26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti Hv. 4. þm. Norðurl. v. lýsti því hér yfir, að leikarar væru almennt óánægðir með þann hátt, sem gert er ráð fyrir um skipun æðstu stjórnar Þjóðleikhússins í frv. sjálfu. Þetta er ekki rétt. leikarar eru ekki óánægðir með þetta. Höfuðágreiningurinn var um annað. Höfuðágreiningurinn, sem um var að ræða, var um, að leikararnir og listamennirnir töldu ekki rétt, að það væru fulltrúar stjórnmálaflokkanna í þjóðleikhúsráði. Þeir vildu, að þjóðleikhúsráð væri skipað einvörðungu, eða svo til, fulltrúum samtaka listamanna. En árangurinn af öllum þeim viðræðum, sem fóru fram við þessa aðila, varð samkomulag. Þegar byrjað er að tala saman, þar sem skoðanir eru mjög skiptar, þá fer það auðvitað þannig, að það ná ekki allir sínu, og gildi samkomulags er einmitt fólgið í því, að það er leitazt við að samræma ólík sjónarmið, og þess vegna hefur samkomulag gildi, að þetta tekst. Það er algjörlega rangt af hv. 4. þm. Norðurl. v. að segja, að leikarar séu óánægðir með niðurstöður málsins eins og kemur fram í frv. Og hv. þm. sagði, að listamennirnir yrðu dauðfegnir, ef brtt. hans og hans félaga yrðu samþykktar. Þeir yrðu dauðfegnir. Ég undrast stórlega, að hv. þm. skuli bera þetta á borð, þegar það liggur fyrir, að einmitt með hans till. er verið að afnema framkvæmdaráðið, eins og gert er ráð fyrir því í frv., þar sem listamennirnir koma til með að hafa tökin og þar sem þýðingarmest er að hafa tökin. Það var svo að skilja á honum, að þetta væru upplýsingar. sem menntmn. hefði fengið í málinu. Það er ekki rétt. Ég sé ástæðu til þess að upplýsa hv. d. um það, sem n. hefur verið upplýst um um afstöðu listamannanna. Þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fyrst víkja að umsögn Leikarafélags Þjóðleikhússins. Það er stutt bréf og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þökkum hv. Alþingi fyrir tilsent frv. til l. um Þjóðleikhús til umsagnar. Frv. þetta virðist mjög vandlega unnið og undirbúið, og þar sem leikarar úr Leikarafélagi Þjóðleikhússins sátu í þeirri sérstöku nefnd á vegum Félags ísl. leikara, sem skýrði sjónarmið leikaranna, sjáum við ekki ástæðu til annars en að óska frv. góðs gengis.“

Ég vík að umsögn Bandalags ísl. listamanna. Þar segir m. a. í bréfinu:

„Stjórnin vill taka fram, að hún fagnar frv. og mælir með samþykkt þess. Tekið skal fram, að við óskum þeirra breytinga við 14. gr., 1. mgr., að þar sé fram tekið, að þjóðleikhússtjóri semji starfs- og fjárhagsáætlun leikhússins með aðstoð fjármálafulltrúa og allra þeirra ráðunauta, sem tilgreindir eru í 13. gr. Þannig breytt væri 1. mgr. svo hljóðandi: Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi Þjóðleikhússins og hefur forustu um að móta listmæna stefnu þess. Þjóðleikhússtjóri semur starfs- og fjárhagsáætlun leikhússins með aðstoð fulltrúa, bókmennta- og leiklistarráðunautar, tónlistarráðunautar og listdansstjóra (ballettmeistara) og leggur hana fyrir framkvæmdaráð. Um rökstuðning fyrir þessari breytingu vísast til aths. við 14. gr. í grg. frv. Að endingu viljum vér beina þeirri áskorun til hv. Alþingis, að það samþykki frv. þannig breytt.“

Þetta er eina breytingin og það varðar ekki það mál, sem við erum að ræða um.

