01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (3109)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur nú lýst því mjög átakanlega, hver áhrif verðhækkun á landbúnaðarafurðum hefur á hversdagslíf fjölskyldnanna í landinu. Það er fleira en verðlag þessara vörutegunda, sem hefur áhrif á það. Það er einnig það fyrirkomulag, sem tíðkast á dreifingu þeirra. Ég ætla að nefna þá vörutegund, sem hver einasta fjölskylda í landinu, svo að ég noti orðalag hv. síðasta ræðumanns, hver einasta fjölskylda í landinu notar á hverjum einasta drottins degi, það er mjólk. Og aðra, það er brauð.

Þetta frv. fjallar um afnám á einkaaðstöðu mjólkursamsölu til þess að annast dreifingu mjólkur. Fyrirkomulag á dreifingu mjólkur hefur föngum verið bæði mér og fjölmörgum húsmæðrum og húsráðendum í þessu landi með torskildari fyrirbærum í viðskiptalífinu. Ég verð að játa, að mér varð á, þegar hv. 2. þm. Sunnl. flutti hér ræðu sína og lýsti því fyrirkomulagi, sem þessi ágætu dönsku „ísmejerí“ hefðu haft á heimsendingu mjólkur, að oft hef ég óskað mér tilvistar slíkra „ísmejería“ hér í borginni, sem sæju um það, að mjólkin stæði við dyr mínar á morgnana, þegar hafizt væri handa um verk dagsins.

Það skortir talsvert á í sambandi við dreifingu mjólkur hér í borginni, að fylgt sé því lögmáli, sem löngum hefur reynzt happasælt: að gera neytandanum til hæfis. Á bls. 2 í grg. þessa frv., sem fyrir liggur, stendur þetta í 2. mgr. 2. tölul., með leyfi hæstv. forseta:

„Neytendur ættu auðveldara með að nálgast mjólkurvörur, þegar þær væru seldar ásamt með öðrum matvörum, og auknir möguleikar mundu skapast til heimsendingar mjólkur, en hvort tveggja gæti vafalaust leitt til aukinnar sölu og neyzlu mjólkurvara.“

Undir þetta vil ég eindregið taka. Það breytir engu um óskir neytenda í þessu efni, þótt hreinlæti í mjólkurbúðum sé til fyrirmyndar og viðmót afgreiðslustúlkna sé ágætt og þær röskar við afgreiðslu. Margt má verulegt að mjólkursölunni finna. Alvarlegast er, að í núverandi fyrirkomulagi kemur fram algert skilningsleysi að mínum dómi á því, hvern tíma og fyrirhöfn það kostar að draga að daglegar nauðsynjar til heimila. Það er vitanlega mjög misjafnt, hver tök menn hafa á og lag á að haga innkaupum sínum þannig, að sem minnstan tíma taki. Við skulum taka nokkur dæmi úr hversdagslegu lífi.

Þeir, sem vilja hafa á borðum hjá sér nýja mjólk og nýtt brauð í morgunverð, þurfa að fara a. m. k. í tvær búðir, mjólkurbúð og bakarí. Mjólkursamsalan rekur ágætt bakarí, en ný brauð eru þar ekki til á morgnana, þegar flestir neyta þessa matar. Sá, sem vill kaupa nýjar vörur í mjólkurbúð, getur fengið mjólk kl. 9, franskbrauð og heilhveitibrauð kl. 11.30, rjóma kl. 2 og rúgbrauð kl. 3.30. Þetta er vægast sagt ákaflega óhentugt fyrirkomulag og ekki í sem beztu samræmi við fullkomna hollustuhætti.

Um heimsendingar er svo, eins og kunnugt er, ekki að ræða hjá Mjólkursamsölunni. Slíkur skortur á þjónustu hlýtur að eiga rætur sínar að rekja til einokunaraðstöðu dreifingaraðilans. Í ákaflega mörgum tilvikum fellur það í hlut húsfreyjunnar að annast aðdrætti til heimilisins. Við skulum hugsa okkur mjög algengt dæmi, sem við vafalaust sjáum daglega á ferðum okkar milli vinnustaðar og heimilis. Við skulum hugsa okkur unga húsmóður á t. d. 5 manna heimili, sem ekkert kemst frá heimili sínu nema klæða í útifatnað tvö lítil börn og hafa kannske annað í kerru og leiða hitt við hönd sér. Hún gengur alllangan spöl mjög hægt og rólega vegna smæðar samferðarmannanna í næstu mjólkurbúð og þarf að bera heim að jafnaði 6 lítra af mjólk, auk annarra vörutegunda, sem þarf til heimilisins daglega. Þessi sama húsmóðir þarf að öllum líkindum að fara margar ferðir vegna þess, í hvaða horfi þjónusta mjólkurbúðanna er, og í þessu þjóðfélagi okkar, þar sem margt er nú rannsakað og reiknað út, finnst mér alls ekki úr vegi, að gerð væri á því rannsókn, hver tími fer í það hjá húsmóður, sem svona stendur á um, að fara alla þessa innkaupaleiðangra, sem algerlega eru óhjákvæmilegir til rekstrar heimilis hennar, ásamt öllum þeim aðdraganda og undir búningi, sem því fylgir að koma fylgdarliði hennar, þ. e a. s. þessum litlu börnum, af stað og inn aftur. Þetta tekur ótrúlega langan tíma, það get ég fullvissað hv. þm. um af eigin reynslu.

