27.04.1972
Efri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

236. mál, Rannsóknastofnun fiskræktar

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 500 hef ég leyft mér að leggja fram frv. til l. um Rannsóknastofnun fiskræktar, og flyt ég það ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni.

Frv. þetta á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til þess vaxandi skilnings, sem er orðinn almennur hér á landi á gífurlega miklum möguleikum þessa atvinnuvegar, sem er tiltölulega nýr og vanþroska hjá okkur, er á byrjunar vaxtarskeiði. Við erum þeirrar skoðunar, að þessi atvinnugrein þarfnist, ekki síður en aðrar atvinnugreinar og e. t. v. að ýmsu leyti fremur, öflugrar rannsóknarstarfsemi til þess að vel megi fara. Ég held, að það sé einnig ljóst, að þörfin, ekki eingöngu hér, heldur almenn þörf í heiminum fyrir vaxandi framleiðslu á eggjahvítuefnum og matvælum almennt, hlýtur að krefjast þess af okkur Íslendingum, að við nýtum þau gullvægu tækifæri, sem við eigum í tiltölulega hreinum vötnum okkar, bæði til fjalla og í fallvötnum og sjó, til þess að framleiða þá mikilvægu matvælavöru, sem hér er um að ræða.

Ég hygg, að flestum sé nú að verða það ljóst, að möguleikar okkar á þessu sviði eru gífurlega miklir. Eins og ég sagði áðan, erum við svo heppnir að vera enn þá með tiltölulega gott og hreint vatn, en ýmsar aðstæður hér eru allmikið á annan veg en þær eru hjá öðrum þjóðum og er því ekki eins auðvelt og í sumum öðrum tilfellum að flytja hingað heim þá þekkingu og þá tækni, sem þar hefur þróazt, og nota hana hér án aðlögunar. Því er það skoðun okkar, að þessi starfsemi þurfi á öflugum rannsóknum að halda. Þróun fiskeldis og fiskræktar almennt á sér æðilanga sögu. Þessi atvinnugrein hefur þróazt t. d. með austrænum þjóðum í marga mannsaldra og náð þar, miklum viðgangi. En þó hygg ég, að þær framfarir, sem hafa orðið á þessum sviðum á síðustu árum, eigi að öllum líkindum meira erindi til okkar vegna okkar aðstæðna heldur en það, sem fram hefur farið í þeim fjarlægu löndum.

Mjög eru athyglisverðar ítarlegar tilraunir, sem stórfyrirtæki og stofnanir í nágrannalöndum okkar hafa tekið sér fyrir hendur í sambandi við eldi á fiski við hinar ýmsu aðstæður, m. a. í sjó, í búrum, í tjörnum og á margháttaðan annan máta. Allt er þetta tækni og aðferðir við fiskeldi og fiskræktun, sem á mjög mikið erindi til okkar. Hér á landi hefur þessi atvinnugrein hafizt, eins og ég sagði áðan, að nokkru, en hún hefur átt í ýmsum erfiðleikum, vegna þess að menn hafa ekki þekkt þær aðstæður, sem hér eru sérstakar. Vatn er oft kaldara og oft næringarskortur í okkar vatni af þeim sökum, og mörg mistök hafa verið gerð, sem von er í slíkri ungri atvinnugrein. Engu að síður hefur náðst hér athyglisverður árangur á nokkrum sviðum og nægir þar t. d. að minna á margumrædda stöð í Lárósi, sem náð hefur afar athyglisverðum árangri og vonandi til eftirbreytni.

Einnig hefur tekizt hér að rækta upp fjölmargar ár, þannig að fiskgengd hefur aukizt þar verulega, og er enginn vafi, að á þeim sviðum er töluverð reynsla fengin. Hitt er svo annað mál, að á þessu sviði bíða hér hjá okkur Íslendingum gífurlega mikil rannsóknarverkefni. Það er lítið sem ekkert gert enn til þess að rannsaka okkar fjallavötn, sem eru æðimörg og þurfa ítarlegrar athugunar við á líffræðilegum skilyrðum og athugunar á því, á hvern máta má bæta þau skilyrði og auka þar fiskgengd. Það eru ekki heldur nema tiltölulega litlar tilraunir gerðar til eldis á fiski í tjörnum, til slátrunar t. d. Hins vegar hafa nokkuð víða verið reist klakhús, og sá fyrri þáttur þessa eldismáls er töluvert betur þróaður hér en sá síðari.

