12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (3278)

214. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar d. hefur fjallað um frv. það, sem hér er til umr., frv. um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga, og mælir með samþykkt þess með vissum breytingum, sem um getur á þskj. 746, í nál. Ég vil leyfa mér aðeins í örfáum dráttum að ræða tilgang og efni þessa frv.

Landshlutasamtök hafa víðast hvar verið stofnuð með margvíslegum verkefnum og nauðsynlegum. Markmið samtakanna er að efla félagslega samstöðu byggðarlaga og vinna að sameiginlegum félags- og framkvæmdalegum viðfangsefnum. Þegar þannig er komið, er auðsætt, að sú þjónusta er eigi sízt nauðsynleg, sem horfir að verkfræðilegum efnum og tæknimálum yfirleitt. Slík þjónusta hefur fram að þessu verið að mestu leyti veitt beint frá höfuðborginni og oft erfitt að fá slíka þjónustu og stundum ekki kleift. Til þess að koma þessum málum sem bezt fyrir heima í héruðunum verður ekki hjá því komizt að hafa tæknimenntaða menn búsetta þar. Mörg undanfarin ár hafa frv. verið flutt hér á hv. Alþ. um þessi efni, en þau ekki fengið afgreiðslu endanlega. Í þeim hefur verið gert ráð fyrir, að ríkisvaldið kæmi á fót slíkri starfsemi, sem hér ræðir um, en í frv. því, sem hér er rætt, er gert ráð fyrir því, að landshlutasamtökin hafi með að gera stofnun og starfrækslu verkfræðiþjónustunnar, en hljóti nokkra aðstoð af hálfu ríkisvaldsins. Þessi landshlutasamtök eru nýorðin allöflug og sjálfsagt vel hæf að sjá um þessa starfsemi. Hins vegar sýnist líklegt, a. m. k. í fljótu bragði, að þessi starfsemi beri sig ekki fyrsta kastið og jafnvel nokkuð fram eftir, það má vel vera. Þess vegna verður að telja það höfuðnauðsyn, að hið opinbera hlaupi undir bagga, ef til rekstrarhalla kemur á starfseminni, og ég held, að flestir okkar geti verið um það samdóma, að eðlileg aðstoð ríkisvaldsins eigi fyllilega rétt á sér til uppbyggingar slíkri þjónustu. Auk þess getur ríkisvaldið á eina eða aðra lund notið góðs af þessari starfsemi, þegar til kemur.

Ég vil aðeins víkja að frvgr. þeim, sem snerta höfuðtakmark málsins. Ef landshlutasamtök sveitarfélaga óska eftir að koma á fót verkfræðiþjónustu í landshlutanum, þá á ríkisvaldið að veita aðstoð við stofnsetningu og rekstur slíkrar starfsemi, enda sé viðunandi verkfræðiþjónusta alls ekki fáanleg í þeim landshluta, sem óskar þessa. Þetta er í 1. gr. frv og er að sjálfsögðu meginkjarninn.

Þá vil ég næst geta þess, með hverjum hætti aðstoð ríkisvaldsins á að berast til þessarar starfsemi, og þar segir um þetta í 5. gr.: Í fyrsta lagi þá greiðir ríkið 500 þús. kr. vegna stofnkostnaðar, í eitt skipti fyrir öll, til að koma á fót verkfræðiþjónustu. Í öðru lagi, segir í frv., ábyrgist ríkið greiðslu á 3/4 hlutum af hallarekstri verkfræðistofu, en þó aldrei meira en nemur 3/4 hlutum af launum og kostnaði við einn verkfræðing. Ég vil geta þess, að n. hefur gert brtt. við þessa grein, þennan hluta, sem ríkisvaldinu er ætlað að greiða af rekstrarhalla. Við höfum lagt til, að þessi hluti yrði minnkaður niður í helming. Okkur þótti það varlegra en hitt svona fyrsta kastið. Ef það kemur í ljós síðar, að þessar stofur verða mjög dýrar í rekstri og tekjur kannske af störfum þessara verkfræðinga eða tæknimenntuðu manna verða ekki svo ýkjamiklar, þá að sjálfsögðu yrði að íhuga það mál nánar. Okkur þótti rétt að ganga ekki lengra í þetta sinn.

Þá gerðum við aðra brtt. í n., og hún er við 4. gr. Í frvgr. segir: „Verði komið á fót verkfræðiþjónustu, eins og um ræðir í þessum lögum, getur hún tekið að sér áætlanagerð fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins,“ og svo segir áfram í frvgr.: „enda greiði stofnunin þá sem svarar 3/4 hlutum af árslaunum starfsmanns, sbr. lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, nr. 93 frá 24. des. 1971, 31. gr.“ Við viljum breyta seinni parti þessarar greinar á þessa lund: Á eftir orðunum „getur hún tekið að sér áætlanagerð fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins“ komi gegn hæfilegri greiðslu eftir samkomulagi aðila. Aðrar brtt. gerðum við ekki í n.

Yfirumsjón með þessum skrifstofum verkfræðiþjónustunnar hefur félmrn. Þegar landshlutasamtök sveitarfélaga hyggjast stofna til slíkrar starfsemi, þá verður fyrst alls leitað til félmrn., og þar verða samtökin að gera grein fyrir sinni fyrirætlan og láta rn. í té áætlun um stofn- og rekstrarkostnað. Síðan á árlega að senda rekstraráætlun til þessa rn. Þetta er þá í höfuðdráttum megininntak þessa frv.

Eins og ég sagði í upphafi, þá mælir n. einróma með samþykkt þess með þeim breytingum, sem ég hef nú lítillega að vikið.

Ég vil geta þess, að fjarstödd voru afgreiðslu þessa máls hv. þm. Auður Auðuns og Oddur Ólafsson.