10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til þess fyrir mig á þessu stigi málsins að fara að lengja hér umr. Það hefur komið fram, sem ekki hefur komið neinum á óvart, að það eru skiptar skoðanir um þetta frv. Sjálfstæðismenn hafa lýst andstöðu sinni við það. Viðslíku er ekkert að segja. Það er engin ný bóla, þó að stjórnarandstæðingar samþykki ekki frv., sem frá stjórninni koma. Að sjálfsögðu er heldur ekkert við því að segja, hvernig þeir hyggja upp málflutning sinn eða hvaða ástæður þeir færa fram fyrir mótstöðu sinni við þetta frv. Ég get að vísu ekki fallizt á það, hvernig þeir byggja þennan innflutning upp. Þegar um er að ræða tilgang þessarar stofnunar, stjórnendur hennar, starfsaðferðir, þá vilja þeir ekki byggja á orðum frv. Þeir vilja ekki byggja á yfirlýsingum mínum eða annarra um það, hver meiningin sé með þessu, heldur finna þeir það út, að þrátt fyrir þetta búi eitthvað á bak við þarna. Þeir segja, að þrátt fyrir allt eigi að innleiða höft með þessu, það eigi að ná fram þessari samræmingu í lánastefnu með valdboði o.s.frv. o.s.frv. Um þetta þýðir auðvitað ekkerrar að pexa. Þeir trúa þessu vafalaust, og við getum ekki gefið,þeim aðra trú. En úr þessu verður reynslan einfaldlega að skera, hvort okkar orð standa eða hrakspár þeirra rætast.

Það hafa komið hér fram fsp. til mín, og ég skal leitast við að svara þeim með örfáum orðum. Hv. 1. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvert yrði ráðstöfunarfé þessara sjóða, sem lagðir eru undir stofnunina á næstunni. Ég reyndi einmitt í minni framsöguræðu að gera grein fyrir þessum sjóðum, Framkvæmdasjóðnum og Atvinnujöfnunarsjóðnum, hvert það fé væri, sem þeir hefðu nú undir höndum, og hverjar tekjur þeim væru ætlaðar. Það er enginn nýr tekjustofn ætlaður til handa Framkvæmdasjóðnum, en Atvinnujöfnunarsjóðnum er hins vegar ætlaður nýr tekjustofn. Ég ætlaði, að það mundi verða auðvelt fyrir þm. að átta sig á því, hvert ráðstöfunarfé þeirra yrði að þessu leyti.

En hitt er mér ljóst, að auðvitað er ekki öll sagan sögð með því, vegna þess að báðir þessir sjóðir hafa heimild til lántöku. Og þá greinir okkur kannske á um það, okkur hv. 1. þm. Reykv., hvernig eigi að nálgast þetta spursmál. Mér skildist á honum, að hann teldi, að það væri eðlilegt, að það væri gerð einhver áætlun nú um það, hvert mundi verða ráðstöfunarfé þessara sjóða eitthvað fram í tímann, á næstu árum. Ég álít, að það sé út í bláinn að vera að gera slíka áætlun. Það er önnur áætlun, sem ég tel, að þurfi að gera. Það er áætlun um það, hvað á að framkvæma, og það eru þær áætlanir, sem stjórn þessarar stofnunar er ætlað að gera. Þá kemur í ljós, hver fjárþörfin verður, og þá verður það viðfangsefni, sem leysa þarf af stjórn þessarar stofnunar, stundum með atbeina Alþ., að útvega það fé, sem til þarf. Það er þörfin, sem á að segja til um það, hvert ráðstöfunarfé þessara sjóða verður á næstunni fyrst og fremst. Það er auðvitað ekki alltaf víst, að það sé hægt að fullnægja allri þeirri þörf, sem kallar að. En það hlýtur að vera markið.

