19.04.1972
Neðri deild: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Um leið og ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir fróðlega og yfirgripsmikla ræðu, get ég ekki látið hjá líða að geta þess, að persónulega finnst mér þar undarlega farið að þingvenjum, þegar mál er flutt af þingnefnd, að þá skuli ekkert heyrast um framsögu málsins frá þeirri n. Hæstv. ráðh. hafði allan veg og vanda af framsögu í þessu máli. Ég hafði satt að segja í minni einföldu afstöðu til reglna þingsins álitið, að formanni n. bæri að gera það. Að sjálfsögðu hefur ráðh. mun betri tök á því að fá allar upplýsingar, sem fyrir liggja í málinu, heldur en almennir þm., sérstaklega þegar um er að ræða mál, sem svo mikið hefur verið fjallað um í rn. áður. Það haggar að mínu mati ekki þeirri skyldu, sem hvílir á þm. að kynna sér mál og mæla fyrir þeim málum, sem þeir taka að sér að flytja. Ég óttast það dálítið, að ef við hverfum inn á þessa braut, þá séum við þar með að afsala okkur frumkvæði í hendur ráðh. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. hafi útlistað málið miklu betur heldur en hv. formaður heilbr.- og félmn. hefði gert, með allri virðingu fyrir honum þó, en engu að síður tel ég, að við megum ekki láta eftir okkur að hugsa þannig : Nú, ráðh. veit miklu betur um málið, við skulum bara láta hann tala, og svo gerum við bara það, sem heitir á slæmu máli að slappa af.

Ég skal játa það, að ég hafði nokkra andvöku af því að skrifa undir það skoðunarlaust, að ég, sem er meðal þeirra, sem sæti eiga í heilbr.- og félmn., flytti þetta frv. Mér var þó vel ljóst, að margt er mjög vel í þessu frv. og mikil vinna hefur verið í það lögð, en einhvern veginn fannst mér óskemmtilegt að hafa ekki kynnt mér það mál, sem n. var að flytja. Ég óskaði því eftir því, að málinu væri frestað hér á Alþ., til þess að þm. gæfist færi á að kynna sér það, þó ekki væri nema í algerum útlínum, vegna þess að ég kunni því heldur ekki vel, að hæstv. ráðh., sem hafði kynnt efni frv. þjóðinni rétt eins og það væri orðið að lögum, ákvæði það með tilkynningu í sjónvarpi, hvenær ætti að ræða mál á Alþ,, hvort sem hv. þm. hefðu kynnt sér þau eða ekki. Þetta var nú aðeins atriði um almenn störf hér í þinginu, en erindi mitt í ræðustól var að ræða efnislega þetta merka frv., sem hér liggur fyrir.

Það hefst á þeirri almennu stefnuyfirlýsingu, sem við vitanlega tökum öll undir. Hún er í samræmi við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á því, hvað felst í heilbrigði, Frv. hefur að geyma ýmsar veigamiklar till. um það, hvernig haga beri stjórn og fyrirkomulagi heilbrigðismála til þess að ná þessum tilgangi. Margt er vel í þessu frv., eins og ég áðan sagði. Það er ýmislegt nýtt, stóraukið tillit til hjúkrunarmála vil ég nefna, ýmislegt í frv. og líka veigamikið orkar þó tvímælis, og ég vil leyfa mér að benda á nokkur atriði frv., sem ég tel miklu skipta og þyrftu a. m. k. að koma til vandlegrar skoðunar hv. þm. Þess vegna vil ég benda á þau atriði nú strax.

Nú er það svo að þetta frv. hefur verið mjög mikið unnið fyrir fram og vel undirbúið. Nefnd skipuð af fyrrv. stjórn eftir tilnefningu Læknafélags Íslands, læknadeildar Háskólans og Sambands ísl. sveitarfélaga hafði fullbúið frv. s. l. vor. Það hefði ekki náð fram að ganga á því þingi. Svo bregður við, að þegar stjórnarskipti verða, tekur hæstv. ráðh. sig til og skipar nýja nefnd í málið án tilnefningar. Vitanlega leiðir það af sjálfu sér, að starfsmenn rn. vinna að ýmsum tæknilegum undirbúningi mála, ef þörf er á því, en þarna var sem sagt skipuð ný nefnd til þess að fara með málið og er þá einfalt að segja, að þetta hafi verið undirbúið af nefnd, sem skipuð hafi verið að tilhlutun núverandi ráðh. En ég vil láta það skýrt koma fram, að málið var mjög rækilega undirbúið af annarri nefnd, sem þegar hafði að því unnið.

