05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (3237)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa mikilli undrun minni á ræðum tveggja síðustu hv. þm., sem hér töluðu. Hv. 1. þm. Vestf. byrjaði með því að segja, að hann ætti erfitt að fylgjast með rökstuðningi mínum, og hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, að það hefði ekki verið ástæða fyrir mig að nefna þau átöluorð, sem ég nefndi hér áðan í tilefni af því, að flm. brtt. á þskj. 680 væru að veigra sér við að viðurkenna sannleikann í þessu máli.

En hver eru rök þessara manna? Það kom skýrt fram í því, sem þeir sögðu. Þeir sögðu, að það væri skipt um nafn á framkvæmdaráðinu í þeirri brtt., vegna þess að starfsnefndin í þeirri brtt. hefði annað verkefni en framkvæmdaráðið, eins og frv. sjálft gerir ráð fyrir. Það yrðu miklu minni verkefni, sem starfsnefndin hefur, sögðu þeir, og þess vegna þurfti ekki eins virka nefnd eins og framkvæmdaráðið. Það er allt annað viðkomandi framkvæmdaráðinu heldur en starfsnefndinni. Starfsnefndin hefur miklu minna og miklu takmarkaðra verksvið. Allt þetta sögðu þeir og eitthvað fleira. En það er glöggt, hvað þeir meina. Þeir skipta um nafn, af því að verkefnið er ekki það sama, miklu minna. Ég er ekki að átelja hv. þm. fyrir það að hafa ákveðna skoðun í þessu máli. En ég átel þessa hv. þm. fyrir að gera ítrekaðar tilraunir til þess að fara með rangt mál, þegar þeir mæla fyrir þessari till. sinni.

Það er ekki rétt, sem þeir segja, að það sé dregið úr verkefnum framkvæmdaráðsins. Heyrðuð þið, í hverju það var fólgið? Tókuð þið eftir, hvað þessir hv. þm. bentu á í þessu sambandi? Ég heyrði það ekki. Ég veit, að þið heyrðuð það ekki heldur. Þeir nefndu ekki eitt einasta dæmi þess.

En nú skulum við athuga þetta og bera þetta nákvæmlega saman, hvað hér er um að ræða. Það vill svo vel til að við höfum þetta á prenti hér fyrir framan okkur, og okkur er ekki vor kunn að lesa þetta yfir. Í 9. gr. frv., þar sem getið er um verkefni framkvæmdaráðsins, er tekið fram: „Framkvæmdaráðið sér um, að staðfestri áætlun sé framfylgt, og fjallar auk þess um þau mál, er leikhúsið varða og upp eru borin á fundum þess.“ Þetta segir í frv.

Í brtt. þeirra félaga segir: „Starfsnefndin sér um, að staðfestri áætlun og öðrum ákvörðunum þjóðleikhúsráðs sé framfylgt, og fjallar um sér hver þau mál, er leikhúsið varða og upp eru borin á fundum þess.“ Hér er markað aðalverkefni framkvæmdaráðsins. Það er með nákvæmlega sömu orðum í frv. og í brtt.

Víkjum svo að hinu aðalatriðinu, sem varðar verkefni framkvæmdaráðsins. Þar segir í frv.: „Ef þjóðleikhússtjóri vill ekki sætta sig við ákvörðun meiri hluta framkvæmdaráðs, getur hann borið málið undir úrlausn þjóðleikhúsráðs.“ Þetta segir í frv. Hvað segir í brtt.? „Ef þjóðleikhússtjóri vill ekki sætta sig við ákvörðun meiri hluta starfsnefndar, getur hann krafizt þess, að þjóðleikhúsráð sé boðað til fundar með sólar hrings fyrirvara, og hefur það úrslitavald um sérhvert deiluefni, sem upp kann að koma.“ Nákvæmlega það sama.

Hvað er þá eftir? Um hvaða efni er það, sem er mismunur á frv. og brtt. þeirra félaga. Jú, það segir í brtt. þeirra félaga: „Fundir þjóðleikhúsráðs skulu undirbúnir í starfsnefndinni.“ Um þetta segir ekkert í frv. varðandi verkefni framkvæmdaráðsins. En ef það á að leggja eitthvað upp úr þessum mismun, þá þýðir það það, að það er lagt meira verkefni á starfsnefndina samkv. brtt. heldur en framkvæmdaráðið samkv. frv.

Er það nokkur furða, þótt lýst sé undrun yfir slíkum málflutningi, sem hv. 1. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. v. gera sig bera að hér við þessar umr. Þeir gera sig bera að því að segja rangt til um efni og tilgang sinnar till. Auðvitað er þess að vænta, að hv. þdm. fari ekki að hlaupa til þess að samþykkja þennan lið brtt. þeirra. Ég vil naumast trúa því, að flokksbönd eða stjórnarsamvinna þurfi að heimta það af nokkrum hv. þm. hér í hv. deild, að hlaupa til þess að greiða atkv. með slíkri brtt., sem er þannig til komin, eins og ég hef lýst, sem er að efni, eins og ég hef lýst, og eftir slíkan málflutning, sem þessir tveir hv. þm. hafa gert sig bera að í þessu máli.