13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

214. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka

Auður Auðuns:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls sagði ég nokkur orð, lét þess m. a. getið, að frv. hefði verið sent til umsagnar ákveðnum aðilum, en umsagnir hefðu ekki verið komnar til n., þegar frv. var afgr. þar. Á fundi heilbr.- og félmn., sem haldinn var í morgun, lá hins vegar fyrir umsögn frá Verkfræðingafélagi Íslands, og ég tel, að það sé þá eftir atvikum rétt að kynna hana, þó að málið sé nú komið til 3. umr. og ég sé ekki þar með að gera neina tilraun til þess að bregða fæti fyrir frv.

En þar koma fram viss sjónarmið, sem ég held, að rétt sé að kynna hv. þdm., þótt seint séu fram komin. Þessi umsögn Verkfræðingafélagsins er dagsett í gær, og ég vil þá leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Bréf Verkfræðingafélagsins er svo hljóðandi

„Vér höfum móttekið bréf hv. heilbr.- og félmn. Ed. Alþ., dags. 6. apríl s. l., þar sem óskað er umsagnar Verkfræðingafélags Íslands um frv. til l. um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga, 214. mál. Stjórn Verkfræðingafélags Íslands skipaði eftirtalda verkfræðinga í nefnd til þess að athuga frv. og semja um það umsögn: Páll Sigurjónsson formaður Björn Ólafsson og Sigurbjörn Guðmundsson. Nefndin hefur í dag skilað áliti sínu, og fylgir það hér með sem álit félagsins.

Hinrik Guðmundsson.

Til heilbr.- og félmn. Ed. Alþingis.“

Álitið, sem þessu bréfi fylgir, er svo hljóðandi „Umsögn um frv. til l. um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Verkfræðingafélag Íslands telur frv. þarfa ábendingu um nauðsyn sveitarfélaga fyrir verkfræðiþjónustu. Í því sambandi vill Verkfræðingafélag Íslands henda á eftirfarandi

1. Sveitarfélög hafa í höfuðatriðum þörf fyrir þrenns konar verkfræðiþjónustu: a) Könnun á þörfum sveitarfélaga fyrir framkvæmdir, framkvæmdaáætlanir, umsjón með, að framkvæmdir hljóti viðhlítandi undirbúning og að til þess undirbúnings sé ætlaður hæfilegur tími, samræming milli einstakra framkvæmdaþátta og önnur stjórnun í tækniatriðum. b) Hönnun framkvæmdar. c) Stjórnun sjálfra framkvæmdanna og eftirlit með þeim.

2. Verkfræðingafélag Íslands telur hverju sveitarfélagi og landshlutasamtökum sveitarfélaga nauðsynlegt að hafa aðgang að tæknimenntuðu starfsliði til að sinna verkefnum samkv. lið a hér að framan, og hafa reyndar sum sveitar félög þegar slíkt starfslið í sinni þjónustu. Eðlilegt virðist, að landshlutasamtökin ráði til sín verkfræðinga og /eða tæknifræðinga til að sinna þessum verkefnum fyrir samtökin og einstök sveitarfélög, eftir því sem þurfa þykir. Hlutverk þessa starfsliðs væri m. a. að samræma aðgerðir sveitarfélaga á framkvæmdasviðinu, undirbúa reglur um framkvæmdir einstaklinga og fyrirtækja í hverju sveitarfélagi (byggingarsamþykktir og því um líkt) og fylgjast með, að farið sé eftir þeim, segja til um, hvenær einstök sveitsveitarfélög hafi þörf á að tilkalla sérstaka verkfræðiráðgjafa og þá fylgjast með störfum þeirra fyrir hönd sveitarstjórna o. fl. Hins vegar verður að teljast óæskilegt, að tæknilegt starfslið, sem vinnur að stjórnunarmálum sveitarfélaga, sinni jafnframt hönnun á störfum og þá einkum fyrir einstaklinga.

