa fengið heimild til mjólkursölu, en fljótlega kom þó afturkippur, og þrátt fyrir beiðnir frá nú a. m. k. um 20 verzlunum í Reykjavík hefur engin verzlun fengið slíka heimild á árinu 1971.

Nú er það mál út af fyrir sig, hvers konar viðskiptahættir eða þjónusta það sé að þurfa að sitja undir því, hvort einhverri n. eða einhverjum embættismönnum þóknist að gefa hinum eða þessum leyfi til svo sjálfsagðrar og eðlilegrar þjónustu. En þeir aðilar, sem hér áttu hlut að máli, vildu þó una við það fyrirkomulag, sem hefur verið og er enn, í trausti þess, að úr því rættist og samkomulag næðist um einhverjar úrbætur. Sú von hefur þó brugðizt, algerlega brugðizt.

Það var í jan. 1971, 21. jan., sem Kaupmannasamtök Íslands sendu framleiðsluráði landbúnaðarins og Mjólkursamsölunni ítrekun á þeirri beiðni, að sala á mjólk yrði gefin frjáls öllum þeim matvöruverzlunum, sem þess óska og hafa eða mundu skapa sér aðstöðu til þess að uppfylla hreinlætisskilyrði eftir kröfum heilbrigðisyfirvalda. Var lögð áhersla á, að samkomulag næðist um gagngerða endurskoðun. 28. apríl barst loks endanlegt svar Mjólkursamsölunnar, og er þá vísað í aðalfund Mjólkursamsölunnar, sem haldinn var tveim dögum áður eða 26. apríl, en þar komst fundurinn að þeirri niðurstöðu, að sú frjálsa verzlun, sem farið var fram á, mundi brjóta í bága við lagaákvæði. Það eitt er út af fyrir sig athyglisvert, að til séu lagaákvæði, sem koma í veg fyrir frjálsa verzlun á Íslandi, en það er víst ekkert einsdæmi í íslenzkum lögum og skal ekki orðlengt hér frekar að sinni.

Í frekari röksemdafærslu Mjólkursamsölunnar máli sínu til stuðnings sagði svo í áðurnefndu bréfi:

„Fundurinn (þ. e. a. s. aðalfundur Mjólkursamsölunnar) lítur svo á, að með ákvæðum V. kafla framleiðsluráðslaganna sé verið að vernda hagsmuni bæði framleiðenda og neytenda, tryggja það, að sala og dreifing sé skipulögð af einum aðila, gera innheimtu sömuleiðis svo örugga og ódýra sem kostur er og tryggja það, að andvirði seldrar vöru komi sem fyrst í hendur framleiðenda. Þá telur fundurinn, að ekki hafi verið færð gild rök að því, að sú breyting, sem farið var fram á, yrði framleiðendum og neytendum til gagnkvæmra hagsbóta.“

Áður en ég vík að þessum röksemdafærslum vil ég geta þess, að einhverjar viðræður hafa átt sér stað seinni hluta síðasta árs milli Mjólkursamsölunnar og Kaupmannasamtakanna, en allar munu þær hafa verið á þann veg, að fyllsta áhugaleysis gætti af hálfu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík til þess að koma til móts við óskir kaupmanna. M. ö. o.: það liggur fullkomlega ljóst fyrir, að mál þetta verður ekki leyst með slíku samkomulagi í náinni framtíð, samkomulagi, sem lögin, eins og þau nú eru, gera þó fullkomlega mögulegt.

Að mínu áliti kemur nú til kasta löggjafarvaldsins, okkar, sem hér sitjum á hinu háa Alþ., og við verðum að svara þeirri spurningu: Viljum við sætta okkur við núverandi ástand, taka góð og gild rök samsölustjórna, eða viljum við taka tillit til röksemda neytenda, kaupmanna og þjóðarheildarinnar og rýmka svo gildandi lagaákvæði, að yfirstjórn mjólkursölunnar geti ekki meinað þeim aðilum að veita umrædda þjónustu, sem uppfylla þau skilyrði, sem sett kunna að verða af mjólkursamsölustjórnum sjálfum.

Hver eru þau, rökin fyrir því að flytja þetta mál og óska eftir því, að það verði samþ.? Ég vil vitna til grg., sem fylgir þessu frv. á þskj. 351, en þar er bent á fjögur atriði, sem vega þyngst á vogarskálunum, þegar mál þetta er rökstutt.