Ef farið er orðum um nokkur höfuðeinkenni frv., þá má í fyrsta lagi á það benda, að frv. felur í sér algera nýskipun stjórnsýslu, sem athuga þarf sérstaklega að mínu mati, burt séð frá öllum heilbrigðismálum. Með frv. er stefnt mjög að því, að mikill hluti heilbrigðísmála landsins, hverju nafni sem hann nefnist, hvort sem er í borg eða byggð, verði annaðhvort framkvæmdur í rn. sjálfu eða heyri beint undir það. Og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn, sem nú starfa í meira og minna sjálfstæðum stofnunum, verði hér eftir starfsmenn rn., svo sem er t. d. um heilbrigðiseftirlit. Þar er þó um málaflokk að ræða, sem ekki er óeðlilegt að telja, að eðli sínu samkv. heyri sveitarstjórnarmálum til og sé nokkuð staðbundinn. Það má segja, að með þessu frv. sé enn stefnt að því, að miðstjórnarvald ríkis aukist, hvort sem varðar starfaskipan, umdæmaskipun, stjórnun eða eignaraðild heilbrigðisstofnana. Áhrif sveitarfélaga eru rýrð með frv. og stórlega dregið úr áhrifum læknadeildar Háskóla Íslands, þar sem frv. fyrri nefndarinnar gerði ráð fyrir áhrifum læknadeildar, sérstaklega í sambandi við stofnanir, er önnuðust læknakennslu.

Í 2. gr. frv. er mælt svo fyrir, að ráðuneytisstjóri skuli vera sérmenntaður embættislæknir. Nú er það mitt persónulega mat, að eins og nú stendur, sé vel skipað í þetta embætti, og þá er það ekki sízt vegna þeirrar persónu, sem þar situr. En fráleitt tel ég að binda það í lögum, að ráðuneytisstjóri heilbrmrn. skuli vera sér menntaður embættislæknir. Mér virðist þetta ákvæði vera hliðstætt því og bundið væri í lög, að t. d. ráðuneytisstjóri samgrn. hefði meiraprófsréttindi til aksturs bifreiða eða jafnvel skipstjórnarréttindi. Eitt er sérfræðileg þekking á einstökum málaflokkum, sem heyra undir rn., og annað er framkvæmd stjórnsýslunnar. Oft kann það að fara saman og í öðrum tilvikum ekki. Á það má benda, að vissar deildir Háskólans hafa öðrum fremur séð fyrir mönnum sérmenntuðum til stjórnsýslustarfa, og ég vona, að mér fyrirgefist, þótt ég nefni í þessu sambandi, að hvergi er meðal hinna sérmenntuðu starfsmanna, sem frv. greinir, getið um lögfræðing til þess t. d. að gæta réttaröryggis á sviði heilbrigðisþjónustunnar. Á því sviði er þó um að ræða mjög margbrotna löggjöf og oft um viðkvæm atriði og nauðsynlegt, að um þau sé fjallað af lagalegri þekkingu og yfirsýn. Eftir okkar stjórnsýslukerfi á ráðuneytisstjóri að framkvæma vilja ráðh., en að mínu mati getur það skapað vissa árekstra milli ráðh. og ráðuneytisstjóra, að ráðuneytisstjóri sé sá maður, sem fer með faglega stjórn þess málaflokks, sem heyrir undir rn., en á ekki eingöngu að sjá um framkvæmd stjórnsýslunnar sjálfrar. Ég tek það fram, að þetta beinist á engan hátt að þeim starfsmönnum, sem nú starfa í heilbrmrn., hvort heldur þeir hafa sérmenntun í læknisfræði eða hjúkrunarfræðum, né heldur veðurfræði. Ég veit ekki betur en aðstoðarmaður hæstv. ráðh. sé veðurfræðingur, og hef ekki heyrt annað en hún standi vel í stöðu sinni.