Það á einnig eftir að gera hér langtum ítarlegri úttekt en gerð hefur verið á t. d. okkar fallvötnum og könnun á því, hvað þau þola, hvað þau geta borið af seiðaísetningi, ef ég má orða það svo. Það hefur ekki heldur verið gerð athugun á því eins og skyldi, hvernig aðstaða er til fiskeldis og fiskræktar víðs vegar um landið, og hefur það m. a. leitt til þess, að ýmsir hafa farið út í þessa grein á æðivafasömum forsendum og með litla þekkingu á grundvallaraðstöðu. Það er ekki heldur komið nálægt því nógu langt athugunum, sem þó eru nokkuð byrjaðar að vísu, á fóðrun á fiski hér í fiskeldi og í klakhúsum og þar hygg ég, að við Íslendingar eigum gífurlega mikla möguleika á framleiðslu ágætis fóðurs.

Ég nefni þetta fyrst og fremst aðeins sem dæmi um það gífurlega verksvið, sem hér er fram undan, en ætlast alls ekki til þess, að það sé á nokkurn máta tæmandi.Því fer víðs fjarri, því að eins og ég sagði í upphafi, þá hygg ég, að þessi unga atvinnugrein þarfnist leiðsagnar og rannsóknarstarfsemi almennt, jafnvel meiri en fjölmargar ýmsar aðrar atvinnugreinar, sem betur eru þróaðar með þessari þjóð.

Nú munu sumir spyrja, hvort ekki sé séð fyrir þessu í lögum, sem fjalla um lax- og silungsveiði, sem Alþ. hefur iðulega fjallað um, og síðast voru samþ. ný lög á Alþingi 1970. Við flm. þessa frv. erum ekki þeirrar skoðunar. Við viðurkennum, að mjög margt gott hefur verið gert af þeim mönnum, sem um framkvæmd þeirra laga hafa fjallað. Við viðurkennum vissulega t. d., að eldisstöðin í Kollafirði er mjög góðra gjalda verð og hefur náð töluverðum árangri, þó að við teljum hins vegar, að hún falli á engan máta inn í nauðsynlega rannsóknastarfsemi eins og þyrfti að gera. Við teljum, að sú rannsóknastöð hafi verið rekin um of, og e. t. v. af illri þörf, sem framleiðslufyrirtæki, orðið að afla sér tekna til að standa undir gífurlega miklum kostnaði, sem ég veit raunar ekki hver orðinn er.

Við teljum ekki heldur, að stjórn þeirrar stöðvar sé skipuð þeim mönnum, sem ætla má að leggi mikið fram til þeirrar rannsóknastarfsemi, sem þar þarf að fara fram, og þegar ég segi það, vil ég hins vegar taka það fram, að þeim ágætu mönnum, sem þar eru, er ég á engan máta að hallmæla sem slíkum. En það er varla til þess að ætlast af seðlabankastjóra, ráðuneytisstjóra og fleirum, sem tiltölulega litla þekkingu hafa á þessum málum. Við teljum, að stjórn slíkrar stöðvar þurfi að vera í nánari tengslum við þá, sem að rannsóknastarfsemi starfa.

Mikilvægari er þó e. t. v. í þessu sambandi sú staðreynd í okkar huga, að lögin um lax- og silungsveiði frá 1970 fjalla fyrst. og fremst um ýmiss konar skýringar, takmarkanir og leiðbeiningar, ef ég má kalla það svo til þeirra, sem eru veiðiréttareigendur, og þeirra, sem veiðirétt fá gegnum leigu þess réttar. Það nægir raunar að vísa í kaflafyrirsagnir þessara laga til þess að gera sér grein fyrir því.