Í fyrsta lagi er þess getið, að bændur geti losnað við óþarfa fjárfestingu, sem nemur tugum millj., ef horfið yrði frá þeirri almennu stefnu að reisa sérstakar mjólkurverzlanir, jafnvel við hlið annarra verzlana. Um þessa röksemdafærslu þarf ekki að fara mörgum orðum. Allir vita, að hér í Reykjavík og víðar um landið hefur Mjólkursamsalan rekið þá stefnu að selja mjólkurvörurnar í eigin verzlunum og hefur til þess kostað uppbyggingu á sérstökum húsakynnum, jafnvel við hlið verzlana, sem undir öðrum kringumstæðum og tvímælalaust gætu veitt sömu þjónustu fyrir Mjólkursamsöluna og framleiðendur mjólkurinnar. Það er enginn vafi á því, að ef upp yrði tekin ný stefna, frjálslyndari stefna í þessum málum, þá mundi Mjólkursamsalan geta sparað sér tugi millj., ég vil ekki nefna hærri tölur, en a. m. k. tugi millj., og þarf ekki að fjölyrða, hversu miklar hagsbætur það yrðu fyrir framleiðendur, fyrir bændur, ef ekki yrði ráðizt í slíka óþarfa fjárfestingu.

Í öðru lagi er getið um í grg., að neytendur ættu auðveldara með að nálgast mjólkurvörur, þegar þær væru seldar ásamt með öðrum matvörum, og auknir möguleikar mundu skapast til heimsendingar mjólkur, en hvort tveggja gæti vafalaust leitt til aukinnar sölu og neyzlu mjólkurvara. Það gefur auga leið, hvað þessi rök snertir, að eftir því sem mjólkinni er dreift víðar, eftir því sem þægilegra er að nálgast hana, því meiri möguleikar eru á því, að hún seljist betur og að neytendum fjölgi. Enn fremur er það ljóst mál, að matvörukaupmenn um allt land vilja bjóða viðskiptavinum sínum beztu og hagkvæmustu þjónustuna og hafa a. m. k. hingað til boðið heimsendingar þeirrar vöru, sem keypt er í viðkomandi verzlunum, og er enginn vafi á því, að að sjálfsögðu mundi mjólkurvaran sömuleiðis vera send heim ásamt með öðrum vörum. Það hefur jafnvel tíðkazt sú regla í ýmsum þeim verzlunum, sem eru reknar í Reykjavík, að til þess að veita þessa þjónustu, sem hér er verið að tala um, hafa kaupmenn lagt á sig að kaupa mjólkurvöru í samsölubúðum til þess að geta boðið viðskiptavinum sínum að senda mjólkina heim.

Í þriðja lagi er bent á, að heildardreifingarkostnaður á mjólk mundi að öllum líkindum lækka, og er þá höfð hliðsjón af þróun slíkra mála m. a. í Danmörku. Þetta er fullyrðing, sem ég get ekki annað en sett hér fram án þess að geta rökstutt frekar. Þetta er talið óyggjandi að mati þeirra manna, sem það hafa kynnt sér. Ég hef því miður ekki við höndina hér neinar tölur í því sambandi, en allar líkur benda till, að ef neyzla og sala á mjólk mundi aukast og boðin yrði aukin þjónusta, þá mundu tekjur Mjólkursamsölunnar aukast og væntanlega þá kostnaður eða rekstrargjöld að sama skapi verða í minna mæli.

Í fjórða lagi yrði eytt því viðskiptalega misrétti, sem þróast í skjóli núgildandi fyrirkomulags og stjórnunar, og mundi það afstýra óþarfa tortryggni og árekstrum. Það er opinbert leyndarmál á þessum vettvangi, á sölu og dreifingu mjólkur, að uppi hafa verið fullyrðingar og ásakanir um, að Mjólkursamsalan hafi mismunað aðilum, hafi leyft einni verzlun að selja mjólk, en ekki annarri, án nokkurra skynsamlegra skýringa, án þess að nokkur eðlileg rök liggi að baki slíkum ákvörðunum. Sérstaklega á þetta við úti á landi í ýmsum smærri plássum, og tölur gefa það fyllilega í skyn, að þar séu viss rekstrarform meira í náðinni heldur en önnur, þegar um er að ræða heimild mjólkursamsölustjórna til að selja mjólk í viðkomandi verzlunum. Það er útilokað annað með tilliti til þeirrar þróunar, sem hér hefur átt sér stað í öllum viðskipta- og verzlunarmálum og ég rakti í máli mínu fyrr, að gerð verði bragarbót á þessu sviði, að eytt verði viðskiptalegu misrétti, sem ótvírætt liggur fyrir í þessu máli, og að allar verzlanir, sem geta og vilja bjóða fullkomna þjónustu og fullkominn útbúnað, fái að selja þessa vöru eins og aðrar matvörur, aðrar daglegar nauðsynjavörur.

