27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3160)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Mig langar að koma á framfæri örstuttri aths., því að mér þótti gæta örlítils misskilnings hjá hv. 1. þm. Sunnl. að því leyti, að mér skildist á honum, að ég hefði jafnvel viljað hafa af Vestmanneyingum héraðslækninn. En það hefur náttúrlega aldrei verið ætlunin, eins og öllum hlýtur að vera ljóst, því að það, sem olli því, að ég minntist á héraðslækninn í Vestmannaeyjakaupstað, var einfaldlega það, að ég var að bera saman heildarhéruð. Ég varpaði fram þeirri spurningu, hvort það gæti talizt eðlilegt að hafa einn héraðslækni í Vestmannaeyjum, þar sem væru nokkur þús. manns og einn í Reykjavíkurhéraði, þar sem væru yfir 100 þús. manns. Það fólst alls ekki í þeirri aths., að. það ætti að hafa af Vestmanneyingum héraðslækninn, heldur var þetta bara spurning um, hvernig skipulagið ætti að vera, hvort þessi hlutföll væru eðlileg, en að sjálfsögðu ekki, að ég ætli að hafa af Vestmanneyingum héraðslækninn. Ég vil bara aðeins koma þessu fram, því að ég veit, að hv. 1. þm. Sunnl. vill hafa það, sem rétt er og sannast.