16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3134)

219. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi fara mörgum orðum um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það er auðvitað sjálfsagt, að það fer til n. og fær þar sína athugun. Ég vil segja það, að ég fagna þeim vilja, sem kemur fram hjá alþm. um það að efla Landhelgissjóðinn og efla þar með landhelgisgæzluna. Það er auðvitað mál, að það þarf að efla hana, meðfram vegna þeirrar útfærslu, sem fyrir dyrum stendur, og sjálfsagt hefði þurft að athuga það fyrr en nú, athuga það á undanförnum árum, að búa landhelgisgæzluna undir það hlutverk. Ég held samt sem áður, að þó að það þurfi að efla landhelgisgæzluna, þá sé hún á ýmsan hátt undir það búin að verja þá stækkuðu landhelgi, þegar þar að kemur. Landhelgisgæzlan hefur sæmilegan skipakost, eins og ég mun gera grein fyrir síðar, þegar ég svara fsp., sem hér hefur verið sett fram um það efni, og ég mun þá koma nánar að, og hefur tiltölulega góð skip, og nú í sumar fer fram endurbót á einn þeirra, Þór, og verða settar í það nýjar aflvélar, þannig að það verður eftir það miklu færara um að sinna hlutverki sínu í þessum efnum en áður.

Þrátt fyrir það, er það sjálfsagt mál, að það verður að athuga, hvort ekki þarf að bæta við nýju skipi. Það verður auðvitað að taka til skoðunar, og það er auðvitað mál. að slíkt kostar mikið fé, og þá getur það verið álitamál, hverja leiðina á að fara í því, hvort á að safna í sjóð sérstaklega, eins og hér er gert ráð fyrir, eða fjárveitingavaldið tekur að sér að fjármagna þau kaup, þegar þar að kemur. Ég sé út af fyrir sig augljósa kosti við það að hafa þannig alveg fastan tekjustofn fyrir Landhelgissjóð, og það situr sízt á mér að draga úr því, að það sé gert, ef hv. alþm. vilja fara inn á þá braut. Þó að það geti og komi vafalaust til, að skipum verði að fjölga, þá er þess að gæta, að í landhelgisgæzlunni að undanförnu hefur verið lögð rík áherzla á það að koma við flugvélum til gæzlunnar, og þeir eru til, sem telja réttara að leggja meiri áherzlu á þann þátt í gæzlunni, og það hafa nú verið fest kaup á þyrlu til þess að annast landhelgisgæzlu og einnig til björgunar starfa, sem á að geta innt af hendi starf í sambandi við það. Það er nokkuð stór þyrla, sem getur aðeins lent á hinum stærri skipunum, sem við þetta fást. En jafnframt er í athugun að festa kaup á minni þyrlum, sem gætu lent á hvaða skipum sem væri. Jafnframt er svo í athugun að festa kaup á flugvél, eins og menn hafa kannske heyrt um. Þessi mál þurfa auðvitað sérstakrar skoðunar við, meðfram vegna þess sem fram undan er í þessu efni. Þau hafa verið skoðuð að undanförnu af dómsmrn. og af forstjóra Landhelgisgæzlunnar, þannig að það hefur ekki verið flotið neitt sofandi í þessu efni, og jafnframt hefur verið skipuð sérstök n., samstarfsnefnd þeirra rn., sem telja má að mest hafi með þetta að gera, sem einmitt á að hafa það hlutverk að gera till. um eflingu og skipulag landhelgisgæzlunnar, og í þeirri n. eru starfsmenn rn., ráðuneytisstjórarnir í dómsmrn., sjútvrn.og utanrrn., sem þessum málum eru kunnugir, og það er einmitt að mínu viti eitt af hlutverkum þessarar n. að huga að því að gera áætlun um þetta efni, og það er mjög mikilvægt, að það sé hægt að vinna í þessum efnum eftir einhverri fastri áætlun. Sem sagt, ég vil, eins og ég sagði, lýsa ánægju minni yfir þeim áhuga, sem kemur fram í þessu frv., og ég veit reyndar, að það eru allir alþm. áhugasamir um þetta efni, að það verði staðið þannig að framkvæmd í þessum efnum sem bezt má verða. Auðvitað verða menn að gera sér það ljóst og horfast í augu við það, að það kostar fjárframlög. Það kostar mikil fjárframlög, þannig að ég tel ágætt, að þetta mál er fram komið og það fer til n. og hlýtur þar athugun.

Út af þeim orðum, sem hv. flm. lét falla um það, að Landhelgisgæzlunni hefði verið úthýst og hún væri nú á götunni, þá er það nú of mikið sagt, að Landhelgisgæzlan sé á götunni. Hún er það ekki. Hún er nú í húsnæði því, sem hún hefur verið í að undanförnu og notazt við. Hitt er rétt, að það er þörf á því og æskilegt, að hún fái nýtt húsnæði. Það er verið að athuga um það. Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að það voru ráðagerðir um það, að hún flytti í hina nýju lögreglustöð, og það hefði á ýmsan hátt verið heppilegt. En það er nú svo að það getur verið heppilegt, að þar séu ýmsar fleiri stofnanir en Landhelgisgæzlan. Það eru margar stofnanir, sem samkv. eðli málsins gætu ótt þar heima. Það eru nú uppi ráðagerðir um það, að utanrrn. flytji þangað, eins og bent var á, þar sem það býr við ófullnægjandi húsakost. Ég vil aðeins segja það, að það tel ég ofmælt hjá hv. flm., að Landhelgisgæzlunni hafi verið úthýst þannig að hún sé nú á götunni. Það hefur nú verið gert í sæmilegu samkomulagi við þá, sem um þessi mál eiga að fjalla, að verið er að vinna að því og athuga, hvort það er ekki hægt að útvega Landhelgisgæzlunni það húsnæði, sem hún má vel við una og getur komið henni að góðum notum. Í því sambandi hefur t. d. verið hugað að því, hvort hægt væri að flytja hana til Hafnarfjarðar, vegna þess að gefið hefur verið í skyn, að þar væri húsnæði, sem hentugt væri í þessu sambandi. Ég vil alls ekki segja, að það verði gert, enda er það mál ekki nægilega kannað. Það verður gert, og það er fullur vilji til þess að sjá Landhelgisgæzlunni fyrir hæfilegum og nægilegum aðbúnaði, svo sem skylt er, því að vafalaust verður það svo að þegar til útfærslunnar kemur 1. sept. n. k., þá reynir mjög á þessa stofnun, og það verður auðvitað að gera vissar ráðstafanir, áður en að því kemur, til þess að gera hana hæfari en ella til þess að mæta þeim vanda, sem að henni steðjar þá.

Þetta vildi ég nú aðeins segja út af ummælum þessum, sem hv. flm. lét falla um utanrrn. og húsnæðisvandamál þess. Sannleikurinn er sá, að stjórnarráðið hefur átt við húsnæðisvandamál að etja. Ég er áhugamaður um, að það verði bætt úr því. Ég hef ákveðna stefnu í því máli. Ég tel, að það eigi að byggja nýtt stjórnarráðshús, og ég tel, að það eigi að velja því stað við Lækjargötu, eins og ráðgert hefur verið, og ef horfið væri að því, þá mundi rakna úr þessum vandkvæðum.