05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3241)

98. mál, Þjóðleikhús

Magnús Jónsson:

Herra forseti Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram milli þeirra hv. ræðumanna, sem hér hafa talað um starfsnefnd eða þjóðleikhúsráð. Ég skal játa, að maður má hafa sig allan við að átta sig á því, hvað um er að ræða. En það var eitt atriði, sem ég hef í rauninni lengi haft hug á að spyrjast fyrir um hjá hv. n., og þá væntanlega formanni hennar, til skýringar, af því að ég álít, að það sé mjög nauðsynlegt, að það liggi fyrir hvað átt er við með þeirri breytingu. Ég skal játa, að það er þegar búið að samþykkja þá breytingu, en það skiptir ekki öllu máli, það er jafnmikilvægt, að það liggi fyrir frá þeim, sem till. fluttu, hvað breytingin felur í sér. Þetta er sú breyting, sem gerð var við 6. gr. frv. Ég man að vísu ekki, hvort þetta var í frv. sjálfu, — þetta kann nú að hafa verið í því, þannig að það sé rangt með farið hjá mér, — en ég veit, að hv. formaður nefndarinnar getur þá eins upplýst mig um það, hvað hefði verið ætlunin hjá þeim, sem frv. sömdu. Það er þessi setning: „Staðfest áætlun skal lögð til grundvallar við fjárveitingar til leikhússins.“

Fljótt á litið sýnist mér, að með þessu orðalagi sé verið að fela þjóðleikhúsráði eða yfir stjórn Þjóðleikhússins, fjárveitingavald, og ég — það er að sjálfsögðu ekki mitt mál, eins og sakir standa nú um fjárstjórn ríkisins, hvort fjmrh. vill veita þessari stofnun þetta vald, ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh., af því hann er nú staddur hér í deild, hefur veitt þessu athygli, en ég efast um, að hann sé mjög hrifinn af því, ef þetta fæli það í sér, að hann væri bundinn við þá áætlun, sem þjóðleikhúsráð gerir um útgjöld Þjóðleikhússins. Ég segi fyrir mitt leyti; hefði ég setið í þessum stól, hefði ég ekki viljað vera bundinn við þá áætlun. (Fjmrh.: Það er enginn fjmrh. bundinn við slíka áætlun.) Það er þá bezt, að það sé ekki ákveðið í lögum. Það er gott, að fjmrh. segir þetta, en orðalag setningarinnar er: „Staðfest áætlun skal lögð til grundvallar við fjárveitingar til leikhússins.“ Við þekkjum það, að í mörgum sérlögum eru bein ákvæði með þessum hætti og þar er það ákveðið, að eitthvað skul lagt til grundvallar. Þetta er ekki haft til hliðsjónar, það á að leggja til grundvallar. Það væri allt annað mál, ef hér stæði, að þessi áætlun skyldi gerð og hún skyldi höfð til hliðsjónar við ákvörðun fjárveitingar, en hér er beinlínis talað um, að hún skuli lögð til grundvallar.

Ég heyri nú af því, sem hæstv. fjmrh. hefur hér skotið fram, að hann mundi ekki vera ýkja hrifinn af því, ef með þessu væri verið að binda hendur hans með fjárveitingar til Þjóðleikhússins, en þetta þykist ég vita, að hv. formaður geti upplýst, þannig að það standi þá bókað hér í umr. þingsins, hvaða skilning beri að leggja í þessa setningu.