16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3135)

219. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fors.- og dómsmrh. góðar undirtektir undir þetta frv. Hitt vil ég segja, að mér finnst hörmulegt að heyra tóninn í hæstv. ráðh. í sambandi við húsnæðismál Landhelgisgæzlunnar, því að auðvitað er það að úthýsa Landhelgisgæzlunni, þegar hún er að búa sig undir að flytja í nýtt húsnæði, að þá komi utanrrn. og segi, að þetta húsnæði ætli það sér. Ég tel þetta reginhneyksli. Ef hæstv. fors- og dómsmrh. grípur hér ekki í taumana og stöðvar þetta, þá held ég, að Alþ. eigi að athuga það að stöðva þessa ófremd.

Það er auðvitað allt annað viðfangsefni að útvega utanrrn. bráðabirgðahúsnæði. Ég veit, að það er í húsnæðisskorti, en ég veit þess engin dæmi, að opinber stofnun hafi gengið þannig á aðra opinbera stofnun eins og hér er um að ræða, með annarri eins dæmalausri frekju og þetta er. Margra ára ráðagerð um samstarf á milli löggæzlu til sjós og lands og almannavarna er trufluð með þessu inngripi, með þessari aðför utanrrn., og var þá sannast að segja allra sízt þaðan, sem þess var að vænta, að Landhelgisgæzlan yrði sett á götuna. Ég sé ekki annað en að utanrrn. geti verið í Hafnarfirði alveg eins og Landhelgisgæzlan. Það hefur utanrrh. verið um margra ára skeið í Hafnarfirði. Hefði verið auðveldara, að rn. hefði þá verið þar en annars staðar.

Mér finnst þetta vera alvörumál og geysilegt leiðindamál. Ég skil ekki almennilega, hvernig mönnum gat dottið í hug annað eins og þetta, og sérstaklega furðar mig á því, að hæstv. dómsmrh., sem hafði hér ráðin, skuli hafa látið ganga þannig á sig. Landhelgisgæzlan á að fá sitt áætlaða húsnæði í lögreglustöðinni, með því samspili, sem þar er, bæði við lögreglu og almannavarnir, og með þyrluflugvöll á þaki lögreglustöðvarinnar, en utanrrn. á að sjá sóma sinn í því að reyna að útvega sér húsnæði annars staðar. Það getur beðið Framkvæmdastofnun ríkisins um að útvega sér húsnæði. Mér skilst, að henni hafi ekki gengið illa að útvega sér húsnæði, sé búin að útvega sér ágætishúsnæði.