26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (3227)

98. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur í þessum umr. lýst eftir afstöðu minni til þess máls, sem hér liggur fyrir, og þá fyrst og fremst aðaldeiluatriðisins við þessa 2. umr. í hv. deild, sem sé um stjórnun Þjóðleikhússins. Ég vil þá fyrst taka það fram, að í mínum augum, og ég held einnig listamannanna, sem svo mjög hefur verið tíðrætt um hér, er ekki aðalatriðið í þeim breytingum á stjórn Þjóðleikhússins, sem ráðgerðar eru í frv., hvort þar skal starfa 16 manna þjóðleikhúsráð og fimm manna framkvæmdaráð með mismunandi fundartíðni eða 11 manna þjóðleikhúsráð, eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 604. Aðalatriðið er að breyta því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur frá upphafi Þjóðleikhússins, að þjóðleikhúsráð sé skipað til ótakmarkaðs tíma og þjóðleikhússtjóri sé ráðinn ævilangt. Það eru þessi fyrir komulagsatriði, sem listamennirnir og margir aðrir telja, að ekki eigi að halda lengur, að við slíka stofnun sé óeðlilegt, að stjórnarnefndin sé skipuð til ótakmarkaðs tíma, svo að svo geti farið, að þeir, sem þar eru einu sinni komnir inn, sitji lon og don meðan starfsgeta endist. Og einnig þyki varhugavert, að yfirmaður slíkrar listastofnunar sé ráðinn, máske á ungum aldri, til þess að veita henni forstöðu starfsævina út, ef svo vill verkast. Og það vekur reyndar furðu mína, að þetta skuli nokkurn tíma hafa verið gert, því að slíkt er þvert á móti öllum starfsreglum, sem ég þekki um slíkar stofnanir í öðrum löndum. En hins vegar höfðum við auðvitað ekki mikla reynslu af þjóðleikhúsrekstri, áður en okkar Þjóðleikhús kom til starfa. Þá tókst svo óheppilega til, að upp var tekið fyrirkomulag, sem er mjög varhugavert við slíka listastofnun. Það, sem er meginatriði og meginnýmæli þessa máls frá mínu sjónarmiði, er, að hér er ákveðið að brjóta í blað, að stjórnarnefnd stofnunarinnar og forstöðumaður skuli ráðnir til takmarkaðs tíma, en ekki ótakmarkaðs.

Hvað varðar stjórnunartillögurnar tvær, sem fyrir liggja, annars vegar í frv. um 16 manna þjóðleikhúsráð og fimm manna framkvæmdaráð, hins vegar í brtt. um 11 manna þjóðleikhúsráð með meiri fundatíðni en gert er ráð fyrir í frv., þá hefur frá mínu sjónarmiði hvort tveggja fyrir komulagið sína agnúa. 16 manna þjóðleikhúsráð og fimm manna framkvæmdaráð er að mínu áliti of margbrotið fyrirkomulag. En hins vegar 11 manna þjóðleikhúsráð, það fer eftir mannavali í þetta ráð, hversu virkt og starfhæft það reynist. Hvort tveggja getur haft ókosti að mínu áliti, en af þessu tvennu mun ég þó heldur kjósa það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 604, m. a. vegna þess að meginatriðið frá mínu sjónarmiði er ekki fjöldinn í stjórnunar stofnuninni, heldur það, að stjórnunarstofnunin sé endurnýjanleg með eðlilegum hætti, hún geti ekki setið óbreytt von úr viti, eftir að hún er einu sinni komin á.

En úr því að ég kom í ræðustól, langar mig aðeins að víkja einnig að því, sem sagt hefur verið um aðrar brtt., annars vegar brtt. í tölul. 6 á þskj. 604, hins vegar brtt. á þskj. 625. Markmiðið með þessum brtt. báðum er lofsvert og æskilegt að ýta undir leikritun íslenzkra leikritahöfunda, en ég tel, að það væri mjög varhugavert að lögfesta, eins og gert væri með samþykkt brtt. á þskj. 625, að hvað sem tautar og raular skuli a. m. k. þrjú ný íslenzk leikrit frumflutt á leikári. Það gætum við ekki séð fyrir, þó að margir skrifi hér leikrit, að á hverju ári, sem líður, berist fortakslaust a. m. k. þrjú ný, íslenzk, sýningarhæf leikrit.