27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (3159)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ætlað að láta þetta mál fara fram hjá mér í þetta sinn, þar sem frv. á að bíða til næsta þings og vera til athugunar hjá þm. og landsbúum í sumar. En það var af sérstökum ástæðum, að mér datt í hug að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, og það var hv. 3. landsk. þm., sem vakti mig í gær, þegar hann lýsti furðu sinni á því, að Vestmannaeyjar skyldu vera sérstakt læknishérað. Ég held, að að athuguðu máli muni jafnsanngjarn maður og hv. 3. landsk. þm. er sannfærast um það, að það er eðlilegt, að Vestmannaeyjar séu sérstakt læknishérað. Það hefur oft verið erfitt að fá ,,praktiserandi“ lækna til Vestmannaeyja, en það hefur alltaf fengizt þangað héraðslæknir. Og þess vegna er það mikil trygging fyrir íbúa Vestmannaeyja, að þetta verði sjálfstætt læknishérað áfram. Og mér þykir ástæða til að benda hæstv. heilbrmrh. og öðrum nú þegar á þetta, vegna þess að það er enginn vafi á því, að bæði þm. og landsmenn allir munu hugsa um þetta mál, þangað til það verður tekið fyrir aftur á næsta þingi. Og ég verð að segja það, að mér finnst það ágætt og vera til fyrirmyndar, að þetta mál, eins stórt og það er, skuli lagt fram nú, án þess að ætlazt sé til, að það verði keyrt í gegn á sama þingi og það er sýnt. Þetta er svo stórt mál, að það þarf sinn tíma til athugunar. Það er að vísu rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, að þetta frv. er framhald af athugunum, sem hafa lengi staðið. En eigi að síður er það sannfæring mín, að þetta frv. eigi eftir að breytast. Og ég skildi hæstv. heilbrmrh. þannig, að hann gerði einnig ráð fyrir því, að allmiklar breytingar gætu orðið á frv.

Það er eðlilegt, að rætt sé um heilbrigðisþjónustuna. Hún hlýtur að vera dýr í okkar landi eins og hún er alls staðar, þar sem miklar kröfur eru til hennar gerðar. Við Íslendingar gerum miklar kröfur til heilbrigðisþjónustunnar, og það hefur verið viðurkennt, að heilbrigðisþjónusta hér á landi er tiltölulega góð, enda þótt hún geti í mörgum atriðum staðið til bóta. Það er ánægjulegt að lesa alþjóðaskýrslur, sem sýna það, að meðalaldur Íslendinga er einn sá hæsti og heilbrigðisástand hér með því bezta. Barnadauði hér er einn sá minnsti, sem gerist hjá menningarþjóðum, o. s. frv. Þetta er vegna þess vitanlega, að við höfum tiltölulega góða heilbrigðisþjónustu, við höfum tiltölulega góða lækna. En allt stendur til bóta, og í strjálbýlinu hefur þetta vitanlega verið mjög erfitt, vegna þess að það hefur verið mjög miklum erfiðleikum bundið að fá lækna til þess að fara út á land.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, því, að komið verði upp heilsugæzlustöðvum, þar sem tveir læknar starfa saman, en ekki einn. Það er enginn vafi á því, að þetta er það, sem verður í framtíðinni, enda þótt erfitt verði að koma því við alls staðar vegna strjálbýlis. Þess vegna er gert ráð fyrir 10 stöðum, þar sem situr aðeins einn læknir. Hv. þm. Vesturl. hafa flutt brtt. í þá átt, að aðsetur lækna verði víðar en gert er ráð fyrir í frv. Ég fyrir mitt leyti læt mér detta í hug, að Vestur-Skaftfellingar austan Mýrdalssands verði ekki ánægðir með það, að Kirkjubæjarklausturshérað verði lagt niður, enda þótt það hafi veríð miklum erfiðleikum bundið undanfarið að fá lækni til þess að vera þar, — síðustu árin hafa aðeins verið þar menn komnir yfir sjötugt, sem áttu að vera hættir læknisstarfi, en þeir ágætu menn hafa dugað vel og reynzt vel, — og það má segja, að það sé kannske til lítils að vera að hafa í lögum embætti, sem ekki fæst neinn maður til að gegna. Ég tel alveg sjálfsagt, að þm. kynni sér þetta mál rækilega, ræði það við lækna í kjördæmunum og við fólkið í kjördæmunum. Og ég tel eðlilegt, að þm. Sunnl. ræði það við Vestur-Skaftfellinga, hvort þeir vilji una því, að læknishéraðið austan sands, þar sem eru fimm hreppar, verði ekki lengur til og það verði heilsugæzlustöð í Vík og öllum íbúum austan sands verði ætlað að sækja læknisþjónustu til Vikur. Mér finnst einnig, að athuga þurfi, hvort það sé ekki réttlætanlegt að hafa heilsugæzlustöð í Vík, enda þótt gert væri ráð fyrir læknissetri á Kirkjubæjarklaustri. Ég hugsa líka til þess, að íbúar Hveragerðis, Eyrarbakka og Stokkseyrar verði ekki ánægðir með að sjá, að það á að taka lækninn af þeim og þeir eiga að sækja læknisþjónustu að Selfossi. Þetta þarf allt að ræða og þetta þarf allt að athuga. Það hefur aldrei verið erfiðleikum bundið að fá lækni í Hveragerði eða á Eyrarbakka, og það kemur til athugunar, hvort það sé ekki réttlætanlegt, með tilliti til þess að fólkinu er að fjölga á þessu svæði, að hafa lækna áfram á Eyrarbakka og í Hveragerði, enda þótt heilsugæzlustöð á Selfossi komi. Mér finnst ekki eðlilegt, að menn geti svarað slíku án þess að hafa athugað það rækilega og borið sig saman við íbúa héraðanna.

