27.04.1972
Efri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

236. mál, Rannsóknastofnun fiskræktar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði til að fara nokkrum orðum um þetta frv., sem hér er um að ræða, og grg. þess. Stofnun á stofnun ofan. Það virðist vera mikil tilhneiging til stofnanamyndana nú á tímum, en ég vildi í því sambandi vekja athygli á því, að við eigum á þessu sviði mjög unga stofnun, sem er Veiðimálastofnunin. Það má segja, að Veiðimálastofnunin öðlist enga starfsmöguleika fyrr en bil kemur eldisstöðin í Kollafirði, og hún er ekki nema 10 ára gömul, og ég get verið svolítið sammála og algjörlega sammála fyrri flm. þessa frv. um það, að allur styrr sé óheppilegur um starfsemi eins og þar fer fram. Ég gæti líka fallizt á það, að það getur verið nauðsynlegt, að rannsóknaraðstaða og önnur starfsemi slíkrar stofnunar sem Veiðimálastofnunar fari fram í sérstakri deild, en að það sé nauðsyn að koma hér á fót sérstakri stofnun, er fari eingöngu með rannsóknamál, það get ég nú ekki fallizt á og get ekki séð ástæðu til, og ég vil vekja athygli á því, sem kom fram í ræðu flm., að við eigum hér ýmsar rannsóknastofnanir, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, við eigum náttúrufræðideild við Háskólann, sem vafalaust þarf mikið á rannsóknaraðstöðu að halda í framtíðinni, og við eigum mikla möguleika til að geta framkvæmt mikilvægar og vaxandi rannsóknir, en það byggist þó allt á einu skilyrði og það er á fjármagni. Rannsóknastarfsemi Veiðimálastofnunar hefur örugglega farið vaxandi á síðustu árum, en þessari stofnun hefur frá upphafi verið fjár vant og það svo mjög, að segja má, að það sé kannske aðeins nú á síðustu árum, sem hún hefur einhverja möguleika til þess að snúa sér við í þessu efni.

Þessi stofnun á að vera sjálfstæð ríkisstofnun og það kemur nú kannske ekki berlega fram, hve mikið hún á að taka undir sig af starfsemi Veiðimálastofnunarinnar. Í laxveiðilögunum, sem eru ný lög frá 1970, — það eru lög, sem voru mjög vel undirbúin og borin undir mjög marga viðkomandi aðila, — er tekið fram, með leyfi hæstv. forseta, að veiðimálastjóri skuli hafa með höndum þessi störf :

„a. Hann annast þau verkefni, sem honum eru falin í lögum þessum. b. Hann annast rannsókn vatna og fiska og sér um skrásetningu veiðivatna. c. Hann annast merkingu vatnafiska, en getur gefið öðrum leyfi til merkinga með skilyrðum,, sem hann setur. d. Hann safnar skýrslum um veiði og fiskrækt. e. Hann gerir eða lætur gera uppdrætti að klakstöðvum, eldisstöðvum og fiskvegum og hefur umsjón með gerð slíkra mannvirkja. f. Hann gerir tillögur um reglugerðir og önnur ákvæði, sem sett eru samkvæmt lögum um friðun, fiskeldi eða veiði. g. Hann veitir leiðbeiningar um veiðimál og er ráðh. til aðstoðar um allt, sem að þeim lýtur“

Í b-lið þessarar 87. gr. laganna er tekið fram, að hann skuli annast rannsókn vatna og fiska. Þar undir kemur að sjálfsögðu allt það, sem tekið er fram í 6. gr. þessa frv., þ. e. að verkefni Rannsóknastofnunar fiskræktar skuli vera að annast rannsóknir á íslenzkum vötnum og sjávarlónum í því skyni að afla sem ítarlegastra upplýsinga um lífsskilyrði fisks. Í öðru lagi að gera tilraunir til að bæta lífsskilyrði í íslenzkum vötnum og sjávarlónum. Í þriðja lagi að annast rannsóknir og tilraunir með klak- og eldisfisk og fiskræktun í eldisstöðvum. Í fjórða lagi að gera tilraunir með eldi og dreifingu á göngufiski, sem í raun og veru er nú komið þarna í 3. málsgr., og í fimmta lagi að veita fræðslu um meðferð klaks og um fiskeldi, eftir því sem við verður komið. Þarna sér maður, að það eru ótalmargir þættir, sem þarna koma saman, og ekki séð, hverju Veiðimálastofnunin heldur af sínum verkefnum. Ég vil þó geta þess, að mér er kunnugt um það, að þessi stofnun, eins og sjálfsagt allar ungar stofnanir, hefur verið að koma sér upp ýmiss konar aðstöðu einmitt á undanförnum árum. Hún er búin að öðlast allmikið og nýtízkulegt bókasafn og ýmis tæki. Hún hefur upplýsingar um ár okkar og vötn, og enda þótt meira hefði þurft að gera af rannsóknum, þá er þó vitað mál, að verulegar rannsóknir hafa farið fram á íslenzkum ám og nú upp á síðkastið einnig byrjandi rannsóknir á íslenzkum vötnum. En það, sem háð hefur fyrst og fremst þessari stofnun, er að sjálfsögðu það, að hún hefur ekki getað ráðið sér sérfræðinga, vegna þess að henni hafa verið ætlaðar mjög litlar tekjur.