Þá spurði sami hv. þm., 1. þm. Reykv., hvernig bæri að skilja 13. gr., þar sem segir, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar geti átt frumkvæði að nýjum fyrirtækjum, og spurði hann sérstaklega: „Getur hún stofnað ný fyrirtæki ein út af fyrir sig?“ Þessu er nú einfalt að svara, að það getur stjórn Framkvæmdastofnunarinnar alls ekki gert að mínum dómi. Það er gert ráð fyrir því, eins og segir þarna í 2. mgr. 13. gr., að „lánadeildin getur átt frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja samkv. ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar. Lætur hún þá vinna nauðsynleg áætlunar- og undirbúningsstörf og leitar síðan samvinnu við aðra aðila um að koma fyrirtækinu á fót.“ En það er sem betur fer þannig, að það eru margir menn, sem hafa áhuga á því að stofna ný fyrirtæki, hafa hugkvæmni og vilja til þess, stundum fjármagn, en oft ekki. En þá held ég, að það sé til mikils hagræðis fyrir slíka menn að geta átt aðgang að stofnun sem þessari og látið hana athuga hreinlega, hvort vit er í að setja slíkt fyrirtæki á stofn eða ekki, eða m.a. það, og fengið hana til þess að gera ýmsar áætlanir og vinna undirbúningsstörf í sambandi við það. (Gripið fram f: Það hefur verið gert í stórum stíl.) Það hefur verið gert, en ég mundi nú ekki segja í stórum stíl, en nokkuð hefur verið að því gert. En einnig getur Framkvæmdastofnunin tekið þetta beinlínis upp hjá sjálfri sér, annaðhvort af því að hún fær augastað á því, að þarna og þarna á þessum stað sé ástæða til að setja upp fyrirtæki, eða það sé ástæða til að setja upp fyrirtæki í þessari og þessari atvinnugrein, eða þá af því, að það er vakin athygli hennar á þessu af einhverjum öðrum, og þá getur hún látið vinna þessi nauðsynlegu undirbúningsstörf. En alltaf í öllum tilfellum er gert ráð fyrir því, að hún leiti samvinnu við aðra aðila um að setja fyrirtækið á fót. En það getur verið, að hún eigi þá ekkert í þessu fyrirtæki, eftir að það hefur verið stofnað. Hitt getur líka verið, og ég vil alls ekki útiloka það, að hún geti átt einhvern hlut í þessu fyrirtæki, a.m.k. til að byrja með. Ég tel mig þekkja það mikið til á ýmsum stöðum, að það væri mikil nytsemi að því, að hægt væri að styðja við bakið á þeim mönnum, sem eru að reyna að brjótast í því að koma af stað fyrirtækjum með þessum hætti. Og reyndar er þetta ekki með öllu fordæmalaust, eins og hv. þm. var að segja. M.a. Framkvæmdasjóðurinn, sem ég veit, að hv. 1. þm. Reykv. er formaður fyrir, hefur, — væntanlega með fullnægjandi lagaheimild, ég læt það liggja á milli hluta, — tekið að sér fyrirtæki og rekur, að ég bezt til veit, þannig að það væri nú ekki einu sinni fordæmalaust, þótt þessi stofnun setti á stofn upp á eigin eindæmi og ræki fyrirtæki, en það er henni ekki ætlað að gera. (Gripið fram í.) Jæja. (Gripið fram í.) Nei, hann hefur kannske tekið við fyrirtæki, sem fyrir var. Það er líka möguleiki á því samkv. þessu frv., að Framkvæmdastofnunin hlaupi undir bagga, þegar starfræksla fyrirtækis er í hættu, sem nauðsynlegt er þó talið að starfrækja, t.d. vegna atvinnu, en það getur auðvitað vel borið við, og er ekkert óeðlilegt við það, að fyrirtæki geti komizt í vandræði, t.d. byrjunarerfiðleika, og þá getur það að mínum dómi verið fyllilega réttmætt af hinu opinbera að hlaupa undir bagga og hjálpa því yfir erfiða hjalla, og fyrir því er einmitt gert ráð hér í ákvörðun um Byggðasjóð í 30. gr.

