03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (3218)

98. mál, Þjóðleikhús

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Menntmn. hv. d. flytur á þskj. 116 frv. til l. um Þjóðleikhús að beiðni hæstv. menntmrh. Lög um Þjóðleikhús eru, eins og kunnugt er, frá árinu 1947 og eru þannig 24 ára gömul. Síðan þessi lög voru samþ., hefur mikið vatn runnið til sjávar, og er eðlilega orðin þörf á ýmsum breytingum á þessum lögum.

Á árinu 1970, nánar tiltekið 6. febr., skipaði þáverandi menntmrh. nefnd til þess að endurskoða löggjöf og reglugerð um Þjóðleikhús. Nefndina skipuðu Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, Baldvin Tryggvason framkvæmdastjóri og dr. Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari. Nefndin samdi það frv. til l. um Þjóðleikhús, sem hér liggur fyrir. Frv. var lagt fyrir síðasta Alþ., en varð þá eigi útrætt.

Í þessu nýja frv. um Þjóðleikhús er að finna miklu nánari ákvæði um hlutverk Þjóðleikhússins og verkefni þess heldur en áður hafa verið í lögum. Meginbreytingin, sem gerð er með þessu frv., er breyting, sem snertir skipan þjóðleikhúsráðs. Starfstímabil þess er tímabundið og fulltrúum í þjóðleikhúsráði er fjölgað, en samkv. núgildandi lögum er starfstímabil fulltrúa í þjóðleikhúsráði ótiltekið, og er í lögunum greint svo frá, að fjórir stærstu stjórnmálaflokkarnir á Alþ. eigi fulltrúa í þjóðleikhúsráði. Nú er sem sagt gert ráð fyrir því, að allmikil fjölgun verði í ráðinu, eins og segir í 5. gr. frv.: „Í upphafi fyrsta þings eftir hverjar reglulegar alþingiskosningar nefnir hver þingflokkur einn fulltrúa fyrir hverja tíu þm. í flokknum eða brot úr þeirri tölu.“ Bandalagi ísl. listamanna er ætlað að kjósa þrjá fulltrúa (einn tónlistarmann, einn listdansara og einn rithöfund), Félagi ísl. leikara þrjá fulltrúa, Leikarafélagi Þjóðleikhússins einn fulltrúa, menntmrh. skipar síðan einn fulltrúa og þjóðleikhúsráð kýs sér sjálft formann.

Eins og sjá má, er þarna um allmikla fjölgun á fulltrúum að ræða, en um leið er ákveðið, að starfstímabil ráðsins sé fjögur ár. En þessu til viðbótar er svo ákveðið, að við Þjóðleikhúsið skuli starfa fimm manna framkvæmdaráð, sem verður þá kannske aftur á móti meira virkt en þjóðleikhúsráðið, sem nú er starfandi. Það er þannig skipað, að formaður þjóðleikhúsráðsins er for maður framkvæmdaráðsins, en í því eiga einnig sæti þjóðleikhússtjóri, fjármálafulltrúi leikhússins, sá af fulltrúum Félags ísl. leikara, sem félagið ákveður, og fulltrúi Leikarafélags Þjóðleikhússins í þjóðleikhúsráði.

Aðrar helztu breytingar, sem gerðar eru með þessu frv., eru, að nú segir ótvírætt í frv., að Þjóðleikhúsið skuli flytja óperur og sýna listdans að staðaldri. Það er gert ráð fyrir, að við Þjóðleikhúsið starfi bókmennta- og leiklistarráðunautur, listdansstjóri og tónlistarráðunautur. Það er lögfest, að blandaður kór starfi við leikhúsið. Gert er ráð fyrir því, að leikárið verði framvegis frá 1. sept. til 31. ágúst, en eigi frá júlíbyrjun til júníloka eins og nú er. Það er gert ráð fyrir því, að komið verði upp sárstöku leikmunasafni. Þá er gert ráð fyrir stórauknu samstarfi Þjóðleikhússins við leikfélög áhugamanna, að komið verði upp leiklistar,-, sönglistar og listdansskóla ríkisins, og ýmsar fleiri breytingar er að finna í þessu frv.

Ég vil að lokum taka það fram, að einstakir nm. menntmn. hafa algerlega óbundnar hendur um afstöðu sína til málsins. Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni þessari umr.