13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

214. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að það er leitt, þegar þeir aðilar, sem hafa nægan tíma til þess að veita umbeðnar umsagnir um mál, sem eru lögð fram á hinu háa Alþingi, draga það svo við sig, eins og orðið hefur í þessu tilfelli. Það er út af fyrir sig virðingarvert, að hv. þm. hefur tekizt að ná þessari umsögn fram, en ég hefði gjarnan kosið einnig, að það hefðu verið umsagnir frá landshlutasamtökum sveitarfélaga, og harma, að það hefur ekki orðið.

Ég er dálítið undrandi að sumu leyti á þessari umsögn Verkfræðingafélagsins, og þó ekki. Það er staðreyndin, að félagar mínir, verkfræðingar, hafa margir hverjir haft horn í síðu fjölmargra opinberra stofnana, sem hafa rekið verkfræðiþjónustu. Það þekki ég af eigin raun. Ég hygg, að svipaða umsögn mætti fá um verkfræðiþjónustu Vegagerðarinnar, Vita- og hafnamálaskrifstofunnar og Raforkumálaskrifstofunnar og fjölmargt fleira. Verkfræðingar hafa margir talið, að einkaskrifstofur þeirra gætu sinnt þessum verkefnum, og vel má vera, að slíkar stofur gætu gert meira en þær gera nú. Engu að síður hefur ávallt verið talið sjálfsagt og eðlilegt, að slíkar stofnanir og fjölmargar fleiri hafi sína eigin verkfræðinga, og hygg ég, að engum hafi raunar dottið í hug, sem hafa fjallað um þessar stofnanir sem slíkar að leggja niður þá starfsemi.

Ég lít svo á, að landshlutasamtök sveitarfélaga séu nokkuð svipað eðlis og aðrar opinberar stofnanir og ekki óeðlilegt, að þær þurfi að tryggja viðkomandi landshluta þá verkfræðiþjónustu, sem nauðsynleg er. Ég hef nú ekki getað kynnt mér þessa umsögn, og því get ég ekki fjallað um einstaka liði hennar, enda tel ég það raunar nánast óþarft. Ég vil þó vekja athygli á því, að í 1. gr. frv. er tekið fram: „enda sé viðunandi verkfræðiþjónusta ekki fáanleg í þeim landshluta.“ Hið opinbera hefur það því að sjálfsögðu á sínu valdi að meta það hverju sinni, hvort veita skuli þann styrk, sem hér er rætt um, og þá þátttöku í rekstri verkfræðistofu með tilliti til þess, hvort slík verkfræðiþjónusta er fáanleg.

Út af fyrir sig hefði verið fróðlegt, ef í umsögn Verkfræðingafélags Íslands hefði komið fram, hvar slík þjónusta er fáanleg. Ég hygg, að upptalningin hefði ekki orðið löng. Því miður er það staðreynd, að verkfræðingar hafa ekki brugðið svo við sem e. t. v. hefði mátt vænta og verið æskilegt í þessu sambandi, þó að ég sé alls ekki að gera lítið úr þeim einstöku tilfellum, þar sem verkfræðistofur í Reykjavík hafa sett upp útibú í dreifbýli, stundum að vísu aðeins hluta úr árinu.

Ég skildi ekki vel þann þátt í umsögn Verkfræðingafélagsins, sem fjallaði um stjórnun sveitarfélaga og þessa verkfræðiþjónustu. Mér sýnist þar vera satt að segja ruglað saman nokkuð ólíkum hlutum. Það hefur aldrei verið ætlunin, að verkfræðingar, sem starfa á verkfræðistofu sem þessari, annist stjórnun viðkomandi landssamtaka, heldur þvert á móti, að þeir annist þann þáttinn, sem verkfræðingar virðast leggjast mest gegn, hönnun framkvæmda og eftirlit, þar sem slök þjónusta er ekki fáanleg í viðkomandi landshluta á annan máta.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að opinberir aðilar eins og t. d. Vegagerð ríkisins, eins og fram kemur í vegáætlun, sem liggur fyrir hinu háa Alþingi, er einmitt nú að undirbúa að flytja verkfræðinga sína út um landið. Gert er ráð fyrir því í 2. gr. þessa frv., að slíkir verkfræðingar geti fengið aðsetur á verkfræðistofum, sem um er fjallað í frv., og ég leyfi mér að fullyrða, að það er mjög til hagræðis, ekki aðeins verkfræðingum landshlutasamtakanna, heldur einnig verkfræðingum slíkra opinberra aðila að geta haft sameiginlegan sama- og starfsstað.

Eins og ég sagði áðan, hef ég ekki kynnt mér þessa umsögn nægilega vel til þess að fjalla um hana eins og ég hefði gjarnan viljað, en í fljótu bragði, eftir þann lestur, sem ég hlustaði á áðan, sé ég ekki, að það breyti í nokkru afstöðu minni til þessa frv.