27.04.1972
Efri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3299)

236. mál, Rannsóknastofnun fiskræktar

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þessu frv. til l. um Rannsóknastofnun fiskræktar verður væntanlega vísað til n., sem ég á sæti í, og ég mun þess vegna geta komið að þar í n. aths., sem ég kann að vilja gera við þetta frv., og ætti þess vegna ekki að þurfa að lengja þær umr. svo mjög, sem hér hafa orðið eða verða um frv. við 1. umr. Þó eru lítillega inn á í örstuttu máli, sem fram hafa komið, einkum hjá 1. flm. frv., hv. 1. þm. Vestf.

Hann hafði orð á því í sinni framsöguræðu og lýsti raunar undrun sinni á því, hversu kaflinn um rannsóknir og ræktun væri stuttur í lögunum um lax- og silungsveiði. Ég hef ekki í höndunum laxveiðilögin í heild og get þess vegna ekki fellt um það dóm og man það ekki svo glögglega, hversu mikið mál er þar um þessa þætti veiðimálanna, en það er nú alltaf dálítið afstætt, þegar maður talar um stutt eða langt, mikið eða lítið, og ég verð að segja það, að jafnvel þó að þetta frv. allt væri fellt inn í lögin, þá væri e. t. v. ekki heldur hægt að segja, að sá kafli væri langur. En það, hvort kafli úr lögum, sem afmarkar ákveðið efni, er langur eða stuttur, hefur ekki mest að segja, aðalatriðið er, að hann sé byggður þannig upp og þannig fyrirmæli séu í lögunum, að til bóta verði og það verði auðvelt og gott að vinna eftir þeim fyrirmælum. Ég vil lýsa því yfir strax, að ég er mjög vantrúaður á, að hér sé verið að fara inn á rétta braut, þegar gert er ráð fyrir að efna hér til sérstakrar stofnunar um fiskirækt eða fiskrækt, eins og það heitir nú þarna. Ég tel, að það fyrirkomulag, sem mótað hefur verið og mörkuð stefna um í núverandi lögum um lax- og silungsveiði, sé mjög athyglisvert og ég hygg sú stefna, sem viðráðanlegust sé fyrir okkur og muni, þegar allt kemur til alls, kosta okkur minnsta fjármuni til þess að ná mestum árangri miðað við eyðsluna. Og það er eitt, sem ég rek augun í í þessu sambandi, þegar farið er lauslega yfir frv. þetta, sem hér er til umr., að þar er gert ráð fyrir, að stjórn hinnar nýju rannsóknastofnunar sé skipuð ekki með ólíkum hætti því, sem gert er með veiðimálanefnd í lax- og silungsveiðilögunum. Það er að vísu ekki alveg með sama hætti, en það virðist vera, að það sé sama hugsunin, sem liggur á bak við, og að það séu menn með svipuð áhugasvið, svipuð viðhorf til þessara mála, sem ætlað er að stjórna hinni nýju stofnun, og þeir, sem ætlað er að fylli veiðimálanefnd.

Hv. fyrri flm. þessa frv. hafði orð á því, sem ég er honum algerlega sammála um, að ekki sé fært að flytja hingað inn í landið reynslu og þekkingu á sviði fiskræktar, sem nægilega væri haldbær og örugg til þess að við gætum tileinkað okkur hana hráa. Þess vegna er okkur það að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa tilraunastarfsemi í landinu sjálfu, og ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að við getum með auðveldum hætti eflt þá stofnun, sem fyrir er og lagafyrirmæli eru um og er að störfum í Kollafirði, við getum eflt hana svo, að hún ætti að geta fyllilega svarað til þeirra verka, sem þessari nýju stofnun er ætlað að sinna.

Við komum þarna að einu og sama atriðinu, sem er það mikilvægasta fyrir okkur, og það er það, á hvern hátt við fáum fjármagn til þeirra hluta, sem við verðum að vinna að, og í þessu tilfelli þarf að sjálfsögðu mikið fjármagn, því að allt þetta kostar mikla peninga, mikla vinnu og það verður ekki hægt að líta fram hjá því. Okkur var það ljóst, sem stóðum að því að setja lög síðast um lax- og silungsveiði, að ekki var nægilega vel séð fyrir þessum málum til frambúðar fyrir ræktun og rannsóknir í þeim lögum, sem þá voru afgreidd. En ég vil leiðrétta það, að það er alls ekki rétt, að það sé um nýmæli að ræða í þeim till., sem settar eru fram í 9. gr. frv. um tekjuöflun til þessara mála. Þessum hugmyndum var hreyft hér á Alþ., þegar lögin voru síðast endurskoðuð, og það var Alþ., sem hafnaði þeim hugmyndum, og ég hef ekki trú á því, að veruleg breyting hafi orðið á því með þeim mönnum, sem um þessi mál hafa hugsað og fjallað. Ég held, að það sé ástæðulaust að ala nokkurn ugg í brjósti út af því, þó að rannsóknastofnun sé í föstum tengslum við veiðimálanefnd eða í föstum tengslum við lög um lax- og silungsveiði, þó að þau fjalli um þau málefni, sem oft og tíðum hafa valdið hagsmunaátökum, eins og getið er um hér, í grg. með þessu frv. Ég hygg, að ef hætta er á því, að það lami stofnun af þessu tagi, þá sé ekki sett undir þann leka í till. þeim, sem hér eru gerðar um rannsóknastofnun, því að ég hygg, að það sé gert ráð fyrir því, að veiðimálastjóri verði einn af þeim, sem stjórna Rannsóknastofnun fiskræktar, og ég hygg, að það hafi ekki farið á milli mála, að hann hefur orðið að blanda sér einmitt í þessar viðkvæmu deilur og hagsmunaátök ekki síður en veiðimálanefnd hefur þurft að gera, svo að ég sé ekki, að þar sé verið að fjarlægja neitt eða setja undir þennan leka, sem þarna var talað um, að hætt væri við, að mundi valda erfiðleikum.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég vil aðeins benda á það, að ég tel, að það sé engin lausn á þeim vanda, sem við er að glíma, að setja upp nýja stofnun í þessu efni. Ég tel miklu haldbetra og áhrifaríkara að reyna að finna leiðir til þess að fá meira fjármagn til þeirrar starfsemi, sem þegar er búið að setja á stofn. Að mínum dómi væri vel hugsanlegt að setja þetta allt til nýrrar endurskoðunar, einkum kaflann um ræktun og fiskeldi. Með hverju árinu kemur fram nokkur reynsla, og það er þess vegna athugandi, hvort ekki ætti með ákveðnu millibili að taka einmitt þann kaflann til athugunar.