Nú fyrir nokkrum dögum bárust mér mjög athyglisverðar upplýsingar, hvað snertir þetta mál, sem enn freka undirstrika nauðsyn þess, að slík heimild sé veitt sem hér um ræðir. Í Danmörku mun í þessum málum hafa verið mjög svipað á komið og hér. Þar var yfirstjórn í höndum samsölustjórna, framleiðenda, og var viss tregða, ég vil ekki segja annarleg tregða, en viss tregða á því að heimila almennum verzlunum sölu á þessum mjólkurvörum. En nú frá og með 1. jan. 1971 var rýmkað mjög um þessar heimildir, og má segja, að nú sé mjólk seld í öllum þeim verslunum þar í landi, sem uppfylla kröfur og skilyrði mjólkursamsölustjórna, og þá hefur brugðið svo við, að sala á mjólk hefur stórkostlega aukizt og þar af leiðandi tekjur framleiðenda að sama skapi.

Ég hef hér í höndunum upplýsingar um það, að sala á mjólk hafi hækkað að verðmæti til úr 615 millj. dönskum kr. upp í 675 millj. danskar kr. Ég er nú ekki nægilega góður í hugarreikningi til að finna út, hvað þetta er mikið í ísl. kr., en sjá má, að þarna er um mjög verulegar upphæðir að ræða.

Í röksemdafærslu Mjólkursamsölunnar, sem ég gat um áðan, segir svo, að núgildandi lög séu sett til þess að vernda hagsmuni bæði framleiðenda og neytenda. Þetta get ég fullkomlega fallizt á, og ég lít enn fremur svo á, að þessi till., sem hér er gerð, skerði í engu hagsmuni hvorki framleiðenda né neytenda og framleiðendur sjálfir geti haft fullt eftirlit og fulla yfirstjórn á þessum málum áfram, þrátt fyrir samþykkt á þessari till. Enn fremur er bent á, að lögin skuli tryggja, að sala og dreifing sé skipulögð af einum aðila. Till. gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á þessari skipulagningu, hún verður áfram í höndum eins aðila, þ. e. a. s. yfirstjórnar Mjólkursamsölunnar.

Þá er enn fremur fært fram sem rök af hálfu Mjólkursamsölunnar, að gera eigi innheimtu svo örugga og ódýra sem kostur er og tryggja það, að andvirði seldrar vöru komi sem fyrst í hendur framleiðenda. Þetta ætti væntanlega að vera hægt að tryggja eins og kostur er, ef skoðuð er till., en þar er einmitt gert ráð fyrir því, að samsölustjórn geti sett skilyrði um greiðslufyrirkomulag. Hins vegar er varla hægt að fara fram á það við þá, sem hugsanlega kæmu til með að selja mjólkurvörur, að þeir sæti einhverjum afarkostum að þessu leyti, og verður að gera ráð fyrir því, að um innheimtu á söluandvirði mjólkurvörunnar fari eins og með aðra innheimtu á öðrum vörum, sem dreift er og seldar til verzlana, bæði hér í Reykjavík og annars staðar. Það hefur þróazt ákveðið fyrirkomulag milli heildverzlunar, milli framleiðenda annars vegar og smásöluverzlana hins vegar, og ég veit ekki til, að nokkur hafi í aðalatriðum undan því kvartað. Þar gilda lögmál viðskipta og verzlunar, og er ekki að sjá annað en það geti fullkomlega átt sér stað á þessu sviði eins og á öðrum.