Það eru breyttir tímar. Það var hérna fyrrum, að læknishéruðin voru stór. Þá mátti segja, að illa væri farið með héraðslæknana, þegar þeir þurftu að ferðast á hestum um vegleysur og yfir óbrúuð vötn. Og þeir máttu aldrei hvíla sig, enda entust þessir menn illa og fórnuðu sér alveg fyrir almenning. Við, sem erum komnir yfir miðjan aldur, munum líka hvernig farið var með héraðslækna, eftir að vegir voru komnir og brýr á vötnin. Ég man eftir því, þegar Rangárvallasýsla var eitt læknishérað, að læknirinn var á þönum oft allan sólarhringinn að gegna sinni skyldu. Þessir menn entust ekki vel, og það er ekki til fyrirmyndar, sem þá gerðist, og það vill enginn endurtaka það. Nú er Rangárvallasýsla tvö læknishéruð og þeir hafa áreiðanlega nóg að gera, enda er nú miklu meira leitað til lækna heldur en gerðist í gamla daga.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira um læknana, eins og störfum þeirra var háttað áður, en allt stendur þetta til bóta. Nú hefur verið rætt talsvert um, að það sé of vel gert við lækna og þetta frv. bjóði upp á alls konar fríðindi og miklar tekjur, sem sé í rauninni alveg óforsvaranlegt. Ég vil ekkert fullyrða um slíkt á þessu stigi málsins. Mér finnst, að þetta sé matsatriði, sem þurfi að athuga og skoða frá fleiri en einni hlið. Og það er rétt, sem hér var sagt áðan, að læknanámið er dýrt, það er langt og það er strangt. Það er ekkert víst, að það séu alltaf gáfuðustu stúdentarnir, sem fara í læknisfræði, en eitt er víst, að þeir komast ekki gegnum það nám nema leggja hart að sér og hafa áhuga á því. Það getur vel verið, að sumir þessir stúdentar fari í læknanám af hugsjón einni saman. En við skulum reikna með því, að þeir séu mannlegir og annar þátturinn sé sú von að geta komizt í vel launað starf um leið og þeir geti gert þjóð sinni gagn með því að lækna sjúka og mædda. Og mér finnst það nú satt að segja ekkert óeðlilegt, þó að þeir, sem leggja þannig hart að sér í löngu og ströngu námi og eru komnir á fertugsaldur, þegar þeir hafa lokið því, og hafa oft stofnað til mikilla skulda, þótt þeir fengju betur launað starf á eftir heldur en aðrir, sem minna hafa kostað til. Ég lít nú þannig á, að þetta þurfi að hafa svona á bak við eyrað um leið og dómur er lagður á það, hvort læknum séu boðin allt of góð kjör.

