05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

98. mál, Þjóðleikhús

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég átti nú reyndar dálítið erfitt með að fylgjast með rökstuðningi síðasta hv. þm. og sýndist mér raunar, að hann gerði sér ekki grein fyrir þeim breytingum, sem hafa orðið á frv. og eru tengdar þeim brtt. sem við flytjum þrír á þskj. 680.

Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir 16 manna þjóðleikhúsráði, eins og hér hefur verið rakið, sem átti að koma saman tvisvar á ári, og er þá ljóst, að þar þurfti vitanlega mjög virka nefnd eða ráð til að stjórna raunverulega málum Þjóðleikhússins. Þetta stóra þjóðleikhúsráð var fyrst og fremst til málamynda. Það var rætt hér síðast og ætla ég ekki að fara út í það.

Nú er búið að breyta þessu þannig, að það er orðið virkt þjóðleikhúsráð, sem á að koma saman einu sinni í mánuði. Ég var því mjög fylgjandi að fækka í þjóðleikhúsráði. Ég taldi hitt óskapnað og ég hefði viljað fækka meira heldur en niður í 11. Ég hefði gjarnan viljað fara niður í níu, en um það náðist ekki samkomulag. Það er mín reynsla, að slík nefnd er betri eftir því sem í henni eru færri. Ég sá ekki, að með þjóðleikhúsráði, sem kæmi saman mánaðarlega, þyrfti að vera neitt framkvæmdaráð. Hins vegar komu fram mjög ákveðnar ábendingar og áskoranir frá starfsmönnum og fleirum, sem við þetta eru tengdir, að það væri einhver hópur, sem hitti þjóðleikhússtjóra oftar í sambandi við daglegan rekstur Þjóðleikhússins. Á þetta féllumst við flm. þeirrar brtt., sem liggur hár fyrir.

Með samanburði á starfsnefnd, sem við köllum svo, og framkvæmdaráði má öllum vera ljóst, að þar er um allt annað viðfangsefni að ræða. Framkvæmdaráð, eins og ég sagði áðan, hlýtur raunar að stjórna málum Þjóðleikhússins. Þjóðleikhúsráð kemur ekki saman oftar en tvisvar á ári, nema það sé sérstaklega til kvatt. Það er fjallað um þetta í 9. gr. upphaflega frv. Þar segir: „Framkvæmdaráð fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun leikhússins og samþykkir hana með þeim breytingum, er það kann að gera, áður en hún er lögð fyrir þjóðleikhúsráð“ o. s. frv. En starfsnefndin, sem við ræðum um, þótt í henni eigi sæti sömu aðilar, hefur miklu minna og takmarkaðra starfssvið. Þetta er því allt annað, og ég vil andmæla því hér, að það sé verið að breiða yfir eitt eða neitt, breiða yfir nein mistök, eða við höfum breytt um nokkra skoðun. Við erum aðeins að ganga til móts við starfsmenn, sem á okkar fund hafa gengið og talið nauðsynlegt, eins og ég sagði áðan, að þeir hefðu einhvern vettvang til tíðari funda með þjóðleikhússtjóra og fjármálaráðunaut Þjóðleikhússins.