Þá spurði hv. sami þm. um það, hvað fælist í 2. mgr. 14. gr. um þá ráðagerð, sem þar er, að fleiri sjóðir en þeir, sem til eru teknir í þessum lögum, verði lagðir undir Framkvæmdastofnunina, og hann spurði, hvað fælist í því, og það skil ég svo, að hann hafi verið að spyrja um það, hvernig því yrði háttað. Ég held, að það sé einfalt mál, að það kemur ekki til þess, að aðrir sjóðir, fjárfestingarsjóðir, verði sameinaðir Framkvæmdastofnuninni, eða það er nú ekki rétta orðið, sameinaðir, heldur settir undir hennar stjórn nema með lagaheimild, því að þessir sjóðir eru flestir stofnaðir eða allir, að ég hygg, beint eða óbeint með lagaheimild, og um þá flesta eða alla gilda sérstök lög. Þess vegna kemur ekki til þess, að það verði gerð breyting á í þessu efni, nema með samþykki Alþ., og það, hvort það kemur nokkurn tíma til þess eða ekki, verður fyrst og fremst komið undir því, hver reynslan verður af þessari nýju fyrirhuguðu stofnun, hvort menn telja það ráðlegt, eftir að reynsla er komin á starfsemi hennar, að setja fleiri sjóði undir hennar stjórn.

Þá spurði hv. þm. um það, hver verða mundi starfsmannafjöldi þessarar stofnunar og hver yrði rekstrarkostnaður hennar. Það er þessi hugsun, sem býr mjög í brjósti þeirra, og uggur um það, að hér verði um eitthvert óttalegt bákn að ræða. Ég held, að það sé ástæðulaus uggur. Ég skal hreinskilnislega játa, að ég get ekki alveg svarað þessari spurningu. Það fer auðvitað eftir atvikum og því, hver framvindan verður. Ég get bara sagt það, að ég hef gert ráð fyrir því, að á næsta ári verði ekki nein, ekki a.m.k. nein veruleg starfsmannaaukning hjá þessari stofnun. Ég hef gert ráð fyrir því, að það yrði ekki. Ég hef hugsað mér, að hún tæki við þeim starfsmönnum, sem í þessum stofnunum starfa nú, eða a.m.k. að þeim verði gefinn kostur á því að starfa áfram hjá þessari stofnun.

Hitt er svo annað mál, sem rétt er að víkja að hér, að það hefur verið talað um, að Efnahagsstofnunin hafi ekki getað sinnt öllum þeim áætlunum, sem henni hefur verið ætlað að gera. Það er ekki af því, að vilja hafi skort hjá Efnahagsstofnun til þess, það er ekki af því, að þeir menn, sem þar hafa starfað, hafi ekki verið hæfileikum til þess búnir. Það er einfaldlega af því, að það hefur verið mannekla hjá Efnahagsstofnuninni, og það var æ ofan í æ borið fram hér á hv. Alþ., t.d. þegar við þm. Norðurl. v. vorum að ganga eftir Norðurlandsáætlun, að töfin, sem á því varð, stafaði af manneklu. Það getur sumpart stafað af því, að það hafi ekki verið og séu ekki fáanlegir þeir menn, sem hafa þá sérþekkingu til að bera, sem þarf til að vinna í þessari stofnun, eða það hefur kannske stafað af því, að menn hafa ekki viljað kosta meira fé til hennar. Það verður auðvitað að laga sig nokkuð eftir því, hver verkefni stofnunar sem þessarar reynast vera, þegar til framkvæmdanna kemur, og ef það sýnir sig, að sá mannafjöldi, sem nú starfar í þessum stofnunum, ræður ekki við þessi verkefni með viðunanlegum hætti, þá verður auðvitað að reyna að bæta starfskröftum við. Ég býst tæpast við því, að nokkur hv. alþm. telji það eftir, þegar þar að kemur.

Ég get auðvitað ekki heldur neitt fullyrt um það, hver verða muni rekstrarkostnaður við þessa stofnun langt fram í framtíðina, en eins og ég sagði, geri ég ekki ráð fyrir því, að hann fari á þessu næsta ári mikið fram úr þeim tölum, sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi, en það verður m.a. komið undir þeim ákvörðunum, sem stjórn þessarar stofnunar tekur, sem allir þingflokkar munu eiga fulltrúa í.