Þá er það umsögn Félags ísl. leikara. Hvað skyldu þeir nú segja um óánægju sína? (Gripið fram í.) Já, það er velkomið. Það er greinilegt, að hv. þm. hefur ekki lesið þetta bréf, enda get ég ekki skilið fullyrðingar hans hér áður á annan veg. Með leyfi hæstv. forseta skal ég lesa þetta bréf. Það er stutt:

„Stjórn Félags ísl. leikara þakkar heiðrað bréf yðar, dags. 2. febrúar s. l. Enn fremur þakkar Félag ísl. leikara menntmn. Ed. þá vinsemd að fá tækifæri til þess að fylgjast með þessu máli, sem fullyrða má, að hefur verið eitt af aðalbaráttumálum félagsins um margra ára skeið. Seint á árinu 1969 var kjörin sex manna nefnd á félagsfundi FÍL til þess að vinna að endurskoðun og gera tillögur um breytingar á lögum um Þjóðleikhús. Einnig var nefndinni falið að ræða við menntmrh. og eindregið mælzt til þess, að nýtt frv. til l. um Þjóðleikhús yrði samið og lagt fyrir hæstv: Alþingi. Nefnd FÍL lagði mikla vinnu í undirbúning þessa máls og hélt samtals 24 fundi, þar sem málin voru rædd og gerðar voru margar tillögur um breytingar á gömlu lögunum. Enn fremur var margoft rætt við menntmrh. um málið. Á árinu 1970 skipaði þáverandi menntmrh. þriggja manna nefnd til að semja nýtt frv. til l. um Þjóðleikhús. Stjórn FÍL telur, að nefnd þessi hafi unnið starf sitt af mikilli nákvæmni og lagt mikla vinnu í að safna heimildum og öðrum gögnum, til þess að þjóðleikhúsfrv. yrði í heild sem bezt úr garði gert. Þriggja manna nefndin hafði marga fundi með fulltrúum leikara, og margar af tillögum leikara eru felldar inn í frv., t. d. 10. gr., um ráðningu þjóðleikhússtjóra, en hún er í fullu samræmi við það, sem nú tíðkast hjá leikhúsum í nærliggjandi löndum. Það skal að vísu játað, að leikarar voru ekki samþykkir öllum greinum frv., t. d. 5. gr., um skipan þjóðleikhúsráðs. Stjórn FÍL telur, að í öllum aðalatriðum sé frv. þetta mjög vel unnið og flestar breytingar frá gömlu lögunum séu til mikilla bóta. Það eru því eindregin tilmæli Félags ísl. leikara, að frv. þetta verði á þessu þingi samþykkt sem lög frá Alþingi. Rétt er að benda á það, að í byrjun næsta árs mun núverandi þjóðleikhússtjóri láta af embætti fyrir aldurs sakir. Mikil nauðsyn er á því, að nýr maður í hið virðulega embætti verði ráðinn í samræmi við ný og endurbætt lög um Þjóðleikhús.“

Ég hef lokið upplestri þessa bréfs. Það er ein setning, sem ég vil koma að. Í bréfinu stendur: „Það skal að vísu játað, að leikarar voru ekki samþykkir öllum greinum frv., t. d. 5. gr., um skipan þjóðleikhúsráðs.“ Það, sem hér er um að ræða, er það, eins og ég gat um áðan, að leikararnir töldu ekki rétt, að þingflokkarnir tilhefndu menn í þjóðleikhúsráðið. Um það var ágreiningurinn. Samkv. frv. á þessi aðili, sem gefur þessa umsögn, að fá þrjá menn í þjóðleikhúsráðið, en samkv. brtt., sem er hér til umr., þá á þessi aðili að fá tvo og geta menn þá dæmt um,. hvort í þessu felast meðmæli með brtt.

Ég verð að lýsa undrun minni og ég átel það, að hv. frsm. þessarar n. skuli hafa gefið hv. d. villandi upplýsingar um svo þýðingarmikið mál. Mér kemur ekki til hugar að ætla, að hann hafi gert þetta vísvitandi. En mér þykir þetta benda til þess, sem ég hafði nokkurn grun um áður, að hann hafi ekki kynnt sér þessi mál nægilega mikið og þess vegna séu líka till. þær, sem hann ber hér fram og mælir fyrir, svo vanhugsaðar sem raun ber vitni um.

