10.11.1971
Efri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

62. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv., fyrir utan það, að ég vildi þá einnig láta þess getið, að það hefur verið stefnan í húsnæðismálum á undanförnum árum, að koma öllum þáttum þeirra sem mest undir einn hatt. Það, sem okkur skortir á í þessum efnum enn þá, þrátt fyrir mikilsverðar lagabreytingar á undanförnum árum, er m. a. það, sem í þessu frv. hv. 3. þm. Reykn. felst, þ. e. að geta komið til móts við þær starfsgreinar og þá aðila í landinu með lántökum frá þessum sameiginlega húsnæðismálasjóði. Og til viðbótar þeim aðilum, sem hv. þm. benti á, að ættu erfiðast með að endurnýja sitt húsnæði, þá kemur og annar allfjölmennur hópur, sem ekki af líkamlegum ástæðum á erfitt með að halda sínu húsnæði við eða gera það í stand með þeim hætti, sem nú hefur tíðkazt á undanförnum árum, þ. e. með eigin vinnu, en það eru þeir, sem langdvölum dveljast að heiman vegna atvinnu sinnar, t. d. sjómenn. Þó að þeir séu líkamlega hraustir og vinni sín mikilvægu störf fyrir þjóðfélagið, þá hafa þeir af skiljanlegum ástæðum ekki sömu aðstöðu og aðrir, sem heima dvelja og eiga að geta eytt sínum frístundum heima til að laga til fyrir sig, eins og við köllum það í daglegu máli. En það er einn megingalli á þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á húsnæðismálalöggjöfinni á undanförnum árum. Húsnæðismálastjórn hefur fengið töluvert aukin verkefni og undir hana hefur verið sett með lögum nánast öll yfirstjórn þessara mála, án þess að þessum nýju skyldum stofnunarinnar hafi verið mætt með nægjanlegum auknum tekjustofnum. Það er ekki, eins og okkur hlýtur öllum að vera ljóst, nægjanlegt að auka verkefni og heimildir til lánveitinga, heldur verður þá jafnframt að sjá fyrir auknum tekjustofnum. Af minni reynslu við störf að þessum málum á undanförnum árum hef ég kynnzt því mjög glögglega, að þessir tveir hópar manna, sem ég hef hér minnzt á, fyrst og fremst öryrkjarnir og síðan þeir, sem af einhverjum ástæðum verða að dvelja langdvölum að heiman, eiga þarna langerfiðast uppdráttar og geta ekki, hvorki í vinnuskiptum við aðra né heima hjá sér, létt undir á þessum erfiðleikatímum, sem eru ávallt fyrir menn að koma yfir sig þaki og halda því sómasamlega við, eins og hver og einn mundi vilja gera. Það er því ákaflega brýn nauðsyn, að næsti áfangi í því efni verði að ganga til móts við þetta fólk, og þá jafnframt með auknum tekjustofnum.

Sannleikurinn er sá, að hér er um eitt stærsta félagslega vandamál okkar að ræða, þar sem húsnæðismálin eru. Það er staðreynd, að af einhverjum ástæðum, sem eru þó til nokkuð augljósar skýringar á, sækjum við Íslendingar meira til heimila okkar heldur en almennt gerist meðal annarra þjóða, erum meira inni á heimilum okkar í frístundum en flestir aðrir og gerum, vegna veðráttu og ýmissa annarra hluta, meiri kröfur til vandaðra íbúða heldur en annars staðar tíðkast. Það er einróma álit flestra þeirra erlendu manna, sem hafa skoðað okkar almennu íbúðar byggingar, okkar almennu heimili, að við leggjum kannske stundum óhóflega mikið í þessar íbúðir. Um það skal ekki deilt að þessu sinni, enda ekki tilefni til þess, en hitt er nauðsynlegt að benda á, að jafnframt því, að slíkar auknar heimildir eru veittar, sem ég mæli eindregið með að gert verði, þá er nauðsynlegt að hyggja vel að því, að það sé ekki pappírsgagnið eitt, heldur sé Húsnæðismálastofnun í rauninni gert mögulegt að standa við þær heimildir og nota sér þær umfram það sem er í dag. Ég tel, að þessi mál hafi mjög færzt til betri vegar á síðari árum, vegna þess að þau eru meira á einni hendi, undir einni yfirstjórn en áður var, og það er áreiðanlega til framkvæmdalegra bóta. En hinu verðum við að hyggja vel að, ekki sízt með hliðsjón af þeirri verðbólgu, sem sífellt ríkir í þjóðfélagi okkar, að hægt sé að nota þessar heimildir og koma til móts við þetta fólk, það sé ekki bara verið að segja því frá, að heimildir séu til þessara hluta í þessum lögum, það verða líka að vera fjármunalegir möguleikar á að koma til móts við það.

Þess vegna vil ég um leið og ég ítreka fylgi mitt við þetta frv., sem ég tel vera orð í tíma töluð, undirstrika það sérstaklega, að um leið og þessar heimildir eru veittar, um leið og aukið hefur verið verkefni stofnunarinnar þá er okkur skylt og nauðsynlegt að sjá henni fyrir auknum tekjustofnum til þess að gera lögin raunverulegri, svo að almenningur, sem leitar á náðir þessarar stofnunar til aðstoðar sér og sínum, finni, að það er ekki bara breytt lagasetning, heldur og eindreginn vilji Alþingis, að við þessar lagabreytingar sé staðið á raunhæfan hátt með auknum lánveitingum til þessarar starfsemi.