05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. skýrði frá því, hvernig hv. deild afgreiddi þetta mál eftir 2. .umr. Þá var samþ. brtt. frá honum o. fl. um skipun þjóðleikhúsráðs. Hann sagði, að með því að þessi till. hefði verið samþ., þá yrði ekki komizt hjá því að lagfæra frv. nú, ef brtt. hans og félaga hans á þskj. 680 væru ekki samþykktar. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þetta á við með 1. tölul. brtt. á þskj. 680. Það er eðlilegt að samþykkja þann lið brtt. með tilliti til þeirra breytinga, sem gerðar voru og samþykktar við frv. við 2. umr. Að öðru leyti á þessi aths. hv. þm. ekki við, og þó að aðrar till. á þskj. 680 væru felldar, þá þarf ekki að gera sérstakar lagfæringar á frv. eins og hv. þm. sagði.

Hv. þm. sagði, að þeir hefðu dregið til baka till. við síðustu umr. um það að fella niður framkvæmdaráðið, vegna þess að þjóðleikhúsráði væri ætlað meira hlutverk eða koma oftar til fundar en áður, eftir þá breytingu, sem gerð var við síðustu umr. En í till. þeirra félaga nú á þskj. 680 er að forminu til lagt til, að framkvæmdaráðið verði lagt niður. Það er einungis að forminu til. Að vísu sagði hv. þm., að þeir gerðu ráð fyrir nefnd, en henni væri ætlað minna verkefni en framkvæmdaráðinu, og væri þessi nefnd kölluð starfsnefnd. Þetta er heldur ekki rétt. Starfsnefndinni er ekkert ætlað minna verkefni heldur en framkvæmdaráðinu. Ef töluð er hrein íslenzka í þessu efni, þá er það það, sem hefur gerzt, að flm. drógu til baka till. um að leggja niður framkvæmdaráðið af því að þeir hafa komizt að því, að þetta var ekki rétt stefna hjá þeim. Og það er lofsvert. En þetta áttu þeir að viðurkenna alveg hreinlega og ekki þykjast vera að koma núna með brtt., sem felur ekki í sér efnislega breytingu frá frv. eins og það liggur fyrir um þetta efni, heldur kallar einungis framkvæmdaráðið starfsnefnd. Hér er engin önnur breyting en sú, að það er breyting á þessu nafni. Það er engin minnkun fyrir neina að skipta um skoðun, ef þeir við nánari athugun komast að þeirri niðurstöðu, að það, sem þeir héldu fram eða vildu gera áður, sé ekki rétt. Hv. þm. þurfa ekkert að fyrirverða sig fyrir þetta. Þess vegna er algerlega óþarfi hjá þeim að breyta um nafnið á framkvæmdaráðinu og vilja kalla það starfsnefnd. Og þeim er svo brátt í þessu efni, að þetta heiti, starfsnefnd, kæmi eins og skollinn úr sauðarleggnum inn í þessa löggjöf, því að till. hefst á því, að í starfsnefnd leikhússins eigi sæti þjóðleikhússtjóri, fjármálafulltrúi leikhússins, sá fulltrúi Félags ísl. leikara í þjóðleikhúsráði, sem félagið ákveður, o. s. frv. Þetta er nákvæmlega sama skipun og er á framkvæmdaráði samkv. frv. En það var vandaðri undirbúningur að frv. sjálfu, og í frv. sjálfu er áður talað um það, að við Þjóðleikhúsið skuli starfa fimm manna framkvæmdaráð, áður en farið er að tala um skipun þess.

Ég vil algerlega vara við slíkum vinnubrögðum sem þessum, að menn eins og flm. brtt. á 680, sem eru búnir að sjá, að það er rétt stefna, sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, og eru búnir að viðurkenna það í verki með tillöguflutningi sínum, skuli ætla að breiða yfir það með einungis þessari nafnbreytingu á framkvæmdaráðinu. Um þá nafnbreytingu svo að öðru leyti er það að segja, að starfsnefnd þykir mér nú heldur lágkúrulegt nafn og í raun og veru ekki segja neitt og miklu eðlilegra væri að kalla þessa nefnd framkvæmdaráð, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil því mega vænta þess, að hv. þdm. fylgi þeirri stefnu, sem frv. í upphafi gerir ráð fyrir, að hafa framkvæmdaráð við Þjóðleikhúsið og felli þessa sýndartillögu í 4. tölul. á þskj. 680. Það er eina verðuga svarið við þessum vinnuaðferðum að fella þessa tillögu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega um aðra tölul. eða aðrar brtt. á þskj. 680. Ein till. er um það, að heimilt sé að ráða höfund til að semja leikrit eða tónlistarverk til flutnings á sviði. Við ræddum þetta mál við 2. umr. Ég lýsti mig andvígan þeirri till. við 2. umr. að ráða sérstakan rithöfund til þess að semja leikrit. Ásamt hv. 6. þm. Reykv. lagði ég fram till., sem við töldum, að kæmi að meiri notum og væri raunhæfari stuðningur við leikritagerð í landinu en sú till., sem samþykkt var.

6. og 7. tölul. á þskj. 680 eru einungis um það, að í staðinn fyrir orðið framkvæmdaráð komi starfsnefnd leikhússins, og ég vonast til þess, að það þurfi ekki að samþykkja þær breytingar, vegna þess að það verði þegar búið að fella brtt. í tölul. 4 á þskj. 680.