Sú bjartsýni var ríkjandi við stofnun þessarar stofnunar, að eldisstöðin í Kollafirði mundi gefa henni tekjur til starfa, en eins og fram kemur í grg. þessa frv., þá hefur nú ekki orðið mikill rekstrarafgangur þar, heldur er þar getið um, að hún þurfi að standa undir gífurlegum stofnkostnaði, sem ég vil þó fara aðeins nokkrum orðum um. Það er oft haft við orð, að það sé gífurlegur stofnkostnaður, en ég leyfi mér nú að efast um, að hægt sé að tala um gífurlegan stofnkostnað. Í árslok 1969 er stofnkostnaður þessarar stofnunar innan við 24 millj. kr. og þar af eru einar 4–5 millj. vextir, þar eð stofnunin hefur fengið lán og orðið að standa undir vaxtakostnaði. Öll framlög ríkissjóðs til þessarar stofnunar eru um 35 millj. kr., og er það bæði stofnkostnaður og það, sem þurft hefur að leggja fram til rekstrar. Nú kann að vera, að mönnum finnist þetta stórar upphæðir, en ef við tækjum nú ýmsar aðrar stofnanir og tækjum þar 10, 20 ára tímabil, ætli það gætu ekki orðið allverulegar upphæðir, sem þá kæmu í dagsins ljós? Þetta er um þau atriði, er varða það, hvort við eigum að hafa sjálfstæða stofnun eða ekki. Ég fyrir mitt leyti tel í raun og veru sjálfsagt, að þar sem stofnuninni hefur háð fyrst og fremst fjárskortur, þá verði þær viðbótartekjur, sem kunna að koma, notaðar til þess að bæta hennar rannsóknaraðstöðu, en ekki til þess að stofna nýja stofnun, sem vafalaust þyrfti á framlögum fyrstu áranna að halda eingöngu til þess að koma sér fyrir. Ég viðurkenni það, að mikil þörf er fyrir auknar rannsóknir, og ég tek undir þau orð frummælanda, að hér er um mjög merkilega búgrein og atvinnugrein að ræða, sem enginn vafi er á, að á sér mikla framtíðarmöguleika. Hér er því eingöngu verið að tala um aðferðir, mismunandi skoðun um, hvaða aðferð eigi að hafa við að efla þessa starfsemi sem mest.

Ég get frekar illa fellt mig við það í 2. gr., að Búnaðarfélags Íslands sé hvergi getið þarna. Ég viðurkenni það, að það er mjög aðgengilegt, að Hafrannsóknastofnunin fái aðild að stjórn þessarar rannsóknastofnunar, en aftur á móti finnst mér það mjög óeðlilegt, þar sem þetta heyrir undir landbúnaðarmál, að þar sé Búnaðarfélagsins hvergi getið og það eigi enga aðild að stjórninni.

Um Félag áhugamanna um fiskeldi og fiskrækt, sem þarna kemur inn, þar sem Búnaðarfélagið ætti í raun og veru að vera, þá vil ég nú segja það, að það er mjög gott, að þeir, sem áhuga hafa á fiskeldi og fiskrækt, fái aðstöðu til þess að hafa áhrif á slík mál, en ég vil þó taka það sérstaklega fram, að þetta er algjörlega opinn félagsskapur, þar sem ég og þú og hver sem er getur gengið inn, hvort sem hann hefur áhuga á fiskrækt eða ekki, og er ekki því að neita, að slíkur opinn félagsskapur er kannske aðeins varhugaverður til þess að skipa aðila í stjórn slíkrar stofnunar.

