27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen áttar sig greinilega ekki á því, hvað við er átt, þegar sagt er, að hin almenna stefnuyfirlýsing, sem felst í 1. gr. frv., sé nýmæli. En hún er ákaflega veigamikið nýmæli. Þarna er tekin upp skilgreining Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar á því, hvernig beri að líta á heilbrigðisþjónustu, að hún eigi að verða til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Það er lögð áherzla á heilbrigði, en ekki sjúkdóma, og það er það, sem er nýmælið í þessari grein. (MÁM: Ég var að tala um grg.) Já, í þessari grg. er verið að víkja að þessu atriði, nákvæmlega þessu atriði. Þetta er nýmæli í íslenzkri löggjöf, og þetta er annað og meira en orðin tóm. Þetta er ákaflega veigamikið nýmæli. Ég er þeirrar skoðunar, að heilbrigðisþjónusta á Íslandi hljóti í vaxandi mæli að beinast að því að koma í veg fyrir sjúkdóma, að koma í veg fyrir, að menn verði veikir, ekki að lækna sjúka, heldur að koma í veg fyrir, að menn verði veikir. Og það er það, sem er lögð áherzla á í þessari grein. Og þetta er ákaflega veigamikið atriði. Þetta er grundvallaratriði. Ég tel, að þetta sé hornsteinn þeirrar þjónustu, sem við verðum að kappkosta að veita hér á Íslandi á næstu áratugum, þannig að það er sannarlega ekki að ástæðulausu, sem bent er á, að þarna er um veigamikið nýmæli að ræða. Þetta er grundvallaratriði, hreinlega grundvallaratriði um alla þróun þessara mála á Íslandi.

Það er einnig hrein fjarstæða, þegar hv. þm. er eitthvað að vefengja það, að með þessu frv. sé komið fastmótuðu skipulagi á hugmyndir, sem uppi hafa verið um læknamiðstöðvar. Það er nákvæmlega það, sem þarna er verið að gera. Vissulega hefur verið fjallað í fyrri lögum um slíkar miðstöðvar, en það hafa verið almennar hugleiðingar. Og það hefur ekki verið nein föst skipan á því, hvernig þessu yrði komið upp. Hér er reynt að gera till. um fasta skipan þessara mála. Menn geta haft skiptar skoðanir á því, hvort þessi fasta skipan sé skynsamleg eða skynsamleg ekki. En þarna er verið að reyna að gera þetta, og það er alveg ástæðulaust að vera með nokkurn orðhengilshátt í því sambandi. Og í þessu felst ekkert yfirlæti og enginn sjálfbirgingur, eins og hv. þm. sagði í ræðu sinni á dögunum. Og ég skil satt að segja ekki, hvers konar viðkvæmni þetta er hjá þessum hv. þm. að geta ekki þolað það, að hér sé á einföldu og mæltu máli talað um hlutina eins og þeir eru í raun og veru.

Hv. þm. taldi, að það væri rétt, að á Reykjanesskaga yrði sérstakt héraðslæknisembætti, en það yrði ekki fellt saman í eitt héraðslæknisembætti, allt Stór-Reykjavíkursvæðið. Þetta er vafalaust álitamál, og um þetta geta verið mjög skiptar skoðanir. Hér hafa komið upp þær spurningar, hvort það þurfi sérmenntaða lækna til þess að gegna störfum af þessu tagi, hér sé um að ræða stjórnunarstörf, og hvort það sé ástæða til þess að læknar séu í slíkum störfum, hvort það sé ekki hægt að fá í þau menn, sem eru sérfræðingar í stjórnun og hafa kannske minni námstíma að baki heldur en þessir langlærðu læknar. Ég held, að það sé reynsla allra, að embættislækningar séu mjög veigamikil sérgrein innan læknisfræðinnar, og við getum ekki slakað á kröfum okkar til þess, að þeir, sem stjórna heilbrigðisþjónustunni úti í héruðunum, hafi alveg fullgilda menntun sem embættislæknar. Ég held, að við eigum að vera mjög fastir á því skilyrði. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að það mætti íhuga gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að fækka þessum læknishéruðum. Í frv. er gert ráð fyrir, að þau séu átta, en að sjálfsögðu væri hugsamlegt að fækka þeim, vegna þess að þessi héraðslæknir á fyrst og fremst að vera skipuleggjandi á sínu svæði og þetta eru vissulega dýrir menn með langt nám að baki, þetta er dýrt kerfi. Það getur vel skeð, að það væri skynsamlegra að fækka þessum læknishéruðum á fyrsta stigi og fjölga þeim svo eftir því sem reynslan segir til um. Ég er þeirrar skoðunar, að það kæmi frekar til mála að fækka þeim en að fjölga þeim. En sem sagt, þetta kemur einnig til álita hjá alþm. almennt.

Hv. þm. telur, að Vatnsleysuströnd væri betur komin í Keflavík en í Hafnarfirði og það má vel vera, að svo sé. Ég skal ekki draga það í efa, en vera má, að það séu eitthvað skiptar skoðanir um það. En ég vil benda á það í því sambandi, að í 19.gr. frv. segir:

Þrátt fyrir skiptingu landsins milli heilsugæzlustöðva, svo sem rakið er í 17. gr., skulu íbúar einstakra sveitarfélaga og byggðarlaga jafnan eiga rétt á að leita læknishjálpar til þeirrar heilsugæzlustöðvar, læknisseturs eða læknismóttöku, sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.“

Vafalaust kemur það upp í ýmsum þeim hér uðum, sem eru á mörkunum á milli heilsugæzlustöðva, að það fer eftir atvikum hjá hverjum og einstökum, hvert honum hentar að leita, þannig að þessi skipting hlýtur nú í verki að vera dálítið fljótandi. En ef hv. þm. telur skipta miklu máli að breyta þessu, þá hef ég síður en svo nokkuð á móti því.

Ég vil mótmæla því algerlega, að ég hafi hér verið að gera lítið úr heilsugæzlu Reykjavíkur borgar. Það var ég ekki að gera. Því fer mjög fjarri. Ég tel, að þróun þeirra mála hafi verið á margan hátt mjög myndarleg í Reykjavík eins og raunar í landinu öllu, eins og ég gat um í framsöguræðu minni. En ég er þeirrar skoðunar, að heilsugæzlukerfið í Reykjavík hafi ekki að undanförnu þróazt í samræmi við breytta tíma. Mér finnst vera alveg furðulegt seinlæti hjá Reykjavíkurborg að koma upp heilsugæzlustöðvum í höfuðborginni. Ég tel, að það sé orðin alveg knýjandi nauðsyn, að að þessu nauðsynjaverki verið unnið, og ég vona, að þetta frv. stuðli að því. Með þessu frv. er lögð á ríkið miklu meiri kvöð en verið hefur að greiða kostnað af sjúkrastofnunum, og ég vona, að það geti stuðlað að því, að þróunin hér í Reykjavík verði einnig ör. En það er held ég mál, sem allir geta verið sammála um, að heimilislæknakerfið, eins og það er núna í Reykjavík og á Akureyri raunar líka, er að ganga sér til húðar, og við verðum að koma upp nýju kerfi, og það hefur dregizt allt of lengi í Reykjavík. Ég segi þetta ekki af neinum pólitískum ástæðum. Ég er aðeins að meta ástand þessara mála út af fyrir sig.