26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

98. mál, Þjóðleikhús

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég ætla að leggja hér inn í þessar umr. Ég ætla nú ekki að hætta mér mikið út í það að deila um það, sem hér hefur mest verið til umr., þ. e. um þjóðleikhúsráðið sjálft, þó að ég verði að játa það, að í upphafi, þegar ég sá þetta frv., sá þetta fjölmenna þjóðleikhúsráð, þá datt mér það nú þegar í hug, að þetta væri frekar til skrauts heldur en að það ætti raunverulega að starfa mikið. Og það má vel vera, að meira að segja það þjóðleikhúsráð, sem meiningin er, að starfi samkv. brtt. meiri hl. menntmn., sé einnig of fjölmennt til þess, að það verði reglulega virkt, eins og það þyrfti að vera. Ég sem sagt get fyllilega tekið undir þær brtt., sem hafa komið fram hjá meiri hl. n. um þetta atriði.

Ég vildi aðeins vekja athygli hér á tvennu, sem ég hafði þegar gert við 1. umr. málsins, og ég vildi reyndar þakka n. fyrir það að hafa tekið inn í sínar brtt., sem öll n. stendur að, þá breytingu, sem lýtur að 18. gr., þar sem öll ákvæði um leikmunasafnið eru gerð ákveðnari og Þjóðleikhúsinu er gert það að skyldu að koma þessu leikmunasafni á, en síðan er öðrum aðilum gefinn kostur á því að eignast aðild að safninu.

Þá er annað atriði, sem ég minntist á hér við 1. umr., sem er vafalaust ekki von, að hafi verið hægt fyllilega að taka til athugunar, enda benti ég þá þegar á það, að um það væru allskýr ákvæði. Það er í sambandi við það, hvað Þjóðleikhúsið getur gert fyrir hina almennu leikstarfsemi í landinu, hvað Þjóðleikhúsið getur gert til þess að efla hana og glæða, hvað það getur gert til þess að gefa mönnum kost á að kynnast sinni starfsemi og læra af henni. Hér er að vísu í 19. gr. afskaplega fallegt mál um það. Það, sem ég dreg aðeins í efa er það, að þetta fallega mál, sem þar stendur, komist nokkurn tíma til framkvæmda. Við skulum vona, að svo verði. Hins vegar hefði ég talið, að sú ábending, sem var vísað til menntmn. og ég vissi, að var vísað til hennar frá Bandalagi ísl. leikfélaga, um einhvers konar samstarfsnefnd á vegum hinna ýmsu aðila, sem við leikhúsmál eða leiklistar mál fást, yrði til þess, að slík samstarfsnefnd yrði sett á laggirnar. Það hefur n. ekki séð sér fært að taka upp, og skal ég út af fyrir sig ekki sakast við hana varðandi það. En rétt er að benda á, að slíkar samstarfsnefndir munu vera til á Norðurlöndum og hafa gefið þar mjög góða raun, t. d. í Svíþjóð, og alveg sér staklega hefur það gefið góða raun, veit ég fyrir starfsemi áhugaleikfélaganna þar í landi, sem er mjög öflug og til fyrirmyndar. Þetta var nú á þá leið, að það var óskað eftir því, ég átti þar lítillega hlut að, — að Þjóðleikhúsið tæki á einhvern hátt þátt í samstarfsnefndum um leikhúsmálefni, þar sem Þjóðleikhúsið. tilnefndi einn fulltrúa, Leikfélag Reykjavíkur tilnefndi annan og Bandalag ísl. leikfélaga einn, Félag ísl. leikara einn og svo aftur tilnefndi menntmrn. einn fulltrúa. Ég hygg, að það hefði vel g'tað verið, — þó að ég ætli ekki að fara að flytja um það neina sérstaka brtt., þá vildi ég aðeins vekja athygli á því, — að slík samstarfsnefnd hefði getað komið 19. gr. á einhvern hátt betur í framkvæmd en ég óttast, að hún verði. Ég skal ekki vera með neinar getsakir í garð þess, þjóðleikhúsráðsins, hvernig skipað verður eftir hinum nýju lögum, en hitt veit ég, að ef þessi grein um það að hafa samstarf við leikfélög áhugamanna, láta þeim í té leikstjóra til leiðbeiningar, gera leikfélögum áhugamanna kleift að fylgjast með starfi Þjóðleikhússins og annað eftir því, ef hún á að verða meira heldur en bara bókstafur í lögum, þá þarf þjóðleikhúsráðið og þjóðleikhússtjóri að vinna að þessu, og ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að ég mun áreiðanlega gera mitt til' þess að fylgjast með því, að þessi grein verði dálítið virt.