11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

71. mál, innlent lán

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Til þess, að það verði ekki misskilningur úr því, hvers vegna ég óskaði eftir þessum svörum frá hæstv. ráðh., sem ég gerði hér áðan, þá vil ég segja það, að það var ekki ætlan mín að telja neitt eftir, að þessa fjár yrði aflað, heldur óttast ég, að biðin verði of löng eftir framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj., ef bíða á eftir því, að frv. um Framkvæmdastofnun fari hér í gegnum Alþ., og síðan á að koma þessari Framkvæmdastofnun á fót, og það tekur sinn tíma. Svo á að fara að gera framkvæmda- og fjáröflunaráætlun. Ég vildi fá svör við því, hvenær menn héldu, að þetta yrði allt saman búið, og það var mitt erindi hingað í pontuna, en ekki að telja neitt eftir í þessu efni og sízt, að það hefði komið fram í mínu máli, að ekki væru næg verkefni fram undan til þess að nota þetta fjármagn til. Ég held, að hv. þd. geti verið sammála um það, að verkefni eru 1001 hér á landi, sem hægt væri að nota þetta fjármagn allt til.

Út af ræðu hæstv. forsrh. um erlent lán og að hér sé um að ræða einhverja stefnubreytingu hjá núv. ríkisstj., þá minnir mig, — ég viðurkenni það, að minni mitt er ekkert fremur trútt heldur en margra annarra, — að í aths. við fjárlagafrv., sem hefur verið lagt hér fram á Alþ., komi fram, að halli verði á viðskiptajöfnuði landsins um hvorki meira né minna en 3600 millj. kr. á árinu 1972 að mati Efnahagsstofnunarinnar, en vegna innflutnings á erlendu fjármagni, sem þýðir erlendar lántökur, þá verði ekki slíkur halli á gjaldeyrissjóói okkar á næsta ári, sem betur fer.