Gert er ráð fyrir áfram, að landlæknisembættið verði til. Ég hafði nú skilið frv. svo að hann væri utan rn., en hæstv. ráðh. sagði, að hann yrði einnig innan rn. Ég vil benda á, að mér sýnist vanta í þetta frv. skýrari verkefnaskipun landlæknis.

Í 5. gr. frv. er fjallað um mikla nefnd, sem heitir Heilbrigðisráð Íslands. Í þessu ráði eru 13 manns að meðtöldum ráðuneytisstjóranum og á að fjalla um heilbrigðis- og almannatryggingamál. Af þessum 13 mönnum er einn tilnefndur af tryggingaráði, og þetta ráð á að fjalla um almannatryggingamál. Nú eru ýmis atriði almannatrygginga, sem ekki snerta beinlínis heilbrigðismál, og leyfi ég mér að benda á, að þetta þurfi að athuga betur, hvort þarna sé e. t. v. verið að gera mál flóknari heldur en þarf. Vissulega eru margir snertipunktar þessara tveggja málaflokka, en óneitanlega rak ég augun í þetta og finnst þetta þurfa sérstakrar athugunar víð. Ráðið á að vera ráðgjafar og umsagnaraðili. Mér er ekki alveg ljóst hvort þetta þýði það, að þá beri að senda þessu ráði t. d. öll þau frv., er varða almannatryggingamál, sem upp kunna að koma hér á Alþ., og vitanlega eru í þessu ráði ákaflega margir aðilar, sem ekki beinlínis fjalla um þau mál í sínum störfum.

Næst vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um nýja umdæmaskiptingu landsins, sem fjallað er um í 7. gr. frv. Samband ísl. sveitarfélaga hefur bent á, að eðlilegra sé, að skipting landsins í umdæmi á þessu sviði sé í samræmi við umdæmaskipting stjórnsýslunnar á öðrum sviðum. Heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar hefur lagt til, að umdæmaskipting haldist í hendur við kjördæmaskiptinguna, en Vestmannaeyjar yrðu þó sjálfstætt læknishérað. Sérstaklega vil ég víkja að í þessu sambandi hlut Reykjavíkurborgar. Mér er vel ljóst, að tilgangurinn með þessu frv. hefur verið að finna reglur til þess að bæta og auka heilbrigðisþjónustuna alls staðar á landinu, en þó óttast ég, þegar frv. er skoðað, að framkvæmd þess geti leitt til þess, að dragi úr þeirri heilbrigðisþjónustu, sem veitt er í Reykjavikurborg, og það er vitanlega alls ekki tilgangurinn með þessu máli.

Í sambandi við það, að hæstv. ráðh, nefndi nokkrum sinnum lýðræðið í ræðu sinni hér áðan, vil ég leyfa mér að leggja áherzlu á það, að ég tel það fráleitt, að það standist lýðræðislega, að þessari skipan sé breytt gegn vilja Reykvíkinga, sem eru 40% landsmanna. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherzlu. Á þessu svæði, sem gert er ráð fyrir samkv. Frv., að verði eitt læknishérað, Reykjavíkurhérað, búa um 120 þús. manns. Mér sýnist, þegar litið er til hinna læknishéraðanna, að það væri ekki ofætlun, að þarna væru tveir héraðslæknar, að Reykjavík væri alveg fullnægjandi umdæmi fyrir einn héraðslækni og svæðið utan Reykjavíkur gæti svo haft annan, ef umdæmaskiptingunni yrði þá ekki alveg breytt í samræmi við þá till., sem ég nefndi hér áðan.

Í Reykjavíkurborg hefur borgarlæknir verið kosinn af borgarstjórn og skipaður af forseta, og borgarstjórn Reykjavíkurborgar hefur getað falið borgarlækni ýmis verkefni á sviði heilbrigðismála borgarinnar. Svo mundi ekki vera, ef horfið væri að þessari skipun, sem hér er lagt til í frv. Vitanlega er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að Reykjavíkurborg getur ósköp vel skipað annan lækni fyrir utan þetta frv. Þetta er náttúrlega ósköp einfalt svar. Reykjavíkurborg getur skipað annan lækni fyrir utan þetta frv. og launað hann. Hún getur skipað tvo lækna eða þrjá lækna. Hitt er annað mál, að skipanin öll á þessum málum breytist svo mikið með samþykkt þessa frv., að það væri allt annað verksvið, sem slíkur læknir færi með eftir samþykkt þessa frv. óbreytts.