Ég viðurkenni þetta nýmæli, sem þarna er, um að ráða forstjóra til fjögurra ára í senn. Þetta er nýjung, sem er farin að stinga sér niður, og að vissu leyti er hér um merka nýjung að ræða. Við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá á fleiri sviðum en þessu, hvernig það reynist, en hér er þó ekki tekið neitt fram um það, hvort þessi forstjóri eigi að vera sérmenntaður eða ekki. Það kann að vera, að það sé óþarfi að taka það fram, en það skyldi maður nú halda, að væri aðgengilegt, að forstjóri slíkrar stofnunar hefði sérmenntun á þessu sviði.

Það er sagt hér í grg. þessa frv., að tilgangurinn með því sé tvíþættur, þ. e. að gera rannsóknastarfsemina sjálfstæða og efla hana verulega. Ég held nú, að tilgangurinn sé þríþættur a. m. k. Ég neita ekki þessum þáttum, að þetta er tilgangur frv., að gera rannsóknastarfsemina sjálfstæða og að efla hana með auknum fjárframlögum. Hins vegar er hér augljós tilhneiging, sem hefur komið fram fyrr, og það má nú segja, að nú er vegið oft í sama knérunn. Í laxveiðilögunum, sem samþykkt voru 1970, var samþykkt 2% framlag til Fiskimálasjóðs, sem á að greiðast af veiðifélögum, hér fyrir nokkru síðan var samþykkt frv. á Alþ., þar sem vissum hluta veiðiréttareigenda er gert að greiða stórkostleg gjöld, sem jafnvel geta orðið jafnhá tekjum af veiðirétti, og nú er hér sýnilegt, að þetta ákvæði, þar sem 5 þús. kr. skulu greiðast af erlendum ríkisborgara fyrir heimild til að veiða í íslenzkri laxveiðiá, hvort sem um einn dag er að ræða eða heilt sumar, að þetta ákvæði getur ekki haft nema einn tilgang og það er að verka sem hömlur á veiði útlendinga í íslenzkum ám.

Nú er vitað mál, að báðir flm. frv. hafa verið og eru því mjög fylgjandi, að íslenzkar laxveiðiár séu fyrir Íslendinga, og við því hef ég ekkert að segja, að íslenzkar ár séu fyrir Íslendinga. Hitt er svo annað mál, að hér er um stórkostlega hagsmuni að ræða fyrir nokkurn fjölda af þegnum í þessu þjóðfélagi, veiðiréttareigendur. Nú er það svo, að sjálfseignarbændur, ríkið og sveitarfélög munu eiga um 90% af veiðirétti í landinu eða af jörðum, sem eiga veiðirétt, og má því segja, að hinir aukaaðilarnir, sem oft koma nú á dagskrá, þeir séu ekki stórtækir, ekki stór virkir, þegar litið er á heildina, en það er útilokað annað en að gera sér grein fyrir því, að þessar hömlur, þetta geysiálag, að greiða 5 þús. kr. kannske fyrir einn dag, kannske fyrir þrjá daga, áður en til greiðslu hins raunverulega veiðileyfis kemur, það hlýtur að verka sem hömlur á aðsókn útlendinga að veiði í íslenzkum ám eða sem rýrnun á tekjum veiðiréttareigenda. Þetta er skýrt á ýmsan hátt. Menn hafa verið að tala um að þessar tekjur kæmu ekki alltaf til skila. Það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til þess að tryggja slíkt á annan hátt en að hamla hér á móti þeirri þróun, sem hefur verið hér á síðustu árum. Ég er þess alveg fullviss, að sú hækkun og sú aukning á verðmæti veiðiréttar, sem orðið hefur hér á undanförnum árum, er fyrst og fremst vegna aukinnar eftirspurnar útlendinga til veiða í íslenzkum laxveiðiám. Og þar sem hér er nú um eina af þeim örfáu búgreinum íslenzkra bænda að ræða, sem ekki er háð ströngum verðlagsákvæðum eða eftirliti hins opinbera, þá finnst mér það nú vera heldur hart að gengið, að stefna að því á svo áberandi hátt að rýra þessi verðmæti þeirra. Enda er það svo að nú eru vissir aðilar, sem áður voru þessari þróun mjög andvígir, sjálfir farnir að stíla að þessu og nota sér. Þannig má geta þess, að stærsta stangaveiðifélag landsins, Stangaveiðifélag Reykjavíkur, er nú farið að leigja útlendingum í sínum stærstu ám, og er sagt, að það leigi fyrir allt að 200 dollara á dag stöngina og muni nota hluta af þessari háu leigu til þess að greiða niður verðlag á þær stengur, sem Íslendingar hagnýta. Ég vil þó taka það fram, að ekki má skilja það svo að 200 dollarar sé einhver venjuleg greiðsla útlendinga fyrir venjuleg laxveiðileyfi hér, og einnig má geta þess, að í þessari upphæð er falið allmiklu meira heldur en það, sem Íslendingar njóta við kaup á sínum veiðileyfum. Það er sem sagt falin í þeim ýmiss konar þjónusta, frá því að þessir menn koma til landsins og þangað til þeir fara aftur. Það er uppihald, bílar, leiðsögn og ýmis annar kostnaður, sem þar kemur til greina, en algengast mun vera, að veiðiréttareigendur fái 5–6 þús. kr. í sinn hlut fyrir þessi veiðileyfi. Enn fremur þori ég ekki að taka ábyrgð á, að þessir 200 dollarar séu eitthvað algengt, en þó mun það vera í þessu tilfelli. Ég vil líka geta þess, að þessar háu greiðslur koma að sjálfsögðu eingöngu til góða örfáum ám í þessu landi, en það er ekki því að leyna, að ásókn útlendinga fer vaxandi og þeim ám fer fjölgandi, þar sem möguleikar eru á að leigja útlendingum einhverja veiði um stuttan tíma á ári, og ég held, að einmitt þetta atriði sé einhver sá mesti hvati, sem orðið hefur á síðustu árum til allra þeirra stórfelldu framkvæmda, sem gerðar hafa verið á þessu sviði, og ég get getið þess, að nú er sá hluti íslenzkra fljóta, sem er laxgengur, 400 km lengri en hann var fyrir nokkrum árum, og þetta er mjög mikil viðbót, sem þarna fæst og hefur fengizt með gerð fiskvega, þ. e. laxastiga. Enn fremur er í vaxandi mæli unnið að því að framkvæma svo nefnda vatnsmiðlun, þ. e. að jafna vatnsrennslið í ánum. Þetta er hægt, vegna þess að gjöldin fyrir veiðileyfin hafa hækkað svo stórkostlega og gert slíkar framkvæmdir sem þessar mögulegar, og enn fremur að sjálfsögðu með vaxandi áhrifum Fiskimálasjóðs. Enn fremur er afleiðing af þessu, að áhugi veiðiréttareigenda hefur vaxið stórlega fyrir því að setja niðurgönguseiði í ár, en slík ræktun ánna er mjög dýr og því aðeins möguleg, að tekjur komi á móti, þar sem þetta atriði fiskræktarinnar er ekki á nokkurn hátt styrkt af opinberum aðilum. Sem dæmi um áhrif Veiðimálastofnunarinnar á þennan þátt má nefna, að fyrir nokkrum árum voru niðurgönguseiði ekki til hér á landi, voru ekki framleidd. En núna síðustu árin höfum við framleitt á ári hverju, bæði í Kollafirði og á vegum einkaaðila, um 300 þús. niðurgönguseiði, þar sem t. d. Norðmenn framleiða aðeins 130 þús. laxaseiði árlega.

