23.02.1972
Efri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (3255)

181. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á lögum nr. 88 16. sept. 1971, um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Sú brtt., sem hér liggur fyrir í þessu frv., felur ekki í sér ýkjamikla breytingu á þeim lögum, sem hér er um að ræða, en þetta er þó tvímælalaust breyting. sem skiptir miklu máli fyrir þann hóp, sem hún varðar, sjómenn á opnum vélbátum.

Í núgildandi lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, nánar tiltekið í 17. gr., er kveðið á um greiðslur til útvegsmanna vegna hluta af fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum, og þessi ákvæði eru í allmörgum liðum. Upphaflega eru þessi ákvæði komin inn í tengslum við samninga milli sjómanna og útvegsmanna, að ég hygg. Þar segir, að á fiskilátum, sem eru 151 brúttórúmlest á stærð eða stærri skuli greiða 120 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann. Fyrir báta, sem eru inni en þarna greinir, skal greiða 100 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann. Þegar um er að ræða aftur á móti fiskibáta með þilfari, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, þá eru nú í lögum ákvæði, sem ekki voru upphaflega, um það að greiða skuli 85 kr. á úthaldsdag eigendum slíkra fiskibáta. Og á s. l. vetri var svo enn bætt því við, að greiða skyldi hluta af fæðiskostnaði vegna opinna vélbáta með 85 kr. á hvern róður. Eins og menn munu taka eftir, ef þeir bera þessar greinar saman, þá er í öllum tilvikum greiðsla fæðispeninga miðuð við úthaldsdag og áhafnarmann nema í þessu eina tilviki, þegar um er að ræða opna vélbáta, þá er miðað við hvern róður pr. áhafnarmann. Breytingin, sem hér er lagt til, að gerð verði, er sem sagt fólgin í þessu einu, að því verði breytt, að fæðiskostnaður sé miðaður á opnum vélbátum við hvern róður, og hann sé í þess stað miðaður við úthaldsdag.

Það er svo, að róður víða um land á slíkum bátum getur tekið lengri tíma heldur en aðeins einn einasta dag. Á Norðurlandi er algengt, að 5,10 tonna opnir vélbátar fari í langa róðra að sumrinu, þeir fari t. d. frá Siglufirði út að Grímsey og út að Flatey og víðar um norður slóðir, og þá getur hver róður gjarnan tekið tvo daga og þó jafnvel allt upp í 3–4 daga. En sjómennirnir fá þá einungis einn dag borgaðan vegna þessara þröngu ákvæða, eins og þau eru í lögunum í dag. Þessu þarf því að breyta, það þarf að breyta þessu eina orði, þannig að miðað sé við úthaldsdag, en ekki róður.

Ég vil láta þess getið, að haft hefur verið samráð við Fiskifélag Íslands og þá starfsmenn þess, sem mest fjalla um þetta atriði, og töldu þeir eðlilegt, að þessi breyting væri gerð. Hitt blasir auðvitað við hverjum manni, að breyting af þessu tagi má ekki verða til þess, að þessi heimild verði misnotuð og menn fái greidda fleiri fæðiskostnaðardaga en þeir eiga rétt til. En þetta verður þá að sjálfsögðu að tryggja með því eftirliti, sem Fiskifélag Íslands stendur fyrir í dag og á að gera. Það er nú svo, að eigendur báta eru nú til dags skyldir til þess að kaupa slysa- og ábyrgðartryggingu, ef þeir ætla sér að gera þessa kröfu um greiðslu fæðiskostnaðar, og það eitt minnkar ákaflega mikið líkurnar á því, að þetta ákvæði geti verið misnotað.

Eftir ábendingu starfsmanns Fiskifélags Íslands, sem með þessi mál hefur að gera, þá var þeirri setningu skotið hér inn, að menn ættu því aðeins rétt á þessum fæðiskostnaðarpeningum, að um aðalatvinnu manna væri að ræða, þannig að ekki gæti verið um það að ræða, að menn kannske væru bara í róðrum svo sem einu sinni til tvisvar í viku, en störfuðu við aðra atvinnu og gætu á þann hátt misnotað þessi ákvæði.

Ég tel ekki, að þessi till. þarfnist frekari skýringar eða grg. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.