22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

229. mál, skógrækt

Flm. (Kristján Ingólfsson) :

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 485 frv. til l. um breyt. á lögum um skógrækt, nr. 3 frá 6. marz 1955. Forsendurnar fyrir flutningi þessa frv. eiga sér djúpar rætur. Undanfarna áratugi hefur átt sér stað órofa flutningur fólks af landsbyggðinni hingað suður til Reykjavíkur og næsta nágrennis. Orsakirnar eru margar og engin leið að gera þeim öllum skil í stuttri ræðu, enda þarf að mínum dómi gaumgæfilega þjóðfélagslega rannsókn til þess að kanna uppruna meinsemdarinnar.

Þó liggur ýmislegt ljóst fyrir. Ein af orsökunum er berlega of fábreytt atvinnulíf í hinum ýmsu byggðarlögum. Í rauninni má skipta landinu í tvö svæði eftir atvinnulegum sérkennum: þjónustusvæði suðvesturhornsins og framleiðslusvæði annarra landshluta. Á þjónustusvæðinu er atvinnulíf fjölbreytt, þar eru möguleikar fyrir fólk með margháttaða sérgreinda atvinnumenntun að fá störf við sitt hæfi. Á framleiðslusvæðinu er atvinnulíf allt miklum mun fábreyttara. Ungt fólk, sem heldur heiman til mennta frá sveitum og ströndum landsins, á sjaldnast afturkvæmt til átthaganna, a. m. k. ef það verður sér úti um sérmenntun á einu eða öðru sviði. Allt er þetta hluti af neikvæðri þróun. Staðreyndirnar tala sínu máli. Þær sýna, að gjaldeyrisöflunin er miklum mun meiri á því svæði, sem ég hef hér leyft mér að kalla framleiðslusvæðið. Sífelld fólksfækkun á því svæði getur orsakað þá hættu, að úr dragi þeirri gjaldeyrisöflun, sem þar á sér stað. Slíkt er þjóðarbúskapnum að sjálfsögðu mjög til baga og hættulegt. Reynslan sýnir, að fábreytt atvinnulíf dregur úr festu byggðar.

Frv., sem hér liggur frammi, verði af samþykkt þess, er tilraun til að auka atvinnulega fjölbreytni eins landshluta, Miðausturlands, þar sem hlutfallsleg íbúafækkun er árviss. Skógrækt ríkisins hefur frá upphafi verið staðsett í Reykjavík, eða aðalstöðvar hennar. Ekkert mælir með því, að svo sé. Í Reykjavík og nágrenni fer mjög lítið fram af þeirri starfsemi, er undir stofnunina heyrir. Austur á Fljótsdalshéraði er þungamiðja skógræktarinnar á Íslandi. Þar er Hallormsstaðaskógur með efnilegri ræktun nytjaskóga, einhver stærsta kvæmastöð í Norður- Evrópu. Auk þess má minna á Fljótsdalsáætlunina um skógrækt, þar sem gert er ráð fyrir, að skógrækt verði búgrein bænda. Það starf er þegar hafið. Allar rannsóknir hafa sýnt og sannað, að aðstæður til skógræktar eru mjög góðar á Fljótsdalshéraði. Reynslan sýnir, að ýmislegur nytjaviður vex þar ekki síður en í nálægum skógarlöndum. Hér er athafnasvæði skógræktarinnar, hér eiga aðalstöðvar Skógræktar ríkisins að vera.

Hjá Skógrækt ríkisins í Reykjavík starfa nú að jafnaði tveir háskólamenntaðir sérfræðingar auk tveggja skrifstofumanna. Sé tilraunastöð skógræktarinnar á Mógilsá í Kollafirði meðtalin, vinna þar að auki tveir háskólamenntaðir sér fræðingar auk garðyrkjumanns.

Herra forseti. Allir þeir stjórnmálaflokkar, sem nú eiga menn á Alþ., hafa ályktað um það, að efla beri jöfnuð í byggð landsins. Hér er lítið skref stigið í þá átt. Sumir segja hér í þingsölum, að þetta verði erfitt, mörg ljón séu á veginum. Ég skal að vísu viðurkenna, að einhverjir munu hafa hér á móti. En ég sé ekki betur en þetta sé í samræmi við eðli þeirra samþykkta, sem allir hv. stjórnmála- og þingflokkar hafa gert. Ég sé ekki þessi ljón þar af leiðandi. Mér finnast rökin fyrir flutningi þessarar stofnunar allt of þung og mörg til þess. Því leyfi ég mér að vænta þess, að frv. fái hér góðar undirtektir, og leyfi mér, herra forseti, að fara þess á leit, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. deildarinnar.