Ég tel, að þessi þróun, sem orðið hefur í þessum málum og er mjög mikil á undanförnum ár um, sé tvíþætt. Í fyrsta lagi er hún vegna þess, að komið hafa meiri fjármunir inn fyrir veiðileyfi og vitanlegt, að sú þróun heldur áfram, verður varanleg og vaxandi. Og enn fremur það, að Veiðimálastofnunin og ýmsir einkaaðilar hafa í auknum mæli starfað bæði að rannsóknum og að framleiðslu seiða til dreifingar í íslenzkar ár, bæði sumaröldum seiðum og niðurgönguseiðum. Ég er þess vegna gersamlega andvígur því ákvæði í þessu frv., að tífaldað verði gjaldið til erlendra ríkisborgara, þ. e. að Íslendingar borgi 500 kr. fyrir veiðikortið, en útlendingar 5 þús. Og sú afstaða byggist á þessum grundvelli, sem ég hef verið að segja frá, að ég tel, að það muni verka letjandi á þá ásókn, sem nú er í íslenzkar ár. Í Noregi var þessi háttur á hafður, eins og frummælandi sagði frá. Þar voru gefin út veiðikort, sem kostuðu 10 kr. fyrir veiðitímabilið fyrir Norðmenn og upp í 25 kr. fyrir útlendinga. En ég veit ekki betur en nú alveg nýlega hafi þessu verið breytt — vafalaust hafa þeir verið búnir að fá af þessu reynslu — og gjaldið gert hið sama, 15 kr., hvort sem um erlenda ríkisborgara var að ræða eða Norðmenn sjálfa.