I. kafli er nú aðeins orðaskýringar. II. kafli fjallar um veiðirétt, III. kafli fjallar um skrásetningu veiðivatna, merkingu veiðarfæra og veiðiskýrslur, IV. kafli fjallar um friðun lax og göngusilungs, V. kafli um friðun vatnasilungs, VI. kafli um veiðitæki og veiðiaðferðir, VII. kafli fjallar um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í veiðivötnum, VIII. kaflinn fjallar um veiðifélög. IX. kafli laganna fjallar loksins um klak- og eldisstöðvar ríkisins og fiskeldi. Þó er ekki í þeim kafla nema örlítið minnzt á rannsóknastarfsemi sem slíka, heldur fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, almennar reglur um fiskeldi og ýmislegt í því sambandi. X. kafli fjallar um innflutning á lifandi fiski og hrognum, XI. kafli um álaveiðar, XII. kafli um ófriðun sels, XIII. um stjórn veiðimála og eftirlit, XIV. kaflinn um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar, XV. um matsgerðir og skaðabætur og XVI. um refsiákvæði og réttarfars.

Ég hef farið yfir þessar fyrirsagnir til þess að gera mönnum grein fyrir því, að eins og ég sagði áðan, fjalla þessi lög fyrst og fremst um ýmiss konar skilning löggjafans á réttindum og skyldum veiðiréttareigenda og þeirra, sem um þessi mál fjalla í víðtækri merkingu, og að sjálfsögðu hafa þeir, sem eftirlit hafa með framkvæmd þessara laga, mjög mótað starfsemi sína í anda þeirra og hljóta fyrst og fremst að fjalla um það og fylgjast með því, að lögin séu framkvæmd á þann máta, sem löggjafinn hefur ætlazt til. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé ekki heppilegt, ekki æskilegt að blanda saman rannsóknastarfsemi og þeim fjölmörgu hitamálum, sem tengd eru veiðirétti og veiðimálum almennt, eins og gert er í þessum lögum hér. Við teljum, að það sé eðlilegra, að rannsóknastarfsemin sé utan þeirrar deilu, sem þar á sér iðulega stað og er til skaða, að okkar mati, fyrir rannsóknastarfsemina, hún þarf að vera óháð og raunar, ef ég má orða það svo, yfir slíkar deilur hafin. Við teljum hins vegar sjálfsagt og nauðsynlegt, að góð tengsl séu á milli slíkrar rannsóknastofnunar og þeirra, sem um framkvæmd þessara laga fjalla.

Ég hef rakið í nokkrum orðum meginástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið. Það má einnig í þessu sambandi spyrja að því, hvort ekki væri þá eðlilegra að tengja þessa rannsóknastarfsemi t. d. einhverjum öðrum rannsóknastofnunum í þágu atvinnuveganna. Mér kemur í hug Hafrannsóknastofnunin eða Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Við hurfum frá því að nokkuð vel athuguðu máli, vegna þess að við óttumst, að þessi unga atvinnugrein og tiltölulega litla rannsóknastarfsemi muni hverfa í þeim miklu viðfangsefnum, sem þær stofnanir eru með á öðrum sviðum, þótt nokkuð skyld séu. Það er óþarft að rekja það, hvað starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar er víðtæk og mikil í sambandi við almenna rannsókn þeirra á hafsvæðinu kringum landið og á okkar meginatvinnuvegi, og öllum er það auðvitað ljóst, að slíkur angi af rannsóknastarfsemi, sem hér er hafin, yrði ekki nema dropi í hafið, og ég óttast, að hann mundi eiga erfitt uppgangs í slíkri starfsemi, og raunar má svipað segja um Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Hins vegar teljum við æskilegt, að þarna séu góð tengsl á milli, eins og raunar á milli allra stofnana, sem að rannsóknum starfa í okkar landi, ekki sízt á sviði atvinnuveganna, og leggjum því m. a. til, að í stjórn stofnunarinnar komi maður frá Hafrannsóknastofnuninni.