Þá er tekið fram, að aðalfundur Mjólkursamsölunnar hafi ekki séð, að færð hafi verið gild rök fram fyrir því, að sú breyting, sem farið er fram á, yrði framleiðendum og neytendum til gagnkvæmra hagsbóta. Ég ætla ekki að endurtaka þær röksemdafærslur, sem ég taldi hér upp í fjórum liðum og eru að mínu viti svo ótvíræðar forsendur þess, að hér sé breytt um, að ekki fer á milli mála, að hvorki er gengið á hagsmuni framleiðenda né neytenda. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar, að neytendum yrði bætt þjónusta, sjálfsögð þjónusta, og framleiðendur mundu hagnast á þessu fjárhagslega, selja meiri mjólk, aðrar mjólkurvörur og fá auknar tekjur af þeirri sölu.

Ég vil taka fram, áður en ég lýk máli mínu, að þessi till. er ekki flutt í því skyni að níðast á einum eða neinum. Hún er ekki flutt til þess að hallmæla í sjálfu sér framleiðendum eða þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta. Ég efast ekki um, að það séu full heilindi í ákvörðunum mjólkursamsölustjórna í þessu máli, þær hafi talið sig vera að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda og segi það af heilum hug, að þær hafi ekki sannfærzt um, að nægilega gild rök séu til breytinga. Það breytir ekki því, að ég hef aðra skoðun. Ég tel það ekki vera rétta niðurstöðu af hálfu þessara manna og tel, að það hafi verið fullreynt að ná samkomulagi milli aðila og nú sé ekki um annað að ræða en láta á það reyna, hvort löggjafarsamkundan er tilbúin til þess að leysa þessa deilu með því að rýmka ákvæði framleiðsluráðslaganna á þann veg, sem hér um ræðir.

Ég vil líka ítreka það, að í þessari till. er ekki gert ráð fyrir því, að yfirstjórnin fari úr höndum framleiðenda. Þar er mjög tryggilega frá því gengið að mínu viti, að yfirstjórn mjólkursölu, samsölustjórnin, hafi í hendi sinni að setja kröfur og skilyrði til þess, sem hún sjálf ákveður og viðkomandi verzlanir verða að ganga að. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt, þá er einfaldlega hægt að segja: Mjólkina færðu ekki selda.

Nú hefur oft verið bent á það að verzlanir t. d. í Reykjavík og þ. á m. ýmsar af þeim verzlunum, sem nú hafa sótt um sölu mjólkur, hafi ekki þennan útbúnað í dag og því sé ekki hægt að heimila þeim söluna. En vitaskuld gefur það auga leið, að kaupmenn, sem eru smáir atvinnurekendur og hafa ekki mikil fjárráð á stundum, leggja ekki út í miklar fjárfestingar í sínum verzlunum, sínum fyrirtækjum, upp á von og óvon. Þess vegna má segja, að í ýmsum verzlunum sé ekki fyrir hendi nú í dag útbúnaður eða aðbúnaður, sem gerir mögulegt að selja mjólk á þessum stöðum. En ef það liggja fyrir einhver lög, einhver ákvæði, eins og hér er gerð till. um, þar sem segir, að það sé skylt að heimila þessa sölu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þá geta menn gengið að þessu vísu og þá geta þeir að sjálfsögðu lagt út í ýmsar fjárfestingar og breytingar á verzlunum sínum til þess að vera tilbúnir að taka við þessari sölu.

Enn fremur er gert ráð fyrir því, sem óþarfi er reyndar að taka fram, að samþykki hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvalda skuli liggja fyrir. Slíkt er að sjálfsögðu frumskilyrði. Og enn fremur er gert ráð fyrir því, að þau skilyrði, sem hér er um að ræða um aðbúnað, greiðslufyrirkomulag og meðferð mjólkurvöru, séu sett með reglugerð og þar sé nánar tilgreint, hvað við sé átt og hvernig þessum skilyrðum skuli háttað.

Ég vonast til þess, að ég hafi komið á framfæri þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki þessum tillöguflutningi, og skal ekki ítreka það að sinni, en vænti þess eindregið, að menn grípi á þessu með fullum skilningi og án hleypidóma, átti sig á því, að hér er um að ræða spor, sem reyndar er stigið allt af seint, jafnvel áratugum of seint, í átt til aukins frjálsræðis á þessu sviði og er í takt við þær breytingar, sem orðið hafa á sviði verzlunar og viðskipta hvað snertir alla þjónustu, þjónustu fyrir neytendur og fyrir þjóðarheildina.