01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um eina breytingu á löggjöfinni um sölu landbúnaðarafurða. Ég tel þessa löggjöf vera meingallaða og hafa verið það frá upphafi og brýna nauðsyn beri til að taka hana alla til gagngerðrar og róttækrar endurskoðunar. Ég ætla hins vegar ekki að gera svo víðtækt og mikilvægt atriði að umtalsefni í ræðu í þessu sambandi. En eitt atriði er í þessari löggjöf, sem ég tel einmitt í dag alveg sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á, því að ég hef orðið þess var í morgun, að mönnum er það engan veginn fullljóst.

Eins og kunnugt er, varð í dag mikil hækkun á innlendum landbúnaðarvörum. Þessi hækkun svarar til hvorki meira né minna en 2.14 stiga hækkunar á vísitölunni. Það hefur vakið athygli, að þessi hækkun verður sama daginn og kaupgjald hækkar um tæplega 1%, eða 0.98%. Ég hef orðið þess greinilega var í morgun, að ýmsir virðast halda, að hér sé um það eitt að ræða, að launþegar eigi að bíða í 3 mánuði eftir því að fá þessa hækkun bætta. En þetta er misskilningur. Og sá misskilningur á rót sína að rekja til ákvæða í þessum lögum, sem hér er um að ræða. Samkv. þessum lögum og kjarasamningum eiga neytendur ekki að fá bætt 1.8 stig af þessari 2:14 stiga hækkun. Þessi 1.8 stig eiga neytendur að bera bótalaust.

En hér er ekki nema hálfsögð sagan. Ekki aðeins landbúnaðarvörur hafa hækkað nú undanfarinn mánuð eða síðan vísitalan var síðast reiknuð, sú vísitala, sem kaupgjaldið frá deginum í dag er miðað við, en það er vísitalan 1. febr. Síðan þá hafa orðið þessar verðhækkanir:

Brauð og kökur hafa hækkað um 15–19% Snyrting á rakarastofum hefur hækkað um 21–22%. Rafmagn hefur hækkað um 10% og niður suðuvörur, kex, harðfiskur o. fl. hefur hækkað. Það er erfitt að reikna meðaltal af þeirri hækkun, en hækkun þessara vörutegunda svarar til tíunda hluta úr vísitölustigi. Þessar hækkanir, sem ég hef nú nefnt, hækka vísitöluna um 0:64 stig, þannig að í heild er vísitalan nú orðin 2.78 stigum — tæpum þrem stigum — hærri en hún var 1. febr., en við þá vísitölu er kaupgjaldið í dag miðað. En vegna þess að neytendur munu ekki fá bættan nema lítinn hluta af landbúnaðarvöruverðshækkuninni, sem varð í dag, þá er niðurstaðan sú, að vegna þeirrar tæplega þriggja stiga hækkunar á vísitölunni, sem orðið hefur síðan hún var síðast reiknuð, þá munu launþegar fá 1% hækkun á kaupi sínu eftir þrjá mánuði.

Öllum er í fersku minni, hvað gerðist um s. l. áramót. Verðlag landbúnaðarafurða var þá hækkað, þ. e. vísitalan hefði átt að hækka að réttu lagi um 3.7 stig. Vegna afnáms nefskatta í síðustu fjárl. var vísitalan hins vegar lækkuð sem þessu svaraði, þótt aðrir skattar eigi að hækka jafnmikið, svo að neytandinn stendur í sömu sporum, og með þessu móti voru í raun og veru höfð af launþegum 3.7 vísitölustig eða kauphækkun, sem svarar 3.7 vísitölustigum.

Maður skyldi nú halda, að hæstv. ríkisstj. hefði talið þetta vera nógu slæmt háttalag gagnvart launþegum, en í dag gerðist nokkuð, sem er í raun og veru sízt betra. Nú í dag er viðhorfið það, að vísitalan hefur enn hækkað um 2.78 stig, hún er í dag 2.78 stigum hærri en hún var 1. febr. s. l. Og þetta eiga launþegar að fá bætt með 1% kauphækkun eftir 3 mánuði. Þannig eru þau vísitölustig, sem launþegar eiga að bera alveg óbætt, komin upp í 5.5, — þau vísitölustig, sem launþegar eiga að bera óbætt, komin upp í 5½ stig.

Í dag, 1. marz, eftir þá hækkun landbúnaðarvaranna, sem ég lýsti áðan, og þá hækkun á brauði og kökum, snyrtingu, rafmagni, niðursuðuvörum, harðfiski, kexi og enn þá fleiru — eftir allar þessar hækkanir er m. ö. o. ástandið orðið þannig, að kauphækkunin frá 4. des. er ekki aðeins horfin, hún er meira en það. Raunverulegt kaup launþega er í dag, 1. marz, orðið minna en það var 4. des. eftir kjarasamningana. Og þetta eru sannarlega tíðindi, sem allir launþegar á Íslandi hljóta ekki aðeins að taka eftir, heldur hljóta að gera einhverjar ráðstafanir gegn.