Samþykkt þessa frv. mundi að dómi flm. spara framleiðendum mikið fé og verða einnig til þess að nýta stórum betur tíma margra þjóðfélagsborgara og þá ekki sízt húsmæðranna. Og oft hefur mér orðið að hugsa, að furðu gegnir, að hinar fjölmörgu húsmæður þessa lands hafa lengi látið það viðgangast að láta fara svona með tímann sinn. En einhvern veginn held ég, að það sé einungis vegna þess, að þær telji sig algerlega máttvana gegn því mikla valdi, sem dreifingaraðilar mjólkur hafa í þessum málum. Þær komast ekki hjá því að fá mjólk til sinna heimila á hverjum einasta degi og það er ekkert um það að ræða að því er varðar nýmjólk, að það sé keypt meira eða minna eftir því, hvar hún fæst að öllum jafnaði. Öðru máli gegnir um ýmsar aðrar mjólkurvörur. Ég hygg, að rétt sé, að það hafi mikla þýðingu um sölumagn þeirra, hvar dreifing þeirra fer fram. Vafalaust mundi miklu meira seljast af þeim, ef þær væru á boðstólum í almennum verzlunum.

Ég get ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði, sem mér fannst sérstaklega athugaverð í hinni umfangsmiklu og annars mjög greinargóðu ræðu hv. 2. þm. Sunnl. Hann færði fram rök fyrir því að halda áfram núverandi fyrir komulagi á sölu mjólkur: Í fyrsta lagi, að sala á búðunum, sem þyrfti að koma til, ef þær yrðu lagðar niður, mundi e. t. v. ekki skila aftur því fjármagni, sem í þær hefði verið lagt. Vitanlega er það alltaf nokkur áhætta að selja fasteign. Það getur líka vel verið, að söluverð yrði meira en það fjármagn, sem í það væri lagt. Alla vega sýnist mér algerlega óhaldbær röksemd í þessu máli, hvernig háttað væri sölu á þeim fasteignum, sem mjólkurbúðir eru núna reknar í.

Þá minntist hv. þm. á það, að breyting á fyrir komulaginu gæti orðið til þess, að fjölmargir misstu atvinnu sína. Einnig þetta atriði held ég að sé mjög haldlítið. Ég vil skýra frá því, að þeir aðilar, sem ég hef orðið vör við að vinna í sambandi við dreifingu mjólkur, hafa unnið sitt starf þannig, að ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að þeir eiga hægt með að fá vinnu annars staðar, jafnvel þó að sölubúðum Mjólkursamsölunnar yrði fækkað eða þær jafnvel lagðar, niður. Ég á hér fyrst og fremst við afgreiðslustúlkurnar í mjólkurbúðunum. Mér dettur ekki í hug, að þær yrðu atvinnulausar, þótt þær yrðu að fara úr þessari vinnu. Svo góða þjálfun hafa þær fengið í þessum verzlunum til starfa og gætu vafalaust starfað í öðrum verzlunum með góðum árangri.

Þá benti hv. þm. á, að Mjólkursamsalan vildi sannarlega hafa sem bezt og mest viðskipti við neytendur og kappkostaði þess vegna að gera þjónustu sína sem bezta. Það er rétt, og það vil ég sannarlega þakka, að mjög hefur farið fram umbúðum og ýmiss konar meðferð mjólkurvera á seinni árum, og það svo mjög, að geymsluþol þeirra hefur stóraukizt. Einmitt það atriði ætti að verða til þess, að ekki væri sama nauðsyn nú og áður að selja þessar vörur í sérstökum búðum.

Hv. þm. skýrði síðan þingheimi frá reynslu Dana í þessum efnum, og við fengum upplýsingar um störf danskrar nefndar 23 aðila, sem hafði þessi mál til meðferðar. En ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að samkv. upptalningu hv. þm. var einn eða kannske tveir fulltrúar neytenda í þessari 23 manna n. Niðurstaða þessarar n. skildist mér að leitt hefði til, að nú væri óðum stefnt að afnámi heimsendingar mjólkur, sem hv. þm. taldi að mundi gleðja neytendur þar í landi mjög að losna við, að mjólkinni yrði hent við hvers manns dyr, eins og hann orðaði það, ef ég man rétt. En einmitt þetta atriði, að mjólkin sé látin við hvers manns dyr, sem þess óskar og fyrir það greiðir, hefur lengi verið ósk neytenda á Íslandi. Það hefur ekki getað komið til framkvæmda með núverandi dreifingarfyrirkomulagi. Breytt fyrir komulag, eins og bent er á í þessu frv., gæti mjög auðveldað það, því að fjölmargir kaupmenn þessa bæjar hafa sýnt mikinn skilning á þörfum neytenda og þ. á m. á vinnutíma húsmæðra með því að annast heimsendingu varnings.

Ég vildi aðeins benda á þessi atriði, til þess að fram kæmi það sjónarmið í þessu máli, sem ég tel að sé mjög mikilvægt og allt of mikið hefur verið þagað um, en það er sjónarmið neytendanna sjálfra. Ég veit, — öllu heldur ætti ég að segja, að ég er þeirrar skoðunar, og við flm. þessa frv., — að sjónarmið kaupmannanna og neytendanna hljóta að fara saman, ef vel á að vera, það sé þeirra beggja hagur, að komið sé til móts við óskir neytenda, og við teljum, að það verði bezt gert með því að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, svo að hægt verði að framkvæma þær óskir, sem ég hef hér lýst.