Að því er varðar hlut Reykjavíkurborgar langar mig líka að minna á mikilvægi þess ákvæðis í þessu frv., sem fjallar um eignaraðild heilbrigðisstofnana. Eftir samþykkt þessa frv. á ríkið 85% af þessum stofnunum. Í frv. er gert ráð fyrir, að verksvið þeirra stofnana, sem núna starfa, verði svo ákveðið af ráðh. Ég vil benda á, að það er a. m. k. mjög sanngjörn ósk, að starfssvið þeirra sjúkrahúsa, sem núna starfa og eru í eigu annarra aðila en vera mundi eftir samþykkt þessa frv., væri ákveðið í samráði við þeirra eigendur. Auk þessara atriða, sem snerta mjög Reykjavíkurborg, vil ég líka nefna það, að eftir að ákveðið er, að byggja skuli og reka tiltekinn fjölda heilsugæzlustöðva um landið allt, þá hlýtur Reykjavíkurborg að verða hluti af þeirri heildaráætlun, sem þar fer fram. Vissir hlutar heilbrigðisþjónustunnar, sem í frv. er ætlað, að heyri undir rn., heyra með mun eðlilegri hætti undir Reykjavíkurborg sjálfa og væri að ýmsu leyti einfaldara, að hún sinnti þeim áfram. Það er skoðun fjölmargra borgarbúa, að það mundi tryggja þeim betri þjónustu, a. m. k. fyrsta kastið, á meðan ekki er séð, hvernig þetta kemur til með að verka. Vitanlega er okkur öllum ljóst, að það þarf að bæta heilbrigðisþjónustuna um allt landið, en ég er hrædd um, að Reykjavíkurborgarbúar séu ekki tilbúnir til þess að samþykkja, að það verði gert á þann hátt, að dregið verði úr þjónustunni hjá þeim. Þetta leyfi ég mér að leggja áherzlu á, að verði mjög vel athugað, að framkvæmd laganna verði eins og til er stofnað, nái þeim tilgangi, að allir landsmenn, Reykvíkingar ekki síður en aðrir, búi við bætta heilbrigðisþjónustu.

Mig langar þá að benda á örfá smáatriði, ekki mörg. Það eru mörg atriði í þessu frv., sem sérstaklega þyrfti að athuga, og það eru nokkur, sem ég vildi nefna og mig langaði til að fá frekari upplýsingar um. Það má vera vegna þess að þessar hugleiðingar mínar eru fyrst og fremst leikmannsþankar. Engu að síður tel ég það skyldu okkar, sem sitjum hér á Alþ., að reyna að skilja svo veigamikil mál, sem við erum að fjalla um. Í 16. gr. frv. er fjallað um það, hvaða starfsmenn — það er lögbundið — hvaða starfsmenn eigi að starfa á heilsugæzlustöð. Það stendur að vísu, að þar eigi að starfa eigi færri en tveir læknar, heilsugæzluhjúkrunarkona, meinatæknir og ritari, einn héraðslæknir og hjúkrunarkonur, þar sem það á við. Einhvern veginn varð mér á, þegar ég las það, hvaða verkefnum væri sinnt á heilsugæzlustöð, að hugsa, hvort þarna væri ekki vantalinn einn starfskraftur. Meðal þeirra verkefna, er heilsugæzlustöð á að sinna, er mæðravernd og ungbarnavernd. Ég spyr: Hefur fallið niður þarna að nefna ljósmóður? Mér hefur verið bent á, að það muni vera hugsað í framtíðinni, að ljósmóðurfræði eða fæðingarfræði verði hluti af menntun hjúkrunarkonu, en á meðan sá skortur er á hjúkrunarkonum í landinu, sem raun er á, þá spyr ég, hvort þetta sé ekki atriði, sem athuga þarf.