Ég hygg, að hv. þm. hafi verið meira að spyrja um

það til gamans en í alvöru, hvað fælist í 2. mgr. 12. gr., hvað fælist í því „að fylgjast með“. Ég held, að það þurfi nú varla að gefa nokkrar skýringar á því. Ég held, að það sé ljóst svona eftir almennri málvenju, hvað í því felst. Hún á auðvitað rétt á því að fá upplýsingar um fjárhag þessara sjóða, og ef þær upplýsingar gefa til kynna, að þá vanti fé til þeirra hluta, sem þeir eiga að þjóna, þá er það hlutverk stjórnar þessarar stofnunar að reyna að bæta þar úr, gera tillögur um fjáröflun til þessara sjóða.

Hv. 1. þm. Reykv. var að spyrja um það, hvað fælist í því að raða framkvæmdum, og það var reyndar kannske nokkuð svipuð spurning, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., sem spurði um það, hvað væru almennar reglur og hvort þar undir félli það að byggja fjós á Vestfjörðum eða hraðfrystihús á Austurlandi. Nei, það er auðvitað ekki það, sem um er að ræða. Það, sem um er að tefla, er t.d. það, að þessi stofnun er til þess, ef til þarf að taka, en alltaf áður en til slíks kemur, áður en það kemur á dagskrá, þá á hún að reyna með samningum við þessar stofnanir að leysa málin. T.d. er það verkefni fram undan að endurbæta og endurbyggja frystihúsin í landinu. Ég gæti hugsað mér, að hún tæki ákvörðun um það og setti almennar reglur um það, að það verkefni ætti að sitja fyrir við lánveitingar, eða það mark, sem við höfum líka sett, að það ætti að auka fiskiskipastólinn um svo og svo mikið. Hún gæti sett almennar reglur um það, að lán til slíks skyldu ganga fyrir, en auðvitað ekki að binda þetta við einstaka landshluta eða því um líkt. Það eru ekki almennar reglur að mínum dómi.

Hv. 1. þm. Reykv. var að bera saman fjárhagsráð og Framkvæmdastofnunina og taldi, að því væri ekki að öllu leyti saman að jafna, því að þessi stofnun ætti, að mér skildist, að verða enn þá valdameiri en fjárhagsráð hefði verið, og nefndi dæmi því til sönnunar. Hann sagði sem svo, að hjá fjárhagsráði gátu menn fengið leyfi til þessa og þessa, en þeir voru litlu bættari, eða voru ekki alltaf bættari, þótt þeir fengju leyfið í hendur. Þeir þurftu að labba niður í banka og það gat vel verið, að þar væri þeim neitað. Þetta má til sanns vegar færa hjá hv. þm. Það er einmitt munur á fjárhagsráði og Framkvæmdastofnuninni að þessu leyti, verulegur munur. Það er sá munur á þeim stofnunum, sem hafa fengizt við áætlanir áður, að hér er þetta hugsunin að tengja saman áætlanagerðina, ákvörðunartöku um framkvæmdir og fjáröflun, þannig að þegar menn hafa fengið ákvörðun hjá þessari stofnun, þá þurfa þeir ekki að vera að velkjast milli annarra stofnana til þess að fá þessari framkvæmd komið á.

Svo skilur okkur auðvitað á, og við höfum mismunandi viðhorf til þessara hluta, og við því er ekkert að segja. Auðvitað viljum við allir, að uppbygging atvinnulífsins þróist, en ég held, að ég hafi tekið nokkuð rétt eftir, að hv. þm. sagði eitthvað á þá lund, — hann var svona að tala heldur með lítilsvirðingu um skipulag, — að sér fyndist nóg, ef hún þróaðist með einhverjum hætti, ekki endilega með skipulögðum hætti. Þetta er mergurinn málsins. Þarna skilur á milli. Við teljum, sem að þessu frv. stöndum, að það eigi að reyna að hafa áhrif á framvinduna með áætlunum, koma framvindunni í ákveðinn farveg með því að velja leiðir og markmið, en láta það ekki alveg ráðast, hver framvindan verður.