3. Hönnun mannvirkja, þar með taldar ýmiss konar áætlunargerðir og eftirlit með framkvæmd­ um, hefur fram til þessa að mestu verið unnin af verkfræðistofum eða einstökum verkfræðiráðgjöfum, og á þetta jafnt við um framkvæmdir einstaklinga og sveitarfélaga. Á síðustu árum hafa risið upp verkfræðistofur víða um landið til þess að sinna verkefnum á þessu sviði, sumar í nánum tengslum við samsvarandi fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Fullvíst má telja, að þessi þróun haldi áfram og verkfræðistofum úti á landi fari fjölgandi. Verkfræðingafélag Íslands telur, að með þessum hætti hafi sveitarfélög og einstaklingar aðgang að fjölbreyttari verkfræðiþjónustu og víðtækari starfsreynslu en fengist með rekstri einnar verkfræðistofu í hverjum landshluta með einokunaraðstöðu í tækniundirbúningi í þeim landshluta. Hætt er við, að starfsfólk slíkrar verkfræðistofu einangrist frá starfsreynslu, sem fæst annars staðar.

4. Útboð verka hafa orðið æ tíðari á seinni árum, og hefur það m. a. leitt af sér skýrari mörk milli þeirra þriggja þátta verkfræðiþjónustu, sem taldir eru undir 1. tölulið, samfara aukinni sérhæfingu verkfræðinga. Verkfræðingafélag Íslands telur þessa þróun eðlilega og í samræmi við það, sem gerist í nágrannalöndum okkar.

5. Verkfræðingafélag Íslands telur, að fram komið frv. til l. um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga sé skref aftur á bak, þar sem framkvæmd þess, sem í lagafrv. felst, muni verka letjandi og jafnvel binda endi á fyrrgreinda þróun utan höfuðborgarsvæðisins.“

Þar með lýkur umsögn Verkfræðingafélagsins. Það, sem mér sýnist eða sem ég helzt tek eftir í þessari umsögn, er annars vegar það, að Verkfræðingafélagið telur óæskilegt, eins og það er orðað, að tæknilegt starfslið, sem vinnur að stjórnunarmálum sveitarfélaga, sinni jafnframt hönnunarstörfum og þá einkum fyrir einstaklinga, en í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að slíkar verkfræðistofur veiti einnig þjónustu einstaklingum, og sýnist það nokkuð ljóst, að Verkfræðingafélagið er þar með að verja sína hagsmuni, að hið opinbera sé ekki í samkeppni við verkfræðistofur eða fyrirtæki, sem rekin eru með frjálsu framtaki, og einnig það, að þeir telja, að frv. gæti orðið til þess að hindra það eða tefja, að sú þróun verði utan höfuðborgarsvæðisins, að þar risi upp í landshlutunum verkfræðistofur, sem veiti þessa þjónustu.

Ég hef enga aðstöðu til þess að dæma um það, hvort slíkt yrði. Mér sýnist hins vegar, að með þeirri öru fjölgun, sem sem betur fer verður hjá okkar þjóð á tæknimenntuðu fólki, hljóti að því að reka, sem þegar munu líklega vera einhver brögð að, að slíkar þjónustustofnanir eða verkfræðistofur rísi í landshlutunum, og má í því sambandi þá vitna til þess, sem segir í 1. gr. frv., að ríkið geti veitt aðstoð við stofnsetningu verkfræðistofa landshlutasamtakanna, enda sé viðunandi verkfræðiþjónusta ekki fáanleg í þeim landshluta. Ég geri ráð fyrir því, að það yrði þá í verkahring viðkomandi rn. að meta það, hvort verkfræðiþjónusta sé þegar fyrir hendi í þeim landshlutum, sem um þann stuðning kynnu að sækja, sem frv. felur í sér, og kæmi þá eftir atvikum ekki til þess, að landshlutasamtökin sjálf hlytu þá fyrirgreiðslu, sem í frv. er lagt til, að veitt verði af hálfu ríkisins.

Mér fannst sem sé, vegna þess að ég við 2. umr. málsins minntist á þetta, að frv. hefði verið sent Verkfræðingafélaginu til umsagnar, og vegna þess að umsögnin hefur síðan borizt, þá fannst mér rétt, að hún væri kynnt hv. þdm. Eins og ég áður sagði, skal ég ekki leggja neinn dóm á það, hvort þetta frv. hindrar það, að verkfræðistofur á vegum einstaklinga kæmust á úti um landið. Um það þori ég ekkert að fullyrða. En verði sú þróun, þá ætti að fást viðunandi verkfræðiþjónusta í landshlutunum og frv. þá eftir atvikum, ákvæði frv. eftir atvikum þá að verða óþörf.