17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ætlunin mun vera að taka nú til umr. frv. til l. um heilbrigðisþjónustu, sem er mjög yfirgripsmikill og viðamikill frv.-bálkur og lagt var hér, fram af heilbr.- og félmrn. í síðustu viku. Það liggur fyrir, að þetta mál á ekki að afgreiða úr þinginu nú á þessu þingi, þannig að um málið mun aðeins fara fram ein umr. og því síðan verða vísað til n. Það er því ljóst, að eina tækifærið, sem hv. þdm. fá til að tjá sig opinberlega um málið, er við þessa 1. umr. málsins, sem ætlunin er, að verði nú í dag, eða a. m. k. stendur málið á listanum yfir dagskrármál þingsins í dag. Í sjónvarpinu í gærkvöld tilkynnti hæstv. heilbrmrh., að ætlunin væri að ræða þetta mál í dag. Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að hann taki málið ekki á dagskrá í dag, fresti því þar til á miðvikudaginn, þar eð hér er um mál að ræða, sem snertir mjög hin ýmsu byggðarlög landsins. Þarna er um að ræða algerlega nýja umdæmaskiptingu og hv. þm. þurfa að fá tækifæri til að afla sér vissra upplýsinga í sambandi við þetta mál til þess að tryggja, að málið fái betri meðferð hér í þinginu og að sú n., sem hefur málið með höndum, fái þá tækifæri til að skoða þær aths., sem hv. þm. hafa við málið strax að gera. Að vísu var þetta mál lagt hér fram fyrir nokkrum dögum, en málið er mjög viðamikið og annir þings í síðustu viku voru mjög miklar, en ég sé ekki, að það breyti nokkru um afdrif þessa máls, þótt því sé frestað nú um tvo daga, þegar það liggur fyrir, að ekki á að afgreiða það endanlega úr þinginu nú.

Ég bið því hæstv. forseta að gera svo vel að fresta þessu máli og taka það ekki fyrir fyrr en á næsta fundi þessarar hv. deildar.