12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

214. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka

Auður Auðuns:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram og reyndar kemur fram í nál. á þskj. 746, þá var ég ekki viðstödd fund heilbr.- og félmn., þegar frv. var afgr. úr nefnd. Ég ætla ekki að fara að ræða frv. efnislega, en vil aðeins víkja að því, að það var sent til umsagnar á sínum tíma Sambandi ísl. sveitarfélaga og Verkfræðingafélagi Íslands. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvenær það var, en það mun vera orðið alllangt umliðið síðan, og um það vil ég segja yfirleitt, að aðilar, sem fá mál til umsagnar, mega sjálfum sér um kenna, að ekki sé tekið tillit til þeirra skoðana, ef þeir senda ekki sínar umsagnir á þeim tíma, að viðunandi geti talizt fyrir þingnefndir, en Samband ísl. sveitarfélaga mun hafa bent á, að rétt væri að senda landshlutasamtökunum sjálfum þetta frv. til umsagnar. Umsögn Verkfræðingafélagsins var ekki komin, þegar málið var afgr. í n., og ég var nú satt að segja á eigin spýtur að grennslast eftir því, hvað henni liði. Mér skilst, að hún muni þá e. t. v. geta legið fyrir á morgun, er fundur verður í heilbr.- og félmn., og þá er tækifæri til að skoða þá umsögn milli umr., ef hún verður komin. Það er ekki ætlun mín á nokkurn hátt að tefja fyrir, að frv. fái eðlilegan gang og verði afgr. hér við 2. umr., en eins og ég sagði, þá mun e. t. v. liggja fyrir umsögn, sem maður mundi þá áskilja sér rétt til að hafa til hliðsjónar við afstöðu sína til málsins við 3. umr.