Það voru nokkur fleiri atriði, sem ég skal víkja að, í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. Hann hélt, að ef frv. væri samþ., þá mundi það vera stórkostlegur hnekkir fyrir virðingu þingflokkanna og Alþ., að þingflokkarnir ættu að tilnefna menn í þjóðleikhúsráð. Það var lítið um rök fyrir þessari fullyrðingu. En það mætti kannske minna á það, að frá því að Þjóðleikhúsið var stofnað hafa gilt þau lög og gilda enn í dag, að þingflokkarnir tilnefna mann í þjóðleikhúsráð, fjóra af fimm. Og er það þá að skerða virðingu þingflokkanna, ef sú eina breyting, sem felst í þessu frv., að þessu leyti, er fólgin í því, að það er komið við meira lýðræði í þessu efni en áður var? Samkv. núgildandi lögum tilnefna flokkarnir einn fulltrúa hver flokkur, hvort sem hann er stór eða lítill. Nei, ég held, að það sé litíð mark takandi á fullyrðingum sem þessum.

Hv. 6. þm. Reykv. hefur tekið af mér ómakið að svara ýmsum öðrum atriðum varðandi þetta mál, og ég skal ekki lengja umr. með því að fara að endurtaka það, sem þessi ágæti þm. sagði varðandi æðstu stjórn Þjóðleikhússins.

Ég vík þá aftur að brtt. minni og hv. 6. þm. Reykv. varðandi aðstoð til að efla leikritagerð í landinu: Hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, að ég sæi ekkert nema „bolsévisma“ í þessu. Ég tók nú einmitt fram, að ég teldi það ekkert aðalatriði í þessu efni. Tók ég það beint fram, þótt það mætti kannske finna einhvern vísi þess með sömu fundvísi eins og hann hafði viðhaft um annað atriði í ræðu sinni hér áðan. Það fór enginn hrollur um mig út af þessu máli í sambandi við þetta, og ef út í það er farið, þá er maður ýmsu vanur í þessu efni. Og ég vil alls ekki gera mikið úr þessu atriði. Það sem er aðalatriðið, eins og ég raunar sagði áður, er að finna þá leið, sem er raunhæfust til þess að efla leikritagerð í landinu. Ég hef fært rök að því, hvers vegna við hv. 6. þm. Reykv. berum fram okkar till. En hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, að það væri ákaflega eðlilegt að ráða rithöfund til þess að skrifa leikrit með þeim hætti, sem brtt. hans gerir ráð fyrir, vegna þess að það sé oft svo, að listamenn séu fengnir til þess að vinna ákveðin verk, og það séu starfsstyrkir og hvað eina. Hér er hv. þm. að rugla saman tvennu ólíku, þó að segja megi, að það sé skylt. Það er allt annað að ráða þekktan, viðurkenndan höfund, einhvern af fremstu leikritahöfundum þjóðarinnar, til þess að semja leikrit eða ráða tiltölulega óþekkta menn. En það þarf ekki aðstoð við þá, sem fremst standa í leikritagerð. Það þarf einmitt aðstoð við hina, sem eru að ryðja sér braut. Í þessu liggur munurinn, Þá sagði hv. þm., að það væri ákaflega óeðlilegt og óhæfa að taka það fram í löggjöfinni, að á vegum Þjóðleikhússins skuli flutt a. m. k. þrjú ný íslenzk leikrit á hverju ári. Nei, því gat hann ekki verið með. En hann getur verið með því og hann getur mælt með því, að það sé ákveðið í löggjöfinni, að flutt skuli í Þjóðleikhúsinu ópera, barnaleikrit o. s. frv., eins og tekið er fram í 3. gr. Hér er enn ósamræmi í málflutningi hv. þm. Og mig furðar ekki á því, því að ég held, að það hafi komið fram í þessum umr., að því miður hefur hv. 4. þm. Norðurl. v. ekki kynnt sér þessi mál sem skyldi, og till. hans um breytingar bera þess líka augljós merki.