17.11.1971
Efri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

72. mál, vélstjóranám

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Vestf. (BGuðbj) að bera fram þetta frv. um breyt. á lögum um vélstjóranám.

Vélskóla Íslands er falið það hlutverk að veita þá fræðslu, sem þarf til þess að búa menn undir að gegna vélstjórastarfi á skipakosti landsmanna, og á það ekki sízt við um störf á fiskiskipaflotanum. Augljóst er, að nauðsynlegt er, að á þessu sviði sé veitt fullnægjandi menntun í samræmi við það, sem krefjast verður á hverjum tíma.

Fiskiskipaflotinn er endurnýjaður og vélar skipanna verða æ fullkomnari, og á hinum traustu skipum er sótt mjög djarft á fiskimiðin, svo að ekkert má á það skorta, að hæfir menn séu til vélgæzlu á hverju fiskiskipi.

En þessum málum er þannig háttað, að í sumum landshlutum a. m. k. hefur þurft að veita undanþágu til þess að gegna starfi á fiskiskipum, og eru þær undanþágur veittar skv. ákvæði í lögum um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenzkum skipum, en í þeim lögum segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Ef skortur er á mönnum með nægjanleg vélstjóraréttindi, getur siglingamálaráðuneytið, eftir ósk útgerðarmanns eða skipstjóra, veitt manni, sem eigi fullnægir skilyrðum laga þessara, með undanþágu rétt til vélstjórnar á tilteknu skipi um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en sex mánuði í senn. Áður en undanþága er veitt, skal ávallt leitað umsagnar viðkomandi stéttarfélags vélstjóra.“

Vélstjóranám greinist í fjögur stig, og veitir nám á hverju stigi þá menntun, sem krafizt er til að geta öðlazt tiltekin atvinnuréttindi. Nám á 1. stigi fer fram á námskeiðum á vegum Vélskóla Íslands. Sá, sem lokið hefur vélstjóranámi 1. stigs, fær þegar í stað réttindi til að vera yfirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 250 ha. vél og undirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 500 ha. vél. Og að loknum 12 mánaða starfstíma öðlast hann rétt til að vera yfirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 500 ha. vél.

Kennsla á 1. stigi vélstjóranáms er nú veitt í Reykjavík, á Akureyri og í Vestmannaeyjum, en hins vegar hefur ekki að jafnaði verið gefinn kostur á slíku námi á Austfjörðum eða Vestfjörðum. Í þeim landshlutum, sem ekki hefur verið gefinn kostur á þessu námi, mun það tíðkast, jafnvel fremur en annars staðar, að þeir, sem gegna vélstjórastarfi á fiskiskipum, þurfi að fá undanþágu samkv. þeirri lagagrein, sem ég vitnaði til áðan.

Þótt brýna nauðsyn hafi borið til þess að ráða á fiskiskip vélstjóra með undanþágu frá fullum réttindum í samræmi við menntunarkröfur, þá er það óeðlilegt og varhugavert að þurfa að láta þá skipan þeirra mála haldast til frambúðar. Að því ber að stefna að dómi okkar flm. þessa frv., að þeir, sem búa sig undir vélstjórastarf, eigi sem greiðasta leið til þess í öllum landsfjórðungum að afla sér menntunar í samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru, og að þeir öðlist á þann hátt full atvinnuréttindi.

Um þessar mundir verður þess mjög vart í umræðum manna, bæði hér á hv. Alþ. og annars staðar, að það er að aukast skilningur á því, að ungmenni þurfi að eiga kost á að afla sér menntunar, bæði almennrar menntunar og nokkurrar sérþekkingar til starfa, í sinni heimabyggð, eða a. m. k. sem víðast á landinn. Til þessa benda m. a. umræður um jöfnun námsaðstöðu og þær aðgerðir, sem uppi eru t. d. á því sviði, að menntaskólar verði reistir í öllum landsfjórðungum. Þetta frv. kveður á um það, að það verði eftirleiðis, ef það verður að lögum, fastur liður í starfi Vélskóla Íslands að halda námskeið á Höfn í Hornafirði og á Ísafirði til viðbótar þeim stöðum, þar sem námskeið eru nú haldin, og að þau veiti þá fræðslu, sem krafizt er til 1. stigs í vélstjóranámi. Frv. er því spor í þá átt að jafna aðstöðu ungmenna til náms í tiltekinni grein á verklegu sviði, en sú starfsgrein er svo mikilvæg, að menntun til undirbúnings því starfi má sízt af öllu vanrækja.

Ég vænti þess, að þetta litla frv. mæti góðum skilningi í þessari hv. þd., og ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.