Sjálfur hef ég veitt í Bandaríkjunum og hef ekki orðið var við þetta fyrirbrigði, sem frummælandi gat um, að þar væri hátt gjald, fimm­falt gjald fyrir erlenda ríkisborgara. Og ég held, að það sé a. m. k. mjög óvíða í Bandaríkjunum, sem um slíkt er að ræða. Hins vegar gildir sú sérstaða þar, að þar gildir veiðikortið sem veiðileyfi, en hér eigum við í framtíðinni, sem kaupum rétt til laxveiða eða silungsveiða, að ganga með tvö kort í vasanum. Annað er greiðsla fyrir veiðitímabilið allt til þessarar væntanlegu stofnunar, en hitt er hið raunverulega veiðileyfi. Og þótt ég viðurkenni nauðsyn þess að efla þá sjóði, sem nauðsynlegir eru til rannsókna og til að styrkja ýmsar ræktunaraðgerðir, þá er ég nú í fyrsta lagi ekki sannfærður um, hvað slík veiðikort mundu gefa í arð. Ég held, að þetta atriði hafi verið mjög vel rannsakað, þegar laxveiðilögin voru í undirbúningi nú síðast, og að fróðustu menn hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að innheimta og skriffinnska við slíka aðferð yrði svo erfið, að betra væri að fara aðrar leiðir, og þá var þetta 2% ákvæði tekið upp. Hitt er svo annað mál, að það er ekki þar með sagt, að þetta nægi á nokkurn hátt.

Það er mjög ánægjulegt að gera sér grein fyrir því, að nú, þegar þjóðirnar allt í kringum okkur eru að kvarta yfir þverrandi laxi, þá getum við hér sýnt fram á það, að Ísland er, eina landið við norðanvert Atlantshaf, þar sem laxagengdin er vaxandi. Fyrir 10 árum veiddum við hér eitthvað um 20–30 þús. laxa, fyrir fjórum ár um veiddum við 30–40 þús. laxa, árið 1970 veiddum við 56 þús. laxa og 1971 veiddum við 59 þús. laxa, svo að þetta er í sjálfu sér bending um það, að ekki sé að öllu leyti illa á málum haldið hjá okkur. Til viðbótar þessu má svo geta þess, að þáttur stangaveiðinnar í laxafengnum er vaxandi, og ég man ekki betur en á síðasta ári hafi um 70% af íslenzkum laxi verið veitt á stöng. Þetta hefur nokkra þýðingu, þar sem hver lax mun vera um það bil þrefalt verðmætari veiddur á stöng, borið saman við þann, sem veiddur er í net.

Það hefur staðið styrr um framkvæmd veiðimála hér á landi og starfsemi þeirrar stofnunar, sem nú á að vera við hlið þessarar nýju stofnunar, sem á að taka að sér verulegan hluta af hennar verksviði. Ég held, að við þurfum ekkert að furða okkur á því, þó að það standi styrr um stofnun, sem á að sjá um slík málefni sem hér um ræðir. Ég held, að veiðimál og landamerkjamál séu einhver viðkvæmustu mál, sem um getur, og það þurfi engan að furða, þó að þar verði einhverjir árekstrar. Að því leyti er það rétt, sem flm. sagði, að það er aðgengilegt að aðskilja þetta að einhverju leyti. En það er ekki þar með sagt, að það þurfi að setja upp aðra stofnun til að taka við rannsóknunum, heldur geti hér fyrst og fremst verið um tvær deildir sömu stofnunar að ræða. Þar að auki er það svo með byrjandi vísindi, eins og hér er um að ræða, að þá er iðulega deilt um aðferðir. Og það er það, sem hér hefur gerzt. Það hefur verið deilt um aðferðir, og ég held, að sú aðferð, sem hér hefur verið notuð, að hafa þetta ekki aðeins tilraunastöð, heldur tilrauna- og ræktarstöð, það hafi verið gert af illri nauðsyn, en ekki af því, að flestir aðilar, þ. á m. forráðamenn þessarar stofnunar, vildu ekki gjarnan fá nóg fjármagn til að geta rekið þetta eingöngu sem tilraunastöð. En það er ekki á þessu eina sviði, sem Íslendingar hafa orðið að sætta sig við það að fara krókaleiðir til að ná markinu, og ég held, að hér hafi a. m. k. mikið áunnizt og einmitt nú sé þessi stofnun að komast á það stig að geta í auknum mæli sinnt því verkefni, sem þessi nýja stofnun á að sinna. Og það byggist m. a. á því, að hún hefur nú fengið aðgang að tveimur fiskifræðingum. Nú vantar hana sem sagt aðeins fjármagnið, og ef aukið fjármagn fæst, þá tel ég samt, að því yrði betur varið til að efla þá stofnun, sem fyrir er, heldur en til þess að stofna nýja.