Við höfum því valið þann kostinn að leggja til, að komið verði upp sjálfstæðri stofnun, sem við höfum nefnt Rannsóknastofnun fiskræktar. Við veltum þessu orði nokkuð fyrir okkur. Það er oft talað um fiskrækt og fiskeldi og það er nokkur greinarmunur á gerður, þótt öllum sé það e. t. v. ekki ljóst. Við völdum þá þetta orðið, en vel má vera, að unnt sé að bæta það, og raunar mjög líklegt. Við leggjum til, að stjórn þessarar stofnunar sé fimm manna. Við teljum sjálfsagt, að í þeirri stjórn sitji veiðimálastjóri, sem hefur framkvæmd laganna um lax- og silungsveiði á höndum, og þar sitji einn samkv. tilnefningu Landssambands íslenzkra veiðiréttareigenda, því að þeir eiga þarna að sjálfsögðu stórra hagsmuna að gæta. Við leggjum til, að þar verði einn samkv. tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar, stjórnar hennar, með tilliti til þeirra tengsla, sem ég minntist á hér áðan, og tökum fram, að hann skuli vera líffræðingur, og við leggjum til, að þar verði einn samkv. tilnefningu sérfræðinga, sem við stofnunina starfa, og ef það er dálítið nýmæli, er þar farið inn á þessa margumræddu braut atvinnulýðræðis. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé æskilegt í slíkri stofnun, að sérfræðingar hafi rödd í stjórn hennar og bæti þau nauðsynlegu tengsl, sem þurfa að vera á milli stjórnar stofnunarinnar og starfsliðs hennar. Loks leggjum við til, að einn verði þar samkv. tilnefningu Félags áhugamanna um fiskeldi og fiskrækt, sem er félagsskapur, sem starfað hefur hér nú í nokkur ár, og þar eru saman komnir yfirleitt flestir af þeim mönnum, ekki raunar aðeins áhugamönnum heldur einnig og ekki síður mönnum, sem hafa gert fiskeldi og fiskrækt að atvinnugrein sinni. Við leggjum til, að ráðh. skipi formann stjórnarinnar úr þessum hópi.

Það eru nokkur nýmæli hér, að í 4. gr. þessa frv. er lagt til, að stjórn stofnunarinnar ráði forstjóra til fjögurra ára í senn. Hér er horfið inn á nýja braut. Ég hef aldrei leynt þeirri persónulegu skoðun minni, að ég tel, að í forstöðu slíkra stofnana sem þessi er, sé mjög nauðsynlegt, og raunar langt um víðar, að hreyfanleiki sé á. Ég held, að það sé afar nauðsynlegt að opna þann möguleika, ,að þar geti komið inn nýtt blóð og ferskar hugmyndir, og því er sá háttur hér á hafður, að forstjóri sé aðeins ráðinn til fjögurra ára í senn. Það er langtum tíðara með öðrum þjóðum en hjá okkur, að forustumenn stofnana færast á milli starfa og milli stofnana. T. d. hefur það verið fullyrt, að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því, að í Bandaríkjunum sé stjórnun og yfirleitt framgangur fyrirtækja töluvert meiri og „dynamiskari“, ef ég má orða það svo, en þekkist víða annars staðar. Við teljum hins vegar sjálfsagt, að forstjóri, sem þannig er ráðinn, hafi aðgang að góðri stöðu við stofnunina, ef hann verður ekki ráðinn áfram, sem að sjálfsögðu er opið.

Í 6. gr. eru verkefni Rannsóknastofnunar fiskræktar talin, og má í fáum orðum segja, að þar sé raunar flest það, sem við kemur því að auka fiskgengd og fiskmagn í íslenzkum vötnum og stuðla að aukinni fiskrækt í landinu, og ætlumst við til þess, að upptalningin þar á eftir sé aðeins til nánari ábendingar í sambandi við það víðtæka verkefni. Við ætlumst til þess, að klak- og eldisstöðvar ríkisins, eins og m. a. eldisstöðin í Kollafirði, hverfi undir stjórn þessarar stofnunar.