Þá ber einnig að líta á það, þegar talað er um hálaunastéttir hér á landi, að ríki og sveitarfélag taka nú kúfinn af laununum, og launajöfnuður hér á landi er miklu meiri en nokkurs staðar annars staðar. Ætli það séu ekki nálægt því 60% af nettótekjum, sem fara í skatta? Samkv. nýju skattalögunum tekur ríkið 44%, sveitarfélagið tekur 11% af brúttótekjum. Og svo koma náttúrlega fasteignaskattar, ef maðurinn á íbúð eða hús, og þá held ég, að hann fari nú að nálgast 60%, skatturinn. Og þá minnkar bilið vissulega mikið hjá þeim manni, sem kallaður er hálaunamaður; og hinum, sem kallaður er láglaunamaður. Við skulum viðurkenna, að læknisstarfið er mikið ábyrgðarstarf og að við getum ekki verið án þessara manna. Og það er nauðsynlegt, að alltaf fari hæfilegur fjöldi manna í þessi störf.

Einhver minntist á það, eftir að þetta frv. var komið fram, að það ætti að gefa læknunum frí annað hvert ár til þess að þeir gætu farið í það, sem kallað væri námsferðir. Ég hef oft talað við lækna og þeir hafa sagt, að ef þeir ættu ekki að forpokast, þá þyrftu þeir að fara á ráðstefnur, hitta sérfræðinga og kynnast öllum nýjungum í heiminum, og þeir hafa enn fremur sagt, að það væri ekki nóg, að þeir þyrftu að vinna langan vinnudag á sjúkrahúsum eða í sjúkravitjunum, heldur þyrftu þeir, þegar almennur borgari hallar sér og fer að sofa, þá þyrftu þeir að lesa 1–2 klukkutíma á hverju kvöldi vísindarit og halda áfram að læra, ef þeir vildu fylgjast með. Og þess vegna er þessu langa læknisnámi í raun og veru aldrei lokið, vegna þess að ef þeir ætla að vera starfi sínu vaxnir, þá þurfa þeir að fylgjast með öllum nýjungum í heiminum. Ég er þess vegna í miklum vafa um, að þetta frv. bjóði læknum upp á of góð kjör. En ég er í hópi þeirra, sem vilja gera miklar kröfur til þessara manna, og ég vil, að heilbrigðislöggjöfin hér á landi verði þannig, að allir landsmenn, hvar sem þeir búa, eigi þess kost að njóta fullkominnar læknisþjónustu, það er ekki hægt að sætta sig við annað. Við erum í strjálbýlu landi og tiltölulega stóru og þess vegna er eðlilegt, að það sé erfiðleikum bundið að koma þessum málum þannig fyrir, að þetta megi verða. Þess vegna er eðlilegt, þegar verið er að endurskoða heilbrigðislöggjöfina, að það þurfi tíma til þess að skoða hana til þess að fá það bezta út úr því.

Í þessu frv. eru mörg nýmæli, og ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því, að ég hef ekki enn lesið þetta frv. svo rækilega, að ég sé búinn að mynda mér rækilega skoðun um öll atriði þess. En mér sýnist, að það séu nokkur atriði og nokkuð mörg, sem geti staðið til bóta í sambandi við þetta frv., það séu þó önnur, sem geti orkað mjög tvímælis, og það séu nokkur atriði, sem þurfi jafnvel að taka í burt. En út í það ætla ég ekki að fara að þessu sinni, þar sem þetta mál á ekki að ræða til fulls á þessu þingi. Mér finnst aðalatriðið, ef við getum markað stefnuna í heilbrigðismálunum þannig að við getum gert okkur grein fyrir því, hver hún á að vera, og fundið þann punkt, sem við ætlum að stöðva okkur á. Það er miklu meira atriði heldur en það, hvort við getum sett löggjöfina einu árinu fyrr eða seinna. Það er það, sem við þurfum að koma okkur niður á, hvernig við getum komið þessum málum sem bezt fyrir, þannig að það verði ekki óhóflega dýrt, þannig að allir landsmenn geti notið fullkominnar heilbrigðisþjónustu og þannig að það verði framkvæmanlegt.

Þetta stórmál, eins og ég áðan sagði, er aðeins lagt hér fram til þess að menn hafi tækifæri til að setja sig vel inn í það, ræða það við lækna, ræða það við fólkið heima í héruðunum og reyna að finna það bezta út úr því. Þetta frv. er lagt fram, að mér skilst, nánast sem umræðugrundvöllur um þetta mikilvæga mál, sem snertir alla Íslendinga. Og ég vil endurtaka það, að mér finnst það gott, að sá háttur er viðhafður að sýna málið á þessu þingi með það fyrir augum, að það verði tekið til endanlegrar afgreiðslu á næsta þingi.