Í 22. gr., 1. tölul., eru talin upp hin ýmsu verkefni, sem sinna á á heilsugæzlustöð. Vafalaust hefur þetta verið rækilega hugsað. Ég vil þó leyfa mér að vekja athygli á því, hvort ekki væri ástæða til að nefna undir i-lið, þar sem nefnd er geðvernd og áfengisvarnir, einnig varnir gegn vanda vegna fíknilyfja. Það gæti hugsanlega verið orðað sem svo: Geðvernd og varnir gegn áfengi og öðrum fíknilyfjum.

Loks í j-lið þessarar greinar er nefnd félagsleg aðstoð. Ég vil spyrja: Við hvað er átt með þessu? Eftir mínum skilningi þýðir félagsleg aðstoð ýmislegt, sem ekki kemur í venjulegum skilningi heilbrigðismálum við. Það getur verið um að ræða beina fjárhagsaðstoð, framfærsluhjálp. Þetta vildi ég gjarnan, að athugað væri, og að n. gerð grein fyrir, hvað átt muni vera við með þessu.

Í næsta tölul. á eftir, 2. tölul. 22. gr., er sagt, að ráðh. skuli setja með reglugerð ákvæði um fjölda heilsugæzlustöðva o. s. frv. og stærð, og fyrirkomulag heilsuverndarstarfs á hverjum stað. Hér vil ég benda á, að ástæða er til og liggur nokkuð í augum uppi, að þarna sé rétt að lögbinda, að samráð sé haft við hlutaðeigandi sveitarfélag, því að þarna hlýtur mjög að koma til greina staðarþekking.

Í 33. gr. frv. er fjallað um stjórn sjúkrahúsa ríkisins. Þar hefur það verið fellt niður frá fyrra frv., að gert var þar ráð fyrir, að læknadeild Háskólans tilnefni fulltrúa í þá stjórn, en meðal þessara sjúkrahúsa eru öll kennslusjúkrahúsin, og sýnist mér þetta vera mjög sanngjörn ósk. Sama má segja um umsögn eða íhlutunarrétt um ráðningar yfirlækna við sjúkrahús ríkisins, og hef ég þá í huga þessa sömu röksemd, að fyrst og fremst þar sem um kennslusjúkrahús sé að ræða, sé leitað umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands.

Í sambandi við þessi atriði, ráðningu yfirlækna og sérfræðinga sjúkrahúsa, langar mig til að skýra frá till., sem upp kom í heilbrigðismálaráði Reykjavíkurborgar, en hún fjallaði um það, að til athugunar kæmi að skipa yfirlækna og sérfræðinga sjúkrahúsa til ákveðins tíma. Ég legg engan dóm á þessa till., vil aðeins skýra frá henni, því að mér finnst hún vera nýstárleg og umhugsunarverð.

Loks vil ég benda á, að í frv. eru nokkrar greinar, þar sem allítarlega er fjallað um kjaramál lækna. Mér sýnist, að það sé óvenjulegt og heldur óeðlilegt, að slík atriði séu bundin í lögum og þykir eðlilegra, að um þau sé fjallað í reglugerð.

Ég kem þá að lokum þessa máls, herra forseti. Ég hef drepið á ýmis atriði, sum stór og sum smá, í sambandi við þetta frv., sem ég hef hnotið um og leitað mér upplýsinga um, þó mjög lauslegra, núna undanfarna daga í sambandi við lestur þessa frv. Nú fer þetta umfangsmikla mál til n., þar sem það fær frekari og nákvæmari athugun þingsins, og umsagnir frá hinum ýmsu aðilum verða þar skoðaðar. Ég legg áherzlu á það, hverjum breytingum sem þetta frv. kann að taka í meðförum þingsins, að við skulum gera okkur ljóst, að það, sem fyrst og fremst þarf í heilbrigðisþjónustunni, er fé. Og ekki minnkar sú þörf við samþykkt þessa frv. Við skulum aðeins vona, að sá mikli kostnaður, sem til er stofnað með því frv., sem hér liggur fyrir, ef samþ. verður, og rannar verður vafalaust mikill, þótt það taki einhverjum breytingum, hann beri ríkulegan ávöxt með bættu heilsufari og hreysti allra landsmanna.