Um þetta skal ég svo ekki fjölyrða frekar. Það er svo annað í þessum málflutningi, að mér hefur virzt vera dálítil þversögn að því leyti til, að margir ræðumenn hafa verið að gera að sumu leyti lítið úr þessari stofnun og sagt, að í þessu kerfi væri ekki um neitt brautryðjendahlutverk að ræða. Áætlanir hefðu verið gerðar áður, og þetta væri eiginlega ekkert nýtt, væri ekkert nýmæli. Samt sem áður eru þeir nú á móti því. Það skil ég ekki vel. Hitt skil ég aftur á móti ákaflega vel, að það geta verið algjörlega skiptar skoðanir um skipun framkvæmdaráðsins, það er mjög eðlilegt.

Ég hef sagt það hér áður, að auðvitað getur verið álitamál, hvort það ætti að vera einn forstjóri fyrir þessu eða þetta þriggja manna ráð. Hinu held ég, að verði ekki með sanngirni haldið fram, að hægt sé að ætlast til þess, að ríkisstj. velji til forstöðu í svona stofnun mann, sem hún ekki treystir til þess að fara með framkvæmdarvald, en það verður að gera nokkurn greinarmun á því, hvort um er að ræða meðferð framkvæmdarvalds eða ákvörðunartökuna, sem yfirleitt er í höndum stjórnar stofnunarinnar, eins og margsýnt hefur verið fram á. Við höfum ekki, að ég tel, yfirleitt beitt neinni pólitískri rangsleitni eða pólitísku ofríki, og ég bendi t.d. á það fordæmi, sem við höfum gefið í störfum Alþ., þar sem stjórn þess er nú skipuð frá öllum flokkum, og það á vissulega að vera svo líka í þessari stofnun, að stjórn hennar á að vera skipuð þannig. (Gripið fram í.) Hégómi, já. Ég ætti þá líklega að koma að því og taka þá í einu númeri þessa hv. þm. tvo, 1. þm. Reykv. og 7. þm. Reykv. Þeir bera hér á borð, að það sé fullkominn hégómi að sitja í stjórn svona stofnunar. Þessir hv. þm. hafa báðir um árabil setið í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands. (Gripið fram í: Ég átti ekki við það. Ég átti við stjórn Alþ.) Já, já, en höldum áfram. Þeir hafa báðir setið í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands, en Seðlabankinn hefur gegnt því hlutverki, sem framkvæmdaráðinu er ætlað í þessari stofnun, og þá kemur hv. 7. þm. Reykv. og segir, að það sé eiginlega svo, að menn viti það allir, að svona stjórnir séu bara upp á punt. Það var nánast það, sem fólst í þessum orðum. Er það dómur þeirra sjálfra um stjórn Framkvæmdasjóðsins, að Seðlabankinn fari í raun og veru með allt vald að því er varðar Framkvæmdasjóðinn? Það þykir mér nú skrýtið, og hvað er þá um öll bankaráðin og því um líkt? En ég skal viðurkenna það, að bankaráðin hafa náttúrlega miklu minna vald en stjórn þessarar stofnunar er ætlað. Vegna þess, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, þá er engum blöðum um það að fletta, að það er stjórn stofnunarinnar, sem á t.d. að taka ákvörðun um allar lánveitingar í þessu sambandi.

Hv. 7. þm. Reykv. þarf ég nú annars ekki að svara. Hann benti á það, að hér væru einhver hugtök notuð, sem ekki væru nægilega ljós, og ég skal vel fallast á það, að það séu einhver hugtök, sem ekki standast stranga gagnrýni fræðimanna, og það má þá sjálfsagt betrumbæta síðar, en ég tel ekki ástæðu að öðru leyti til þess að svara því, sem hann sagði. Hann var mjög jákvæður gagnvart meginstefnu þessa máls, þótt hann teldi fram ýmsa annmarka á þessu frv., en lét því annars ósvarað, hvort hann mundi láta þá annmarka ráða eða hver áhrif hann mundi láta þá annmarka hafa á afstöðu sína til þessa frv.

Ég hafði skrifað niður nokkur atriði, sem hv. 1. þm. Sunnl. kom hér fram með, og spurningar, sem hann bar fram. Hann er nú ekki hér viðstaddur, svo að ég sleppi því að fara út í það og geymi það heldur til 2. umr. að koma því á framfæri, og ég skal þá ekki þreyta hv. þm. á því að fara nánar út í þetta og ekki fara að ræða almennt þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram. Það er hægt að gera allt eins við 2. umr.