Ýmsum finnst af eðlilegum ástæðum vísitöluútreikningur vera flókið fyrirbæri og erfitt að átta sig á honum. En fram til þessa hef ég einkum skýrt viðhorfið með aðstoð vísitölunnar. Almenningur skilur hins vegar áreiðanlega, hvað er á ferðinni, þegar hann athugar verðið í búðunum, eins og það er í dag, og ber það saman við verðið, eins og það var, þegar hann fékk sína langþráðu kauphækkun 4. des. s. l. Ég skal ekki flækja málið með því að nefna allt of mörg dæmi um þær verðhækkanir, sem orðið hafa síðan kjarasamningarnir voru gerðir. Ég skal láta mér nægja að nefna þrjár algengar neyzluvörutegundir, sem hvert einasta heimili kaupir á hverjum einasta drottins degi allt árið um kring, en það er súpukjöt, – það eru landbúnaðarvörur, — skyr og ostur. Nú er það að vísu alveg rétt, að það er ekki við því að búast, að fátækt fólk geti keypt þetta á hverjum einasta degi. Það er að vísu alveg laukrétt, því miður. Það er nú ekki svo vel búið að fólki. En það, sem ég auðvitað átti við, var það, að þetta er keypt í búðunum á hverjum einasta drottins degi allt árið um kring. Einhver kaupir það í einhverri búð á hverjum einasta degi allt árið um kring. Um það getum við ábyggilega orðið sammála.

Hvað var nú verðlag á súpukjöti 4. des., þegar kjarasamningarnir voru gerðir? Þá kostaði það 124.50 kr. kg. Hvað kostar það frá því að búð var opnuð í morgun? Það kostar 165.50 kr. Það hefur hækkað á þessu tímabili um 41 kr., samtímis því sem kaupið hefur hækkað um 1% og á að hækka um annað prósent eftir 3 mánuði.

Hvað er með skyrið? Það kostaði 4. des. 24.50 kr. Hvað kostaði það í morgun? Það vita húsmæðurnar, sem hér eru, ábyggilega. Það kostaði 41 kr. Það hefur hækkað um 16.50 kr.

Og osturinn, sem einhverjir kaupa eflaust í dag, kostaði 4. des. s. l. 142.50 kr. Hvað ætli húsmóðirin verði að borga fyrir hann í dag, ef hún fer í innkaupaferð? 185.80 kr. Hann hefur hækkað um 43.30 kr.

Ég þarf ekki að segja þessa sögu rækilegar og ekki hafa hana lengri í raun og veru. Þetta er alvarleg saga fyrir allan almenning í landinu, sem hann mun áreiðanlega hlusta vandlega á og lesa vandlega og hugsa vandlega um, hvernig hann geti við brugðizt. En sannarlega hafa launþegar átt von á öðru frá þeirri stjórn, sem hefur kennt sig við launþega, við vinnandi stéttir, en öðru eins og þessu. Og ég minni aftur á það, að þessar verðhækkanir er launþegafjölskyldum ætlað bera með 1% kauphækkun frá deginum í dag og annarri 3% kauphækkun eftir 3 mánuði. Það getur hver sagt sér sjálfur, hvort kjör launþega eru að batna eða versna undir stjórn ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að verða við ósk hæstv. forsrh., sem hann bar hér einu sinni fram, þar sem hann lagði mönnum ríkt á hjarta að lesa málefnasamning ríkisstj. kvölds og morgna. Og ég ætla að leyfa mér að lesa lítinn hluta af honum, þó að nú sé miður dagur. Ég vona, að hann telji það ekki vera til hins verra, heldur hins betra, að menn lesi hann þrisvar á dag, en ekki tvisvar. Á fyrstu síðu málefnasamningsins standa þessar setningar um kjaramál, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti.“

Ég vek athygli á því, að stjórnin sagðist ætla að leitast við að tryggja, að hækkun verðlags yrði ekki meiri hér en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum, og hún varar við háskalegri verðlagsþróun. Ég fullyrði, að í engu nálægu landi hafa átt sér stað aðrar eins verðhækkanir í febrúarmánuði og á Íslandi. Ísland hefur þar áreiðanlega ekki Norðurlandamet, ekki Evrópumet, heldur líklega heimsmet. Og mín allra síðustu orð eru þau að beina því til hæstv. forsrh., þótt hann sé hér nú ekki við, að þegar hann les bænirnar sínar í kvöld, þá lesi hann þessa setningu í málefnasamningnum alveg sérstaklega og tvílesi hana þá og reyni að fara eftir henni framvegis.