Í 9. gr. gætir nokkurs nýmælis, sem ég hygg, að vel geti verið að sé eitthvað umdeilt. Við rekjum þar tekjur stofnunarinnar, bendum á nýjan tekjustofn. Við gerum ráð fyrir því, að sérhver einstaklingur, sem kaupir leyfi til veiði í íslenzku vatni, skuli áður hafa keypt veiðikort, sem gildir fyrir veiðitímann. Veiðikort skal greiða sem hér segir: a. íslenzkur ríkisborgari greiði 100 kr. fyrir veiðikort, sem veitir heimild til veiði á silungi, en 500 kr. fyrir heimild til laxveiði. b. erlendur ríkisborgari greiði 500 kr. fyrir veiðikort, sem veitir heimild til veiði á silungi, en 5 þús. kr. fyrir heimild til laxveiði. Hér er farið inn á braut, sem þekkist annars staðar allvíða, m. a. í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem krafizt er veiðikorta, eins og hér er lagt til, og þar sem er einnig höfð sú regla á, að mjög miklu hærri upphæða er krafizt af erlendum ríkisborgurum heldur en innlendum. Þetta hefur verið rökstutt með því, eins og við gerum í þessari grg., að íslenzkir ríkisborgarar hafa að sjálfsögðu greitt þann gífurlega kostnað, sem liggur að baki þeirri þróun, sem er í lax- og silungsveiðimálum. Við höfum greitt kostnaðinn við stöðina í Kollafirði, við höfum greitt fjölmargan annan kostnað, almennan kostnað í landinu með sköttum okkar og skyldum, sem allt hefur stuðlað að því að gera þessi veiðivötn okkar sem bezt nýtanleg. Vitanlega er því eðlilegt, að erlendir menn, sem í vaxandi mæli koma hingað og nota sér þessi gæði, verði skattlagðir að einhverju leyti og töluvert meira en innlendir aðilar, þannig að þeir taki þátt í þeim kostnaði, sem er við rekstur þessarar starfsemi almennt. Ég þekki þess dæmi og get nefnt það af eigin reynslu, að ég hef keypt veiðikort t. d. í Bandaríkjunum og orðið að greiða fyrir það u. þ. b. fimmfalda upphæð, og það gilti aðeins fyrir tvær vikur, en fyrir innlenda menn fyrir allt veiðitímabilið. Við áætlum, að með þessum stofni geti fengizt um 5–6 millj. kr. tekjur, sem ég skal þó viðurkenna, að er nokkuð lauslega reiknað og líklega raunar allt of lágt, því að það er miðað fremur við það, sem verið hefur, en ekki við þann stóraukna fjölda erlendra manna, sem hingað leitar í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég hef nú rakið bæði aðdraganda þessa máls og sögu lax- og silungs- og fiskeldis almennt, í örfáum orðum að vísu, og farið yfir frv. Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að leggja áherzlu á það, sem ég sagði í upphafi, að þetta mál er fram komið af þeirri sannfæringu okkar flm., að fiskeldi og fiskrækt í íslenzkum vötnum geti orðið ein af meiri atvinnugreinum þessarar þjóðar. Við erum sannfærðir um, að þar eru stórkostlegir möguleikar, sem eru ekki nýttir nema að afar litlu leyti í dag. Ég ætla ekki að nefna neinar tölur um verðmæti, sem þarna gætu skapazt, eða útflutningstekjur, en ég leyfi mér að fullyrða, að þær yrðu afar miklar og jafnvel borið saman við okkar eldri og þroskaðri atvinnugreinar. En það er sannfæring okkar, eins og ég sagði áðan, að þessi atvinnugrein verði að byggjast á mjög öflugri rannsóknastarfsemi, ekki sízt vegna þeirrar aðstöðu, sem hún á við að búa, breytilegrar aðstöðu, nauðsyn á ítarlegri könnun á öllum grundvallaratriðum þeirrar aðstöðu, og því teljum við orðið mjög tímabært að setja upp sérstaka rannsóknastofnun í þessu skyni. Með þessum orðum vil ég að lokum leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.