27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. heilbrmrh. hefur flutt frv. þetta. Byrjað var að vinna að þessu máli í tíð fyrrv. ráðh. og því starfi hefur verið haldið áfram, eins og frv. ber með sér, og er vonandi, að Alþ. takist að afgreiða málið, svo að sem flestir geti vel við unað.

Ég vil einnig láta í ljós mikla ánægju með ýmis þau ummæli, sem hæstv. heilbrmrh. hafði í framsöguræðu sinni um þróun heilbrigðismála undanfarin ár, alveg sérstaklega það, sem hann sagði um þróun heilbrigðismála á s. l. áratug, 1960–1970, sem hann tiltók. Þau ummæli báru þess sanngjarnan vott, að á því árabili hefði orðið stórstíg framför í heilbrigðismálum, og er vonandi, að svo geti áfram orðið.

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að mæla fyrir einni brtt. og gera þar að auki eina efnislega aths. Á þskj. 594 flyt ég ásamt hv. 4. þm. Vesturl. brtt., sem er við 17. gr. Í 17. gr. er gert ráð fyrir því, að heilsugæzlustöð, ein af fjórum á Vesturlandi, sé í Stykkishólmi, og skuli starfssvæði hennar vera Miklaholtshreppur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Eyrarsveit, þ. e. allt Snæfellsnesið frá Búlandshöfða og austur úr, síðan Dalir allir og að auki verulegur hluti af Barðastrandarsýslu. Við teljum, að þetta sé of stórt svæði og landfræðilegar aðstæður séu þannig, að það sé mjög varhugavert að ætla að hafa svo stórt starfssvæði fyrir eina heilsugæzlustöð. Við höfum því lagt til, að þarna yrðu tvær slíkar stöðvar, önnur í Stykkishólmi og hin í Búðardal.

Þegar nánar er athugað, eru miklir samgönguerfiðleikar á þessu svæði, og er t. d. ekki óalgengt um vetur, að ófært sé frá Búðardal til Stykkishólms, en gæti hins vegar verið fært frá Búðardal suður í Borgarfjörð, þar sem önnur slík stöð er. Þegar athugað er, hversu langt það er fyrir Austur-Barðstrendinga að sækja alla leið til Stykkishólms, er augljóst, að hér er um erfitt mál að ræða. Þá hefur komið fram hjá Dalamönnum mjög mikill áhugi á þessu máli, og liggur þegar fyrir, að þeir eru reiðubúnir að stuðla að því með ýmsu fleiru en fögrum orðum, að heilsugæzlustöð geti verið í Búðardal. Ég vil vænta þess, að sú n., sem málið fær, og aðrir þeir, sem um málið fjalla, þangað til það verður afgreitt, taki þetta til vinsamlegrar athugunar.

Þá vil ég leyfa mér, herra forseti, að varpa fram einni efnislegri ábendingu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri meginbreytingu á heilbrigðiskerfi Íslendinga, að fellt er niður hið víðtæka kerfi héraðslækna, sem við höfum haft í marga áratugi, en í þess stað koma heilsugæzlustöðvar og embætti einstakra lækna á ýmsum stöðum á starfssvæðum stöðvanna. Það má því segja, að þetta kerfi, heilsugæzlustöðvar, komi í staðinn fyrir héraðslæknana, sem áður voru. Engu að síður er gert ráð fyrir því, að hér á landi verði átta héraðslæknar, og eiga þeir samkv. frv. að vera sérmenntaðir embættislæknar. Nú hefur meginvandi okkar í þessum málum, svo sem margra annarra þjóða, verið að fá lækna til þess að setjast að í dreifbýli og starfa þar. Gert er ráð fyrir því, að þessir héraðslæknar hafi aðsetur í heilsugæzlustöðvum. M. ö. o., þeir eiga að hafa aðsetur á stöðum, þar sem fyrir eru a. m. k. tveir aðrir læknar. Ég vildi varpa því fram, hvort sú kerfisbreyting, sem hér er á ferðinni, gerir það nauðsynlegt, að þessir embættismenn, héraðslæknarnir, þurfi að vera sérmenntaðir læknar. Þetta er orðið að verulegu leyti stjórnunarstarf. Þar að auki eiga þessir embættismenn að starfa á stöðum, þar sem eru a. m. k. tveir læknar í heilsugæzlustöðvunum, og virðist því, að þar ætti ekki að vera skortur á fræðilegri kunnáttu til þess að líta á þau vandamál, sem kynnu að koma upp. Ef það reyndist vera við nánari athugun mögulegt að láta menn, sem ekki væru fullmenntaðir læknar, annast þau stjórnunar störf, sem verða sennilega meginþættir í starfi þessara sérstöku embættislækna, þá mundum við losa átta lækna, sem væntanlega eru fúsir til þess að starfa utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég varpa þessu fram til umhugsunar. Ég hef ekki nægilega þekkingu á þessum málum til þess að kveða upp um það neinn úrskurð. Ég er reiðubúinn til að láta sannfærast, ef mér verður bent á, að þessi hugmynd sé óframkvæmanleg.

En varðandi læknishéruðin og héraðslæknana vil ég þó að lokum taka það fram, að í þeim efnum álít ég, að Reykjavíkursvæðið hafi algera sérstöðu, og ég vil því undanskilja það þeim hugleiðingum, sem ég hef hér varpað fram.